Hallgrímur Helgason. 10 ráð til að hætta að drepa fólk og byrja að vaska upp.
JPV, 2008.
Úr Tímariti Máls og menningar 2. hefti 2009.
Hallgrímur Helgason er kunnur af því að fá óvenjulegar hugmyndir og færast mikið í fang við ritun skáldsagna sinna. Þessi nýja bók hans er þar engin undantekning. Hann hefur sett sér það torsótta markmið að skrifa eins konar nútímaútgáfu af sögu Páls postula, sögu um syndir og yfirbót, en frá jarðneskum fremur en trúarlegum sjónarhóli og innan ramma gamansögu. Hér er greint frá króatískum leigumorðingja í New York sem hefur brennt brýr að baki sér og neyðist til þess að leggja á flótta og taka flugvél til Reykjavíkur. Þar taka á móti honum íslensk trúboðshjón sem halda að hann sé bandaríski predikarinn sem þau áttu von á en hann hefur myrt áður en hann lagði af stað. Brátt kemst þó upp hver hann er í raun, hann verður að fara huldu höfði. Um svipað leyti fær hann fregnir af því að unnusta hans í New York hafi verið myrt á hrottafenginn hátt. Hann þarf að horfast í augu við fortíð sína og leita ásjár hjá kristnum sértrúarmönnum.
Snemma í sögunni vitnar Goodmoondoor, sjónvarpspredikarinn sem tekur á móti sögumanni við komuna til landsins, í Postulasöguna, 9. kafla
þar sem segir frá Sál frá Tarsus, þessum óbreytta alþýðumanni sem starfaði sem böðull í umboði Rómarkeisara, og þeir sendu hann til Damaskus, þar sem hann átti að færa kristna menn í […] böndum til Jerúsalem. En þegar hann var á ferð sinni kominn í nánd við Damaskus leiftraði skyndilega um hann ljós af himni. Hann féll til jarðar og heyrði rödd segja við sig: „Sál, Sál, hví ofsækir þú mig?“ Og Sál svaraði: „Hver ert þú?“ Og röddin svaraði: „Ég er drottinn, sem þú ofsækir.“ Og drottinn skipaði honum að hætta að ofsækja kristna menn og Sál var blindur í marga daga, þar til drottinn sendi Ananías til hans. Og Ananías kom til hans og sagði honum að sjá á ný. Og Sál varð að Páli. Böðullinn gerðist hægri hönd guðs og varð næstráð- andi í kirkju hans á jörðu niðri. Jesús var hæstráðandi. Hann var númer eitt en Páll númer tvö. Halelúja! Og hann skrifaði meira að segja stóran hluta af þessari bók! (71–72)
Líkt og Páll, sem ofsótti söfnuð Guðs og reyndi að uppræta hann, hefur Tomislav Bokšic, öðru nafni Toxic, lifað syndugu lífi. Hann hefur líka starfað „sem böðull“, „sem óbreyttur blóðverkamaður“ (183), meira að segja „myrt sjálfan sendiboða guðs“ (159). Og hliðstætt því að Páll postuli heyrir „rödd Drottins“ verður Toxic fyrir opinberun þegar hann sér vofuna af myrtri ástkonu sinni í bíl á götu í Reykjavík. Þar verða hvörf í sögunni, hinn harðsnúni atvinnumorðingi brestur í grát og reynir að komast í kirkju en hún reynist lokuð (142–144). Í kjölfarið rekur hann morðferil sinn á „Syndabraut“ á leið sinni eftir Sundabraut:
Allt í einu birtist hálfblátt höfuð Munitu fyrir framan mig, fljótandi í lausu lofti, líkt og risavaxin kafloðin könguló. Ég geng áfram, talandi við sjálfan mig og hana. Ég er fastur í Ísskápalandi og hef engan til að tala við nema sjálfan mig, syndir mínar og sár. (146)
Sögumaður reynir sjálfsmorð sem mistekst en sér þá stóran bláan krossinn á kirkju sértrúarsafnaðar Tortures predikara sem verður varðan á leið hans heim til Goodmoondoors og eiginkonu hans, Sickreader. Eftir það hefst eins konar endurhæfing hans í „söfnuði“ Tortures. Það er þó ekki að sjá að ofbeldisfull „meðferð“ Tortures og hjálpræði trúarinnar verði sögumanni til bjargar, enda efast hann um hvort tveggja, en engu að síður fer svo að hann horfist í augu við glæpi sína og nær aftur tengslum við sinn mennska kjarna.
Á sama hátt og Sál varð Páll breytir sögumaður um nafn, hann fær íslenska nafnið Tómas Leifur Ólafsson. Tómas er hinn vantrúaði lærisveinn, trúir ekki nema því sem hann þreifar á. Í Jóhannesarguðspjalli 20.24-29 er greint frá því að þegar Jesús birtist lærisveinunum eftir krossfestinguna hafi Tómas ekki verið með þeim. Hann trúir ekki hinum lærisveinunum þegar þeir segjast hafa séð Drottin: „Sjái ég ekki naglaförin í höndum hans og geti sett fingur minn í naglaförin og lagt hönd mína í síðu hans, mun ég alls ekki trúa.“ Í heildarsamhengi skáldsögu Hallgríms, þar sem kraftbirting holdsins kemur í stað guðlegrar opinberunar í sögu Páls postula, er það þessi jarðneski skilningur sem blífur. Sögumaður hættir að vera Toxic, hinn eitraði, sem „ofsótti“ holdið, og verður Tómas sem öðlast sannleikann við snertingu.
Hitt nafnið, Leifur, er skylt nafnorðinu leif í merkingunni arfur eða eitthvað sem skilið er eftir og sögninni leifa, að skilja eftir. Nafnið tengist einnig sögninni að lifa og nafnorðinu líf, ef marka má ritið Nöfn Íslendinga. Meðan á meðferðinni hjá Torture stendur og sögumaður ber líf sitt saman við feril Páls postula verður honum hugsað til þess að Páll endaði sem „kirkjufaðir“ og veltir fyrir sér hvort hann muni sjálfur skilja eitthvað eftir: „Kannski maður eigi eftir að feðra eitthvað. Vonandi samt eitthvað annað en kirkju.“ (183) Í sögulok bendir allt til þess að sú ósk rætist.
Umbreytingin á Sál í Pál er ótrúleg en er notuð í sögu Hallgríms sem skáldaleyfi, réttlætir ólíkindalega framvindu sögunnar og breytinguna á kaldrifjuðum atvinnumorðingja í umhyggjusaman tilvonandi föður. Og þrátt fyrir Torture- terapíuna verður sú breyting ekki fyrir áhrif frá heilögum anda eða trú, heldur er jarðnesk í eðli sínu og opinberanir sögumanns eru af holdlegum toga.
Bókin er full af þeirri ísmeygilegu kímni sem einkennir verk Hallgríms og persónur eru margar skoplega upp dregnar, ýktar útfærslur á fyrirmyndum úr veruleikanum. Hér verður húmorinn víða býsna svartur vegna tilvísana til starfsgreinar sögumannsins. Andi kvikmyndaleikstjórans Quentins Tarantino svífur yfir vötnum, ekki síst í því hvernig ofbeldi og morð eru færð inn á svið hversdagslegra fyrirbæra. Toxic hefur morð að atvinnu, en skírskotanir til hennar í samhengi við íslenskan hversdagsveruleika eru oft drepfyndnar. Raunar er Tarantinos getið oftar en einu sinni í bókinni og þá vísað til frægrar Íslandsferðar leikstjórans þar sem áfengi og lausgyrtar meyjar komu mjög við sögu. Tarantino á að hafa sofið hjá vinkonu Gunnhildar, dóttur Goodmoondoor, sem „hefur örugglega sofið hjá hundrað og fjörutíu“: „Þá höfum við það. Tarantino á 139 íslenska kviðmága. Hann er vonandi búinn að uppfæra jólakortalistann.“ (116)
Sem fyrr segir ferðast Toxic undir fölsku flaggi, er annar en hann gefur sig út fyrir að vera, og oft skapast mjög kostuleg spenna milli leikna hlutverksins og þess hver hann er í raun. Svipað er uppi á teningnum í sambandi við persónuna Truster sem Tómas heldur lengi vel að sé bróðir Gunnhildar, ástmeyjar sinnar, en reynist svo vera kærasti hennar. Af þessum misskilningi spretta ýmsar óborganlegar farsakenndar uppákomur.
Í bókinni koma fram margvíslegar vangaveltur um ofbeldi, oft í kaldhæðni, eins og þegar fjallað er um það í tengslum við kynlíf. Þegar líður á söguna fá þessar vangaveltur þó alvarlegri undirtón samfara því að sögumaður rifjar upp þátttöku sína í Bosníustríðinu og persónulegan harm sinn þar. Hann hefur þurft að íklæðast hverju gervinu utan yfir annað og líkir sér við babúskudúkku þar sem innan í hverri dúkku leynist önnur minni:
Ég horfi á sjálfan mig í speglinum. Einhvernveginn finnst mér þetta ekki vera ég. Ég stend andspænis babúskudúkku sem skartar andliti amerísks sjónvarpspredikara. Inni í henni er önnur dúkka: Pólski húsamálarinn Tadeusz Boksiwic. Inni í honum er rússneski vopnasmyglarinn Igor Illitch. Inni í honum leigumorðinginn Toxic. Inni í honum Ameríkubusinn Tom Boksic. Og innstur er svo „Meistarinn“, litli drengurinn Tomislav frá Split í Króatíu. (99)
Þessi lög flettast burt eftir því sem sögunni vindur fram og eftir stendur sársaukafull reynsla af styrjöld og mannvonsku. Á móti er teflt ástinni sem sameiningarafli sem virðir ekki landamæri en verður stundum ofbeldinu að bráð. Þetta kemur meðal annars fram í lýsingunni á sambandi sögumanns við serbneska stúlku sem verður að flytja burt þegar Bosníustríðið skellur á, en þau hittast aftur í stríðinu miðju.
Helsti annmarki bókarinnar liggur þó í því að þessi reynsla af stríðinu er ekki með sannfærandi hætti tengd þeirri gagnrýni á trúarbrögðin sem er undirliggjandi í verkinu en verður fyrir vikið hálf marklaus. Ýjað er að því að styrjaldir og ofbeldi eigi sér trúarlega undirrót og því haldið fram að „[þ]ar sem trúarhitinn er mestur er minnst von um frið“ (212). En þetta er ekki útlistað til hlítar og frásagnirnar úr Bosníustyrjöldinni styðja ekki það viðhorf, enda þjóðernishyggja þar ef til vill meiri kveikja að ófriði en trúarhiti. Þetta viðhorf stangast meðal annars á við kaflann um þorpsprestinn snemma í sögunni sem er myrtur í styrjöldinni án þess að hafa unnið annað til sakar en að vilja halda messu. Þá á morðingjaferill sögumannsins vestanhafs sér ekki trúarlegar orsakir heldur fremur fjárhagslegar. Og það er síðan enn eitt risastökk ímyndunaraflsins að færa þessa reynslu inn í íslenskt samhengi á góðærisárunum. Þótt satíran um trúarhugmyndir íslensku predikaranna sé bæði fyndin og skemmtileg eru þeir Goodmoondoor og Torture of miklar grínpersónur til að vera sannfærandi sem upphafsmenn ofbeldis og mannvonsku.
Hallgrímur hefur í fyrri bókum sínum verið duglegur við að fjalla um Íslendinga og íslenskt samfélag og hefur sú athugun stundum sveiflast frá væntumþykju til nöturlegrar kaldhæðni. Í ljósi hrakfara þjóðarinnar síðustu misserin má nú lesa Þetta er allt að koma sem dæmisögu um feigðarflan Íslendinga, ískalt háð um sjálfsupphafningu og heimskulega bjartsýni. Í 10 ráðum er íslensku samfélagi lýst frá sjónarhóli hins króatíska atvinnumorðingja með heldur góðlátlegri hætti þar sem fyrst og fremst er lögð áhersla á hvað það er friðsamlegt, íbúarnir skrýtnir og stelpurnar sætar. Má vera að þessi mynd af þjóðinni beri um of keim af því að hún varð til fáum mánuðum áður en íslenska hagkerfið hrundi og hún gjaldi þess nú að Íslendingar eru ekki lengur jafn hátt skrifaðir og áður í augum umheimsins.
Hallgrími hefur stundum verið legið á hálsi fyrir að teygja um of lopann í bókum sínum og ofhlaða stílinn. Hér vekur athygli hve efnistökin eru öguð og stíllinn knappur. Hnyttnin og orðaleikirnir eru á sínum stað en bera aldrei frásögnina ofurliði. Sem fyrr er erindi höfundar brýnt, bókin er kraftmikil ádeila á stríð og mannvonsku, en hér er jafnframt lögð rækt við vel byggða frásögn sem er ýmist spennandi, harmræn eða fyndin.