Kristín Svava Tómasdóttir: Hetjusögur.
Benedikt bókaútgáfa, 2020. 126 bls.
Úr Tímariti Máls og menningar, 3. hefti 2021
„Fáar konur hafa utan heimils unnið
jafn mikil erfið og vandasöm störf
fyrir jafn lítil laun“
Orðið ljósmóðir var fyrir nokkrum árum valið fallegasta orð íslenskrar tungu. Kvennastéttin sem sér um konur fyrir, eftir og á meðan á fæðingu stendur nýtur víða ómældrar virðingar og þakklætis. Í vísindalegu mengi heilbrigðisstarfsfólks birtast þær mörgum sem ljósberar yfirskilvitlegrar kvenlegrar visku, völvur í hvítum sloppum. Hlutverk þeirra er líkamlegt, blóðugt og krefjandi en um leið órjúfanlegt rómantíkinni og hlýju tilfinningunum sem við tengjum við móðurina og upphaf lífs. Í nýjustu ljóðabók sinni Hetjusögur, sem kom út síðla árs 2020, fjallar Kristín Svava Tómasdóttir um ljósmæður fyrri tíma, nánar tiltekið þær sem voru að störfum á síðari hluta 19. aldar og í upphafi þeirrar tuttugustu. Titill bókarinnar er tvíræður, annars vegar eru afrek kvennanna sannarlega oft hetjudáðir en á móti bendir ýmislegt í verkinu til þess að það að vera hetja sé ekki endilega svo eftirsóknarvert.
Hvíslleikur
Lífið á þessum tíma var óblíðara en við eigum að venjast og vinnuaðstæður kvenna misjafnar. Síðustu áratugir gamla sveitasamfélagsins áður en Ísland gekkst nútímanum á vald eru óðum að hverfa úr lifandi minni. Á sjöunda áratugnum var raunar svo komið að tilefni þótti til að festa frásagnir og upplifanir fólks á blað svo þær gleymdust ekki. Ljóð frá þessum tíma tókust á við áfallið sem það var að fara úr sveit í borg, tregafull verk á borð við Land og Syni syrgðu sveitasamfélagið sem var að hverfa og bækurnar Íslenskar ljósmæður I-III sem séra Sveinn Víkingur bjó til prentunar og komu út hjá Kvöldvökuútgáfunni á Akureyri 1962-64 hjuggu í sama knérunn. Það var yfirgripsmikið verk í þremur bindum sem innihélt æviþætti og endurminningar um hundrað ljósmæðra sem störfuðu á þessum tíma. Þó slík verk fjalli um fortíðina má einnig lesa ýmislegt um samtíma þeirra á milli línanna.
Kristín Svava er bæði sjálfstætt starfandi sagnfræðingur og ljóðskáld og á síðasta ári, meðan farsótt geisaði, leyfði hún þessum tveimur hliðum ritstarfa sinna að renna saman. Útkoman er Hetjusögur, ljóðabók sem byggir á textanum úr Íslenskum ljósmæðrum og dregur fram nýjar hliðar á lífi og starfi ljósmæðra fyrri tíma, en kannski ekki síst á því hvernig aðrir segja frá þeim.
Hetjusögur er um margt frábrugðin flestum ljóðabókum sem gefnar hafa verið út síðustu ár og sér í lagi er hún frábrugðin fyrri bókum Kristínar. Bókin er ríflega 100 blaðsíður og er skipt upp í nokkra þematíska kafla sem endurspegla hið sígilda form ævintýranna, ferðalag hetjunnar. Svarthvít forsíðumyndin af glæfralegu ferðalagi úr fortíðinni þar sem riðið er yfir straumþung vötn fellur í bakgrunninn af glansandi titli í breiðu og afgerandi letri. Hetjusögur. Titilinn felur í sér yfirlýsingu sem verður lykill að verkinu. Úr frásögnum af erfiðu ævistarfi ljósmæðra fyrr á tímum dregur Kristín Svava upp áhrifaríka mynd af hetjulegum afrekum kvenna sem oft fengu ekki þau tækifæri né þá virðingu sem þær áttu skilið, en beinir um leið athyglinni að því hvernig samfélagið fríar sig ábyrgð á veraldlegum launum með því að sæma þær hetjutitlinum.
Ferðalag hetjunnar
Ljóðunum í bókinni er skipt upp í sjö þematíska kafla. Sá fyrsti er byggður á inngangi Íslenskra ljósmæðra, upptaktur sem gefur tóninn fyrir tilgang verksins. Þar er lögð áhersla á að halda til haga því sem ekki má gleymast. Því næst kemur kafli um æsku ljósmæðranna og hvað leiddi konurnar út í starfið. Ástæðurnar eru jafn margar og konurnar sem fara þessa leið en málfarið ber þess vitni að reynt sé að útskýra hvers vegna „hetjurnar“ voru útvaldar frá upphafi. Nefndar eru til sögunnar allt frá því eðlislægri líknar- og umönnunarhvatar til vitjana í draumi. Þriðji kaflinn er mannlýsing sem staðsetur konuna í hlutverki sínu. Sá fjórði fjallar um ferðalögin, vegleysurnar og vondu veðrin sem ljósmæðurnar þurftu að yfirstíga við vinnu sína. Ekki eru svo síðri erfiðleikarnir þegar á hólminn er komið. Í fimmta kafla er fjallað um misjafnlega erfiðar fæðingar við misjafnar aðstæður. Í þeim sjötta er björninn unninn og verkinu lokið, hvort sem það fór vel eða illa. Eins og í flestum fæðingum eru bæði ljós og skuggar, djúpstætt þakklæti en líka gleymska og skortur á veraldlegum launum fyrir veraldlega þjónustu. Loks er það sjöundi kaflinn, ævikvöldið, erfiljóð um konur unnu störf sín af auðmýkt umfram allt. Þegar síðasta ljóðinu er lokið eru nokkrar blaðsíður eftir, stutt útskýring á efninu sem ljóðin eru unnin upp úr og nöfn kvennanna sem fjallað er um í bókum Sveins Víkings. Þessar síður skera sig efnislega frá ljóðum bókarinnar en eru engu að síður órjúfanlegur hluti hennar. Ljóðin má vissulega lesa sem sjálfstætt verk en umfram önnur ljóð öðlast þessi dýpt og vídd ef maður þekkir samhengið.
Púsl í púsluspil
Bókin ber þess vitni að vera samsett úr orðum og setningum úr öðru verki. Textinn er brotakenndur og mikið er um endurtekningar. Jafnvel þó ljóðabálkurinn myndi að lokum eina heildstæða frásögn er lesandinn alltaf meðvitaður um að hér sé ein saga sögð sem samsett er úr röddum margra mismunandi kvenna. Ljósmóðirin sem sagt er frá í bókinni er ekki ein heldur margar. Hún er uppi bæði á 19. og 20. öld, ástæðurnar fyrir að hún tekur sér verkið á hendur eru margar og mismunandi og henni bæði tekst og tekst ekki ætlunarverk sitt. Alveg eins og ævistarf ljósmóðurinnar samanstendur af ótal mismunandi konum og fæðingum er Hetjusögur samsett úr mörgum mismunandi ljósmæðrum og reynslu þeirra. Sérkenni þeirra eru til staðar en eru þó líka þurrkuð út þegar sögur þeirra hætta að vera sögur einstaklinga og verða saga stéttar. Hetjusögum má líkja við klippimynd, þar sem upprunalegu bútarnir eru sýnilegir og vísa til fyrri tíma en úrvalið og enduruppröðun þeirra skapar nýja frásögn.
Þó sögurnar séu ólíkar eru greinilega í þeim sameiginlegir þræðir. Endurtekning á orðum og setningabrotum leggur áherslu á sameiginlega upplifun ótal kvenna og myndar bakgrunn fyrir sögu hetjunnar. Myndræn framsetning á endurtekningunni, sér í lagi heilar síður og opnur mynda veggi af orðum sem vekja upp blæbrigði úr lífi þessara kvenna. Það hríslast um mann kuldahrollur við að lesa slíkar síður með síendurteknum veðurlýsingarorðum af stórhríðum og stormavetrum en ekki síður áhrifarík er síðan sem telur til það sem ljósmæðurnar fengu fyrir störf sín:
hjartans þakklæti skrautritað ávarp í ramma veglegt samsæti
skrautritað ávarp undirritað af konum margar veglegar gjafir
vönduð heiðursgjöf bók með skrautrituðu ávarpi ávarp fégjafir
og vinahót undirskriftir kvenna höfðingleg gjöf vönduð
klukka fallegur steinhringur þakkarávarp árnaðaróskir
vegleg veisla gjafir þakkar- og árnaðarorð veglegt samsæti
veglegt samsæti vandað úr þakklæti og vinarhugur mörg
þakklætisorð heiðurssamsæti minningargjöf saumakassi úr
vönduðum viði með áletruðu nafni hennar ástúðarvottur
vinafundur veglegt samsæti vandaður hægindastóll úr og
klukka tryggð og vinarhugur vegleg skírnarskál úr silfri gjafir
og þakkarávarp vandaður stóll peningagjöf veglegt samsæti
góðar gjafir vegleg veisla ræður ljóð minningargjöf samsæti (107)
Upp úr hafsjó endurtekninga rísa svo stakar setningar og sögubrot sem varpa ljósi á einstök atvik og upplifanir sem gera textann blæbrigðaríkan.
Þegar hún var að lauga barnið
kom sólin upp yfir fjallsbrúnina
og sveipaði barnið í kjöltu hennar sínum björtu geislumdýrlegri sólarupprás hafði hún aldrei á ævi sinni séð (101)
Hvað er svona merkilegt við það?
Í virðulegum bókasöfnum má sjá heilu raðirnar af æviþáttum venjulegs fólks, sögum af ákveðnum starfsstéttum eða sögur frá tilteknum sveitum eða þjóðfélagshópum. Læknar, sjómenn, Vestfirðingar, jafnvel húsmæður eiga um sig heilu bálkana af sögum sem fólk vildi ekki að yrðu gleymskunni að bráð. Eftir því sem samfélagsleg viðhorf og jafnvel tungutak fólks breytist, gefur textinn sjálfur líka sífellt meira í skyn. Orðin sem notuð og val á frásagnarefni gefur skýrari mynd af því hvað fólki fannst markvert á sínum tíma og hvað því fannst sjálfgefið.
Kristín Svava hefur tjáð sig um slík sagnasöfn og borið ljósmæðratalið saman við ríkjandi stíl í slíkum greinum. Karlar eru umtalsvert fyrirferðameiri en konur í slíkum sögum enda kvennastörf og afrek þeim tengd ólíklegri til að vera skráð á spjöld sögunnar. Ljósmæðurnar eru undantekningin sem sannar regluna, hetjur sem hafa mikilvægu hlutverki að gegna í samfélaginu en á óumdeilanlega kvenlegu sviði. Niðurstaðan verður að konurnar þurfa að vera ótrúlega sterkar og hugrakkar og láta sér ekki allt fyrir brjósti brenna en sinna á sama tíma kvenlegu og fórnfúsu umönnunarstarfi. Þær þurfa að sýna bæði styrk og mýkt, leggja á sig erfiði en um leið hafna vegsemd fyrir verk sín.
Kaldhæðni örlaganna
Íslenskum ljósmæðrum I-III var ætlað að upphefja hetjusögur ljósmæðranna. Á meðan Hetjusögur endurtekur afreksdýrkunina er líka í nýja verkinu ákveðinn broddur og það nýtir sér ævintýraformið til að benda á hversu stutt hetjudýrkunin nær.
Söguþráður ljóðabálksins er ævintýri. Við komum okkur fyrir með sögumanninum, fylgjumst með hetjunni verða til og komast inn á þá braut sem leiðir hana á vit ævintýranna. Við fylgjumst með henni berjast við áskoranirnar á leiðinni og uppskera launin. Svo lifir hún hamingjusöm til æviloka, eða hvað?
Þrátt fyrir að saga ljósmóðurinnar fylgi ferðalagi hetjunnar nokkuð nákvæmlega er ákveðin kaldhæðni fólgin í því. Konurnar takast á við sömu ógnir og áskoranir og aðrar hetjur Íslandssögunnar, storma, skriður og ófæra vegi. En þegar kemur að verkalaunum hætta þær að vera jafnokar karlanna. Launin eru kvenleg – þakklæti og hlýjar tilfinningar, skrautskrifuð skjöl og tilfinningin að hafa unnið gott dagsverk. Jafnvel það er ekki hægt að stóla á, sumar kvennanna ná ekki á áfangastað og þegar þær ná þangað er alls óvíst að móður og barni muni heilsast vel að lokum.
Þegar ríkidæmið og frægðin láta standa á sér upplifir lesandinn óréttlætið sem í því er fólgið. Við erum vön að heyra og lesa sögur af hetjum, jafnvel horfa á bíómyndir þar sem við dáumst að vasklegri framgöngu en það er annað að standa frammi fyrir hetju í hversdeginum, sér í lagi þegar hetjan þarf líka að draga fram lífið og eiga sér frítíma. Starf hetju er í eðli sínu fórnfúst og óeigingjarnt og það er óþægilegt að krefjast þess af venjulegri manneskju.
Farsótt og hamfarir
Hetjusögur er bók sem gerist á tveimur tímabilum samtímis. Ljósmæðurnar takast á við andstreymi liðinna tíma en sagan kemst til skila sem endursögn dagsins í dag. Upprunalega textanum er skilað til lesanda gegnum milligöngumann sem hvetur hann til að trúa ekki öllu sem hann les. Verkið skrifar sig inn í hefð sjálfsagna (e. metafiction), verk sem draga athyglina í sífellu að eigin tilurð. Þetta hefur kosti og galla í för með sér, lesanda er ýtt út í gagnrýna athugun á því sem samfélagið taldi og telur eðlilegt og hvers vegna það sé. Á hinn bóginn myndast veggur milli lesenda og textans, sem vísar ekki lengur hlutlaust til raunveruleikans svo erfiðara verður fyrir lesandann að treysta á sína eigin upplifun. Eins og fram kemur í nýútkomnum Sögusögnum Jóns Karls Helgasonar er skáldskapurinn sjálfur algengt viðfangsefni skálda en það getur líka verið stutt í andleysu þegar sögusögnin verður óhóflega sjálfhverf.[1] Dæmi um slíkt er lag sem keppti í Söngvakeppni sjónvarpsins fyrir ekki svo löngu en textinn fjallaði aðallega um drauminn um að sigra Söngvakeppni Sjónvarpsins. Hetjusögur Kristínar Svövu falla ekki í þessa gryfju heldur nær hún að nota aðferðina til að varpa skýrara ljósi á fortíðina og okkar eigin samtíð um leið.
Það er viðeigandi að bók um konurnar sem eiga í sífellu átök við frumkraftinn sé skrifuð á tímum heimsfaraldurs. Árið 2020 var markað af snjóflóðum, farsótt og skriðuföllum og ekki síðan 1918 hafa Íslendingar upplifað jafn sterkt hvað þeir eru berskjaldaðir gagnvart náttúruöflum og öðrum áföllum. Hugmyndin að Hetjusögum kviknaði fyrir löngu síðan en það var á tímum samkomutakmarkana og sóttkvía sem Kristín Svava gaf sér tímann til að vinna úr hugmyndinni, grúska í bókunum og leggjast í rannsóknarvinnuna sem er nauðsynleg til að vinna slíkt verk. Meðganga, fæðing og starf ljósmóðurinnar hafa órjúfanleg tengsl við frumkraftinn og það þarf auðmýkt til að horfast í augu við það sem ljósmóðir þurfti að gera við erfiðar aðstæður.
Hversdagshetjur
Hetjusögur er áhrifamikið verk sem unnið er upp úr þröngum ramma sem setur skáldskapnum ákveðin takmörk. Með því að binda verkið við annan tíma öðlast það þó líka aðra vídd. Hetjusögur er ekki sagnfræðiverk en varpar bæði ljósi á fortíðina og samtímann þar sem við glímum enn þann dag í dag við að það þykir sjálfsagt að konur fórni sér fyrir aðra og taki ekki laun sín út í öðru en ómældu þakkæti og virðingu. Í nýjustu bylgju baráttu gegn kynferðisofbeldi hefur enn verið bent á og rifjað upp að tilfinningavinnan sem konur leggja á sig til að vekja athygli á því að þær verði fyrir ofbeldi hefur álag í för með sér og álagið er slíkt að margar konur brenna út. Þetta er aðeins nýjasta dæmið um ólaunaða vinnu sem konur inna af hendi við að sjá um sig og aðra. Hvað varðar veraldleg laun bera ljósmæður enn skarðan hlut frá borði eins og sjá mátti í nýlega afstaðinni kjarabaráttu. Fólk er enn þann dag í dag tilbúið að veita þeim ómælt þakklæti og virðingu fyrir hlutverki þeirra en sú virðing skilar sér ekki í launaseðilinn.
Vandinn við hetjur er að þær eiga ekki heima í hversdeginum. Við vitum ekki hvernig á að launa þeim fyrir verk sín. Ofurhetjusögur hafa reglulega tekist á við hugmyndina um hvað gerist þegar hetjur þurfa að sinna hversdagslegum störfum, og liggur þá beinast við að nefna Pixar teiknimyndina um hin Ótrúlegu (e. The Incredibles).
Það er af virðingu og hlýhug sem fólk kallar ljósmæður hetjur en þær eru það ekki. Hetjur eru bara til í ævintýrunum en ljósmæður eru konur sem eru að vinna vinnuna sína. Óttablandna virðingin fyrir störfum þeirra og það að setja þær á stall getur falið í sér öðrun og jaðarsetningu þeirra, ekki síst fyrr á tímum. Íslenskar ljósmæður I-III fjallar vissulega um konur fyrri tíma en sama staðan endurspeglast enn í launabaráttu ljósmæðra. Í Hetjusögum dregur Kristín Svava fram raunveruleikann og erfiðið en bendir líka á tvískinnunginn sem er fólginn í því hvernig litið er á starfið. Það sem helst situr í mér eftir lesturinn er kastljósið á augnablikin þar sem skín í þreytuna á bak við dugnaðinn, breysku manneskjuna sem vafði sig daglega í skikkju hetjunnar.
Gréta Sigríður Einarsdóttir
Tilvísanir
[1] Jón Karl Helgason, Sögusagnir, Reykjavík: Dimma 2020, bls. 53-55.