Kristín Ómarsdóttir: Móðurást: Oddný.

Benedikt 2023.

Úr Tímariti Máls og menningar, 3. hefti 2024.

Síðastliðið haust sendi Kristín Ómarsdóttir frá sér fyrstu bók skáldaðrar ævisögu langömmu sinnar, Oddnýjar Þuríðar- og Þorleifsdóttur. Þetta er í fyrsta sinn sem Kristín skrifar bók um persónu sem hefur verið til. Hún hefur þó nefnt í viðtölum að skáldskaparhugmyndir hennar kvikni oft á göngu um borgina og ekki er ólíklegt að aðalpersónan í skáldsögu hennar Flækingurinn (2015) eigi rætur í raunverulegri persónu eða persónum af götum Reykjavíkur. Um Móðurást: Oddný hefur Kristín sagt að fátt hafi verið um heimildir um líf persóna sögunnar, engin bréf eða þvíumlíkt til, en vissulega ýmsar sögur. Hún hafi hins vegar sökkt sér í sögulegar heimildir sem í frásögninni verða að lifandi fréttamolum og styrkja skáldskapinn.

Kristín er einstakur höfundur í íslenskum bókmenntum og Móðurást: Oddný er einstök saga um lífið í gamla daga á Íslandi, nánar tiltekið í Bræðratungu í Biskupsstungum síðvetrar árið 1872.

Það er ekki einfalt að greina sögu sem er jafnlítil að umfangi og Móðurást Oddný, aðeins 138 blaðsíður, en samtímis svo rík af innri frásögn að hún umfaðmar í senn stóru söguna og sinn eigin tíma – og það án þess að minnst sé á kóng eða sýslumann, stríð eða framfarir. Hér er söguefnið baslið, barnadauðinn og stritið jafnt sem gleðin í hversdagslífinu og upplyfting þess að átta sig á heiminum í gegnum atburði, viðbrögð og orð.

Íslensk bókmenntasaga er rík af frásögnum um gamla daga, örbirgðna, harðindin, frostavetur, eldgos, landnytjar, stéttskiptingu og hvaðeina. Nefna mætti Heiðarbýlis- og Höllu-sögur Jóns Trausta, Fjallkirkju Gunnars Gunnarssonar og Sjálfstætt fólk Halldórs Laxness, sem allar komu út á fyrstu áratugum tuttugustu aldar. Þegar leið 20. öldina fóru konur að láta til sín taka í þessari sagnategund eins og verk skáldkvenna á borð við Hugrúnu (Filippía Sigurlaug Kristjánsdóttir) vitna um, en hún sendi frá sér fjölda bóka bæði fyrir börn og fullorðna sem gerast flestar í heimahögum hennar í Svarfaðardal um og eftir aldamótin 1900. Þá urðu bækur Guðrúnar frá Lundi um íslenskt dalalíf geisivinsælar upp úr miðri síðustu öld og hafa á allra síðustu árum gengið í endurnýjun lífdaga. Einnig mætti í þessu samhengi nefna Magneu frá Kleifum, sem og allmargar konur sem á síðasta áratug hafa sent frá sér bækur um formæður sínar líkt og Kristín gerir hér.

Ugglaust mætti í þessu samhengi nefna fleiri höfunda og líklegt að bókmenntagreinin „barningssögur“, sem svo hafa heyrst nefndar, úr íslenskri sveit um og eftir aldamótin 1900, séu óyrkjað akurlendi íslenskra bókmenntarannsókna. Móðurást: Oddný er vissulega hluti af þessari hefð um leið og hún er einstök.

 

Lífið og dauðinn í Bræðratungu austur

Eiginlegur tímarammi sögunnar Móðurást: Oddný er aðeins um það bil einn mánuður, þorrinn árið 1872, Sagan fer þó sannarlega víðar í tíma og fylgir ekki tímalegri framvindu, sem getur verið ruglingslegt en dýpkar oftar samhengið. Oddný Þorleifsdóttir og Þuríðar langamma Kristínar og sögumaður bókarinnar er á tíunda ári, alltaf með marbletti því hún er nærsýn. Með aldrinum hefur marblettunum þó fækkað því henni lærist að fara gætilega. Lesandinn fylgir eftir hvernig hugur barnsins skynjar lífið á bænum, orð og athafnir fólksins, og vefur úr því skilning á lífsheildinni.

Að loknum stuttum formála birtir Oddný okkur sögusviðið, Bræðratungu austur og vestur, „[b]æirnir, fjósið, kirkjan og öll sveitin hverfa undir yrjóttan fölva […] snjókomunnar.“ Oddný snýr sér í hringi á bæjarhlaðinu og „meðan ég snýst hættir fjarskinn að vera til. Samt þykist ég sjá í gegnum snjódrífuna […]“ (8) Þessi orð eru lýsandi fyrir óræðan og ofurljóðrænan frásagnarmáta sögunnar, þar sem myndir eru dregnar fram úr „yrjóttum fölva“ sem samt sést í gegnum og „fjarskinn“ kemur og fer.

Nefnt bæjarhlað tilheyrir Bræðratungu austur. Þar býr búi sínu ekkjumaðurinn Þorleifur, sem nú er kvæntur Þuríði. Á bænum búa líka synir hans af fyrra hjónabandi, Þórður og Ívar, sem og dæturnar Oddný og Setselja og synirnir Maggi og Jón litli snáðakollur sem Þuríður, seinni kona hans, hefur alið honum. Auðbjörg er hins vegar elst barnanna í Bræðratungu austur, komin yfir þrítugt. Hún er dóttir Oddnýjar, fyrri konu Þorleifs, og fyrri eiginmanns hennar sem lést þegar Auðbjörg var barnung. Ívar, albróðir Auðbjargar, býr einnig í Bræðratungu austur.

Auðbjörg er fyrirferðarmikil persóna í bókinni þótt hún hafi látist þremur árum áður en hin eiginlega frásögn hefst. Aftur og aftur verður Oddnýju hugsað til þessarar fullorðnu stjúpdóttur föður síns sem kunni ensku og hafði tengingu við hinn stóra heim í gegnum bréf frá útlöndum, frá „rússenskum prinsi sem hún sagðist skrifast á við.“ (7) Þrátt fyrir þetta orðalag eru bréfin raunveruleg, liggja „í kistlinum hennar Auðbjargar“ (89) löngu eftir lát hennar og bréfavinirnir eru líka snöggtum fleiri. Auðbjörg var jafnvel atvinnubréfaskrifari, stöðugt „að semja bréf til Rússlands, til Ameríku, til nýju viðskiptavinanna sem höfðu pantað af henni ástarbréf.“ (21)

Á banabeði, þegar Auðbjörg getur ekki lengur haldið á pennastönginni, „bálheit, með óráði og bablaði skringilega [datt] Ívari bróður mínum […] í hug að skrifa það niður […].“ (22) Afrit sundurlausra málsgreina Auðbjargar fylla hátt í fjórar blaðsíður í sögunni og minna sumpart á evrópska rómana og riddarasögur, en eru líka all súrrealískar á köflum: „[s]túlkur í bláum kjólum með hvítar blóðsvuntur […] stíga dans við hermenn“ (23), „[f]ossar falla úr mannsgini“ (24) og „rúsínuvín sogið úr plómulita líknarbelgjum“ (25). Með orðum Auðbjargar smeygir höfundurinn skáldskap heimsins inn í lífið í Bræðratungu austur. Og það er ekki bara skáldskapur sem Oddný nemur af Auðbjörgu.

Þegar Oddný var fimm ára hafði fjölskyldan gert sér ferð að Gullfossi til að selja ferðafólki nýlagaða rabarbarasultu. Þar sér Oddný „í fyrsta skipti paléttu og trönu“ (14) hjá amerískum landslagsmálara sem þau hitta og kvartar sá mjög yfir skorti á rauðum lit í náttúru Íslands. Af þessu ferðalagi og orðum málarans verða miklar samræður á baðstofuloftinu þegar heim er komið. Má mála það sem ekki er, bæta rauðu í landslagsmynd af Gullfossi eða mála konu á skautbúningi þótt hún eigi engan slíkan? „Málverk fegra heiminn,“ (18) segir Auðbjörg, „án þess að ljúga of mörgu“ (19). Þessi orð rifjar Oddný upp snemma í sögunni, sem líta má á að vísi til sögunnar sjálfrar og frásagnarmáta hennar. Litirnir á paléttu listamannsins eiga svo líka eftir að fylgja Oddnýju og næra drauma hennar um að mála myndir.

Stuttu fyrir andlát Auðbjargar hafði hálfbróðir þeirra Oddnýjar, Þórður sonur Þorleifs og Oddnýjar eldri, látist. Ekki löngu áður höfðu Þorleifur og Þuríður misst þrjá barnunga syni sem allir báru nafnið Páll. Öll urðu þessi burtkölluð á árunum 1867–69 í veikindum sem við þekkjum varla í dag, eins og berklum, sullaveiki, taugaveiki og kíghósta, sem að lokum, árið 1871, fellir Jón snáðakoll aðeins þriggja ára gamlan. Nokkur hjú eiga og heimilisfesti í Bræðratungu austur meðal annara Pálína en foreldrar hennar eru Gunnlög og Páll, hálfbróðir Þorleifs bónda. Pálína er fimm árum eldri en Oddný og því einskonar stóra systir. Halldór bróðir Þorleifs býr svo með sinni fjölskyldu, eiginkonu og sonum, í Bræðratungu vestur. Þar er kannski betur hugað að bókhaldi búsins en minna hlegið en í Bræðratungu austur.

 

Þrátt fyrir annir við kistusmíð er sem sagt margt í heimili í Bræðratungu austur, þétt setið á vökunni á baðstofuloftinu og mikilvægt að raða vel í rúmin til svefns. Hér er heimurinn allur, heimur mannfólks og dýra sem tvinnast saman í ótrúlegt landakort lífs, lista og sögu.

Mjaltapían Oddný dvelur talsvert í fjósinu. Þar „ræður molludaunn“ og ofan á skítafýlu og „lykt af hlandi […] situr heyþefurinn sem kóngur og ríkir sem lúður […] Keytan er flauta. Saurinn selló“, og þegar hlekkir keðjanna um háls kúnna slást saman óma kirkjuklukkur. „Andvarinn er fiðla. Strengirnir titra opnist hurðin.“ (9) Einnig dósin undan júgursmyrslinu verður að tóngjafa þar sem hún „hýsir nú nálar og sífrar í svif-takti ef hún er hrist.“ (11)

Auk heillar sinfóníuhljómsveitar er í fjósinu kýrin Ida Pfeiffer Helgudóttir. Til hennar leitar Oddný þegar „hugurinn flæktist inní net sem skældi hverja hugsun sem aðvífandi kom ný inn og tepptist strax.“ (56) Ida Pfeiffer mælir á færeysku í samtölum sínum við Oddnýju, sem snúast um margvísleg efni, stundum háleit eins kristtrú, móðurást og framtíðina, eða hvunndagshluti eins og óþrifnað og lestur, sem nafngjafi kýrinnar, austurísk ferðakona, reit margt um á bók um ferðalag sitt til Íslands tæpum þrjátíu árum áður en hin sjónlausa Oddný tekur með spurningum sínum að brjótast „inn í læstar hirslur til að njóta þess sem fjallasýnin færir okkur hinum“(44), eins og móðir hennar orðar það. Í útvarpsviðtali skýrði Kristín Ómarsdóttir færeysku kýrinnar með vísan til notkunar franskrar tungu við rússnesku hirðina. Yfirhöfuð lætur Kristín ólík tungumál ekki þvælast fyrir sér og bregður stundum fyrir ensku í textanum, oftast í tengslum við bréf Auðbjargar en líka hreinlega þegar það hentar: „Það er handanleikinn sem stjórnar leið mjólkur til heimsins. Auðbjörg kenndi mér orðin; transspirituality á ensku. Hinir órannsakanlegu vegir guðs tilheyra transspiritinu. Handanafl og vélarafl eru andstæður.“ (10–11)

Sjónleysi Oddnýjar og bernska hennar verður Kristínu Ómarsdóttir afbragðs frásagnartæknilegt verkfæri við að skapa þann einlæga, djúpa og rannsakandi tón sem einkennir söguna. Vegna þess hvað Oddný sér illa þarf hún ekki síður að meðtaka heiminn með því að hlusta og spyrja. Og hún er ekki aðeins spurul um umhverfi sitt heldur einnig um það sem áður var. Hvers vegna, til dæmis, heitir hún Oddný, nafni látinnar eiginkonu föður hennar sem upplýst erum í upphafi bókar að fylgi „hvort tveggja einsemd og að vera hin útvalda.“ (7) Hvers vegna var hún, frumburður móður sinnar, ekki skírð í höfuðið á móðurömmu sinni? Og hvers vegna skírðu foreldrar hennar þrjá drengi sem dóu í frumbernsku, hver á fætur öðrum, nafninu Páll? Svör móðurinnar upplýsa um ástæður nafngjafa sem stundum eiga rætur í þakklæti en líka þeirri trú að nafnið forði frá örbirgð, ómagastandi og dauða: „Við felum börnin undir nöfnunum í von um að guð sjái börnin ekki meðan þau vaxa úr grasi,“ (45) segir Þuríður, sem veit þó svo vel að það dugir ekki alltaf til.

Móðurást: Oddný skiptist í ótal stutta kafla með yfirskrift þar sem ýmist í nokkrum samliggjandi köflum eða einum og einum stökum er brugðið ljósi á ákveðið samhengi í lífi og hugsun manneskjunnar, í skáldsögunni jafnt sem heimssögunni. Dæmi um slíkt er þroskaferli listskynjunar og listþrár eins og þegar hefur verið fjallað um en einnig mannslát og barnadauði og viðbrögð við andlegum veikindum. Hversdagslífið fær og sitt rými; tóvinnan á myrkum vetrarkvöldum, húslestrar Þuríðar á völdum greinum úr Þjóðólfi, stóri baðdagurinn, heimsóknir heim að bæ og af bæ og auðvitað kirkjuferðir, svo dæmi séu nefnd. Oddný fylgist grannt með, hlustar, grípur á lofti setningar og viskuorð. Sumt festist í minni hennar, eins og orðin sem bústýran og stórmóðirin Þuríður mælir í fjósinu þegar hún hefur staðið dóttur sína að því að teikna hringi með bununni sem hún kreistir úr júgri Idu Pfeiffer. „Öll búverk velta á því hvernig þið handleikið efnið sem ykkur er treyst fyrir. Þið skuluð vanda verkin af alhug, ekki hálfhug, í draumórum eða á hlaupum.“ (36)

 

Ákveðinn skáldskapur kallar á ákveðnar greiningaraðferð

Á síðasta áratug síðustu aldar tóku svokölluð hinseginfræði að nema land í akademískri greiningu og umfjöllun og vísuðu á sviði bókmenntafræða, m.a. til aðferða í skáldskap til „að afbyggja og gagnrýna orðræður og skilgreiningakerfi, jafnvel þótt það hafi í för með sér afbyggingu á eigin skrifum“, eins og Ásta Kristín Benediktsdóttir og Rannveig Sverrisdóttir orða það í inngangi annars heftis Ritsins, tímarits Hugvísindastofnunar, árið 2017, sem fjallaði um hinsegin fræði og rannsóknir. Sú skjönun, sem Kristín beitir með „táknmáli og tjáningunni […]“ í lýsing á samlífi fólksins í Bræðratungu, afhjúpar á einkar blíðlegan hátt, ef svo má að orði komast, „valdaafstöður og andstæðukerfi [sem og] fljótandi mörk […], sem ekki [falla] inn í gagnkynhneigt, normatívt regluverk og þekkingarramma“ (5), eins og segir í tilvitnun í grein eftir Dagnýju Kristjánsdóttur bókmenntafræðing í fyrrnefndum inngangi Ritsins 2017, og fellur þessi fræðiega greiningaraðferð einkar vel til skoðunar á skáldskap Kristínar Ómarsdóttur.

Texti Kristínar í skáldsögunni Móðurást: Oddný einkennist af samtölum, upprifjunum, myndum sem birtast sögubarninu Oddnýju og leiða jafnframt í misnákvæmum dráttum fram persónuleika hennar, eins og listnæman hugann. Enn meira ögrandi til hinsegin greiningar er aðferð skáldskapartextans til að afhjúpa valdahlutföll og fastmótaðar og viðteknar venjur samfélagsins. Í því samhengi takast í sögunni á tvö öfl. Reisnin sem „Bræðratunga fékk á öldum áður orð á sig fyrir […]“ og tilheyrir karlmönnum fremur en konum, auk þess sem „reisn sumra var heilög eign sem glæpsamlegt yrði að særa.“ (64) Hitt aflið er móðurástin og er þá ekki aðeins vísað til ástar móður á afkvæmi sínu heldur ekki síður þeirrar alúðarástar og tjáningarinnar sem þar á sér uppsprettu, og leiðir hugann að sérstæðum titli skáldsögunnar Móðurást: Oddný.

Til að afhjúpa og greina valdahlutföll samfélagsins beitir Kristín karnevalískum hlátri. Ívar, hálfbróðir Oddnýjar og Auðbjargar, hvorrar sínum megin, tók eftir andlát þeirrar síðarnefndu „við skyldum hennar og langspilinu“ en „[p]abbi neitaði að sjá son sinn að kvenverkum að mjöltum undanskildum.“( 63) Ívari er aukin heldur gjarnt að hlæja, „líka ætti grátur betur við.“ (65) Hin systkinin eru einnig hláturmild og fyrir kemur að galsinn keyrir um þverbak. Allt stillist þó þegar mamma opnar Þjóðólf og hver sinnir sínu. Eitt kvöldið er faðirinn að gera við langspilið, honum verður á að slíta streng og „öskraði og bölvaði. Þá skellihló Ívar og við krakkarnir.“ (66) Þessi hlátrasköll leiða til upplausnar á baðstofuloftinu. Sumir taka þátt í orðaskaki Ívari til varnar gegn reiði föðurins um leyfilegan hlátur og ekki leyfilegan: „Gamall hefur leyfi til að hlæja að öllu sem honum sýnist, sagði pabbi“, og nokkru síðar einnig: „[k]ona má hlæja þar til hún er sautján ára og mér sýndist hann halda á kefli […] Ívar dró tafarlaust niður um sig buxurnar.“ Allir líta undan, hver með sínum hætti, „en Ívar bað okkur um að hlaupa útí fjós, honum heyrðist Ída kalla.“ (67) Þegar skarinn snýr aftur er mamma „[u]ppi í baðstofu […] engum sinnandi […] stuggaði okkur frá,“ (70), faðirinn „í fleti sínu með kodda yfir höfðinu“ en Ívar riðinn „beinn í baki af bæ. […] Nóttin varð tómlegri en tómur magi […]“ (71).

Það verður hlutskipti bústýrunnar og móðurinnar að finna aftur frið og gleði í Bræðratungu austur, sem kostar hana sprungnar varir og eina framtönn. Systkinin sækja Ívar, vopnuð skilaboðum móður sinnar til hans „að stjúpa hans ábyrgist hann“.

Þessi átök reisnar og hláturs eru margslungin í raunsæislega sannfærandi skáldskapartexta Kristínar og miðla með afar áhugaverðum hætti stigveldi samfélagsins, sem og staðal – og sjálfsmyndunum sem af því vaxa. Samfléttun birtingarmynda og afleiðinga valds, samkeppni og hroka andspænis kærleika, móðurást og gleði í frásögnum af hvunndagslífinu í Bræðratungu austur er listileg. Má þar nefna eintal móðurinnar við Oddnýju í kjölfar „hláturbyltingarinnar“ á baðstofuloftinu í kaflanum Sjálfsportrett sem mamma dró upp í rökkrinu með pínulitlu rauðu í (75–77). Einnig mætti nefna kaflana Heilabrot og Hláturveiki (89–92).

Ívar er athyglisverð persóna í sögunni, sem vert væri að gaumgæfa nánar, en lesendum skal látið það eftir. Líkt og Auðbjörg verða orð hans og athafnir Oddnýju uppspretta margvíslegra hugleiðinga. Ívar er sérstakur og kyns síns vegna ber honum „að sýna öðrum stjórnsemi, þó hann beri ekki snefil í sér af yfirráðasemi.“ (99)

Oddný er augljóslega líka sér á parti í hópi heimilisfólksins í Bræðratungu austur, þar sem hún reynir stöðugt að átta sig á því sem dylst í „yrjóttum fölvanum“ og „fjarskanum“. Hún spyr um allt milli himins og jarðar, spyr móður sína, systkini sín og annað heimilisfólk, sjaldan þó föðurinn, þá frekar tunglið, að ógleymdri kúnni Idu Pfeiffer.

 

Lokaorð

Í skáldsögunni Móðurást: Oddný dregur Kristín Ómarsdóttir upp lifandi og margslungna mynd af lífinu á sæmilega stöndugu búi á Íslandi seint á nítjándu öld þar sem viðteknu orsakasamhengi er ítrekað ögrað í leikandi, ljóðrænni frásögn, svo að hún jafnvel splundrast. Lesendur eru því hvattir til að gefa sér tíma í lestur sögu Oddnýjar Þuríðar- og Þorleifsdóttur sem lýkur víst ekki með þessari bók eins og Kristín hefur sjálf lýst yfir og er það sannarlega tilhlökkunarefni að vænta megi fleiri bóka um líf þessa tæplega tíu ára stúlkubarns sem sér illa og dreymir um að mála myndir.

 

 

Jórunn Sigurðardóttir