Ég vil frekar að Goya haldi fyrir mér vöku en einhver djöfulsins fávitiAlveg er greinilegt strax í upphafi stutta leikritsins með langa nafnið sem var frumsýnt í Kúlu Þjóðleikhússins í gærkvöldi, Ég vil frekar að Goya haldi fyrir mér vöku en einhver djöfulsins fáviti, að einu persónu þess líður bölvanlega. Stefán Hallur Stefánsson stendur á miðju sviði Kúlunnar, framarlega, í leikhúsþoku og kvelst. Hann hreyfir sig ekki úr sporunum en þó svitnar hann af harkalegum innri átökum. Það var mergjað.

Persónan er tæplega fertugur karlmaður, sennilega einhleypur en tveggja sona faðir. Það sem hann gerir í þessu stutta verki er að segja okkur frá samskiptum við synina, sex og ellefu ára. Hann hefur tekið út ævisparnaðinn og vill nota hann til að fara með þeim til Madridar og skoða með þeim Prado-listasafnið, einkum frægar þunglyndismyndir Goya. En þeir, verandi börn, vilja frekar fara í Disneyland í París. Föðurnum finnst það ekki koma til mála, hann skal troða menningunni upp á börnin þótt það verði það síðasta sem hann gerir.

Ummælin sem faðirinn hefur eftir sonum sínum benda til þess að drengirnir séu gríðarlega gáfuð börn, þrátt fyrir áhugann á Disney, enda kemur í ljós að auk fagurra lista eru bækur það sem faðirinn heldur mest upp á. Hann hefur safnað bókum af miklu kappi, keypt, fengið lánað og ekki skilað og jafnvel stolið bókum. Drengirnir hans bera þessum bókaáhuga væntanlega fagurt vitni. Lýsingar föðurins á samskiptum sínum við drengina og væntanlegu ferðalagi með þeim verður æ gróteskari og fáránlegri um leið og líðan persónunnar versnar og versnar. Því kom Stefán Hallur fullkomlega til skila. Angist hans var átakanleg.

Höfundur leikritsins er Argentínumaðurinn Rodrigo García en Stefán Hallur og Una Þorleifsdóttir leikstjóri hans, sem saman mynda leikhópinn ST/unu, þýddu það og staðfærðu. Það eina sem olli mér umhugsun við textann var stöðug notkun blótsyrðisins „fokking“. Nú veit ég ekki hvort það var líka notað sem enskusletta á frummálinu; ef svo er getur maður ekkert sagt við því. En ef persónan bölvar á spænsku í frumgerðinni þá hefði ég kosið íslensk blótsyrði. Andskotans er þrjú atkvæði móti tveim í fokking en djöfuls og fjandans gætu vel gengið. Og hefðu meiri áhrif, held ég, alltént á kynslóðirnar sem eru ónæmar fyrir ruddalegri merkingu enska orðsins.

Silja Aðalsteinsdóttir