Dagur tvö á Lókal, leikhúsreynslan víkkar út, jafnvel yfir í annan heim. Síðdegis sáum við Krísufund Kriðpleirs á Dansverkstæðinu við Skúlagötu og um kvöldið When I Die sem kemur frá Kaserne í Basel, draugasögu með tónlist eftir Thom Luz. Í báðum tilvikum var sjón sögu ríkari.

KrísufundurEkki höfðum við áður hitt á sýningar Kriðpleirs frekar en Áhugaleikhúss atvinnumanna. Við ætluðum okkur alltaf að sjá Síðbúna rannsókn (á máli Jóns Hreggviðssonar) en einhvern veginn passaði sýningartíminn okkur aldrei. Krísufundurinn eða Crisis Meeting fór fram á ensku og var ekki sýning á leikriti, ekki heldur sýning á „work in progress“ heldur fundur félaganna með áhorfendum til að meta fyrri verk hópsins og ræða stöðuna núna við okkur í tilefni af því að þeir eru að vinna að viðamikilli styrkumsókn fyrir komandi verk. Í leiðinni setja þeir okkur inn í vinnuaðferðir sínar.

Félagarnir í hópnum eru þrír en bara tveir voru verulega aktífir í sýningunni, þeir Árni Vilhjálmsson, sem stjórnaði myndvarpa og reyndi sitt besta til að stýra útkomunni, og Ragnar Ísleifur Bragason sem var meira í því að varpa fram hugmyndum um framtíðarviðfangsefni. Hann átti eftirminnilegasta part sýningarinnar, óvænta og afar persónulega ræðu um móður sína, skáldkonuna Nínu Björk Árnadóttur. Þriðji félaginn, og sá sem mun vera upphafsmaður hópsins, Friðgeir Einarsson, hafði verið í löngu þagnarbindindi en áformaði að rjúfa það þennan dag kl. 15:45. Allt tal hinna félaganna tveggja hneig að þessum mikilvæga tímapunkti sem byggði upp heita eftirvæntingu í sneisafullum salnum (sem satt að segja varð óbærilega heitur þegar á leið).

Mér fannst þetta indæl stund en það stafaði kannski meira af því hvað þessir þrír listamenn eru skemmtilegir í sjálfum sér og rosalega mikil krútt en að það sem þeir höfðu fram að færa akkúrat í gær væri svo áheyrilegt. Niðurstaðan er alltént sú að ég ætla að reyna að missa ekki aftur af sýningu hjá Kriðpleir(i).

Seinni viðburðurinn okkar í gær var í Gamla bíó. Kona situr við píanó vinstra megin á sviðinu og það gerist fjarskalega lítið langa hríð. Einstaka tónn. Síðan ekkert. Hægra megin á sviðinu er gullfalleg mubla með framandlegu tæki, gylltu og glitrandi. Það snerist. Í leikskrá má sjá að þetta er eftirlíking af hugmynd að vél sem Edison mun hafa verið að vinna að þegar hann dó (prótótýpan er glötuð) og átti að gera fólki kleift að hafa samband við framliðna. Hvort sem það var vélinni að þakka eða andlegum krafti ekkjunnar Rosemary Brown (Suly Röthlisberger) þá fóru brátt skuggar að skjótast um sviðið. Það var draugagangur í húsinu hennar, niðurnídda raðhúsi við Wardour Street í Balham í London. En þetta voru þó engir ómerkilegir mórar og skottur heldur afturgöngur heimsfrægra tónlistarmanna sem náðu sambandi við Rosemary og fengu hana til að skrá tónverk sem þeim hafði ekki unnist tími til að semja í lifanda lífi. Sá fyrsti sem nálgaðist hana á þennan hátt var sjálfur Franz Liszt sem heimsótti hana í nóvember árið 1964 og bað hana að skrá eftir sér nokkur tónverk. Rosemary hafði ekki mikla músíkmenntun en lét þetta eftir honum og mörgum öðrum í framhaldinu, þeirra á meðal Chopin, Schubert, Mozart, Bach og Beethoven! Og Liszt túlkaði fyrir þá sem ekki kunnu ensku. (Maður er sem sagt líka háður tungumálum hinum megin).

Afturgöngurnar hennar Rosemary Brown voru snilldarlega leiknar af fjórum tónvísum leikurum, Mathias Weibel, Daniele Pintaudi, Jack Mc Neill og Samuel Streiff. Þeir sungu og léku á hljóðfæri svo unun var á að hlýða þó að „nýju“ verkin að handan væru kannski ekki alveg eins litrík og margbrotin og þau sem meistararnir sömdu í lifanda lífi.

Sagan sem sögð er í When I Die er sögð vera sönn. Rosemary fæddist 1916 og var orðin nokkuð fullorðin þegar hún giftist Charles Brown. Þau eignuðust tvö börn sem voru bæði ung þegar Charles lést 1961. Rosemary syrgði hann mjög en tónskáldin hafa eflaust linað sorgina með tímanum. Hún lést sjálf 2001 og hafði þá unnið hörðum höndum að því í áratugi að skila tónverkunum sem lágu svo á hinum látnu meisturum að þeir gátu ekki legið kyrrir í gröf sinni. Óskandi að þeir geti það núna.

Silja Aðalsteinsdóttir