SvartalognVestfirðir taka ekki elskulega á móti Flóru (Elva Ósk Ólafsdóttir) þegar hún kemur þangað, lífsleið og buguð, til að mála hús tengdaforeldra dóttur sinnar. Verkið er leikgerð Melkorku Teklu Ólafsdóttur á skáldsögunni Svartalogni Kristínar Marju Baldursdóttur og var frumsýnt á stóra sviði Þjóðleikhússins í gærkvöldi. Flóra kemur gangandi til okkar í byrjun leiks eftir dimmum jarðgöngum Gretars Reynissonar með hjólatöskuna sína í eftirdragi og þó að ljós kvikni fyrir ofan hana eitt af öðru ráða þau lítið við myrkrið í göngunum og í opi þeirra á bak við hana ólmast veðurofsinn.

Hvað sjáum við fyrir okkur þegar við hugsum um Vestfirði? Há litrík fjöll, endalaust blátt haf, fríða fossa? Ég hef meira að segja upplifað sjálft svartalognið á Ísafirði. En þessa „túristamynd“ vilja aðstandendur sýningarinnar greinilega forðast. Kalt og dimmt skal umhverfið vera, í takti við hráslagalegt og hart mannlíf. Inn í kuldann og hörkuna kemur Flóra, atvinnulaus og einmana kona. Henni var sagt upp störfum eftir þrjátíu ára dygga þjónustu og hefur ekki tekist að fá nýja vinnu þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Hún er altekin sjálfsvorkunn, finnst lífið búið og lítur í rauninni á vestfirska þorpið eins og snemmbúna gröf.

En hún fær ekki að liggja kyrr í þeirri gröf. Í þorpinu eru konur sem sjá í henni lausnara á alls konar vanda. Þær nota hana, beita henni fyrir sig, hamast í henni eins og veðrið. Og smám saman fer hún að sjá annað en eigin nafla, taka ábyrgð á öðrum en sjálfri sér, annast, þykja vænt um – jafnvel elska – aðstoða, búa í haginn fyrir aðra, skapa. Það reynist vera líf eftir þetta líf.

Leikstjóri er Hilmir Snær Guðnason og hefur valið vel í hlutverk Flóru. Elva Ósk sýnir okkur glæsilega konu sem þó er búin að missa alla trú á sjálfri sér eins og hennar innri djöflar, Hrannar og Irpa (Snorri Engilbertsson og Birgitta Birgisdóttir), spara ekki að útmála fyrir henni. Það er virkilega snjallt af Melkorku að gera persónur úr hugsunum Flóru á þennan hátt og Birgitta og Snorri voru hæfilega meinleg í hlutverkunum. Tónskáldið Petra sem Flóra lyftir til frægðar er leikin af Eddu Arnljótsdóttur sem bjó til marghliða persónu úr hinum vanmetna listamanni. Guðrúnu frænku hennar, týpíska elskulega en ferlega tilætlunarsama kerlingu, leikur Ragnheiður Steindórsdóttir af sannfæringarkrafti.

Flóra fær góða aðstoð við að koma tónverkum Petru á framfæri frá tveim pólskum verkakonum í þorpinu, þeim Joönnu (Snæfríður Ingvarsdóttir) og Ewu (Esther Talía Casey). Það uppgötvast að þær syngja eins og englar og eru meira en fúsar til að taka að sér að syngja lögin hennar Petru við ljóð íslenskra skáldkvenna fyrri alda, fyrst heima og síðan á tónleikaferð. Aðal fyrirstaðan er sambýlismaður Joönnu, Krummi (Hallgrímur Ólafsson), sem brjálast af afbrýðisemi við að horfa á aðra karlmenn horfa á Joönnu syngja. Átökin þeirra á milli gera aðal drama sviðsverksins. Hallgrímur náði vel háskalegu eðli Krumma og Snæfríður var sem sköpuð í hlutverk Joönnu, eins og barin hefði verið úr henni bæði lífslyst og matarlyst. Svo reis hún fallega upp í söngnum. Þær Snæfríður og Ester Talía töluðu pólsku eins og ekkert væri og pólski hreimurinn á íslenskunni þeirra var sannfærandi. Þá er ógetið tveggja góðra karla í verkinu, Jóhannesar verkstjóra og Marteins góðkunningja Flóru sem voru skemmtilega skapaðir af Pálma Gestssyni og Baldri Trausta Hreinssyni á sviðinu.

Tónlistin skiptir miklu máli í sýningunni og hún var afar áheyrileg. Lögin sem Markéta Irglová og Sturla Mio Þórisson sömdu við ljóð Ólafar frá Hlöðum, Guðfinnu frá Hömrum og Ólínu Andrésdóttur voru falleg, en var það bara í eyrunum á mér sem „Tárin“, við vísu Ólafar, hljómuðu furðulega lík Lindinni vinsælu („Ó, hve gott á lítil lind“)? Hljóðmynd þeirra Elvars Geirs Sævarssonar og Arons Þórs Arnarssonar var mikil og voldug eins og hæfði sviðinu og bragnum á sýningunni.

Svið Gretars hefur sitt hlutverk sem það rækir af samviskusemi – að sýna hryssinginn sem mætir aðkomukonu um hávetur. En það verður ansi erfitt þegar líður á sýninguna. Eitt er hvað það er vítt og tómt og svart, hvort sem við erum í vetrarveðrum í þorpinu eða glæsihótelum í útlöndum; annað er hvað það fer illa með hljóðin. Stundum var verulega erfitt að heyra orðaskil vegna bergmáls í þessum víða helli, einkum ef fólk hækkaði röddina – ég tala nú ekki um þegar það æsti sig og öskraði. Einn hápunktur sýningarinnar, lokaátök þeirra Krumma og Joönnu, fóru nánast forgörðum vegna þessa – þó að vitanlega gæti maður ímyndað sér hvað þau væru að segja. Það er heldur ekki einfalt að lýsa svona svið. Halldór Örn Óskarsson þarf að beita hliðarlýsingu sem kemur svolítið með höppum og glöppum þegar dyr opnast á hellinum og oft hefði ég þurft meira ljós til að njóta leiksins. Því það er efnið og leikurinn sem eru best við þessa sýningu sem kemur okkur öllum við.

Silja Aðalsteinsdóttir