Í Tjarnarbíó má nú fylgjast með tveim stúlkum úr Hreyfiþróunarsamsteypunni, Katrínu Gunnarsdóttur og Melkorku Sigríði Magnúsdóttur, dansa eigið sköpunarverk sem þær kalla Coming Up. Myndin á prógramminu sýnir tvær stelpur rekast saman í háu stökki, þær eru í dæmigerðum fatnaði stelpna á aldrinum 7-11 ára, buxum og peysum, ekkert „fínar“, hvað þá „dansmeyjarlegar“.
Þannig eru þær líka í sýningunni, óhátíðlega búnar og sýna með öllum gerðum sínum að það sem við erum að horfa á er leikur. Stelpuleikur sem verður til um leið og við erum að horfa á þær. Þær merkja sér sviðið með límbandi, búa fyrst til ferning á miðju gólfi, bæta svo við örvum og strikum sem þær taka svo mið af í leiknum. Til hliðar eru græjurnar sem þær nota, hljóðfæri, segulband og slíkt, snyrtilega komið fyrir á einum stað. Svo fara þær að spinna sinn dans„leik“, niðursokknar, hugfangnar af eigin ímyndunarafli, hlýðnum líkama og margvíslegum hæfileikum sínum. Þáttur Griegs á hljómborð og klarinett var alveg dásamlegur. Ég varð beinlínis stelpukrakki á ný við að horfa á þær, minntist þess með ánægju hvernig maður gat fullkomlega gleymt sér í leik – jafnvel þótt stundum slægi í brýnu milli „leikenda“ eins og gerðist líka í sýningunni – og það væri erfitt að verða alveg samtaka nema á einstaka stundum.
Þær Katrín og Melkorka eru einstaklega aðlaðandi dansarar og fjölhæfar. Coming Up er kannski ekki viðamikið verk en það er sniðugt og skemmtilegt. Dönsurunum til aðstoðar voru Símon Birgisson dramatúrg, Þyrí Huld Árnadóttir sem sá um útlit, Baldvin Þór Magnússon sem sá um hljóðmynd og Garðar Borgþórsson sem hannaði lýsingu.