Þeir sem sáu rómaða sýningu Leikfélags Reykjavíkur á Fjalla-Eyvindi Jóhanns Sigurjónssonar fyrir nokkrum áratugum á viðamiklu, natúralísku sviði Steinþórs Sigurðssonar með hátimbruðum baðstofum, fjöllum sínum og jöklum eiga eflaust bágt með að ímynda sér þetta sama verk á þröngu, nöktu verksmiðjugólfi þar sem engir litir lífga umhverfið og engin hjálpartæki er að sjá önnur en einn gamlan vask, fjóra leslampa, þrjá svarta eldhúskolla og fáeinar lyppur af lopa. En einmitt þá kemur í ljós hvers textinn er megnugur. Í einni sjónhending getur hann flutt okkur aftur í aldir, inn á myndarbýli ekkjunnar Höllu, upp á fjöll á flótta undan Birni hreppstjóra, í fagran faðm útilegumannadalsins og að lokum inn í kofa til þeirra Eyvindar og Höllu þegar óveðrið lemur hann utan og sulturinn sverfur að.

Fjalla-EyvindurOrð er allt sem þarf. En uppsetning Mörtu Nordal leikstjóra og leikhópsins Aldrei óstelandi á minnsta sviði Norðurpólsins er líka bæði frumleg og vönduð þannig að bæði rómantísk ljóðræna og fegurð verksins og rómantísk grimmd þess njóta sín ótrúlega vel þrátt fyrir þrengslin. Marta og hljóðmyndarhönnuður hennar, Elísabet Indra Ragnarsdóttir, beita því óvænta bragði að flétta útvarpsupptöku á áðurnefndri sýningu Leikfélagsins á verkinu inn í sýninguna sína til að stækka ramma hennar og það tekst furðulega vel, auk þess sem það bætir óvæntri kómík inn í allt dramað. Í stað þess að herma eftir raunveruleikanum við þessar óraunverulegu aðstæður notar Marta ólík hreyfimunstur til að tákna vinnu, leik, ferðalög og ástaleiki, og þessi munstur voru allt frá því að vera fyndin og fjörug eins og ameríski sveitadansinn upp í að vera töfrandi fögur eins og stolin unaðsstund Eyvindar og Höllu.

Allir Íslendingar þekkja söguna af Eyvindi, stelsjúka piltinum sem heillaði ríku ekkjuna Höllu svo mjög að hún kaus að fara með honum inn á óbyggðir þegar átti að hneppa hann í fangelsi. Þar hýrðust þau í áratugi við illan kost, hundelt af byggðamönnum, og enn eru okkur sýnd ummerki um bústaði þeirra á hálendinu, til dæmis á Hveravöllum, í Herðubreiðarlindum og Hvannalindum. Í meðförum Jóhanns Sigurjónssonar verður þetta ekki bara spennusaga um snillinga sem leika á yfirvöld og sleppa undan hrammi þeirra aftur og aftur heldur líka og fyrst og fremst saga um lífsskilyrði ástarinnar. Saga af því hvernig hún kviknar og þróast, nærist á gleði en líka á háska og spennu en veslast upp með líkamanum í einsemd og hungri. Mann langar að andmæla kröftuglega svardögum þeirra í lokin, æpa á móti afneitunum þeirra á ást sinni og minna þau á hvað hún hafi verið sterk og fögur, segja þeim að þau megi ekki eyðileggja það sem þau hafi átt þó að þau eigi það ekki lengur.

Í leikriti Jóhanns eru fjölmargar persónur eins og við erum minnt á í útvarpsupptökunni í byrjun, en í þessari uppsetningu eru þær bara fjórar, enda er verkið mikið stytt og tálgað að kjarna sínum. Það kemur í ljós að við þurfum ekki meira þegar vel er skipað í hlutverkin. Hlutverk Björns hreppstjóra (Valdimar Örn Flygenring) og Arnesar (Bjartur Guðmundsson) eru lítil en brýnt að skila þeim á sannfærandi hátt, einkum Arnesar, félagans á fjöllunum sem lætur reyna á ást Höllu. Þar komst allt til skila. Mestu skiptir þó að við lifum okkur inn í samband Eyvindar og Höllu, og þar vantaði heldur ekkert upp á. Guðmundur Ingi Þorvaldsson er Eyvindur, glæsilegur karlmaður, heitur og ástríðufullur sem skiljanlegt er að Halla Eddu Bjargar Eyjólfsdóttur heillist af þegar hann beitir töfrum sínum á hana. Og hún er kona sem gefur ekkert hálft. Þegar henni mistekst að bjarga Eyvindi með því að lofast Birni hreppstjóra þá flýr hún með honum til fjalla og lítur aldrei til baka.

Halla er auðvitað aðalpersóna leikritsins þó að það heiti eftir Eyvindi og engin kvenpersóna íslenskra leikbókmennta kemst nálægt henni að skapstyrk, þokka og tryggð. Það var yndi að sjá Eddu Björgu glíma við þetta stóra dramatíska hlutverk sem er svo ólíkt því sem hún hefur áður gert á sviði og sjá hana vaxa með því í þessu algera návígi salarins. Allur fer hópurinn einstaklega vel með makalausan texta Jóhanns og af djúpri einlægni. Þessi sýning er alger perla.

Silja Aðalsteinsdóttir