Hugmynd Sigrúnar Eldjárn að bókunum um Kugg eru eiginlega á heimsmælikvarða. Bara það að láta sér detta í hug vinahóp sem samanstendur af einum strákling, smáveru með ofurkraft, sprækri kerlingu og miðaldra dóttur hennar, sem líka er hugmyndaríkur uppfinningamaður, er svo galin að hún hlýtur að virka. Enda hefur hún virkað árum saman í bókaflokknum og gerir ekki síður nú í leikhúsinu.

Kuggur og leikhúsvélin

Kuggur og leikhúsvélin

Í Kúlunni í Þjóðleikhúsinu fær Málfríður (Edda Arnljótsdóttir) þessa dagana að finna upp og prófa á lifandi fólki bráðsnjalla leikhúsvél, stóra og litríka. Til öryggis lætur hún Mosa prófa hana fyrst af því að honum verður aldrei meint af neinu en næstur fær Kuggur (Gunnar Hrafn Kristjánsson) að stinga sér inn í vélina. Það varð aldeilis gleði í húsinu þegar hann kom út þaðan sem sjálfur Lilli klifurmús og söng vísurnar hans (svolítið afbakaðar) sem allir krakkar kunna. Næst fer mamma Málfríðar (Ragnheiður Steindórsdóttir) inn í vélina og kemur út sem blýantur! Málfríður hefur ekki áhuga á svo frumstæðu verkfæri en kynnir nú fyrir leikhúsgestum aðra uppfinningu sína, forláta tölvuteiknivél og spreyta bæði Kuggur og mamma Málfríðar sig á að teikna tölvuskrímsli á hana. En þegar Málfríður ætlar að prenta út myndina hans Kuggs af skrímslinu reynist tæknin vera svo fullkomin hjá henni að sjálft skrímslið stekkur út úr vélinni! Þá varð nú að minnsta kosti einum fjögurra ára svolítið brugðið en ekki rak hann samt upp hljóð, baðaði bara út öllum öngum í sönnum æsingi.

Málfríður er eins og fjörugur krakki að því leyti að hún unir sér ekki lengi við neitt. Næst breytir hún leikhúsvélinni sinni í geimflaug og flýgur með Kugg og mömmu sína út í víðáttur himingeimsins. Þau lenda á fjarlægri stjörnu þar sem þau hitta eina furðuveruna enn, fimmarma geimveru sem verður svona yfir sig hrifin af pilsi Málfríðar að hún rænir því utan af henni. Þegar Málfríður stendur eftir á brókinni (mjög fínni brók með heklaðri blúndu) er komið mál til að drífa sig aftur til jarðar og það gera þau.

Leikararnir voru prýðilegir, allir þrír (eða hvað þeir voru margir), en Gunnar Hrafn hlýtur þó að fá aukahrós fyrir að vera jafnöruggur í tali, söng og hreyfingum og reynsluboltarnir sem voru með honum á sviðinu. Félögum mínum fjögra og sjö ára fannst báðum rosalega gaman að sýningunni en þeim fjögra ára fannst þó merkilegast að komast að því að við séum öll með leikhúsvél í höfðinu. Þetta fullyrðir Málfríður og honum fannst það blasa við. Heilaleikhúsvél – hún er mikið þing.

Þórhallur Sigurðsson stýrir þessari skemmtilegu sýningu sem ber líka hans merki, áreynslulaus, fyndin, hæfilega háskaleg. Stóra rós eiga líka aðrir aðstandendur skilið að fá, einkum Högni Sigurþórsson fyrir leikmyndina, vélina fínu sem tekur svona auðveldlega myndbreytingum, Kristinn Gauti Einarsson fyrir músíkina, Leila Arge fyrir búningana og Guðrún Erla Sigurbjarnardóttir fyrir leikgervin. Vel unnið verk.

Silja Aðalsteinsdóttir