Byrjunin á sýningunni á Sjálfstæðu fólki í Þjóðleikhúsinu er bæði snjöll og áhrifarík. Þó sést í útgefinni leikgerð að handritshöfundar hafa ekki ætlað að láta sýninguna byrja svona. Hugmyndin hefur komið seint til. Ung hjón standa fyrir miðju framsviði, þögul, hlið við hlið, en í stúkunni til hliðar sitja roskin hjón, mun glæsilegar búin en brúðhjónin. Svo stendur frúin upp og heldur hjartnæma ræðu yfir ungu hjónunum, ræðu um heilagar skyldur þeirra við föðurlandið og guð, göfugt hlutverk bóndans og hið fullkomna líf í náttúrunni. Í næsta atriði sjáum við svo kjörin sem hinum ungu hjónum eru búin á kotbýli uppi í heiði, þar sem draugarnir Kólumkilli og Gunnvör hafa ríkt um aldir. Þetta býli nefnir ungi bóndinn Sumarhús í sigurvímu sinni. Hvaða möguleika eiga þau á fullkomnu lífi, jafnvel þó að þeim takist að „eignast“ þessa svonefndu jörð og verða „sjálfstætt fólk“?

Sjálfstætt fólkSú sem talar er auðvitað Rauðsmýrarmaddaman (Tinna Gunnlaugsdóttir) og þau sem hún heldur sína hjartnæmu ræðu yfir eru hjú hennar til margra ára, Bjartur (Atli Rafn Sigurðarson) og Rósa (Vigdís Hrefna Pálsdóttir). Hann hefur þjónað Rauðsmýrarhjónum í átján ár til að geta keypt sér kot, hún mun skemur en á móti kemur að hún gengur með barnabarn hjónanna. Engir vita það þó á þeirri stundu nema Rósa sjálf, frúin og barnsfaðirinn, Ingólfur Arnarson Jónsson (Stefán Hallur Stefánsson). Það verður litlu fjölskyldunni örlagaríkt að Bjartur er leyndur þunganum. Þegar Rósa eignast barnið er Bjartur víðsfjarri í eftirleit, því „hans barn“ kemur ekki fyrr en á þorra. Einn hápunktur sýningarinnar er þegar þetta tvennt, þjáning móðurinnar sem fæðir barn sitt alein í guðsvoluðu koti fjarri mannabyggð, og trylltur dans kotbóndans við villta náttúruna, fléttast saman, svo snilldarlega að maður situr alveg geðklofinn og reynir að hafa augun alls staðar.

Rósa lifir eldraunina ekki af en lúsug tíkin sem Bjartur skildi eftir konu sinni til halds og trausts bjargar nýburanum. Bjartur þarf kvenmann og kvænist Finnu (Lilja Nótt Þórarinsdóttir) sem verður stjúpa Ástu Sóllilju (Elma Stefanía Ágústsdóttir) og elur Bjarti ótal börn í viðbót. Flest enda í kirkjugarðinum á Útirauðsmýri en upp komast þrír drengir, Helgi (Þórir Sæmundsson), Gvendur (Snorri Engilbertsson) og Nonni (Arnmundur Ernst Backman). Á bænum er líka Hallbera gamla, móðir Finnu (Guðrún S. Gísladóttir).

Bjartur hefur komið sér upp harðri skel á langri stritsamri ævi en við finnum að honum þótti vænt um Rósu þrátt fyrir svik hennar og ennþá vænna þykir honum um barnungann. Það verður honum áfall að finna til girndar til Ástu Sóllilju í fyrstu ferð hennar út í heiminn en hún er lífsblómið hans og hann ætlar að reisa henni hús. Ekki byggir maður án peninga og hann yfirgefur Sumarhús til að komast í launavinnu en ræður kennara (Ólafur Egill Egilsson) til að hafa eftirlit með krökkunum heima í Sumarhúsum. Ásta Sóllilja er þá fimmtán ára, ókunnandi um alla hluti og varnarlaus. Kennarinn nauðgar henni og barnar hana og þegar Bjartur kemst að því að hún er barnshafandi afneitar hann henni og rekur hana burt. Þau hittast ekki aftur fyrr en öllu er lokið fyrir Bjarti, Sumarhús horfin í skuldahítina og hið eftirsóknarverða sjálfstæði þar með, flóttinn hafinn enn lengra inn á heiðina í gamla kotið hennar Hallberu og Ásta Sóllilja sjálf dauðveik af berklum.

Sjálfstætt fólk er róttæk saga. Sagan um manninn sem hefur svo brenglaðar hugmyndir um sjálfstæði að hann sér ekki að samtakamáttur hinna verst settu er eina leiðin til lífs. Ekkert vill hann þiggja af öðrum, ekki einu sinni þótt hann eigi það fyllilega inni eftir sitt eigið framlag, þess vegna deyr allt í kringum hann. Halldór Laxness er að benda okkur á að við komumst ekki af nema hjálpa hvert öðru. Sýning Þorleifs Arnar Arnarssonar og liðsmanna hans hefur þennan kjarna bókar að leiðarljósi og dregur síst úr pólitískum boðskap verksins. Ótal snjallar hugmyndir, stórar og smáar, eru nýttar til að framkalla hann og tengja þessa áttræðu skáldsögu við samtíma okkar. Stundum er farið út fyrir texta sögunnar, en í heildina er rödd Halldórs Kiljans blessunarlega ríkjandi. Svið Vytautas Narbutas er blanda af grjóthlöðnum fangelsismúr og hrikalegum fjallahring. Nútíminn í verkinu er svo táknaður með ögrandi veggjakroti á miðjum múrnum þar sem segir að Kólumkilli hafi verið hér. Búningar Filippíu I. Elísdóttur, lýsing Ólafs Ágústs Stefánssonar og tónlist Högna Egilssonar og Guðmundar Óskars Guðmundssonar er allt í fullu samræmi við meginhugsun leikgerðarinnar; allt segir sömu sögu svo hvergi er misræmi.

Sjálfstætt fólk er saga um vonlausa sjálfstæðisbaráttu kotbænda á Íslandi í þúsund ár en hún er líka saga um baráttu kynjanna þessi sömu ár. Og konan verður alltaf undir og böl hennar er ævinlega hennar frjói kroppur. Rósa ætlar sér að lifa af og styrkur hennar kom einstaklega vel fram í fjölbreyttri og dásamlegri túlkun Vigdísar Hrefnu. Finna er þegar brotin manneskja þegar hún kemur í Sumarhús, gefin Bjarti eins og hver annar hlutur af óviðkomandi aðila. En einnig hún berst – fyrir því að börnin hennar fái viðurværi sem þau geta þroskast af. Tap hennar er stórt og kostar hana lífið. Lilja Nótt vakti innilega samúð með persónunni. Ásta Sóllilja fær mikið rúm í skáldsögunni og á þar sína drauma, vonir, þrár og jafnvel djúpa gleði sem ekki er pláss fyrir í leikgerðinni en áfallið þunga sem hún verður fyrir er myndgert með óvæntum hætti og Elma Stefanía lifði sig fallega inn í örlög þessarar harmrænu persónu. Örlagavaldarnir, amman á Rauðsmýri og blóðfaðirinn sem voka yfir lífi stúlkunnar úr fjarlægð, urðu líka skýrar persónur í meðförum Tinnu og Stefáns Halls.

Sjálfur er Bjartur vel skapaður af Atla Rafni sem túlkar háskalega þrjósku þessarar makalausu persónu af einurð og gífurlegri orku. Manni hlýtur að verða hugsað til þess hverju þessi orka hefði getað komið til leiðar ef henni hefði verið beint í réttan farveg. Halldóri Laxness voru örlög íslenska karlmannsins ekki síður hugstæð en konunnar. Hann sýnir í mörgum verka sinna hvernig karlmenn eru eyðilagðir af hörku í uppeldinu svo að þeir geta aldrei sýnt ást og umhyggju á eðlilegan hátt. Hvernig þeir þurfa að upplifa óbærilegar sorgir – ekki síst barnsmissi – til að átta sig á að það sé hægt að vera öðruvísi. Það tekur Bjart óralangan tíma að átta sig, og auðvitað er það um seinan þegar það gerist, en við gleðjumst samt yfir því að hann skuli finna hjarta sitt slá í takt við ást og gleði áður en lýkur.

Þorleifur Örn, handritshöfundar hans, Símon Birgisson, Ólafur Egill og Atli Rafn, leikarar og aðrir sviðslistamenn, hafa unnið stóran sigur á þessu mikla verki og eiga miklar þakkir skildar. Það er enginn hægðarleikur að leikgera þessa 500 blaðsíðna skáldsögu svo að bæði falli í geð þeim sem hafa dáð hana um áratugi og nái til þeirra sem hafa aldrei litið í hana. En hér hefur verið unnið af dirfsku og hugkvæmni samfara ósvikinni virðingu fyrir meistaraverkinu mikla.

Silja Aðalsteinsdóttir