Þær eru býsna ólíkar sýningarnar tvær sem voru frumsýndar í stóru leikhúsunum í gærkvöld og fyrrakvöld, en þær eiga sameiginlegt að vera unnar af fyllstu alúð og ná háum listrænum hæðum. Sýningin í gærkvöld var á stóra sviði Borgarleikhússins á Kirsuberjagarðinum, einu vinsælasta leikriti Tsjekhovs. Leikstjóri var Hilmir Snær Guðnason en þýðingin eftir Jónas Kristjánsson fyrrverandi forstöðumann Árnastofnunar. Það var yndislegt að sjá þá gömlu kempu stíga upp á sviðið í leikslok og taka við lófataki fyrir sitt verk sem stenst vel tímans tönn.

Kirsuberjagarðurinn „Maður man aldrei hvað gerist í þessum Tsjekhov-leikritum af því það gerist „ekki neitt“, og þess vegna er svo skemmtilegt að sjá þau aftur og aftur,“ sagði bóndi minn og fylgdarmaður í hléinu. Það má vel til sanns vegar færa því hér gerast ekki stórir ytri atburðir, engin morð eða önnur ofbeldisverk til dæmis, svo vísað sé í Hreinsun. Ranévskaja (frábærlega leikin af Sigrúnu Eddu Björnsdóttur) kemur ásamt Önju dóttur sinni (Birgitta Birgisdóttir) heim frá París þar sem frúin hefur eytt og spennt öllu sínu fé og er orðin svo skuldug að hún er að missa ættaróðalið. Það var glæsilega skapað á sviði Höllu Gunnarsdóttur, bar merki um gamalgróinn auð og var endalaust augnayndi þótt merki um hnignun væru líka sjáanleg. Lopakhín kaupsýslumaður (Rúnar Freyr Gíslason), nýríkur afkomandi ánauðarbænda á óðalinu, reynir að fá frúna til að horfast í augu við vandann og leigja hluta af jörðinni, hinn undirfagra kirsuberjagarð, undir sumarhúsalóðir. Það myndi bjarga að minnsta kosti í bili, en ef hún tekur ekki frumkvæði verður garðurinn boðinn upp upp í skuldir. Stefið lengi vel er „kirsuberjagarðuinn verður seldur“ og það getur orðið svolítið einhæf tugga. Af hverju hlýðir manneskjan ekki og gerir eitthvað í sínum málum?

Eftir á urðum við félagarnir sammála um að við hefðum ekki áður tekið eins vel eftir efnisatriðinu sem í þessari sýningu varð kjarni hennar, sonarmissi Ranévskaju óðalseiganda. Þessi niðurstaða er í samræmi við þá eindregnu skoðun fylgdarmanns míns að ef það er barnslát í bókmenntaverki þá sé það ófrávíkjanlega aðalatriðið. Þetta veit leikstjóri Kirsuberjagarðsins líka og aðrir aðstandendur hans. Eftir fagnaðarfund Ranévskaju við sitt gamla heimili, uppeldisdótturina Vörju (Ilmur Kristjánsdóttir), Leonid bróður sinn (Þröstur Leó Gunnarsson), Epikhodov skrifstofumann (Valur Freyr Einarsson) og annað starfsfólk óðalsins hittir hún loks kennara sonarins sem dó, stúdentinn Pjotr Sergejvitsj Trofímov (Guðjón Davíð Karlsson), og viðbrögð hennar voru hjartaskerandi. Sorgin verður hin persónulega ástæða fyrir doða Ranévskaju og máttleysi frammi fyrir því að hún er að glata ættaróðalinu. Hún gæti gert ýmislegt því til bjargar – jafnvel annað en afhenda kirsuberjagarðinn undir sumarhús – en í raun og veru vill hún ekki vera á þessum stað. Hún vill losna við hann þó að skynsemin segi henni að þar með glati hún lífsundirstöðu sinni og sinna. Hún getur ekki meir.

Kirsuberjagarðurinn er því ekki eingöngu pólitískt verk um fall fornrar yfirstéttar og rótgróna óvild hennar og ótta við lágstéttina sem er að færast upp í krafti auðs, það hefur líka þennan sterka einstaklingsbundna streng sem snertir mann djúpt þegar unnið er með hann eins fallega og gert er í þessari sýningu. Þar á ofan kemur svo skírskotunin til nútímans, um það að glata ómetanlegum náttúruverðmætum í tilraun til að hífa sig upp úr skuldafeni. Öll þessi atriði komust skýrt til skila í sýningu Borgarleikhússins.

Kirsuberjagarðurinn

En yfirborðsmynd sýningarinnar er sannarlega ekki íþung af boðskap. Hún er litrík og eldfjörug, full af dansi og músík sem flutt er á sviðinu af þremur snillingum (Leifur Jónsson, Óttar Sæmundsen og Sigtryggur Baldursson). Hver persónan af annarri fær sitt sérstaka atriði sem stundum voru átakamikil eins og dans Lopakhíns við Ranévskaju, stundum hrikalega fyndin eins og dans Pjotrs við kjól Önju eða sjónhverfingaatriði Sjarlottu heimiliskennara (Alexía Björg Jóhannesdóttir), stundum hlægilega sorgleg eins og dans Ranévskaju og Símjonovs óðalseiganda (Theodór Júlíusson) og öll framganga Epikhodovs sem ætlaði alveg að kæfa mann úr hlátri hvað eftir annað. Alveg sér á parti voru allar dapurlegu ástarsögurnar þar sem áhuginn er bara á aðra hliðina. Dunjasha stofustúlka (Elma Lísa Gunnarsdóttir) elskar Jasha, einkaþjón Ranévskaju (Hallgrímur Ólafsson), en hann kærir sig ekkert um hana, hallar sér bara að flöskunni og þráir að fara aftur til Parísar. Og af hverju drífur Lopakhín ekki í því að biðja Vörju? Lokaatriðið milli þeirra var svo tragíkómískt að maður vissi ekki hvort maður ætti að hlæja eða háskæla.

Alveg sér stendur svo fulltrúi gamla tímans, þjónninn Firs sem Pétur Einarsson leikur svo vel að undrum sætir. En í lokaatriði hans, einu þekktasta atriði samanlagðra leikbókmenntanna, var ég í fyrsta sinn óánægð með veru tónlistarmannanna á sviðinu. Þar hefði einsemdin átt að ríkja ein.

Kirsuberjagarðurinn er geysilega vel leikin og í alla staði glæsileg sýning sem sýnir vel að harmur og gleði geta verið tvær hliðar á sama peningi.

Silja Aðalsteinsdóttir