Ármann Jakobsson, Aðalheiður Guðmundsdóttir, Ásta Kristín Benediktsdóttir, Jón Yngvi Jóhannsson, Margrét Eggertsdóttir og Sveinn Yngvi Egilsson: Íslenskar bókmenntir: Saga og samhengi.

Hið íslenska bókmenntafélag, 2021. 840 bls. 2 bindi.

Úr Tímariti Máls og menningar, 1. bindi 2023.

[…] menning verður til í því hvernig líkingar eru búnar til á milli hluta, í því hvernig ákveðnar hugsanir eru notaðar til þess að hugsa aðrar. Menning felst í því hvernig ákveðnar myndir virkja ímyndunaraflið, hvaða miðla við notum til að miðla upplifunum okkar. Allar minjar sem við búum til og samböndin sem við tökum þátt í hafa þannig menningarlegar afleiðingar þar sem þau móta hvernig við hugsum um aðrar minjar og önnur tengsl.“

Marilyn Strathern, „Enterprising kinship“

 

Íslenskar bókmenntir: Saga og samhengi.Það er óskrifuð regla að bannað er að biðja kennara um kennsluskrá fyrir upphaf annar. Kennari áskilur sér rétt til að stara á hið ómögulega skjal og efast um allar ákvarðanir fram á síðasta dag. Hvaða höfundar fá að vera með? Hverjir opna námskeiðið, hverjir fylgja á eftir? Hugmyndir hverra fá náinn lestur og hverjar verða einungis hluti af upptalningu og hvatningu til umframlesturs? Hvernig tryggir maður að fræðin, og þá sérstaklega manns eigin forsendur, kæfi ekki kraftinn í skáldskapnum? Kennsluskrár eru menningarpólitísk skjöl. Með því að velja texta til rannsókna og umræðu leggja kennarar mat á hvaða höfundar eigi erindi við nemendur hverju sinni. Jafnframt eru þær dæmi um hversdagslega glímu fræðimanna við bókmenntasögulegar spurningar.

Því varð mér hugsað til þessa ómöguleika kennsluskrárgerðar við lestur nýútgefins yfirlitsrits, Íslenskar bókmenntir: Saga og samhengi. Í tveimur bindum hafa höfundarnir Ármann Jakobsson, Aðalheiður Guðmundsdóttir, Ásta Kristín Benediktsdóttir, Jón Yngvi Jóhannsson, Margrét Eggertsdóttir og Sveinn Yngvi Egilsson búið íslenskri bókmenntasögu nýjan og spennandi búning. Höfundar greina frá íslenskum bókmenntum út frá mörkum ákveðinna tímabila frá landnámi til samtíma með háskólanemendur 21. aldarinnar í huga og taka það fram að „[þ]essi bókmenntasaga er ekki síst ætluð yngri lesendum“ (21).

 

Vönduð umgjörð fyrir nýja lesendur

Eitt leiðarstefið í kraftmikilli umræðu eftir útgáfu síðustu binda Íslenskrar bókmenntasögu árið 2006, var hve vandasamt væri að ræða um staka útgáfu slíks verks þar sem yfirlitsrit væru best rædd í samanburði. Líkt og Benedikt Hjartarson benti á í ritdómi í Lesbókinni þá „hefur hreinlega vantað undirstöðurit er gæti þjónað sem grunnur fyrir endurskoðun á þeirri sögu.“[1] Verkefnið þá eins og nú er krefjandi, enda öllum ljóst að ekki er hægt að ná utan um alla þá höfunda, fræðimenn, ritstjóra, útgefendur, yfirlesara og listamenn sem hafa mótað íslenskar bókmenntir frá upphafi.

Höfundar Íslenskra bókmennta ganga að þeim ómöguleika sem gefnum. Íslenskar bókmenntir I og II er stutt verk. Frá upphafspunkti sínum til samtíma spannar það rétt yfir 800 síður. Til samanburðar greip ég fyrsta bindi af yfirlitsriti í bandarískum bókmenntum, „frá upphafi til 1865“ úr hillunni og er sú útgáfa 1405 blaðsíður og hvert bindi Íslenskrar bókmenntasögu I-V sem gefin var út á árunum 1992–2006 var um 700 síður.[2] En líkt og Gréta Sigríður Einarsdóttir ræddi í umfjöllun um hið nýja rit, Íslenskar bókmenntir, þá hefur umgjörð yfirlitsrita, leturstærð, þyngd bókar og lengd þar með talin, áhrif á viðtökur lesenda, hvað þá notkun í kennslu.[3] Innbyggður lesandi þessa nýja verks eru háskólanemendur 21. aldarinnar og þau eru fjölbreyttur hópur. Sum fædd á Íslandi og önnur ekki, mörg í fullri vinnu samhliða námi, einhver munu hafa kynnst íslenskum bókmenntum í fyrra námi en önnur ekki. Stuttur texti getur verið meira aðlaðandi fyrir fjölbreyttan nemendahóp og best er þegar hann hnitmiðaður og skýr í afstöðu sinni en verra þegar hann fer hratt yfir og lætur það bitna á dýpt. Höfundum er þröngur stakkur sniðinn í þessari nýju útgáfu, sérstaklega þegar litið er til þeirrar þverfræðilegu nálgunar sem beitt er í verkinu og kallar á að höfundar efnis bjóði upp á ólíka túlkunarmöguleika samhliða því að sýna bókmenntir í síbreytilegum miðlum. Af öllum þeim væntingum og tortryggni sem titill líkt og Íslenskar bókmenntir vekur þá hef ég beint mínum að þremur atriðum, að bækurnar; 1) miðli þeirri tilfinningu að lesendur séu þátttakendur í íslenskum bókmenntum, 2) sýni hvernig fræðimenn vinna úr gögnum með ólíkum aðferðum og 3) vísi lesendum á önnur fræðileg skrif.

Íslenskar bókmenntir er einstaklega fallegur gripur. Hönnuðirnir, Snæfríð Þorsteins og Hildigunnur Gunnarsdóttur, vinna með stílhreina umgjörð sem dregur dám af samtíma skandínavískum stíl en umbrotið minnir á þá nálgun höfunda að bókmenntir séu samofnar allri menningu frá handritum til prentunar, tímarita og annarra miðla. Það er til marks um þá góðu vinnu sem höfundar og hönnuðir hafa skilað að verkið ber með sér einkenni spennandi kennslustundar þar sem efni er útskýrt með ýmsum aðferðum bókmenntafræða, nánum lestri, textatengslum og sögulegu yfirliti en jafnframt skiptast mynd og texti á að leiða greininguna. Efnisgreinarnar eru vel skipulagðar og í lok hvers kafla bjóða höfundar upp á örstutta samantekt á helstu atriðum hvers tímabils. Ég sé því fyrir mér að geta brotið upp efnið í kennslu og notað hluta úr köflum ásamt öðru efni á auðveldan hátt. Hönnuðir hafa einnig gefið nægilegt pláss á spássíu fyrir glósur, vangaveltur og túlkun lesenda.

 

Áhrif femínisma og fræðasamfélagsins

Í tíma um samtímabókmenntir í íslensku sem öðru máli í haust rýndum við í inngang Ármanns Jakobssonar og þá ákvörðun að hefja stórvirkið á vísun í Litlu gulu hænuna. Hvaða áhrif hefur það á yfirlitsrit í íslenskum bókmenntum að byrja á umræðu um þýðingar, en Litla gula hænan er þýðing á The Little Red Hen eftir Mary Mapes Dodge sem birtist í tímariti árið 1874 og hafði áður verið „munnleg frásögn móður hennar sem hún einfaldlega ákvað að setja á prent til að fylla dálka tímaritsins“ (17)? Strax í fyrstu efnisgrein setur Ármann tóninn fyrir hvernig höfundahópurinn leitast við að leiða lesendur inn í samtal um fyrirbærið, „íslenskar bókmenntir“ og þá sjálfsævisögulegu bókmenntasögu sem hver og einn lesandi býr yfir. Upphafssagan gefur dæmi um nálgun á bókmenntahugtakinu sem höfundar beita og tekur til munnlegra heimilda sem og ritaðra, þýðinga, tímarita og þeirra oft tilviljanakenndu, en einnig stofnanabundnu, aðstæðna sem gera það að verkum að sögur varðveitast.

Þrátt fyrir að hér sé um stutt rit að ræða má sjá í áherslum þessarar útgáfu viðbragð við kalli ritdómara frá 2006 um sjálfsrýni, aukna áherslu á þýðingar, leikrit, tónlist og kvikmyndir, sem og tortryggni á þjóðríkið sem greiningarramma.[4] Í inngangi er brugðist við því síðastnefnda með því að draga athygli að hverjum þætti titilsins og þá sérstaklega, hvaða virkni þjóðríkið hefur í bókmenntafræðilegu samhengi? Svar yfirlitsrits við þeirri spurningu mun aldrei verða jafn kröftugt og í róttækri fræðigrein en með því að draga fram þversagnir er lesendum bent á að fara dýpra í eigin greiningu. Líkt og Daisy Neijmann bendir á í grein um kennslu íslenskra bókmennta við erlenda háskóla, þá er vandi þeirra sem miðla íslenskum bókmenntum margslunginn en hún spyr: „hvernig kemst maður hjá því að námskeiðið verði að þjóðfræðilegri landkynningu og verkið sem til umfjöllunar er að einhvers konar „túristabæklingi“ eða „heimildabók“?“[5] Daisy dregur fram hvernig virkni hugmynda um samband þjóðernis og bókmenntasögu muni alltaf krefjast þess að kennarar, höfundar og ritstjórar „[takist] á við staðalímyndir og ímyndir af landinu og menningu þess“ og finni skapandi leiðir til að miðla efninu en setji einnig fyrirvara við eigið sjónarhorn.[6]

Til að bregðast við þessum vanda sækja höfundar í aðferðir femínískra fræðimanna sem kenndu okkur á áttunda áratugnum að setja spurningarmerki við hlutleysi fræðilegs sjónarhorns eða „galdur guðs“ (e. god trick).[7] Þetta gera þau með framsetningu textans sem greiningar og hugleiðingar um íslenskar bókmenntir og framtíð þeirra (799–808). Textinn er úrvinnsla hvers höfundar á bókmenntum sem veruleika sem nær út fyrir mörk fræðasviða og lesendur eru hvattir til að nálgast efnið á annan hátt en þann sem höfundarnir hafa valið. „Bókmenntirnar verða skoðaðar eins og vistkerfi […] og eins hlýtur bókmenntasaga ævinlega að fjalla að einhverju leyti um tíðaranda“ (19). Hér eru höfundar skáldverka ekki grunnmiðja umfjöllunarinnar heldur leitast höfundar Íslenskra bókmennta við að greina frá umhverfi og félagskerfum innan ákveðins tímaramma.

Nú kíma líklega flestir sem hafa glímt við að skilgreina hugmyndir eins og „tíðarandi“ en djúp greining á hugmyndastraumum og fræðum er ekki viðfangsefni þessa rits. Í staðinn nota höfundar tímaramma eða upphafsár sem leið til að miðla afstöðu. Sem dæmi hefst fyrsti þáttur Íslenskra bókmennta, „Arfurinn“, árið 453 en ekki við landnám og með því setur Ármann Íslenskar bókmenntir fram sem hluta af mun stærri og flóknari sögu en þjóðríkið nær utan um. Í sama anda leggur Jón Yngvi áherslu á árið 1919 en ekki fullveldisárið 1918 í umfjöllun sinni um bókmenntir í upphafi tuttugustu aldar en samtal þessarar tímaröðunar við hefðbundnari flokkun minnir á sifjafræði heimspekingsins Michels Foucault þar sem söguritunin opinberar eigin forsendur og býður lesandanum að taka þátt í túlkuninni.[8]

Þverfræðilega aðferðafræði má einnig sjá í því hvernig höfundar ritsins hefja oft umræðu sína á innskotssögum sem minna á mannfræðilegar aðferðir, nánar lýsingar á aðstæðum eða persónum sem tengjast umræðu um höfunda hverju sinni. „Anna“ sem býr í „dæmigerðum kaupstað á Íslandi í byrjun árs 1986“ verður í skrifum Ástu Kristínar Benediktsdóttur að skapandi leið til þess að lýsa stemningu níunda áratugarins og þeirri tæknibyltingu sem þá fór fram, ekki síst á sviði menningarmiðlunar (713). Innskotssögurnar eru snarpar, þeim er stillt upp við lýsingu höfunda á þáttum, formi og efnistökum ólíkra verka og virka þannig vel til að setja tóninn fyrir lestur hvers hluta ritsins.

Höfundar stikla á stóru í lýsingum á fræðilegri umræðu um íslenskar bókmenntir, en þar tók ég eftir því hve oft þeir nýttu rýmið til að segja frá rannsóknartækifærum á sínu sviði. Í umfjöllun sinni dregur Aðalheiður til að mynda upp rannsóknarumhverfi miðaldafræða og bendir lesendum á þær spurningar sem enn er ósvarað varðandi mansöngva (223), svo ekki sé minnst á bókmenntir Vestfjarða á fimmtándu og sextándu öld (230). Í umfjöllun um „menningarbyltinguna“ siðaskiptin eða siðbreytinguna dregur Margrét fram hvernig bókmenntir varða leið að flóknari og dýpri heimildum en þeim sem hin opinbera saga byggist á. Hún tekur sem dæmi heilagra meyja kvæði sem hafa lítið verið rannsökuð og eru hluti af bókmenntagrein þar sem skáld héldu áfram að yrkja til Maríu og helgra meyja að siðaskiptum loknum (276). Margrét tekur sálm Hallgríms Péturssonar „Hugbót“ sem dæmi um bókmenntaverk sem tilheyrir ákveðnum sögulegum kvæðaflokki, huggunarkvæði, en sýnir lesendum í gegnum rannsóknir Þórunnar Sigurðardóttur hvernig nýr lestur á flokkun kvæða kallar fram ný sjónarhorn, ný svör við nýjum spurningum (330). Það sama á við í skrifum Sveins Yngva sem ræðir kynjahalla í bókmenntum upplýsingarinnar og vekur athygli á nýstofnuðu félagi um átjándu aldar fræði til að tengja lesendur við samtímarannsóknir (432). Með lýsingum á rannsóknartækifærum og ósvöruðum spurningum er lesendum boðið að taka þátt í því rannsóknarsamfélagi sem íslensk bókmenntasaga rammar inn.

 

Alþjóðlegt fræðasamhengi og vandinn við stórsögur

Tímabil upplýsingarinnar er sérlega mikilvægt í kennslufræðilegu samhengi, ef ekki það allra mikilvægasta fyrir rannsóknir á þekkingarsköpun á mannöld og fræðilega umræðu um bókmenntir. Sveinn Yngvi Egilsson undirstrikar hvernig flokkunarkerfi fræðanna verði að vera í sífelldri endurskoðun og tekur sem dæmi hvernig alþjóðlegar skilgreiningar á nútímanum eins og „árnýöld“ (e. early modern period, 407) henti oft ekki greiningu á íslensku samfélagi og því sé betra að tala um „einkenni eða skilyrði“ sem lifi samhliða öðrum straumum. Í samhengi nútímavæðingar er mikilvægt að taka fram að fræðimenn hafa bent á hve alvarlegt það er að ræða þetta tímabil án þess að tengja það og hugmyndasmiði þess við nýlendusöguna og hið ógnarstóra skipulagskerfi þrælaverslunar sem var grundvöllur nýsköpunar og heimspeki þessa tímabils í Evrópu. Sú saga er ekki hliðarsaga heldur grundvöllur þess að „nútíminn“ var mögulegur. Áhrif heimspekingsins John Locke (1632–1704), sem lagði til grunnhugtök í heimspeki eignarréttar og þróun vestrænna hugmynda um „sjálfið“, kristalla nauðsyn þess að setja þessa sögu í forgrunn. Locke var sjálfur plantekrueigandi á Bahama-eyjum og hagnaðist á þrælaverslun í gegnum fyrirtækið Royal African Company.[9] Það er mikilvægt að kennslubækur sýni höfunda glíma við þá staðreynd að á sama tíma og hann skilgreindi eignarréttinn sem réttmæta útkomu vinnu hins „upplýsta manns“ sem átti að „nýta það sem jörðin hafði upp á að bjóða“ (408) þá tóku hugsuðir eins og hann þátt í að skapa lagalega og heimspekilega umgjörð sem skilyrti „manninn“ við veruhátt Evrópu, eigna, hvítleika, karlmennsku og aðra þætti. Í miðri sögu lýðræðisþróunar í Evrópu og skilgreininga evrópsku upplýsingarinnar á manninum sem pólitískt sjálfstæðri veru voru fyrstu lýðræðishreyfingarnar í Haítí og öðrum nýlendum kveðnar niður.[10]

Saga evrópskra lýðræðishugmynda er samofin nýlendusögu og er hún grunnþáttur í bókmenntasögu Evrópu. Því er nauðsynlegt að yfirlitsrit greiði aðgengi nemenda að rannsóknum á þessum þráðum í íslenskri bókmenntasögu. Um þetta hafa íslenskir fræðimenn fjallað, svo sem Kristín Loftsdóttir, Gísli Pálsson og Jón Yngvi Jóhannsson.[11] Jón Yngvi tekur einmitt upp umræðu um nýlendustefnu í umfjöllun sinni um tímabilið eftir 1919, og ræðir áhrif Edwards Said og bókar hans Orientalism (544) og hugmyndir Benedicts Anderson um ímynduð samfélög (532). Hugsanlega hefði verið sterkara, þó ekki væri nema í kennslufræðilegu samhengi, að taka síðnýlendufræðin einnig til umfjöllunar í öðrum hlutum ritsins sem snúa að bókmenntum á tíma þrælaverslunar og nýlendustefnu. Til merkis um þennan vanda sýna höfundar okkur hversdagsleg dæmi um arfleifð nýlendustefnu á ímyndunarafl og menningu Norðurlanda með rasískri lýsingu Astrid Lindgren á föður Línu langsokks og þann auð sem persónan vinsæla telur sig búa að á eyju í „[hinum miklu höfum]“ (696). Textinn er mikilvægt, sögulegt dæmi um nærveru kynþáttahugmynda í barnabókum Norðurlanda á tuttugustu öld, einnig þeim ástsælustu. En höfundar takast ekki á við þetta dæmi eða setja það í samhengi síðnýlendufræða eða annarra gagnrýnna hugmynda. Án skýrrar afstöðu gefa höfundar sér að lesendur búi að færni til að greina rasisma sem er því miður ekki sjálfgefið og glata tækifæri til þess að beita andrasískum lestri sem er ábyrgðarhluti frammi fyrir þeim fjölbreytta lesendahópi sem þetta rit mætir. Þannig hefði mátt halda áfram þeirri aðferð sem höfundar beita annars staðar í verkinu, að dýpka hugmyndir á milli kafla með því að ræða þær nokkrum sinnum. Líkt og Aðalheiður gerir þegar hún notar hugmyndir Mikhails Bakhtin í umræðu um miðaldabókmenntir og sýnir þannig lesendum (líkt og Helga Kress gerði strax á áttunda áratugnum) bæði hugmyndir Bakhtins og íslenskra miðaldatexta jafnóðum (238).

Hér leyfi ég mér því að hugsa aftur til kennsluskrárinnar og spurninga um hvað kemur fyrst og hvað síðast í umræðu um íslenskar bókmenntir. Hvaða hugmyndir verða leiðarstef, hverjar fylgja á eftir og hvaða áhrif hefur það á lesturinn? Í umfjöllun sinni um alþjóðlegar bókmenntir á Íslandi snýr Jón Yngvi upp á grundvallarspurningu ritsins og spyr „hvar eru íslenskar bókmenntir? Í upphafi tuttugustu aldar áttu þær sér þrjár höfuðborgir, „Kaupmannahöfn, Reykjavík og Winnipeg“, þrjá meginstaði sem kallast á við öll önnur svæði þar sem íslenskar bókmenntir þrífast (532). Með því að sýna hvernig textar kallast á yfir hafið staðsetur Jón Yngvi íslenskar bókmenntir í samtali um vald, staði, fólksflutninga og bókmenntir, og varpar ljósi á þá miklu bókmenntasögu sem má finna í tímaritum Vestur-Íslendinga, líkt og má sjá í umfjöllun um skáldsögu Jóhanns M. Bjarnasonar Brasilíufararnir. Samanburður á höfundum í þessum höfuðborgum, og víðar, opnar fyrir marglaga frásögn um fyrirbærið íslenskar bókmenntir í alþjóðlegu samhengi.

Jón Yngvi dregur líka fram sögulega vídd fyrir samtímaumræðu um vanda íslenskunnar og nefnir þar sérstaklega Vorið Hlær (1938) eftir Þórunni Elfu Magnúsdóttur til að sýna kraft ungra kvenhöfunda og afstöðu þeirra til íslensku sem lifandi tungumáls í stöðugri mótun (594). Kafli Ástu Kristínar „Á fleygiferð inn í framtíðina“ fær síðan það hlutverk að skrásetja endurskoðun á heimspeki og framfarahugsun Evrópu og tengsl bókmennta við nýja miðla frá 1968 og til dagsins í dag. Ekki lítið verkefni það. Þannig lendir þyngst á hennar kafla að halda utan um arfleifð nútímavæðingar í bókmenntum, svo sem tengsl hugmynda um mannöld (e. anthropocene) við loftslagsvá, kraft hinsegin fræða og lestur í víðum skilningi þess orðs. Ásta Kristín staðsetur Svövu Jakobsdóttur rækilega fremst í umfjöllun um módernisma en sneiðir hjá kviksyndi átaka um skilgreiningar á módernisma og póstmódernisma. Sú afstaða kallast á við fræðileg átök um fyrrnefnd hugtök, því eins og fræðimenn hafa bent á þá eiga rof, uppbrot, efasemdir um arfleifð nútímans og framfarahyggju í skáldskap sér lengri alþjóðlega sögu en Evrópu tuttugustu aldarinnar.[12] Lýsing Ástu Kristínar á höfundareinkennum Svövu Jakobsdóttur, Ástu Sigurðardóttur og Nínu Bjarkar Árnadóttur (664–447), sem gera misskiptingu sýnilega með tækjum skáldskaparins, sýnir vel enn aðra vídd í úrvinnslu höfunda ritsins á bókmenntakerfi sem aðferð til að greina verk samtímans. Í Íslenskum bókmenntum draga höfundar fram þær efnislegu aðstæður og þá minna sýnilegu þætti sem valda því að bækur rata til lesenda, svo sem laun, ritstjórn, tengslanet, tungumálanám, yfirlestur, barnapössun, tækifæri til náms, húsnæði, útgefendur, vini, lesendahóp og miðla.[13] Bókmenntakerfið nær vítt og breitt og hvetur lesandann til að kafa á dýptina.

 

Við viljum meira

Hér kem ég að lokum aftur að væntingunum þremur. Íslenskar bókmenntir er grípandi lestur, ritið býður lesendum til þátttöku í íslenskum bókmenntum, sýnir aðferðafræði og áherslur höfunda. Ritið uppfyllir þó ekki fyllilega væntingar er kemur að því að benda á önnur fræðileg skrif og því væri ég ekki sannur unnandi formsins ef ég kallaði ekki eftir viðauka við ritið til stuðnings fyrir nemendur og aðra lesendur sem hafa áhuga á ítarefni við það góða efni sem ritið vísar þegar til. Á tímum internetsins er vefurinn kannski betra heimili fyrir hefðbundnari bókmenntasögurit með allt-að-því tæmandi yfirlit yfir bókmenntir og bókmenntafræði. Vefsafn gæti jafnvel mætt þessum væntingum og hýst lista yfir þær rannsóknir á íslenskum bókmenntum sem fara fram við alþjóðlega háskóla, hér á landi, meðal sjálfstætt starfandi fræðimanna og víðar. Líkt og Ásta Kristín Benediktsdóttir dregur fram í lok Íslenskra bókmennta er aðgengi allra að íslenskum bókmenntum, og þá sérstaklega höfunda og lesenda sem eru af erlendu bergi brotin, stóra verkefni okkar allra. „Íslenskar bókmenntir eru ekki bundnar við Ísland eða íslenskt þjóðerni,“ segir Ásta Kristín réttilega, þær eru kraftur sem verður að smjúga í gegnum og yfir flokkunarkerfi og úr greipum okkar sem fjöllum um þær á fræðilegan hátt. Þær eru alltaf leiðarstefið og við, í sífellt víkkandi skilningi þess orðs, erum svo heppin að fá að lifa með þeim.

 

Sólveig Ásta Sigurðardóttir

 

Tilvísanir

[1] Benedikt Hjartarson, „Hvernig hugsum við íslenska bókmenntasögu?“, Lesbók Morgunblaðsins, 4. nóvember 2006.

[2] Susan Bleasco and Linck Johnson, The Bedford Anthology of American Literature: Volume One: Beginnings to 1865, New York: Bedford St. Martin, 2008.

[3] Gréta Sigríður Einarsdóttir, „Enn einn steinninn í vörðu bókmenntasögunnar.“ Rúv, 12. mars 2023.

[4] Birna Bjarnadóttir, „Af reykvísku vatíkani“, Lesbók Morgunblaðsins, 4. nóvember, 2006, bls. 4–5.

[5] Daisy Neijmann, „Að skrifa Ísland inn í umheiminn“, Ritið 2–3/2007, bls. 244.

[6] Daisy Neijmann, „Að skrifa Ísland inn í umheiminn“, bls. 244.

[7] Donna Haraway, „Situated Knowledges. The Science Question in Feminism and the Privilege of Partial Perspective“, Feminist Studies 3/1998, bls. 575–599; Sjá Úlfhildur Dagsdóttir, Sæborgin: stefnumót líkama og tækni í ævintýri og veruleika, Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2011; Þýðing á hugtaki Haraway, „god trick“ er eftir Sigrúnu Ástríði Eiríksdóttur og fengin úr grein Sandra Harding, „Sterkari hlutlægni fyrir grasrótarvísindi“, Ritið 3/2016, þýðandi Sigrún Ástríður Eiríksdóttir, bls. 145–178.

[8] Joan W. Scott, „Sagnritun sem gagnrýni”, Ritið 1/2008, þýðing María Bjarkadóttir 2008, bls. 175.

[9] Sjá t.d. Johan Höglund og Linda Andersson Burnett, Introduction: „Nordic Colonialism and Scandinavian Studies“, Scandinavian Studies 91/1–2/2019 og Imani Perry, Vexy Thing: On Gender and Liberation, Durham: Duke University Press, 2018.

[10] Jean Casimir, The Haitians: A Decolonial History, þýðing Laurent Dubois, 2020; Susan F. Buck-Morss, Hegel, Haiti, and Universal History, 2005; Laurent Dubois, A Colony of Citizens: Revolution and Slave Emancipation in the French Caribbean, 1787-1804, Omohundro Institute of Early American History and Culture, North Carolina Press, 2012.

[11] Kristín Loftsdóttir, „Þriðji sonur Nóa: Íslenskar ímyndir Afríku á miðöldum“, Saga XLIV: 1(2006) bls. 123–151; Gísli Pálsson, Hans Jónatan: Maðurinn sem stal sjálfum sér, Reykjavík: Mál og menning, 2014; Jón Yngvi Jóhannsson, „Af reiðum Íslendingum: Deilur um Nýlendusýninguna 1905“, Þjóðerni í Þúsund ár?, Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2003.

[12] Barbara Christian, „A Race for Theory,“ Feminist Studies 14/1988, bls. 67–79

[13] Ana Stanićević, „Um tilurð hnatta og handsaumaðra útgáfna: Stærstu spurningarnar og minnstu forlögin“, Ritið 2/2020, (2), bls. 185–214.