Gamli róttæklingurinn í mér er vel nærður eftir þessa helgi. Fyrir utan fimmtu sinfóníu Sjostakovitsj sem þykir ansi róttæk og Hertu Müller og Ingo Schulze sem töluðu af eigin reynslu um líf undir harðstjórn á Bókmenntahátíð í Reykjavík sá ég Zombíljóðin í Borgarleikhúsinu á föstudagskvöldið, “alvöru gagnrýnið samtímaverk” eins og segir í leikskrá, og Ge9n, kvikmynd Hauks Más Helgasonar um níumenningana, í gær. Verkin eru ekki aðeins skyld heldur býsna lík í aðferð sinni til að ná til áhorfenda.

ZombíljóðinAðferðin er einföld: að láta hvern þátttakanda koma fram og flytja eintal, tala beint við áhorfandann. Inn á milli koma svo öðruvísi atriði, í Zombíljóðunum voru þau til að létta stemninguna og til að hvíla fyrir næsta eintal, í Ge9n voru þau til upplýsingar um atburðarásina sem leiddi til ákæru þeirra níu, klipp úr og umræður um myndbandið af átökunum í Alþingishúsinu og mótmælin fyrir utan Héraðsdóm meðan réttarhöldin stóðu yfir.

Það er hópurinn Mindgroup sem stendur fyrir Zombíljóðunum, þessi frumlegi og frábæri hópur sem áður hefur fært okkur leikverkin minnisstæðu Þú ert hér og Góðir Íslendingar. Þau voru bæði sýnd á Nýja sviði Borgarleikhússins en Zombíljóðin eru á Litla sviðinu. Sviðsbúnaður er sáraeinfaldur, fyrst og fremst hvít tjöld sem þátttakendur stíga fram fyrir til að flytja okkur boðskap sinn. Og búningar. Í samræmi við titil verksins eru þau sminkuð eins og Frankensteinar og alveg makalaust hvað þetta fallega og fjallmyndarlega fólk, Halldóra Geirharðsdóttir, Hallur Ingólfsson, Jón Atli Jónasson og Jón Páll Eyjólfsson, getur orðið hroðalega ófrýnilegt. Samt er gaman að horfa á þau og hlusta á þau því þetta er fólk sem kann til verka.

Eins og gervin gefa til kynna eru þau lifandi dauð. Zombíar. Þau koma fram fyrir hönd ýmissa aðila sem hafa verið í fréttum í sumar, við heyrum í morðingja, stúlku sem tók skammt af eitruðu amfetamíni, nokkrum þeirra sem lentu í fjöldamorðingjanum mikla í Útey og mörgum fleiri. Og tilgangurinn er að vekja samúð okkar, við erum beðin um að sýna viðbrögð, vera ekki sama. Er hægt að leita til þín? er spurt á hógværan en nærgöngulan hátt.

Textinn er sundurlaus og boðað er í leikskrá að engar tvær sýningar verði eins, en það sem vantar upp á samfellu bæta flytjendur upp með einlægni sinni og krafti. Enn sem fyrr var það Hallur Ingólfsson sem vakti mesta aðdáun mína en félagar hans stóðu honum ekki langt að baki.

Það sem vakti undrun og aðdáun í kvikmyndinni Ge9n var hins vegar kvikmyndatakan og tæknin. Uppstillingarnar á níumenningunum voru fantavel hugsaðar, allt umhverfi var sláandi, hljóðvinnsla góð og ekki að sjá að þetta væri fyrsta kvikmynd Hauks Más. Hitt er annað mál að sumar löngu einræðurnar í myndinni voru óttalegt tuð og hefðu betur verið rækilega klipptar. Aðrir voru andskoti vel máli farnir og til sóma sínum málstað og vil ég þar sérstaklega nefna Steinunni Gunnlaugsdóttur og Snorra Pál Jónsson – auk þess sem það var aukabónus að fá að heyra og sjá Vilborgu Dagbjartsdóttur rifja það upp þegar hún var nítján ára á Austurvelli að mótmæla inngöngunni í NATO og var elt af manni með barefli.

Það er þakkarvert þegar hæfileikafólk leggur hart að sér til að vekja okkur zombíana af okkar dásvefni. Kannski verður ljós …

Silja Aðalsteinsdóttir