Jónas Reynir Gunnarsson: Krossfiskar.
Partus, 2018. 188 bls.
Úr Tímariti Máls og menningar 2. hefti 2019
Jónas Reynir Gunnarsson rauk fram á ritvöllinn með miklum bravúr haustið 2017 þegar hann gaf út þrjár bækur, skáldsöguna Millilendingu og ljóðabækurnar Leiðarvísir um þorp og Stór olíuskip. Margt hefur verið ritað um þessa glæsilegu innkomu og því hef ég ekki mörg orð um það hér.
Haustið 2018 kom út önnur skáldsaga hans, Krossfiskar. Af þessu má vera ljóst að afköst Jónasar eru gríðarleg, hann er duglegur höfundur og hefur sjálfur haft orð á því að hann eigi sér „ekkert líf annað en að skrifa“. [1] Krossfiskar er mjög sérstakt bókmenntaverk, hún er einhver tilraunakenndasta skáldsaga síðasta árs, þar sem tækni og stíl er beitt til þess að skapa dularfulla lestrarupplifun.
Stutt millilending í raunsæinu
Millilending fjallaði um Maríu, 22 ára konu á krossgötum. Í bókinni er brugðið upp mynd af „kvartaldarkrísunni“ sem eilífðarunglingar aldamótakynslóðarinnar standa frammi fyrir þegar þau neyðast til að velja sér braut í lífinu. Sagan var raunsæ og talaði beint til þeirrar kynslóðar sem hún fjallar um. Krossfiskar fjallar einnig um stefnulausan ungan einstakling. Þar með eru líkindi þessara bóka svo gott sem afgreidd, ef undan eru skilin augljós höfundareinkenni eins og stíll og húmor.
Í Krossfiskum er raunsæinu varpað fyrir róða. Sagan segir frá unga iðjuleysingjanum Daníel. Hann er ekki í vinnu, hann er ekki í skóla, hann á fáa vini og gerir sér ekkert til dundurs. Hann býr í íbúð sem mamma hans á og borgar enga leigu, þar sem hann hefur engar tekjur. Þetta stefnuleysi virðist ekki valda honum miklu hugarangri, hann á ekki erfitt með að velja sér braut því hann hefur ekki áhuga á að gera neitt. Daníel er ekki virk söguhetja, hann er á valdi örlaganna. Hann grípur sjaldan til aðgerða og atburðarásin í sögunni stjórnast frekar af tilviljunum og inngripum annarra en af hans eigin ákvörðunum.
Dag einn fær Daníel tvö dularfull símtöl. Annað er frá Tryggva, gömlum skólafélaga, sem ber þungar sakir upp á hann. Hitt er frá lögreglunni, þar sem Daníel er tilkynnt að einhver hafi klesst á bílinn hans. Forvitni lesandans er undir eins vakinn, upphafið er líkt og upphaf á spennusögu: Hvað eiga þessir undarlegu atburðir að fyrirstilla og mun Daníel ná að leysa gátuna?
Sagan hefst á hefðbundnum nótum en fljótlega verður ljóst að heimur sögunnar er talsvert undarlegri og óáreiðanlegri en á horfðist í fyrstu, eitthvað sem maður þekkir út höfundarverkum ekki minni spámanna en til dæmis Paul Auster og Franz Kafka. Lesandinn er ekki fyrr búinn að hreiðra um sig í hefðbundinni frásögn en hann er leiddur á vit hins ókunna og furðulega.
Lesandinn getur hins vegar ekki kvartað yfir því að hann sé ekki varaður við. Fyrsti kafli bókarinnar heitir „Martraðir“ og þar rifjar Daníel upp þegar hann var barn að aldri og ræddi við móður sína um draum sem hann dreymdi. Í draumnum lendir hann í snjóflóði og grefst undir fönn. Innan skamms koma nokkrir bekkjarfélagar hans og Daníel telur að þau ætli að koma sér til bjargar. Krakkarnir koma með skóflur en í stað þess að moka hann út úr skaflinum moka þau meiri snjó ofan á hann og hlæja þegar hann öskrar á hjálp. Daníel lýkur endurlitinu á þessum orðum:
Þegar ég var lítill og hugsaði enn um Guð dreymdi mig Djöfulinn. Þegar ég varð unglingur dreymdi mig geiminn og þegar ég varð eldri bættust við sambandsslit, sjúkdómar og dauðsföll. En hvert sem viðfangsefni draumanna var, þá skynjaði ég alltaf það sama: botnlausan ótta um að allt sem væri til myndi molna niður og hverfa. Stundum komu tímabil þar sem mig hætti alveg að dreyma. Þá var samt ekki eins og martraðirnar hyrfu, það var frekar eins og þær sveimuðu yfir mér. (13)
Daníel dreymir sem sagt yfirleitt mikið og draumar hans eru myrkir og erfiðir. Samt sem áður stafar mest hætta af þeim tímabilum sem hann dreymir lítið, því þá smjúga draumarnir inn í hið daglega líf.
Daníel glímir við svefnleysi og er þess vegna byrjaður að drekka kaffi, sem hann hafði ekki gert áður, til að sigrast á þreytunni. Honum finnst kaffidrykkjan vera áhugaverð persónuleg tilraun: „það var líka notaleg tilhugsun að breyta persónuleika mínum að einhverju leyti. Ég yrði kaffidrykkjumaður.“ (17)
Tilraunin virðist vera að virka, jafnvel einum of vel. Þegar hann fær símtalið undarlega frá Tryggva er hann furðu lostinn. Hann veltir fyrir sér hvort þetta kynni að vera hrekkur eða skakkt númer. Að lokum skýtur öðrum og ískyggilegri möguleika niður í kollinn á honum: að hann sé í raun orðinn annar maður, „eftir að hafa ákveðið þetta með kaffið.“ (20)
Á fyrstu blaðsíðunum er sem sagt margoft ítrekað að sambandið milli þess raunverulega og óraunverulega sé viðkvæmt og óljóst; Daníel á bágt með að greina þarna á milli. Lesandi má því búast við því að eiga í sams konar erfiðleikum og ætti að varast að gera ráð fyrir að nokkur skapaður hlutur sem á sér stað í sögunni sé raunverulegur.
Fegurðin er sár
Í þriðju seríu af bandarísku sjónvarpsþáttunum 30 Rock er þáttur sem nefnist „The Bubble“. Í honum kynnist Liz Lemon, aðalpersóna þáttanna, einstaklega myndarlegum og einhleypum lækni. Hún verður ólm í að klófesta hann, þar sem hann virðist vera draumamaðurinn. Eftir því sem þau kynnast betur kemur hins vegar í ljós að læknirinn fagri er bæði heimskur og lélegur í nánast öllu sem hann tekur sér fyrir hendur. Hann gerir sér samt enga grein fyrir þessu og telur að hann skari fram úr á flestum sviðum, viðbrögð almennings við öllu sem hann gerir eru undantekningarlaust jákvæð, en það er einungis vegna þess að allir hrífast af fegurð hans. Hann lifir því í algjörri loftbólu, þar sem ekkert mótlæti fyrirfinnst. Læknirinn hefur hlotið stærstu forgjöf í lífinu sem hægt er að fá; yfirborðslega fegurð. Fyrir vikið er líf hans auðveldara á flestan hátt en fórnarkostnaðurinn er sá að hann er haldinn ranghugmyndum. Þar sem að 30 Rock er gamanþáttur er þetta að sjálfsögðu sett fram í mjög kómísku ljósi.
Í Krossfiskum er tekist á við skuggalegri hliðar þessa fegurðarvanda. Daníel er mjög fallegur og fólk laðast að honum en ef til vill á yfirborðslegum forsendum og það kynnist honum ekki almennilega. Hann gerir líka ráð fyrir að fólk nálgist hann ekki af einlægni og reisir því varnarmúra í kringum sig.
Ég vildi gera sem minnst úr útliti mínu til að verða ekki hrokafullur, og vandi mig á að koma fram af óöryggi. Það hafði ég gert svo lengi að ég átti orðið erfitt að greina þykjustuóöryggið frá því sem var raunverulegt. (19)
Vegna þessa endist hann illa í ástarsamböndum þrátt fyrir að margar konur sýni honum áhuga. Hann á líka fáa vini. Eina manneskjan sem gæti talist vinur hans er Gunna, miðaldra barþjónn sem hann kynnist í háskólanum.
Daníel og Gunna verða vinir þegar þau vinna að hópverkefni saman, en þá á sér stað berskjöldunaraugnablik. Daníel kemur heim til Gunnu og það er allt í drasli, sem fer í taugarnar á honum. Gunna útskýrir að hún hafi ekki haft tíma til að taka til, hún hefur verið önnum kafin vegna nýlegs skilnaðar og Daníel finnur til með henni. Eins og þessi tilfinningalega opinberun hafi ekki verið nóg, finnur Daníel klámblöð sem sýna konur drekka brjóstamjólk úr hvorri annarri í tímaritastafla og þar með er berskjöldun Gunnu algjör. Upp frá því eru þau vinir.
Þar sem Daníel forðast að opna fyrir sínar tilfinningalegu flóðgáttir eru svona augnablik, þar sem tengslamyndun á sér stað, afar sjaldgæf. Andleg bæling Daníels veldur því að hann dettur úr sambandi við bæði sjálfan sig og annað fólk. Það veldur svo því að hann dettur úr sambandi við raunveruleikann. Eða snýr baki við honum.
„Damn fine cup of coffee“
Jónas Reynir er einkar lunkinn í því að skrifa samtöl. Samtölin í bókum hans eru raunsæ en hafa jafnframt skáldlega vigt, þau afhjúpa iðulega innri mann persónanna. Það er ekki úr vegi að halda því fram að samtölin séu „leikhæf“, stundum minna þau frekar á samtöl úr leikhúsi eða kvikmyndum en í skáldsögu.
Það er ekki um að villast að Jónas Reynir er innblásinn af kvikmyndaforminu, þetta sést greinilega á samtölum en líka á strúktúr og sviðsetningu sögunnar. Krossfiskar er tilraunakennd skáldsaga og það má leita að hliðstæðum í bókmenntaheiminum en það er jafnvel nærtækara að skoða hana í samhengi við tilraunakenndar kvikmyndir. Kvikmyndahöfundar á borð við David Lynch, Luis Buñuel og jafnvel Yorgos Lanthimos koma upp í hugann, leikstjórar sem eru þekktir fyrir að fara ótroðnar slóðir í frásagnarmáta sínum en eru líka meðvitaðir um hefðir miðilsins og frásagnarformgerð. Þess vegna eru myndir þeirra spennandi, dramatískar og áhugaverðar þrátt fyrir að þær séu oft óraunsæjar og órökréttar.
Með því að beita ákveðinni lýsingu, innrömmun eða hljóðmynd geturðu leikið á tilfinningar áhorfenda sem eru læsir á tungumál kvikmyndanna. Áhorfendur skilja til dæmis muninn á ástarsenu og hryllingssenu en með nokkrum vel völdum brögðum er hæglega hægt að gera ástarsenu hryllilega eða hryllingssenu rómantíska og þar með hrista upp í áhorfendum.
Í kaflanum „Þorp“ er Daníel staddur í þorpi sem minnir um margt á bæinn Twin Peaks úr samnefndri sjónvarpsþáttaröð eftir David Lynch. Þarna búa skógarhöggsmenn, fólk hangir á veitingahúsum drekkandi kaffi og draumkennd stemning svífur yfir vötnum.
Twin Peaks er gerð í stíl sápuóperunnar, þar sem allt er mjög kunnuglegt á yfirborðinu þótt sagan sé virkilega óhefðbundin. Þess vegna höfðar Twin Peaks til mjög breiðs áhorfendahóps, líka þeirra sem kunna ekki endilega að meta listræna tilraunastarfsemi, því þótt áhorfandinn sé kannski sviptur rökréttri framvindu er hann ekki svikinn um þá tilfinningalegu upplifun sem hann sækist eftir þegar hann horfir á dramatískt sjónvarpsefni.
Það er eitthvað svipað uppi á teningnum í Krossfiskum, það er brugðið á leik með hefðir skáldskaparins og þær nýttar með óhefðbundnum hætti. Þarna birtist undarlegur bræðingur af mótsagnakenndum minnum og þótt lesendur geti ekki gert sér vonir um að botna í öllu sem á sér stað eru tilfinningalegar upplifanir af spennu, gríni og drama enn til staðar. Lestrarupplifunin er því afar mögnuð.
Lesið og þér munið finna til
Í Krossfiskum er fjallað um stór heimspekileg málefni; drauma, raunveruleika, minningar, Guð og Djöfulinn. Það er erfitt að setja merkimiða á þann skáldskaparstíl sem er við lýði í bókinni, þetta er ekki hreinn og beinn súrrealismi og ekki töfraraunsæi heldur, en hann er einhvers staðar á því rófi.
Þar sem að sagan er dulræn og draumkennd er freistandi að leita að dulmálslykli. Reyna að þræða sig eftir leynistígum sögunnar til að komast inn að miðju völundarhússins þar sem hið eina rétta svar blasir við á risavöxnu ljósaskilti: Þessi bók er ádeila á heilsudýrkun og blætisvæðingu íþróttaiðkunar! Hún fjallar um djöfladýrkendur! Um #metoo! Um unga fólkið og fasteignamarkaðinn!
Þegar allt kemur til alls er slík dulmálslyklaleit bæði óþörf og óspennandi. Verk eftir annan tilraunakenndan höfund, Svövu Jakobsdóttur, hafa verið túlkuð sem allegóríur fyrir víðtæk málefni eins og kvenréttindi en líka afmörkuð málefni eins og hersetu Bandaríkjamanna á Íslandi. Það er vissulega ein möguleg leið til að nálgast verkin en það getur verið takmarkandi, verk hennar standa fyrir sínu án þess að merking þeirra þurfi að vera niðurnjörvuð. Sjálf las ég Leigjandann sem unglingur og fannst hún frábær án þess að hafa heyrt orð um neinar duldar merkingar. Mér fannst þetta bara skrítin og skemmtileg bók.
Krossfiskar er líka skrítin og skemmtileg bók. Hún fer út um víðan völl, vekur upp margar spurningar en veitir ekki afmörkuð svör. Þótt maður sakni þess stundum að fá ekki svörin kemur það ekki endilega að sök, því hér er lestrarupplifunin í fyrirrúmi. Svona skáldskapur er mér einkar vel að skapi og ég vona að Jónas Reynir haldi áfram á þessari tilraunakenndu braut. Hér hefur bókin verið borin saman við ýmiss konar verk en þegar upp er staðið er hún samt einhvern veginn engu öðru lík.
Brynja Hjálmsdóttir
Tilvísanir
1. „Ég á mér ekkert líf annað en að skrifa,“ RÚV Menning, 15. október 2017, sótt 26. febrúar 2019 af http://www.ruv.is/frett/eg-amer-ekkert-lif-annad-en-ad-skrifa