Leikfélag Menntaskólans við Hamrahlíð sýnir nú eigið sköpunarverk, Næsta morð á dagskrá – sagan af því hvernig Gréta hætti að gráta, undir stjórn Helga Gríms Hermannssonar og Tómasar Helga Baldurssonar. Unglingarnir vita að nútíminn hefur ekki áhuga á neinu öðru en glæpamálum og í þessu verki eru morðin þrjú!

Upphaf sögu er að stúlkan Gréta (Kristín Shu Rui Karlsdóttir) flytur til bæjarins Hellu á Rangárvöllum vegna þess að heima hjá sér er hún sígrátandi. Á Hellu kynnist hún strax Nonna sæta (Stefán Nordal) sem ber nafn með rentu og er þar að auki einkar ljúfur piltur sem tekur fúslega að sér að leiða Grétu í allan sannleika um bæinn og kynna hana fyrir vinum sínum og öðru málsmetandi fólki.

Fyrst eru þau leynigestir á húsfundi í blokkinni á Hellu þar sem Stefán húsvörður (Silja Rún Högnadóttir) tekur fyrir helstu mál á dagskrá og leysir þau jafnharðan. Eitt vandamálið er líkfundur sem húsvörðurinn er furðu áhugalaus um. Næst liggur leið Grétu og Nonna út í skemmtiferðaskipið Títanik 2 þar sem helsta skemmtiefnið er ástir Júlíu (Elva María Birgisdóttir) sem heldur við tvíburana Bjarna og Siggu (bæði leikin af undraverðri fimi af Lóu Björgu Finnsdóttur). Júlía er ekki skynsamari en svo að hún lofar sér á deit við báða tvíburana á sama tíma, Bjarna á ítalska veitingastaðnum um borð og Siggu á finnska veitingastaðnum (myndin er af henni). Þetta þýðir að hún þarf að finna alls konar ástæður til að „skreppa“ milli staða en þær duga ekki endalaust … Auðvitað er framið morð um borð sem leynilögreglumaðurinn Halla frá Hallormsstað (Steinunn Lóa Lárusdóttir) fær að glíma við ásamt Bæringi öryggisverði (Baldur Steindórsson).

Lokaþátturinn gerist á Mathöll Hellu þar sem afi Bjarna og Siggu (Lóa Björg enn!) selur lopapeysur, Ástríður með Á-i (Silja Rún) selur landnámshænuegg,  Nissi (Lúkas Nói Ólafsson) selur sælgæti og Gunnar (Sara Isabel Gunnlaugsdóttir Sarabia) heldur kvikmyndahátíð. Þegar enn eitt morð er framið kemur talandi Kústur (Jóna María Hjartadóttir) Jónmundi umsjónarmanni (Tjörvi Gissurarson) að góðu gagni við rannsóknina. Þrátt fyrir morðgleði íbúanna ákveður Gréta að vera áfram á Hellu og á Nonni sæti sjálfsagt drjúgan þátt í því.

Þrátt fyrir mikla atburði eru sögurnar rýrar, eiginlega and-sögur því ekkert verður úr leynilögregluleiknum. Mest af púðrinu fer í að hinar ótalmörgu persónur kynna sig til leiks – og hér hafa aðeins verið taldar fáeinar. En mannlýsingar eru auðvitað göfug list eins og lesa má í Íslendingasögum og efni í mikið sprell eins og sjá má í þessari sýningu. Enda skemmtu krakkarnir sér ákaflega vel og léku af innlifun öll sín hlutverk. Leikstjórarnir hafa áreiðanlega átt fullt í fangi með að hemja sköpunargleðina og gott að þeir voru tveir! Auk þeirra þátttakenda sem þegar hafa verið taldir þarf að nefna Oddnýju Þórarinsdóttur sem var m.a. einlægur Arnar, eineltur í skóla en nú kraftajötunn, Kötlu Pétursdóttur sem var m.a. skeleggt vélmenni, Hrafnar Ísak E. Birgisson sem var m.a. aulinn Adólfur og Aldísi Maríu Einarsdóttur sem m.a. lék hinn blíðmælta Jósep smið. Leikmyndasmiðunum var vandi á höndum, bæði voru sviðin mörg og rýmið í Undirheimum MH afar erfitt en þau leystu verkefnið prýðilega. Það gerðu búningahönnuðirnir líka. Að öllu samanlögðu er þetta hin besta skemmtun.

Silja Aðalsteinsdóttir