Þjóðleikhúsið frumsýndi Kardemommubæinn á sunnudaginn, fullu húsi af fallegum börnum til mikillar kátínu. Selma Björnsdóttir leikstýrði og setti að ýmsu leyti sitt mark á sýninguna, til dæmis voru leikarar ungir, ljónið var póstmódern og las blöðin og dansarnir (sem Birna og Guðfinna Björnsdætur sáu um) krakkalega eróbikklegir. Sviðið hans Brians Pilkingtons er litríkt og fallegt og búningarnir (María Ólafsdóttir) blanda af fatnaði frá sjötta áratugnum og klassískum sígaunastíl. Öllum leið vel á sviðinu eins og vera bar og skemmtu sér stórkostlega.

KardemommubærinnEins og allir Íslendingar yfir fimm ára aldru vita þá gerist sagan í hinni góðu Kardimommuborg, þeirri bestu hér á jörð. Þar er vinsælt yfirvald, Bastían bæjarfógeti (Baldur Trausti Hreinsson), sem öllum vill vel en á svolítið erfitt með að taka erfiðar ákvarðanir. Hann býr við konulán því frú Bastían (Esther Talía Casey) er bæði falleg og góð. Þar er turnbúinn Tobías gamli (Sigurður Sigurjónsson) sem segir borgarbúum á hverjum degi hvað veðrið sé gott. Þar er piparjómfrúin Soffía frænka (Edda Björg Eyjólfsdóttir) sem hefur ekkert betra að gera en ráðskast með Kamillu litlu (Kolbrún María Másdóttir) sem henni hefur af einhverjum orsökum verið trúað fyrir, Þar eru líka nauðsynlegir iðnaðarmenn, rakari (Valur Freyr Einarsson), bakari (Friðrik Friðriksson), pylsugerðarmaður (Ívar Örn Sverrisson) og myndarlegur kaupmaður (Vignir Rafn Valþórsson). Samgöngumálin eru í höndum Syversens sporvagnstjóra (Vigdís Hrefna Pálsdóttir) og ótal borgarbúa í viðbót sjáum við, ekki síst barnaskara sem fyllir sviðið skemmtilega á hinni miklu barna og fjölskylduhátíð sem fyrri hluti verksins snýst um.

Á móti þessum kosmos Kardimommuborgar stillir Thorbjörn Egner kaosi ræningjanna sem búa í útjarði bæjarins. Þaðan fara þeir í ránsferðir inn í borgina til að ná sér í vistir, en þó að yfirvöld viti hvar þá er að finna og hvað þeir hafa gert af sér er ekki hægt að taka þá fasta af því að þeir hafa ljón sér til varnar. Ljónið virðist kannski ekki til stórræðanna en okkur er sagt að það hafi étið stóru tána af einum ræningjanna og það er ekkert gaman að vera étinn þó að litlu leyti sé, eins og Jónatan bendir á. Ræningjarnir eru í traustum höndum þeirra Arnar Árnasonar, Rúnars Freys Gíslasonar og Kjartans Guðjónssonar sem allir nutu þess að fá að leika og syngja þessi ódauðlegu hlutverk.

Uppeldishlutverk verksins í heild er svo fólgið í því að eyða kaos og innlima ræningjana í kosmos Kardimommuborgar, rétt eins og barn er alið upp til að verða að manni. Þeir nást í ránsferð þegar ljónið er illa fjarri og eru settir í fangelsi. Þaðan losna þeir þegar þeim tekst að bjarga hundi og páfagauk Tobíasar gamla úr brennandi turni og slökkva eldinn. Eftir það fá þeir allir sína stöðu í borgarlífinu og allir eru hamingjusamir.

Það er uppselt á Kardimommubæinn næstu mánuði og hlýtur að vera gleðilegt hvað fólk er duglegt að fara í leikhús með börnin sín. Það er líka til fyrirmyndar þegar stórt leikhús setur sína bestu krafta í að leika og syngja fyrir yngstu áhorfendurna.

 

Silja Aðalsteinsdóttir