Skýjasmiðjan sýnir nú í Kúlunni í Þjóðleikhúsinu látbragðs- og brúðuleikinn Fiskabúrið sem er ætlaður börnum frá 18 mánaða til sex ára. Ég fór með einn þriggja ára sem fannst alveg æðislega gaman og annan sex ára, vanan leikhúsmann, sem var stilltari í hrifningu sinni en ánægður þó. Svo langt sem það nær bendir það til þess að leikhúsið hafi skilgreint rétt hvaða aldri verkið hæfir.

Fiskabúrið Þegar sýningin byrjar er barnið að fara að sofa, það býður leikföngunum sínum góða nótt og gefur fiskunum í fiskabúrinu að borða áður en það fer í bólið. Á leiðinni út úr leikherberginu verður barnið fyrir truflun og hendir í fáti pappadúkkunum sem það er með í fanginu ofan í stóran pott á leikfangaeldavél. Það er svo ekkert annað en það að þegar barnið er farið út stíga dúkkurnar aftur upp úr pottinum – og eru þá komnar í fulla líkamsstærð. Þetta á síðan eftir að endurtaka sig aftur og aftur, ef eitthvað fer niður í pottinn þá kemur það aftur upp úr honum margfalt að stærð. Þetta er allt í lagi þegar bolti og bók fara í pottinn en verður svolítið háskalegt þegar einn gullfiskurinn sleppur úr kattarkjafti niður í pottinn og kemur upp á stærð við rostung! Þá varð einstaka ungum leikhúsgesti órótt.

Börn elska endurtekningar og þær eru óspart notaðar í sýningunni, bæði í sambandi við pottinn og svo í löngu atriði um snuð sem var afskaplega fyndið. Barnið í byrjun sýningar kemur snuðinu sínu fyrir í kistu áður en það fer að sofa – það er greinilega að venja sig af snuði. En dúkkubörnin sem bregða á leik eftir að barnið er sofnað finna snuðið og fleiri slík í kistunni og eru fljót að stinga þeim upp í sig. Þá fer ekki betur en svo að snuðin festast uppi í þeim og þarf heilmiklar tilfæringar og hugmyndaríkar aðferðir til að ná þeim út. Eitt dúkkubarnið reynist svo eiga heilan forða af snuðum í öllum vösum svo talsverðan tíma tekur að losa það við þau öll. Þetta fellur í frjóan jarðveg á mörgum barnaheimilum, trúi ég.

Sýningin er mjög falleg, búningar og leikmunir geysilega litríkir og fjölbreyttir. Ekki var síst stóri fiskurinn litfagur og föngulegur. Aldís Davíðsdóttir, Auður Ingólfsdóttir og Stefán Benedikt Vilhelmsson eiga verkið og leika öll hlutverkin af fjöri og fimi með aðstoð Ernu Bjarkar Hallberu Einarsdóttur sviðsmanns. Skýjasmiðjan sér svo að mestu um útlitið sjálf: Aldís á grímur og brúður, þær Aldís og Auður eiga búningana en Stefán hljóðmyndina sem var barnslega einföld og sefandi. Ljósahönnun sá Magnús Arnar Sigurðarson um og spilaði skemmtilega á birtubrigði. Það er óhætt að mæla með þessari sýningu, einkum fyrir yngri börn. Þau eldri sakna kannski texta meira, að minnsta kosti sagði einn í eldri kantinum á bak við mig, hissa og svolítið hneykslaður: „Af hverju segja þau ekkert?“ Ekki væri úr vegi að búa óreynda leikhúsgesti undir orðlausa sýningu og benda þeim á hvað þær geta verið skemmtilegar.

Silja Aðalsteinsdóttir