Guðrún Eva Mínervudóttir. Skaparinn.

Forlagið, Reykjavík, 2008.

Úr Tímariti Máls og menningar 2. hefti 2009.

SkaparinnÍ einu þekktasta prósaverki breskrar rómantíkur segir af vísindamanni sem raðar saman illa fengnum líkamspörtum svo úr verður ný vera, furðuverk sem ögrar viðteknum mörkum um lífræna heild og hið mennska. Í þessa smíð er svo hleypt lífi með rafmagni, aflinu sem strax árið 1818 felur í sér tæknibyltingar nútímans, og lífseigasta táknmynd nútímalegrar firringar er þar með fædd. Nýjasta skáldsaga Guðrúnar Evu Mínervudóttur, Skaparinn, fjallar einnig um eins konar nútímalegan Prómeþeif; athafnamann sem umhugað er um sundraða hluta mannslíkamans, eða öllu heldur kvenlíkamans, og hvernig raða megi pörtunum saman svo útkoman verði sannfærandi; hér er áherslan reyndar einkum lögð á kynþokka. Sveinn er kynlífsdúkkusmiður og, líkt og sjáandinn í skáldsögu Mary Shelley, einfari sem hrakist hefur út á jaðar samfélagsins. Vissulega eru uppfinningar Sveins meinlausari en skrímslið sem Viktor skapaði en skírskotanirnar eru svipaðar, þ.e.a.s. til samfélags þar sem tækniþróun og möguleikarnir sem í henni búa hafa ruglað fólk í ríminu og rót komist á hefðbundin gildi; spurningum er varpað fram um áhrif vísinda á hið mannlega og hvernig einstaklingar geta einangrast í samfélagi þar sem vöruskipti hafa komið í stað náins samneytis manna á milli.

Sveinn hefur lokað sig af í verkstæðisskemmu uppi á Skaga og vinnur að sínum sköpunarverkum fjarri amstri hversdagsins. Hann lifir fyrir vinnuna og líkt og forveri hans á hann til að taka vinnutarnir sem standa yfir dögum saman og skilja hann eftir nær dauða en lífi, útbrunninn eftir átökin við líkamseftirlíkinguna. Verkin sem þá verða til eru sérkennilega mannleg, um er að ræða dúkkur í fullri stærð sem vega hálft hundrað kíló. Þær hafa beinagrind úr stáli og trefjagleri en ytra lagið er gert með sílikoni og storknunarefnum sem framkalla svokallaðan „skinnhjúp“, trúverðuga eftirlíkingu af holdi. Svo bætast við hár, neglur, augu og auðvitað kynfæri („lendingarbúnaðurinn“) en aðferðirnar sem notaðir eru við gerð þessarar sértæku vellíðunarvöru, eins og þeim er lýst í upphafi bókar, sýna svo ekki verður um villst að hugmyndir um virðingu mannslíkamans eiga ekki við: „Sveinn hengdi þá síðustu til þerris, krókurinn gekk inn í hálsinn aftanverðan. Gatið eftir krókinn yrði blessunarlega hulið silkimjúku hári þegar búið væri að setja á þær hausinn. Hann kom fyrir metralöngu priki milli ökklanna; það var mikilvægt að láta þær þorna dálítið glenntar“ (9). Yfir lýsingunni er andblær óhæfu- og myrkraverka og segja má að þessar fyrstu setningar skáldsögunnar kunni að villa eilítið um fyrir lesanda, jafnvel hrella, sem er ekki meðvitaður um að viðföng aðfaranna eru dúkkur. En þannig vilja fyrstu kynni reynast blekkjandi í skáldsögu þessari og gervileiki, jafnt í formi „Goth Chick Alma / Face: Lovely“-dúkkunnar og viðvarandi misskilnings persóna um hlutverk og eðli samferðamanna sinna, er alls ráðandi, reynist jafnvel vera sú gjá sem upphafsorð bókarinnar, ónákvæm tilvísun í Megas, skírskota til: „Lóa Lóa Lóa mig langar svo að byggja til þín brú.“ Skáldsagan lýsir eins konar „brúarsmíðum“ Sveins, fálmkenndum tilraunum hans til að brjótast út úr sjálfskapaðri einangrun sinni og tengjast manneskjum á nýjan leik.

Eiginleg atburðarás skáldsögunnar hefst með sprungnu dekki. Sveinn sér konu bisa við að skipta um dekk á hlaðinu fyrir framan heimili sitt og verkstæði og býður fram hjálp sína. Á dálítið ólíkindalegan hátt þróast málin á þann veg að konan gistir um nóttina hjá honum í bragganum, án þess þó að náin kynni takist með þeim. Lóa – en svo nefnist ferðalangurinn, eins og í lagi Megasar – er einfaldlega þreytt og sofnar í stofustólnum eftir tvær rauðvínsflöskur. Morguninn eftir vaknar hún þunn og ringluð, en þess má geta að kaflar eru merktir vikudögum og eins og góðri sköpunarsögu sæmir vindur frásögninni fram á sjö dögum, og í hálfgerðu geðsýkiskasti stelur hún fullbúinni kynlífsdúkku sem hún rekst á fyrir tilviljun. Lóu dettur í hug að „tækið“, þetta hermilíki hinnar kynþokkafullu konu, geti nýst til hjálpar fimmtán ára dóttur sinnar, Margréti, sem er langt leidd af lystarstoli og dvelur langdvölum á stofnun. Hún virðist ímynda sér að dúkkan geti orðið „félagi“ Margrétar og slegið á einmanaleika hennar.

Með þessum hætti tengist líf einstaklinganna tveggja, þótt ekki sé í fyrstu ljóst hvað Lóa var að gera uppi á Skaga. Þegar Sveinn nokkru síðar hefur upp á Lóu, en verður um leið veðurtepptur í Reykjavík og í raun strandaglópur heima hjá henni, er hann orðinn óviljugur þátttakandi í dramatísku fjölskyldulífi. Í ljós kemur að Margrét hefur hlaupist að heiman og óttast er um líf hennar, Lóa er skiljanlega í öngum sínum og sjálfur er Sveinn stórslasaður eftir klaufalegt slys heima hjá sér og í litlu jafnvægi. Það sem helst þjakar hann, fyrir utan missi dúkkunnar og stöðugan sársaukann í lemstraðri öxl og hné, er sú staðreynd að hann hefur „eignast“ stjáklara. Hann er ofsóttur af ókunnum aðila sem skilur eftir skriflegar morðhótanir heima hjá honum, sendir honum illyrmislega tölvupósta (undir notendanafninu Aþena, en ekki er úr vegi að minnast þess að gyðjunni Aþenu svipar eilítið til dúkkna Sveins í því að hún, líkt og þær, „spratt“ fullmótuð fram úr „huga“ – eða höfði – karlmanns) og hringir í hann í tíma og ótíma. Í þessum símtölum hafa þagnirnar í upphafi nú vikið fyrir raddbreyttum svívirðingum, Sveini skiljanlega til mikils ama og hugarangurs. Málið virðist tengjast sjálfsmorði fyrrum viðskiptavinar Sveins og fjölskyldu hins látna sem kennir honum um dauðsfallið. Þessi sorgarviðburður hafði skömmu áður en sagan hefst orðið að blaðamáli og myndum af Sveini ásamt frásögnum af starfi hans hafði verið slegið upp á slúðurkenndan hátt. Þegar í ljós kemur að faðir Lóu er nýlega fallinn frá tekur Svein að gruna að Lóa, manneskjan sem launaði gestrisni hans með eignastuldi, sé stjáklarinn sem ásækir hann. Þessi grunur, sem á frekar ósannfærandi hátt breytist skjótt í fullvissu, flækir svo um munar samskipti þeirra tímann sem þau dvelja saman í íbúð Lóu, en bókarhlutinn sem lýsir þeim stundum myndar þungamiðju verksins.

Segja má að væntanlegur lesandi þurfi ekki nema að fá veður af grunnhugmynd skáldsögunnar til að hugsa sér gott til glóðarinnar. Það er frumlegt og býsna óvenjulegt að smíða sögu þar sem kynlífsdúkkusmiður stendur í miðju atburðarásarinnar, þetta er jú sjaldgæf iðn og lítt í umræðunni, jafnvel mætti segja að allnokkur feimni umlyki alla jafnan umfjöllun um hjálpartæki ástarlífsins, og þá ekki síst blætiskenndar vörur á borð við kynlífsdúkkur. Þá má einnig benda á að skírskotunarkerfið í kringum kynlífsdúkkubransann getur verið býsna víðfeðmt, það tengist klámvæðingu, firringu, hinu póstmóderníska ástandi, tækni, kynjapólitík, velmegun og hnignun, jafnvel mætti halda því fram að táknræn vídd hugmyndarinnar næði um þjóðfélagið allt. Af þessum ástæðum er auðvelt að ímynda sér að með og í gegnum söguna af Sveini og Lóu setji Guðrún Eva fram ögrandi sýn á íslenskan samtímaveruleika. Svo er þó ekki og fátt af því sem nefnt var skilar sér inn í skáldsöguna. Guðrún Eva er tvístígandi varðandi það hvernig stilla skuli kynlífsdúkkuþemað saman við aðra þætti sögunnar, og lítið fer fyrir átökum við kynjapólitíska vídd viðfangsefnisins, jafnvel er sem höfundur forðist meðvitað slíkar skírskotanir (eins framarlega og það er hægt með kynlífsdúkkusmið sem aðalsöguhetju) og leiti þess í stað á mið misráðinnar rómantískrar fagurfræði þegar að dúkkunum kemur. Um miðja bók, eftir að persónurnar hafa á dálítið endurtekningarsaman hátt dröslast inn og út úr íbúðum með dúkkuna, er sem höfundur, og verkið sjálft, hreinlega fái leiða á þessu silíkonhjúpaða fyrirbæri og upp frá því fellur þráðurinn sem viðkemur dúkkunni að mestu leyti úr bókinni. Tiltölulega hefðbundin ástarsaga þar sem misskilningur hindrar framvinduna færist í forgrunn og dramatíkin tekur á sig tilviljunarkennda og langsótta mynd. Gallar í formgerð, ósannfærandi samhengi og það hugmyndaleysi sem tekur að gera vart við sig í seinni helmingnum grafa verulega undan verkinu.

Að því sögðu er rétt að benda á að einstakir hlutar skáldsögunnar taka heildinni fram, það er auðvelt að tína til einstaka kafla sem eru sterkir og vel útfærðir. Gamalreyndir kostir og styrkleikar Guðrúnar Evu sem höfundar eru þannig til staðar, bæði hvað næmi og myndvísi varðar; lýsingar á fjölskyldulífi Lóu eru vel heppnaðar, og þá sérstaklega lýsingar á lystarstoli Margrétar, hvernig leitast er við að gefa myndræna og táknræna innsýn í andlega veröld veikrar stúlku. Svona hefur t.d. Björg, vinkona Lóu, eftir lýsingu Margrétar á tilvistarkvölinni sem þjakar hana:

Ég get ekki sagt þér nákvæmlega það sem hún sagði því það var frekar ruglingslegt. En það sem hún meinti var að hún væri rekin áfram af löngun í eitthvað sem væri tært og fullkomið. Að hungrið opnaði eitthvert tómarúm innan í henni sem hleypti ljósi og ryki þangað sem yfirleitt fyndist hvorki ljós né ryk. Hún sagðist sjá fyrir sér parketlagðan balletsal á tíundu hæð einhvers staðar í New York. Þar skini sólin á ská inn um gluggann síðdegis, félli inn á gólfið eins og keila full af svífandi ryki og þar væri kyrrðin óendanleg. Og þótt drungaleg depurð héngi þar yfir öllu væri þar bara svo mikið pláss. (119)

Lýsingin er jafn heillandi og hún er sláandi, og lesanda er veitt vel mótuð og úthugsuð innsýn í hugarheim Margrétar. Þá skapar Guðrún Eva þráð á milli persóna bókarinnar sem allt í senn gefur í skyn tengsl þeirra og ýjar að undirliggjandi þema verksins, en það er gert með tómleikamyndinni sem birtist í tilvitnuninni hér að ofan og virðist þegar nánar er að gáð umlykja flesta í sögunni (áðurnefnd Björg er að ganga í gegnum sambandsslit, sérkennilegur aðdáandi Sveins, Lárus, á sér ekkert líf, Lóa er á góðri leið með að týna sér í flöskunni, móðir hennar er nýorðin ekkja og svo mætti lengi telja). Sama á við um þrána eftir einhverju sem gerir veruleikann fallegri, eða léttbærari, eða jafnvel bara þolanlegan. Tilvistarkreppa og sjúkdómur Margrétar er vitanlega skýrasta dæmið um uppreisn gegn veruleikanum, og lífinu, og sama á við um „sköpunarverk“ Sveins, dúkkurnar. Það að tómleikinn sé í tilviki Margrétar eftirsóknarverður er skýrlega sjúkdómseinkenni og ballettengingin ítrekar höfnun hennar á eigin líkama og þá einkum kvenleikanum sjálfum, en höfnunin er þó tvíræð því hér er einnig skírskotað til líkamsþráhyggjunnar sem að einhverju leyti má finna í ballet og leitinni eftir agaðri líkamsfullkomnun. Andúð litar einnig samband Sveins við sitt holdlega sjálf, á einum stað segir hann t.d. að honum líði „og hann [sé] ekki annað en hylki utan um óþægindi sín og smáskítlegar sorgir“ (97) og gefur þannig í skyn þann tómleika sem einangrun hans bæði felur og raungerir; á öðrum stað lýsir hann manni sem hann á í stuttlegum samskiptum við sem „hylki utan um ekki neitt“ (140). Ekki er nóg með að hægt sé að lýsa dúkkunum sem Sveinn framleiðir með þessum sömu orðum heldur skírskotar tómleikatilfinningin væntanlega einnig til viðskiptavina Sveins. Þar kemur einmitt að þeirri félagslegu athöfn sem stundum er haldið fram að gagnist best í baráttunni við tómleikann og það er neysla, en Lóa starfar einmitt á auglýsingastofu. Sögumaður lýsir vinnu hennar og vinnusemi svona: „… þegar hún var þar ekki [í vinnunni] var hún með hálfan hugann við þær hugmyndir sem byltu sér innra með henni; ljótar, grófar og vandræðalega klénar þar til aldan í vitundinni hafði pússað þær. Og þá, skínandi lýtalausar vöktu þær þrá í hjarta venjulega, þreytta fólksins sem langaði í hlutdeild af áreynslulausri fegurðinni. Nei annars, fegurðin var ekki annað en dyragætt og loforð um annars konar sælu, rétt handan við dyrnar“ (111). Sælan er alltaf handan við næsta horn, og síðasta hornið, eins og Margrét virðist vita, er dauðinn. Það sem vekur hins vegar sérstaka athygli er samsláttur í tóni og mynd milli staðfræðilegrar „birtingarmyndar“ sjúkleika dótturinnar, og loforðsins sem móðirin ímyndar sér að búi í fegurð ímyndanna, „skínandi lýtalausar“ hugmyndir sem pússaður eru og agaðar af vitundinni þar til þær birtast öðrum sem leiðarvísir að einhverri óræðri sælu. Það er eins og neyslan verði hér að brenglaðri spegilmynd þeirrar píslahugsjónar sem Margrét hefur búið til umhverfis sjúkleika sinn.

Guðrúnu tekst líka vel til þegar hún lýsir vinskap Sveins og Kjartans, sorphirðumanns og dúkkueiganda, en samtöl þeirra og heimsóknir Sveins til þessa eina vinar síns eru skrifuð af heilmiklu næmi fyrir vandræðaganginum í mannlegum samskiptum. Gallar birtast þó tiltölulega fljótt í bókinni, samanber þann ónóglega undirbúna vendipunkt þegar Lóa stelur kynlífsdúkkunni af Sveini. Þeirri sérkennilegu ákvörðun er lýst á eftirfarandi veg:

Lóa undraðist hvað rassinn var mikill og lærin breið. Dúkkan í kassanum var bogadregnari og kvenlegri en flestir líkamar af holdi og blóði. Henni varð hugsað til Margrétar og fann um leið herpinginn í hálsinum. Tárin bjöguðu sjónina eins og augun í henni væru sams konar og dúkkunnar – úr þykku gleri.
Ef Margrét hefði dúkkuna hjá sér yrði einmanaleikinn kannski ekki jafn sár. Dúkkan gæti orðið til þess að hún ryfi einangrunina og henni tækist að fikra sig aftur inn í heiminn.
Þannig voru jú fóbíur meðhöndlaðar. Þeir sjúklega kóngulóahræddu voru kynntir fyrir plastkóngulóm áður en þeir komu nálægt þeim […] Hvað amaði að Margréti annað en líkamsfælni eða lífsfælni? Rótgróið vantraust á öllum sköpuðum hlutum. Það var ekki beinlínis hægt að leggja traust sitt á dúkku, en það var heldur ekki hægt að vantreysta henni […]
Engum hafði tekist að leiða henni [Margréti] fyrir sjónir að viðbrögð hennar væru mótsagnakennd og beinlínis röng. En það var aldrei að vita nema dúkkunni tækist það sem öllum öðrum hefði mistekist. Þótt ekki væri nema með fordæminu sem bjó í kynþokka hennar. Sjáðu mig, ég er líkneskja af hinni fullkomnu, heilbrigðu konu. (30)

Ótal spurningar vakna hér. Lesandi rekur sig til að mynda á þá augljósu hliðstæðu sem er fyrir hendi milli hlutgervingar kvenlíkamans sem kynlífsdúkkan er „holdgervingur“ fyrir og þeirra tengsla sem sýnt hefur verið fram á að eru á milli lystarstols og þeirrar brengluðu sjálfsmyndar sem útlitsiðnaðurinn elur á, og því undrast hann e.t.v. að Lóa skuli álíta „kynbombuna“ sem hún finnur þarna hentuga fyrirmynd fyrir dóttur sína, enda þótt bogadregnar línur hennar minni í hennar huga á hina „fullkomnu, heilbrigðu konu“. Telur Lóa – sem er vissulega undir álagi en á ekki að vera vitstola – að „kynþokki“ kynlífsdúkkunnar laði fram sátt Margrétar við eigin líkama? Er ekki eilítið sérkennilegt að Lóa velti ekki fyrir sér á þessari stundu hvort lystarstol tengist líkamsþráhyggju frekar en „líkamsfælni“? Hér tekur lesandinn hálfpartinn að óttast atriðið sem honum segir svo hugur að hljóti að vera í uppsiglingu, atriðið þegar móðirin skellir bogadregnum, rassmiklum, plastlíkamanum upp í rúm fársjúkrar dóttur sinnar, og telur að þar sé um meðferðarúrræði að ræða, frekar en skref sé tekið til Mommy Dearest, hryllingssögu af samskiptum mæðgna. Flokkast slíkt ekki sem grimmilegt athæfi? Visnaður líkami dótturinnar mætir afsprengi klámiðnaðarins í vanheilagri hjónasæng. Lesandi hlýtur að spyrja hvernig þessari helstu táknmynd einmanaleika og félagslegrar höfnunar er ætlað að hjálpa Margréti að vinna bug á „lífsfælni“ sinni. Hér má vissulega velta fyrir sér hversu kaldhæðinn höfundur sé, og hvort írónískur blær svífi yfir vötnum. Að Lóa sé svo langt leidd af neysluhyggju og firringu auglýsingabransans að hún haldi virkilega að svona varningur bjargi málunum. Því miður er fátt sem gefur til kynna að textinn vilji stýra lesandanum í átt að slíkum lestri. Enda er hætt við að kaldhæðni á þessum tímapunkti myndi afbyggja Lóu á svo afgerandi hátt að í kjölfarið yrði hún vart gjaldgeng í söguheiminum. Þvert á móti, þegar bókin er skoðuð í heild er ljóst að Lóa er ekki framsett sem birtingarmynd firringar og fáránleika; hún er umhyggjusöm móðir sem að vísu er við það að brotna undan álaginu en tekur í öðrum tilvikum skynsamlegar ákvarðanir. Dúkkuþjófnaðurinn er örvæntingarfull aðgerð sem að sæmilega hugsuðu máli af hennar hálfu er í einlægni ætlað að mæta djúpstæðu vandamáli, þetta er dramatískt og tilfinningaþrungið skref. Kynlífsdúkkan er tæki til að gera listilega formaðar og munúðarfullar línur eftirsóknarverðar í huga Margrétar. Og það vantar uppgjör við þessa aðgerð. Hér mistekst höfundi með öðrum orðum að bregðast á viðunandi hátt við spurningunum sem atburðarásin vekur, sálfræðilegt raunsæi verksins bíður því hnekki og það veikir frásögnina upp frá því. Það að kynlífsdúkkan, og ætluð „samskipti“ hennar við Margréti, detta út úr frásögninni áður en langt um líður má jafnvel lesa sem eins konar uppgjöf höfundar andspænis fléttu sem aldrei komst á sannfærandi flug.

Þá er frásagnartækni sú sem tekur að verða áberandi í síðasta hluta verksins, það að sömu atvikunum sé lýst með minniháttar breytingum frá sjónarhorni Sveins og Lóu á víxl, að mörgu leyti misráðin þar sem afraksturinn hvað varðar innsýn í persónurnar er rýr, en óþarflega er hægt á atburðarásinni. Í raun er frásögnin dregin á langinn, taflið milli Sveins og Lóu nær engum sérstökum hæðum, að hluta til vegna þess að sú sannfæring Sveins að Lóa sé stjáklarinn er byggð á svo hæpnum forsendum.

Þrátt fyrir ágæta spretti er því hægt að segja að Skaparinn fjari hægt og rólega út, átökin við áleitið efnið reynast þegar upp er staðið áreynslulítil, dirfskan endar þar sem hún byrjar.

 

Björn Þór Vilhjálmsson