Hundakæti: Dagbækur Ólafs Davíðssonar 1881–1884. Þorsteinn Vilhjálmsson annaðist útgáfu.
Mál og menning, 2018. 224 bls.
Úr Tímariti Máls og menningar 1. hefti 2019
Árið 1993 sýndi Ríkissjónvarpið umdeilda sjónvarpsþætti Baldurs Hermannssonar, Þjóð í hlekkjum hugarfarsins. Ef til vill væri réttara að kalla þættina alræmda, svo hörð viðbrögð vöktu þeir í þjóðfélaginu.
Markmið höfundarins var allsherjar uppgjör við gamla íslenska bændasamfélagið, sem hefði haldið þjóðinni tæknilega vanburða og snauðri um margra alda skeið. Þannig hafi hagsmunir bændahöfðingja ráðið því að stórfelldar fiskveiðar hófust ekki og komið var í veg fyrir þéttbýlismyndun með hinu illa þokkaða vistarbandi.
Í þáttunum var skotið í allar áttir og stundum seilst býsna langt. Þar má sérstaklega nefna þann hluta sem fjallaði um kynferðismál. Tíndar voru saman sundurlausar frásagnir frá ýmsum öldum Íslandssögunnar sem lýstu kynferðisofbeldi eða hvers kyns óeðli. Þannig var hlaðið á einn köst eldgömlu annálsbroti af manni sem varð uppvís að samræði við kýr, sorglegri frásögn af málaferlum og loks aftöku stúlku í Skagafirði sem eignast hafði barn í lausaleik og brotið þannig gegn Stóradómi og gripið niður í ævisögu Jóhannesar Birkiland af saurlífi siðspillts vinnumanns. Inn í þessi ósköp voru tvinnuð dagbókarbrot skólapiltsins Ólafs Davíðssonar frá árinu 1882, þar sem hann lýsti ást sinni í garð annars pilts og blíðuhótum þeirra.
Boðskapur þessa var væntanlega á þá leið að bændur hafi í krafti harðra laga og efnahagslegra yfirburða tryggt sér einkarétt á kynlífi og líkömum kvenna. Fátæklingar og vinnumenn hafi því leiðst út í dýraníð, kynvillu og öfuguggaskap, auk þess sem hræsnisfull viðhorf samfélagsins til kynlífs hafi leitt til bælingar sem brotist hafi fram með ýmsum hætti, líkt og dagbók Ólafs Davíðssonar sanni.
Augljóslega er margt við þessa framsetningu að athuga, fyrir utan forneskjuleg viðhorf til kynvitundar fólks. Tætingsleg dæmi frá margra alda tímabili sönnuðu auðvitað lítið um eðli bændasamfélagsins. Og valið á Ólafi Davíðssyni, prófastssyni frá Hofi í Hörgárdal, sem dæmi um afurð vistarbands og bændakúgunar var gjörsamlega fráleitt.
Fyrir utan þá staðreynd að þjóðfélagsstaða Ólafs gerði hann að óheppilegu dæmi fyrir röksemdafærslu sjónvarpsþáttanna, var nákvæmlega ekkert í dagbókarfærslunum sem gaf tilefni til að rekja þær innan um frásagnir af dýraníði og nauðgunum. Í þeim lýsir Ólafur einungis ástarhug sínum til yngri skólabróður síns og atlotum þeirra.
Hætt er við að vitneskja margra um dagbækur Ólafs Davíðssonar spretti einvörðungu af hroðvirknislegri umfjölluninni í þáttum Baldurs Hermannssonar. Það var hins vegar rithöfundurinn Þorsteinn Antonsson sem vakti athygli söguáhugafólks á dagbókarbrotunum í grein í Lesbók Morgunblaðsins árið 1988 og í tveimur bókum sem komu út á næstu misserum, þar á meðal Örlagasögu, skáldverki sem fjallaði einkum um svipleg örlög Gísla Guðmundssonar, vinar og samferðamanns Ólafs.
Þó að Ólafur Davíðsson geti varla talist þjóðkunnur maður í Íslandssögunni, kannast ýmsir við nafn hans vegna veglegs þjóðsagnasafns sem við hann er kennt, auk þess sem hann og Jón Árnason söfnuðu efni í öndvegisritið Íslenskar gátur, skemmtanir, vikivakar og þulur, sem er lykilheimild um alþýðuskemmtun Íslendinga fyrr á tímum. Þótt Ólafur yrði kunnastur fyrir þjóðfræðastörf sín nam hann náttúruvísindi við Kaupmannahafnarháskóla og það var einmitt við náttúrurannsóknir sem hann drukknaði í Hörgá árið 1903, ókvæntur og barnlaus rétt rúmlega fertugur að aldri.
Ólafur var nemandi við Lærða skólann á árunum um og upp úr 1880. Það voru miklir umbrotatímar í sögu skólans og íslensku menningarlífi, þar sem áhrifa nýrra erlendra hugmyndastrauma tók að gæta. Við skólann kenndu margir af helstu vísdómsmönnum landsins og í nemendahópnum var fjöldi pilta sem síðar áttu eftir að komast til metorða. Hálfgert stríðsástand ríkti í skólanum, þar sem uppreisnargjarnir skólapiltar sættu sig ekki við það sem þeir töldu ofríki umsjónarmannsins Björns M. Ólsen, en hlutverk hans var að halda aga meðal nemenda. Átök þessi settu mikinn svip á bæjarlífið og reyndust afdrifarík fyrir suma þátttakendur.
Þar sem Ólafur var í hringiðu þessara atburða og virkur í félagslífi stúdenta hlaut dagbók sem hann hélt síðasta vetur sinn í skólanum, 1881–82 en þó einkum í apríl og maímánuði, að vekja forvitni sagnfræðinga. Dagbækur Ólafs rötuðu á Landsbókasafnið og árið 1955 bjó Finnur Sigmundsson landsbókavörður þær til prentunar ásamt öðru efni úr fórum Ólafs í bókinni Ég læt allt fjúka: sendibréf og dagbókarbrot frá skólaárunum.
Ég læt allt fjúka er óvenjulegt verk og var ausin lofi af gagnrýnendum á sínum tíma. Í Þjóðviljanum var hún kölluð „mannlegt skilríki af beztu gerð … ýtarleg og nákvæm mannlýsing – lýsing á stórgáfuðum skólapilti og ungum manni, draumum hans og vanda, áhyggjum hans og fyrirætlunum, gleði hans og sorgum.“ Var oftsinnis á næstu áratugum vitnað til bókarinnar og hún höfð sem heimild um skólabraginn og tíðaranda þessara ára í hinum ört vaxandi höfuðstað.
Það sem færri vissu, áður en Þorsteinn Antonsson vakti máls á því, var að Finnur Sigmundsson ritskoðaði dagbókina fyrir útgáfu hennar. Á nokkrum stöðum felldi hann út fáein orð, en einnig heilu setningarnar eða málsgreinarnar. Oftast nær með útfellingarmerkjum, en þó ekki alls staðar.
Í Hundakæti: dagbókum Ólafs Davíðssonar 1881–1884 gefur Þorsteinn Vilhjálmsson lesendum kost á að lesa skrif Ólafs óritskoðuð, auk þess að leiðrétta nokkrar smávillur í útgáfunni frá 1955. Fyrir vikið kynnir hann nýja lesendur fyrir merkilegum skrifum sem mörgum voru gleymd og vart aðgengileg nema í hillum bókasafnara, en um leið verður verkið saga um ritskoðun þar sem lesandi hlýtur ósjálfrátt að veita sérstaka athygli hinum skáletraða hluta textans, sem ekki þótti tilhlýðilegt að birta fyrir rúmum sextíu árum. Fyrir vikið öðlast allir þeir hlutar sem Finnur kaus að fjarlægja úr handritinu sérstakt vægi í huga lesandans, sem er óneitanlega nokkuð kaldhæðnislegt.
Eðlilega hafa þeir kaflar þar sem Ólafur ræðir ástarsamband sitt við Geir Sæmundsson, skólafélaga sinn, vakið mesta athygli, enda slík skrif karla á nítjándu öld sárasjaldgæf. Munu færslur þessar, þótt litlar séu að vöxtum, jafnvel þykja merkilegar heimildir á heimsvísu og viðbúið að þær verði í framtíðinni hluti af umfjöllun erlendra fræðimanna á sviði hinseginsögu. Er það öðrum þræði til marks um heimildafátæktina á þessu sviði, en jafnframt sönnun þess hversu sérstæð frásögn Ólafs er.
Í grein í Sögu á fyrri hluta árs 2018 fjallaði umsjónarmaður útgáfunnar um dagbækurnar útfrá sjónarhorni hinseginsögu og það sama hefur Þorvaldur Kristinsson gert í tímaritinu Heimaslóð árið 2017. Verður ekki bætt við þá umfjöllun hér.
Af kynningu á útgáfunni og fjölmiðlaumfjöllun mætti ætla að ritskoðuðu kaflarnir hafi flestir innihaldið lýsingar á hinu óvenjulega ástarsambandi. Það er þó fjarri sanni. „Lagfæringar“ Finns gengu flestar út á að fjarlægja stöku klúryrði og klámvísur, sem höfundur dagbókanna virðist nánast hafa skotið inn til að ögra mögulegum lesendum. Veigamestu úrfellingarnar eru hins vegar slúðursögur úr bæjarlífinu, sem flestar ganga út á bólfarir nafngreindra einstaklinga.
Skemmtilegt er að lesa stuttan kafla sem Finnur lét hverfa í útgáfu sinni, þar sem Ólafur er sár og reiður út í meðleigjanda sinn, Boga Th. Melsteð, síðar sagnfræðing, sem hafði stolist í dagbókina. Augljóslega hefur landsbókavörður áttað sig á því hversu vandræðalegt það kynni að vera fyrir lesendur dagbókanna að sjá kafla þar sem höfundurinn skammaðist yfir þeim dónaskap að lesa annarra manna dagbækur! Á hitt ber þó að líta að dagbókarfærslur Ólafs Davíðssonar voru ekki alfarið honum einum ætlaðar. Höfundurinn virðist í það minnsta meðvitaður um möguleikann á að skrifin kunni að koma fyrir annarra manna sjónir, hann ritstýrir verki sínu, endurraðar köflum og breytir færslum. Lesandanum finnst hann kannski liggja á gægjum en í raun er dagbókarhöfundurinn í ritstjórasætinu.
Ungi maðurinn sem birtist lesandanum í dagbókum Ólafs Davíðssonar er í senn heillandi og óþolandi. Sjálfstraustið er óbilandi, þar sem Ólafur efast aldrei um yfirburðagáfur sínar, vinsældir og forystuhæfileika. Honum og félögum hans verður tíðrætt um öll þrekvirkin sem þeir ætla að vinna, svo sem tímaritið sem þeir hyggjast stofna til að uppfræða Íslendinga um listir jafnt sem hagnýt fræði, og Ólafur nefnir oft í framhjáhlaupi allar smásögurnar, leikritin og ljóðin sem hann ætlar að semja um hin fjölskrúðugustu efni. Allir eru þeir sannfærðir um að fyrir þeim muni liggja að komast til metorða, spurningin sé bara á hvaða sviði. Auk menntaafreka reiknar Ólafur fastlega með því að verja löngum stundum á ferðalagi í helstu menningarborgum Evrópu.
Ófáar færslur byrja á því að Ólafur gerir grein fyrir lesefni sínu þá stundina, sem yfirleitt eru öndvegisrit á erlendum málum. Hann lítur á sig sem heimsborgara, en er þó um leið smábæjarbúi sem birtist best í slúðurgirninni. Slúðrið snýst mest um uppáferðir og lausaleiksbörn. Hjá skólapiltunum kemst fátt annað að en stúlkur og leyndardómar kynlífsins. Þeir eru helteknir af hugmyndinni um að fá að njóta ásta, en á sama tíma er stutt í tepruskapinn og fordæmingu á siðleysi annarra.
En Ólafur er meira en bara drambsamur skólapiltur með vaxandi kynhvöt. Hann er dómharður í garð annarra, en gerir líka miklar kröfur til sjálfs sín. Stíllinn er lipur og höfundurinn á auðvelt með að gera grín að sjálfum sér. Má þar nefna kúnstugar lýsingar hans á brösulegum tilraunum til að læra að reykja, þar sem Ólafur taldi sig loksins hafa náð vald á listinni en tókst þá ekki betur til en að hann stakk upp í sig glóandi enda vindlingsins.
Lesandi kemst ekki hjá því að hrífast af einlægninni í skrifum Ólafs, sem birtist best í lýsingum á þunglyndi sem stundum grípur hann og rekur hann út í stjörnumyrkrið eða niður á sjávarklappir þar sem hann situr einn og tregafullur. Þunglyndið átti eftir að ágerast og er í raun allsráðandi í lokahluta dagbókanna, sem eru stuttar og brotakenndar færslur frá apríl- og ágústmánuði 1884. Þær eru dapurlegar aflestrar, þar sem bjartsýnin og lífsgleðin frá því tveimur árum fyrr virðist horfin og óhófleg áfengisneysla farin að taka sinn toll í hinni framandi stórborg við Eyrarsundið, þangað sem Ólafur var kominn til náms.
Það eru raunar lýsingarnar á drykkjuskapnum í Lærða skólanum sem sitja hvað sterkast eftir við lestur dagbókanna. Áfengisvandamál eru útbreidd og samskipti drukkinna nemenda og kennara langt frá því að vera eðlileg, þótt Ólafur geri sér litla grein fyrir því og þyki sukkið eftirsóknarvert og spennandi.
Í Hundakæti er dregin upp augnabliksmynd af samfélagi á þann hátt sem dagbækur og sendibréf geta ein gert. Forsenda þess að lesandi geti fengið botn í slíka mynd eru þó góðar neðanmálsskýringar þar sem torskildar vísanir eru útskýrðar og allar persónur kynntar til sögunnar jafnóðum. Þar hefur Þorsteinn Vilhjálmsson skilað góðu verki.