Guðmundur Steinsson hlýtur að hafa fylgst með rosalega mörgu óhamingjusömu fólki árin sín sem fararstjóri í sólarlöndum. Hann hefur greinilega séð hundruð landa sinna koma, fulla af gleði, tilhlökkun og eftirvæntingu, til Spánarstranda, og horfa síðan á gleði sína tærast upp í endalausum rommblöndum og billegum “ástar”ævintýrum. Óhamingjan sem umvefur fólkið í Sólarferð takmarkast ekki við eina og eina manneskju: hún er ráðandi afl. Og þó er allt á lágum nótum – enginn deyr, engum er misþyrmt – að minnsta kosti ekki líkamlega – lítið gerist …

Stefán (Ingvar E. Sigurðsson) og Nína (Ólafía Hrönn Jónsdóttir) eru í sinni fyrstu sólarlandaferð. Árið er nítjánhundruð sjötíu og eitthvað lítið og þau eru geysilega spennt fyrir því að búa á fínu hóteli, skemmta sér og liggja í sólbaði í hálfan mánuð. Við fáum enga forsögu, vitum ekki við hvað þau vinna heima á Íslandi eða hvað fjölskyldan er stór. En við vitum að þau eiga íbúð og bíl og heilbrigð börn; þau eru “venjulegt” íslenskt millistéttarfólk. Við komumst smám saman að því að þau eru kúltúrlaus. Þau hafa ekki með sér bækur til að lesa, eins og margur maðurinn notar til að lifa svona ferðir af, og þau hafa ekki mikinn áhuga á að kynnast nýju landi og þjóð. Stefáni finnst að þau eigi að hafa þennan áhuga, fara í skoðunarferðir til að njóta einhvers annars en sólar; Nína hefur bara áhuga á sól og hvíld.

Ferðin verður báðum vonbrigði. Allt sem þau lasta aðra fyrir gera þau sjálf. Þau taka magatöflur en þær virka illa með öllum cuba-libre-unum sem þau innbyrða og Stefán fær langvarandi skitu. Þau tala af fyrirlitningu um hvernig “aðrir” misnoti sólskinið, en Nína skaðbrennur sjálf af því hún getur ekki hamið sólarþrána, og Jón vinur þeirra (Kjartan Guðjónsson) fær sólsting af því hann sofnar í sólbaði. Þó vita “allir” hvað það er hættulegt. Þetta er fólk sem hefur enga stjórn á hvötum sínum við þessar nýstárlegu aðstæður.

Talandi um hvatir þá er bersýnilegt að Stefán gerir sér vonir um hamslaust ástarlíf í hitanum og sólinni en Nína er afar treg. Af hverju er hún svona treg? Er það bara vegna þess að Stefán leitar á hana á óhentugum tímum? “Þú vilt alltaf gera það þegar það er enginn tími,” segir hún pirruð eftir misheppnaða viðreynslu meðan beðið er þjónsins með drykkina. Eða hefur Nína kannski ofnæmi fyrir þreifingum Stefáns? Langar hana ekkert til að eiga þennan mann lengur? Ef svo er gerir hún sér varla grein fyrir því sjálf, en við getum spekulerað.

Nína og Stefán eru í sögumiðju, og í herberginu þeirra á svokölluðu “lúxúshóteli” íslensku ferðaskrifstofunnar gerast flest atriði leiksins. Gegnum þau kynnumst við öðrum Íslendingum í ferðinni, Jóni áðurnefndum og konu hans Stellu (Halldóra Björnsdóttir), hjónunum Elínu (Edda Arnljótsdóttir) og Pétri (Þröstur Leó Gunnarsson) og Rut (Esther Talía Casey). Sigga manninn hennar sjáum við ekki. Allt þetta fólk er merkt ógæfunni á svo hversdagslegan hátt að það blekkir mann framan af. Auk landanna kynnumst við svo þjóninum Manolo, 19 ára kvennabósa (svona “thank you miss, thank you miss, sorry Joe-týpu) sem er leikinn af kólumbískum sálfræðingi, Juan Camilo Román Estrada. Þegar ég sá Sólarferð í fyrra skiptið sem hún var sett upp fannst mér persónusköpun Guðmundar Steinssonar jaðra við mannfyrirlitningu; núna, 32 árum seinna, sé ég að fólkið hans er mun margbrotnara en svo. Þetta eru djúpar persónur þó að þær tali yfirborðslega, maður verður að hlusta eftir því sem ekki er sagt – og það er djúsí texti.

Sólarferð er sviðsett af virðingu við skáld og verk af Benedikt Erlingssyni leikstjóra og Ragnari Kjartanssyni leikmyndahönnuði sem líka sér um búninga ásamt Margréti Sigurðardóttur. Hér er ekkert of eða van, engin tilgerð eða stælar. Við erum í sólarlandaferð fyrir rúmum þrjátíu árum þegar þær voru nýjar og þráðar af öllum. Sviðið er sannfærandi hótelherbergi þess tíma, tónlistin ekta (Kristinn H. Árnason), búningarnir ýmist bráðskemmtilegir eða senda gæsahúð af hryllingi niður bakið! (Má til dæmis benda á brúnar buxur Stefáns í byrjun leiks.) Lýsingin vel hugsuð (Lárus Björnsson) og fróðlegt að upplifa hvernig hægt er að almyrva svið og sal þegar atriði gerist í kolniðamyrkri. Það er ekki alveg einfalt.

Sýningin ber öll vott um vandaða vinnu, og leikurinn er afbragðsgóður. Við upplifum vonbrigðin og sársaukann með þessu fólki sem ætlar sér að finna hamingjuna en veit ekki að komi hún ekki með að heiman þá er hún ekki höndlanleg. Fremstur meðal jafningja er Ingvar í hlutverki Stefáns. Hann skapaði í ótal smáum og stórum atriðum gegnumsanna persónu sem maður skildi og fann til með. Ólafía Hrönn var eiginlega tragísk kvenhetja í hlutverki Nínu – sem hlýtur að vera heimsmet þegar í hlut á eins hversdagsleg persóna. Halldóra og Kjartan voru íslenskir túristar á sólarströnd lifandi komnir, en ennþá átakanlegri voru Elín og Pétur í túlkun Eddu og Þrastar Leó. Frábært dansatriði Eddu í partýinu kom út á mér tárum af meðaumkun og skömm.

Vonandi verður Sólarferð eins vinsæl og Dagur vonar í Borgarleikhúsinu. Það opnar ótal möguleika á endurupptöku nýklassíkur í íslenskri leikritun.

Silja Aðalsteinsdóttir