BlótgoðarÞriðja leiksýningin á þessari menningarhelgi (við sáum þar að auki rúmönsku bíómyndina Á útleið á RIFF, afar áhrifamikið drama) var líka þriðja uppistandið en vel undirbyggt og fræðandi að þessu sinni. Þetta var ný sýning í Landnámssetrinu í Borgarnesi, Blótgoðar eftir Þór Tulinius í flutningi hans sjálfs undir stjórn Peters Engkvist.

Í Blótgoðum segir Þór frá þeim merku tímamótum í sögu þjóðar þegar Íslendingar tóku kristni á alþingi á Þingvöllum árið 1000 (eða 999, býttar ekki máli). Megináherslan er nákvæmlega á þessa þingdaga þegar lá við blóðugri borgarastyrjöld sem skynsemi eins manns kom í veg fyrir, en Þór rekur forsöguna í innskotum og minnir við og við á aðalleikarana í sögunni til að allir fylgist nú vel með. Við kynnumst meðal annarra Hjalta Skeggjasyni og Snorra goða, Síðu-Halli og svo auðvitað Þorgeiri Ljósvetningagoða. Fyrir utan þessar kunnu persónur úr Íslandssögunni lifna á sviðinu nokkrar lítt þekktar persónur eða jafnvel frumskapaðar af Þór til að breikka sviðið og ná almenningi inn. Þar eru Finnbogi rammi og aðrir frændur og vinir Þorgeirs fjölmennastir, og töfrandi senu á þrællinn Skinni þegar hann heillar Sólveigu Þormóðsdóttur með því að þylja fyrir hana Gestaþátt Hávamála! Þór fór létt með að láta þau tala saman þannig að aldrei lék vafi á því hvort þeirra hafði orðið.

Þór hefur unnið heimavinnuna sína af vandvirkni, lesið Kristni sögu þangað til hann kunni hana utanbókar og líka það sem stendur milli línanna. Eins og hann segir frá á sannfærandi hátt var kálfskinn dýrt til forna og menn voru ekkert að eyða því í óþarfa. Þess vegna fáum við berstrípaða atburðarás, skreytta einstaka minnisstæðum ummælum, en vitum ekki hver tónninn var þegar þau voru sögð eða hvað nákvæmlega kallaði á þau. Þarna er skáldi eins og Þór frjálst að nota ímyndunaraflið – og það gerir hann með mikilli gleði.

Blótgoðar er góð skemmtun fyrir unga sem aldna og varpar óvæntu ljósi á ýmsa þætti þessarar alkunnu sögu. En eins og margar fyrri sýningar í Landnámssetrinu er hún beinlínis skyldusýning fyrir skólafólk sem þarna getur séð hvers konar fjársjóður þessar gömlu bækur eru fyrir skapandi listamenn.

 

Silja Aðalsteinsdóttir