Ör

Það er erfitt að fara ekki af stað með miklar væntingar þegar Þjóðleikhúsið frumsýnir leikrit sem ber sama nafn og skáldsaga eftir margverðlaunaðan rithöfund sem hefur gert garðinn frægan víða um lönd. Leikritið Ör (eða Maðurinn er eina dýrið sem grætur) eftir Auði Övu Ólafsdóttur er að vísu ekki leikgerð verðlaunaskáldsögunnar með þessu heiti enda töluvert ólíkt en fjallar þó um sömu persónur. Verkið er sýnt í Kassanum, leikstjóri er Ólafur Egill Egilsson og Sigríður Sunna Reynisdóttir sér um búninga og gerir sérstæða og minnisstæða leikmynd. Hún byggist á stórum snúningshurðum sem gefa í skyn að hugur söguhetju snúist í hringi en standi þó í stað.

Jónas Ebeneser (Baldur Trausti Hreinsson) trúði Sesselju konuefni sínu fyrir því á þeirra fyrsta stefnumóti að hann þráði að verða faðir. Ef til vill var það í því skyni sem hann hafði sofið hjá öllum stelpunum í kórnum og eyðilagt móralinn í honum, en ekkert kom út úr því. Hann verður þess vegna himinlifandi þegar Sesselja segir honum skömmu eftir stefnumótið að hún sé ólétt. Í aldarfjórðung hefur dóttirin Vatnalilja réttlætt líf Jónasar en þegar stefnir í skilnað hjá þeim Sesselju segir hún honum að hann sé ekki faðir stúlkunnar. Hún hafði verið ólétt þegar þau tóku saman. Og líf hans hrynur. Hann getur ekki unnið, ekki borið sig eftir skemmtunum, hangir bara heima á náttsloppnum, og gefið er í skyn að hann myndi hengja sig ef hann bara kæmi því í verk.

Enginn annar í kringum Jónas skilur vandamálið, hvorki Svanur granni hans (Pálmi Gestsson), Stella móðir hans (Guðrún Snæfríður Gísladóttir) né aðalmanneskjan, Vatnalilja sjálf (Hildur Vala Baldursdóttir). Fyrir henni er Jónas einfaldlega sá eini pabbi sem hún á, annar faðir hefur aldrei verið inni í myndinni, og þetta segir hún Jónasi eins skýrt og hún getur. Og hún sinnir honum eftir bestu getu, sýnir honum áhuga og ástúð sem Hildur Vala túlkaði af viðeigandi innileika; Jónas getur bara ekki tekið heils hugar á móti.

Þetta er ekki beint glaðlegt efni svona í endursögn en Baldur Trausti vakti einlæga samúð manns með næmri túlkun sinni á þessum brotna manni. Svo var stór léttir að hafa með honum á sviðinu kjarnakonuna Stellu sem varð spennandi og nútímaleg amma í meðförum Guðrúnar S. þó að hún sé komin á elliheimili. Mesti gleðigjafinn varð þó Svanur granni sem Pálmi gerði áreynslulaust að aðalpersónu sýningarinnar með dásamlegri fyndni sinni. Ég hef ekki notið þess eins vel að sjá Pálma á sviði síðan í Pollock? með Ólafíu Hrönn um árið.

Ör

Það sem situr ekki síst eftir hjá manni eftir lestur skáldsögunnar Ör er handlagni Jónasar: hann er maðurinn sem lagar það sem bilar og brotnar (og allir vita hvað kvenfólk hrífst af slíkum mönnum). Talsvert var talað um borvélina hans í leikritinu en svo ekki meir. Hann fær ekki að njóta handlagni sinnar, ekki heldur í sambandi sínu við Maí (Birgitta Birgisdóttir), útlendu konuna sem hefur lifað stríð og hörmungar en vinnur nú á elliheimilinu þar sem Stella dvelur. Leikritið er of stutt til að það takist að undirbyggja kynni þeirra almennilega, þó að Birgitta gefi fyrir sitt leyti góða mynd af konu sem er komin langt að og hefur upplifað hluti sem eru margfalt átakanlegri en nokkurt barnsfaðernismál. Dans þeirra undir lokin er svolítið í lausu lofti – nema maður hafi lesið bókina. En hvað á maður að segja um blálokin? Er það þögnin sem springur?

Hljóðmyndin í sýningunni, verk þeirra Damiens Rice og Arons Þórs Arnarssonar, er mjög skemmtileg. Rás 1 er notuð beinlínis við persónusköpunin Jónasar – hann er svona maður sem hlustar á rás 1 allan daginn, líka morgunleikfimina. Og þegar líður á og kunnuglegu raddirnar á rás 1 fara að segja ókunnuglega hluti verður það alveg morðfyndið.

Þetta er vel unnin sýning og skemmtileg en stærsti kosturinn við hana er þó ef til vill sá að hún kallar á nýjan lestur á skáldsögunni. Því eins og Ian McEwan sagði (nokkurn veginn) í erindi sínu í gær er lestur góður en endurlestur ennþá betri.

 

Silja Aðalsteinsdóttir