Bærinn brennurÞórunn Jarla Valdimarsdóttir. Bærinn brennur: Síðasta aftakan á Íslandi.

JPV útgáfa 2021. 349 bls.

Úr Tímariti Máls og menningar, 2. hefti 2022.

 

Franski sagnfræðingurinn Lucien Febvre velti því einu sinni fyrir sér hvers vegna tilfinningalíf sextándu aldar manna hefði verið eins öfgafullt – frá sjónarmiði nútímamanna – og heimildir gæfu til kynna, þeir hefðu sveiflast milli hamslausrar reiði og kannski ofbeldis, hávaðasamrar gleði eða djúprar iðrunar, milli svallsemi og meinlætalífs, og tekið skyndilegar ákvarðanir sem lítil skynsamleg rök virtust fyrir. Konungur sem er í herferð í öðru landi með góðar sigurhorfur ákveður skyndilega að nú hafi hann ekki gaman af stríði lengur, hann yfirgefur herinn og fer á veiðar, en svo er hann allt í einu orðinn leiður á að elta hirti og kominn á kvennafar í næstu borg; hann fer eftir því einu sem honum finnst skemmtilegt hverju sinni og það sveiflast fram og aftur. Þetta vildi franski sagnfræðingurinn skýra með því að þessir menn hefðu verið mun meir ofurseldir árásum náttúruaflanna og umhverfisins en við erum nú á dögum, þeir hefðu verið varnarlitlir gagnvart sveiflum hita og kulda, híbýli þeirra hefðu verið ísköld að vetrarlagi, nema rétt fyrir framan arininn, svo menn hefðu til dæmis ekki háttað á kvöldin heldur farið í rúmið klæddir sérstökum skjólflíkum og með nátthúfu. Vetrarmyrkrið hefði sorfið að þeim, því þau daufu ljós sem þeir áttu völ á hefðu ekki verið annað en smátýrur í svartnættinu. Svo hefðu skipst á tímabil á hinum ýmsu árstíðum þegar sáralítið var um mat og tímabil þegar nóg var að borða og mönnum hætti til að eta rækilega yfir sig með þeim afleiðingum sem því fylgdu. Auk þess má ekki gleyma því að dauðinn var alls staðar nálægur fyrir augum manna, ekki síst barnadauðinn. Af þessu hlaut sálarlíf manna að mótast á þessum tíma, sagði Lucien Febvre, það varð jafn öfgafullt og náttúran.

En ekki voru allir á sama máli. Einhver taldi að rök sagnfræðingsins myndu gilda um okkur, um sálarlíf okkar nútímamanna, ef við þyrftum að ganga inn í þær aðstæður sem voru ríkjandi á sextándu öld, við getum hins vegar ekki dregið af þeim neinar ályktanir um tilfinningar og hugarfar manna sem voru fæddir og aldir upp í þessu umhverfi og þekktu ekkert annað, gátu í rauninni ekki gert sér neitt annað í hugarlund. Segja má að þessi rök séu góð og gild, en þau binda ekki enda á þessar deilur og er hætt við að seint verði úr þeim skorið. En Lucien Febvre gerir samt villu sem hann hefði átt að vara sig á (og hann forðast reyndar annars staðar í sínum ritum) en hún er á öðru sviði, hún er í því fólgin að hann tekur eitt atriði út, semsé áreitni umhverfisins, og tekur ekki með í reikninginn að samfélag manna í sínu sérstaka umhverfi er ein heild og þar koma til greina ekki aðeins tæknileg atriði eins og ljósfæri, heldur líka hugarfar manna, tilfinningar og lífsviðhorf, og verður þar einnig að telja þau andlegu tæki sem þeir höfðu til að verjast árásum náttúruaflanna. Menn gátu kannski litið svo á, eins og margir myndu sennilega gera nú á dögum, að harðbýl náttúra væri af hinu góða af því að hún styrkti karlmennsku og þrek, eða þá að hún væri refsing fyrir erfðasyndina, réttlát afleiðing af því að Adam kom sér út úr húsi í Paradís. Það má ekki gleymast að fortíðin er framandi land, þar fara menn öðru vísi að en nú á dögum.

Það er einn meginkostur bókar Þórunnar Jörlu Valdimarsdóttur Bærinn brennur, um morðið á Natan Ketilsyni og síðustu aftökurnar á Íslandi, að hún leiðir lesandann inn í framandi land, fer með hann í langt ferðalag og leyfir honum að líta vel í kringum sig. Bókin er í rauninni samvinna tveggja sagnfræðinga, maður Þórunnar, Eggert Þór Bernharðsson, var búinn að vinna heimildavinnuna, safna saman öllum gögnum sem varðveitt eru, þegar hann lést skyndilega fyrir aldur fram, en þá tók Þórunn við og samdi verkið. Eggert Þór hafði sína sérstöku ástæðu fyrir að taka sér þetta verk fyrir hendur, hann var afkomandi böðulsins sem var reyndar bróðir hins myrta, og því var honum ofarlega í huga að grafast fyrir um þær ástæður sem hefðu legið að baki þess að forfaðirinn tók að sér verkið. Þetta mætti kalla dæmi um það sem stundum er sagt að öll saga sé samtímasaga, Eggert var að leita svars við eins konar tilvistarlegri spurningu sem á hann leitaði. Sennilega hefði verkið orðið með einhverjum öðrum hætti ef hann hefði náð að ljúka því.

Eins og bókin kemur úr deiglunni verður að telja hana verk Þórunnar, hún er í einu og öllu í hennar stíl og gera má ráð fyrir því að efnistökin séu hennar. Hún tekur þann kost að tilfæra mjög mikið úr heimildum, þótt þær fari oft góðan spöl út fyrir sakamálið sjálft, þræða rækilega ýmis smáatriði, t.d. húsaskipan á Illugastöðum og ástand einstakra vistarvera þar með árs millibili, og rekja ítarlega frásögur sagnamanna sem greinir á um ýmis einstök atriði. Stundum bendir hún lesandanum á mismunandi sögur sem ekki er hægt að gera upp á milli, þá er það hans að velja. Ýmsir kunna að líta á þetta sem endurtekningar og fyrir bragðið verður frásögnin á köflum erfið aflestrar, en það er með þessu móti sem Þórunn birtir lesandanum það framandi land sem hún er að lýsa, hann á þess kost að ganga æ lengra inn í það.

Og þetta land ætti að koma íslenskum nútímalesanda nokkuð á óvart. Þetta er sama landið með sömu bæjum og kennileitum, fólkið er af sama tagi með keimlík andlit, hefur sömu gen, ber sömu nöfn, talar nokkurn veginn sama málið, og á sér sæg af afkomendum í nútímanum sem þekkja ættfærsluna, en samt er allt öðru vísi. Húsakosturinn þar sem atburðir gerast er með afbrigðum vondur og fer oft versnandi, þegar stoðir í einni vistarveru brotna og vistin þar er orðin ill bregðast menn við með því að flytja sig inn í aðra vistarveru. Og þó verður Natan Ketilsson að teljast sæmilega stæður bóndi á þeirra tíma mælikvarða. Menn sofa í kös og lítill vegur að vera einn út af fyrir sig nema fara út undir bert loft. Ástalífið fer meira eða minna fram fyrir allra augum, að minnsta kosti virðist það ekki vera mikið leyndarmál hver sefur hjá hverjum. Stóri dómur er enn í gildi að nafninu til, þótt refsingar hafi mildast, og er stundum dæmt í hórdómsmálum. Samt eru barneignirnar þvers og kruss, kannski bregður orðtækið sérkennilega „í lausaleik“ nokkru ljósi á það. Natan átti fimm börn með ýmsum konum, og prestar höfðu jafnan lag á að fá vinnumenn til að gangast við þeirra eigin lausaleikskrógum, einkum ef þeir fóru að verða margir, sem Bólu-Hjálmar orti: „Séra Jón fyrir serðisprjón sitt á gónir hemputjón, en Gvendur þjón fyrir gradda bón gekk sem flón í kátíón.“ Fátæktin er yfirgengileg og því er allt hirt, í uppboðinu á eignum Natans eru furðulegustu smámunir settir undir hamarinn: gamall og fúinn strokkur, misjöfn trog, fata með rusli, kænuskrifli með tveimur áraspöðum, kvenpeysa hálfprjónuð …

Við hliðina á þessum harða efnisheimi er annar heimur ósýnilegur, og kemur einn þáttur hans mjög við sögu í verki Þórunnar, draumarnir. Það skiptir ekki miklu máli hvort þeir hafi gerst í raun og veru eða orðið til í munni manna, í þjóðsögunni, þeir eru jafnmikill hluti af lífi manna hvort sem er. En ekki er svo að sjá að sá heimur stuðli að því að létta undir með lífi fólks, gefa því bjartsýni og vonir, það er fremur eins og hann sé hliðstæður þessum heimi og undirstriki hörku hans. Þegar móðir Natans, „sem var draumkona mikil“, gengur með hann dreymir hana að myrkrahöfðinginn sjálfur birtist henni og vitjar nafns. Hún verður hugsjúk þegar hún vaknar, því eins og allir vita leiðir það til ógæfu að hlýða ekki slíkri bón, en ótækt er þó að skíra drenghnokkann Satan. Hún leitar því til prestsins og finnur hann þá málamiðlun að skíra barnið Natan, sem minnir hæfilega mikið á nafn draummannsins til þess að hann geti kannski látið það gott heita, eða svo verða menn að vona, en brýtur þó ekki í bága við velsæmi tímans. En þetta dregur dilk á eftir sér, því nafnið er síðan notað beranda þess til hnjóðs, og hefur kannski haft bein áhrif á hann sjálfan. Fjölmargar persónur í þeirri sögu sem Þórunn segir dreymir stóra drauma um þau örlög sem mönnum eru búin, ekki aðeins þær sem tengjast málunum beint heldur líka „vandalausa“, og er Natan sjálfur fremstur í flokki. Hann var berdreyminn, menn undruðust yfir því hve draumsýnir hans virtust oft rætast – það varð til þess að hann fékk á sig orð fyrir galdra – og hann minntist oft á yfirvofandi feigð sína, hann óttaðist að hann yrði myrtur. Í einni af síðustu ferðum sínum um héraðið dreymdi hann að hann væri staddur nærri stóru báli þegar tvær eða þrjár nöðrur stukku út úr eldinum og bitu hann. Í öðrum draumi var hann staddur í kirkjugarðinum í Hólum í Hjaltadal og sá ofan í opna gröf, þar lá líkami hans í öðrum enda grafarinnar en sál hans í hinum, og líkaminn mælti til sálarinnar þriðja vers í sálminum „Vakna mín sál og virð fyrir þér“ (159–160). Það er semsé eins og draumheimurinn sé táknræn endurspeglun efnisheimsins en á undan honum í tíma. Ef menn skilja tákn draumanna rétt hafa þeir meira og minna hugboð um það sem þeir eiga í vændum, en þeir geta litlu sem engu um það breytt. Þeir verða að lifa í ótta, eða kannski æðruleysi.

Svo er enn annar heimur hliðstæður veruleikanum en þó frekar á eftir honum, og það er heimur skáldskaparins, eða kannski væri réttara að segja rímsins. Því á þessu Íslandi í byrjun 19. aldar virðast nánast allir setja saman stökur eða vísnaflokka, Skáld-Rósa yrkir, Natan yrkir, Agnes yrkir, Guðmundur Ketilsson yrkir, Hans Natansson yrkir og Gísli Konráðsson yrkir. Ættingjar morðingjans og hins myrta yrkjast á (90–91). Menn senda ljóðabréf sín á milli. Það er því nokkur sannleikur í því sem Þórunn segir að þjóðin hafi verið „á valdi rímsins“ – hún tekur „Natan-Satan“ sem eitt dæmið um það (21). Atburðirnir í efnisheiminum eru fyrst alls kyns tákn í draumheiminum og breytast svo í rím, sem felur reyndar stundum í sér tákn: „óheill refur er í lund, / Afmors grenja smoginn“.

Þessir tveir heimar, draumheimurinn og ljóðheimurinn, geta reyndar tengst, því draummenn eiga til að ljóða á dreymendur. Um þetta nefnir Þórunn glæsilegt dæmi, um konuna sem sér Natan í draumi morðnóttina og heyrir hann fara með ljóð, afskaplega vel ort: „Líkaminn sár og lemstur ber …“ (162). Þarna eru draumheimurinn, ljóðheimurinn og efnisheimurinn í raun og veru samtímis og samofnir.

Þessar vísur berast milli manna, „komast á flot“, og lifa áfram, einkum ef þær eru mergjaðar eða snerta sögulega atburði, og eru því ekki aðeins fréttamiðill heldur líka nokkurs konar fréttaskýring.

Það er mikill kostur á verki Þórunnar að hún skuli birta nokkuð rækilegt úrval af þessum skáldskap tengdum morðmálinu. Þarna kennir margra grasa hvað gæði snertir, margt er leirburður og hnoð en inn á milli má finna sitthvað sem verðskuldar eftirtekt og nánari íhugun, t.d. þessi vísa Natans:

Hrekkja spara má ei mergð,
manneskjan skal vera
hver annarrar hrís og sverð.
Hún er bara til þess gerð. (236)

Kannski má líka taka sem dæmi um vald ljóðanna að morðinginn Friðrik gengur til aftökustaðarins syngjandi sálminn „Allt eins og blómstrið eina“, ekki einu sinni heldur þrisvar.

Hvaða áhrif hafði áreitni þessarar hörðu veraldar, efnisheimsins og hinna heimanna tveggja, á tilfinningalíf manna? Um það ætla ég ekkert að segja en láta eitt dæmi nægja. Í öðrum löndum voru aftökur tíðar og fóru jafnan fram fyrir opnum tjöldum. En þar virðist aldrei hafa verið neinn hörgull á böðlum né heldur áhorfendum, menn flykktust að til að horfa á „skarpréttarann“ vinna sitt verk. Um slíkt má til dæmis lesa í Leyndardómum Parísarborgar eftir Eugène Sue. Í Frakklandi var fallöxin reist á fjölförnum stöðum fram á fjórða tug síðustu aldar, en þá var því hætt vegna þess að mönnum fór að blöskra áfergja manna í að sjá það sem fram fór. Fjölskyldur í húsum með útsýni yfir aftökustaðinn leigðu mönnum jafnvel stæði við glugga hjá sér, og var það ný túlkun á máltækinu að eins dauði sé annars brauð. Það skín út úr frásögn Þórunnar að á Íslandi árið 1830 var þessu öfugt farið. Það þurfti að skikka bændur til að mæta við aftökuna og banna þeim, samkvæmt dönskum lögum, að líta undan, því aftakan átti að verða mönnum til betrunar. Það reyndist auk þess vandasamt að finna böðul, um stund leit út fyrir að það þyrfti að kalla til mann frá Danmörku með öllum þeim kostnaði sem því hlaut að fylgja. Þegar Guðmundur Ketilsson tók starfið loks að sér lýsti hann því skýrt yfir að honum gengi ekki til hefndarlöngun heldur vildi hann einungis þjóna réttvísinni. Og launin gaf hann fátækum. Aftakan var skelfilegur atburður sem menn vildu helst reyna að leiða hjá sér. Greinilegt var að í Húnavatnssýslu að minnsta kosti stóð mönnum stuggur af manndrápum, jafnvel í nafni réttvísinnar. Hörð lífskjör höfðu ekki gert menn grimmari. Það er kannski ein ástæðan fyrir því að Björn sýslumaður Blöndal leitaðist augljóslega við að vinna sitt starf svo óaðfinnanlegt væri, hann hefði farið eftir lögum í einu og öllu.

Slík vinnubrögð væru talin til fyrirmyndar nú á dögum, en annars verða menn að forðast það, sem nú virðist vera orðin nokkur lenska, að dæma gerðir manna á fyrri tímum eftir mælikvarða nútímans. En hvað þá um morðið sjálft, sem er viðfangsefni þessarar bókar? Þótt kannske hafi verið nokkuð um sauða- og hrossaþjófa í Húnavatnssýslu á þessum yrkingatímum er ekki hægt að segja að grimmilegt morð hafi verið einhver afleiðing af lífskjörum og tíðaranda, þrátt fyrir fátæktina.

Svo er einna helst að sjá að morðinginn, Friðrik, hafi verið eins konar „félagssjúklingur“, eins og nútímamaður myndi mögulega orða það, og því alveg sér á báti í samfélaginu. Hann leiðist snemma út á braut ofbeldis og afbrota og gengur stöðugt á lagið. Í ljósi þess sem síðar gerðist er ekki hægt að leiða hjá sér þau orð samtímamanna að uppeldið sem hann fékk frá móður sinni hafi þar valdið nokkru um, hún hafi alið upp í honum óþekktina sem lét hann storma yfir strikið (89). Hann gerist smákrimmi, lendir í útistöðum við menn, ekki síst Natan sjálfan, og þegar hann kemst nokkurn veginn upp með fyrstu afbrotin er eins og hann missi tengsl við raunveruleikann og gangi inn í draumaheim þar sem allt virðist auðvelt. Hann ímyndar sér að með því að komast yfir auðæfi Natans, sem hann miklar mjög fyrir sér, geti hann komið undir sig fótunum og orðið ríkur. Slíkir draumóramenn eru víða til en flestir gera sér sem betur fer gott að láta sig dreyma. Friðrik fer líka hægt af stað, fyrst vill hann einungis stela auðæfum Natans, svo fer hann að leggja á ráðin um morð, en er þó oftsinnis á báðum áttum og helst á því að hætta við allt saman. Hann rennur jafnvel einu sinni af hólmi þegar hann ætlar að láta til skarar skríða. En það sem ríður baggamuninn er að hann hefur hvatningsmenn í kringum sig, menn sem lifa í sömu tálsýninni og hann. Er þar fremst að telja móður hans, og svo bætast við þær tvær konur sem síðar urðu honum samsekar, Agnes og Sigríður. Móðir Friðriks er og verður gáta sem engin leið er fyrir okkur að ráða, og það sem bjó að baki gerðum hinna kvennanna er að nokkru leyti hulið skugga. Blandast einhver torræð ástamál inn í drauma um ríkidæmi? En víst er að  einungis stela auðaæfum Natans en svo fer hann að leggja fari þau þrjú magna hvert annað upp, ef eitthvert þeirra er með bilbug taka hin við að stappa í hann stálinu. Þetta verður einhvers konar hópgeðveiki, folie à plusieurs, sem er ekki í neinum raunhæfum tengslum við samfélag og hugarfar þessa tíma.

Og þá er ekki annað eftir fyrir lesandann en að ferðast um þetta framandi land undir leiðsögn Þórunnar og lifa sig inn í siði þeirra sem þar búa. Þannig opnast honum nýjar víddir í tilverunni, – kannske verður það til þess að hann fari að gefa meiri gaum að sjónhverfingum næturinnar og festa í rím það sem í hugann kemur.

 

Einar Már Jónsson