Inni í geysistóru fuglabúri híma sjö manneskjur. Við og við hellast yfir þær stórir haugar af gluggaumslögum sem þær síðan vaða í. Haugarnir hækka og hækka. Þær gera fálmkenndar tilraunir til að taka á málunum, flokka umslögin, raða þeim, en sumir halda bara á þeim í fanginu; æ stærri fangfylli. Meðan á þessu gengur segja þær hver annarri sögur eða segja skoðanir sínar á hversdagslegum hlutum – hvað það sé hroðalega mikið vatn í hakkinu sem okkur er selt – eða leita ráða um hvað þær eigi að hafa í matinn. Þetta er ekki ólíkt því hvernig við tölum þegar við hittum fólk sem við þekkjum lítið, kannski í fermingarveislum – frá því sem við vorum að fá okkur, frá undarlegum atvikum sem komu fyrir okkur sjálf eða einhvern í kringum okkur.
Þetta er mynd leikhópsins Mindgroup af löndum sínum eins og hún birtist á Nýja sviði Borgarleikhússins í verkinu Góðir Íslendingar sem var frumsýnt í fyrrakvöld. Verkið hefst á ræðu forseta Íslands þegar hann neitaði lögunum um Icesave staðfestingar. Við erum stödd hér og nú en það getur maður ekki heyrt á umræðum fólksins. Það talar um ALLT annað en Icesave, þessi lög, framtíðina, rétt eins og ekkert sé framundan. Það talar heldur ekki saman. Sögurnar eru ekki í neinu samhengi. Í mesta lagi að þær komi í framhaldi hver af annarri þannig að eitthvað í þessari minni annan á aðra sögu og allt öðruvísi. Viðar Eggertsson sagði á leiðinni út úr húsinu að Góðir Íslendingar minntu sig á absúrdleikritið Sköllóttu söngkonuna eftir Ionesco, þar sem fólk talar sífellt en nær engu sambandi hvert við annað. Það á vel við.
Góðir Íslendingar er eins konar framhald af Þú ert hér, sýningu Mindgroup á sama stað fyrir ári. Nýja sýningin er ekki eins hryllilega hlægileg, enda ekki hlæjandi að ástandinu. Hún er ákall, örvæntingaróp. Hvað getum við ef við getum ekki talað saman um það sem skiptir máli? Hvað erum við þegar búið er að grafa undan sjálfsvirðingu okkar? Bergur Þór Ingólfsson lýsir því í lokaatriði leiksins þannig að undan sveið.
Félagarnir í Mindgroup, þeir Hallur Ingólfsson, Jón Atli Jónasson og Jón Páll Eyjólfsson, hafa nú fengið með sér leikarana Berg Þór, Dóru Jóhannsdóttur, Halldór Gylfason og Halldóru Geirharðsdóttur. Sjálfir sjá Mindgroup-menn um handrit, leikstjórn og leikmynd en fá liðsstyrk í lýsingu (Björn Bergsteinn Guðmundsson), leikgervi (Sigríður Rósa Bjarnadóttir) og búninga (Stefanía Adolfsdóttir). Þetta er magnaður hópur sem saman getur gert hvað sem vera skal enda er sýningin frábær. Mig langar samt til að færa Halli rauðu rósina. Hann náði makalaust – ja, eiginlega óhugnanlega einlægum tón í sögurnar sínar, til dæmis söguna af smáhundinum Sísí (eða Fífí) sem var alger gersemi.