Súper - þar sem kjöt snýst um fólkSúpermarkaðsstúdían Súper – þar sem kjöt snýst um fólk eftir Jón Gnarr var frumsýnd í Kassa Þjóðleikhússins í gærkvöldi undir stjórn Benedikts Erlingssonar. Kuldalega, grábláa kælivörudeildina með plast-einangrunarveggjunum í kring gerði Gretar Reynisson, og snjöll lýsing Jóhanns Friðriks Ágústssonar gat látið fólkið hverfa inn í veggina þegar það gekk út úr deildinni. Filippía I. Elísdóttir klæddi persónurnar, hverja eftir sinni samfélagsstöðu og smekk.

Það fór að sækja á mig undir verkinu spurningin hvar Jón Gnarr hefði hlerað samtölin sem við heyrum. Sum gátu vel verið af Facebook, sum gátu verið úr lifandi samræðum í partíum, sum af Útvarpi Sögu, sum írónískar stælingar á auglýsingum … Þau voru í senn ekta og súrrealísk á afskaplega „gnarrlegan“ máta en lengi framan af gátu þau vissulega átt sér stað.

Við erum stödd í deild fyrir frosnar kjötvörur í stórmarkaði. Fyrir miðju gólfi er opin frystikista, hlaðin pökkum af frosinni kjötvöru. Þangað koma persónur leikritsins til að velja sér kjöt, íslenskt kjöt af því það er hreinasta og besta varan. Þegar minnst varir rís maður upp úr frystikistunni, talsmaður verslunarinnar, Kristján (Jón Gnarr) – „það er íslenskt nafn“ – og auglýsir vöru sína blygðunarlaust. Og viðskiptavinirnir taka vel við áróðrinum enda afskaplega sammála Kristjáni. Annar starfsmaður er Agnieszka (Sólveig Arnarsdóttir) sem gengur um með tilboðsborð af kleinum. Hún er ekki íslensk þó að hún hafi búið hér mestalla sína ævi og tali fullkomna íslensku – nafnið hennar er sko ekki íslenskt og hún er ekki fædd hér á landi. Enginn getur verið Íslendingur nema hann sér fæddur hér, um það eru persónurnar sammála, aðrar en Agnieszka.

Unga glæsilega parið, Einar (Arnmundur Ernst Backman) og Guðrún (Snæfríður Ingvarsdóttir) eru hins vegar alíslensk og afskaplega skynsamt fólk, sérstaklega hann sem ekki vill eignast börn fyrr en skuldir hafa verið greiddar. Elín (Vigdís Hrefna Pálsdóttir) er einhleyp 35 ára kona sem saknar gröðu strákanna sem hún þoldi ekki á sínum yngri árum og ætlar að skemmta sér ærlega um kvöldið, helst drekka sig blindfulla. Hannes (Hallgrímur Ólafsson) er í þann veginn að missa pabba sinn og er stoltastur af úlpunni sinni af öllum sínum eigum. Öll ræða þau um líf sitt og mataræði og snúast í kringum Kristján í frystikistunni. Samtöl þeirra eru vandræðaleg, kunnugleg og drepfyndin.

Inn í þetta samfélag detta svo fullorðin hjón utan af landi, Bjössi (Edda Björgvinsdóttir) og Gugga (Eggert Þorleifsson). Þau virðast í fyrstu einstaklega samhent og samrýmd hjón, alveg þangað til talið berst að barneignum eftir sára kvörtun Guðrúnar yfir sínu barnleysi. Þá kemur í ljós (eins og okkur hafði vissulega grunað) að kynusli hefur tekið yfir hjónaband Bjössa og Guggu og hvorugt þeirra hefur það sem til þarf til að geta og fæða barn.

Framan af upplifði ég Súper sem harða ádeilu á íslenskt þjóðfélag og umræðuna í því. En í seinni hluta verksins var eins og sorgin tæki yfir. Af hverju hafði Bjössi verið svona vansæll sem kona? Og af hverju er Gugga líka vansæl sem kona? Er engin gleði eftir í því að vera kona? En þegar staða Guggu er boðin upp kemur annað í ljós, sem betur fer!

Þetta er meinlegt og glúrið verk sem kemur okkur við. Leikurinn er óaðfinnanlegur, eins og hver og einn leikari hafi fundið sjálfan sig nákvæmlega í persónu sinni. Farið bara og sjáið sjálf.

Silja Aðalsteinsdóttir