ArtFart 2010Það var merkileg sögustund sem áhorfendur áttu með Árna Kristjánssyni á ArtFart síðdegis í dag í Útgerðinni við Grandagarð. Hann notaði enga leikmuni nema einn stól, engan búning eða gervi, bara eigin rödd og líkama. Þar að auki var hann að segja okkur sögu sem hann hafði upplifað sjálfur í fyrra þegar hann vann á elliheimili í Björgvin í Noregi.

Árni gerði sitt besta til að taka gesti sína með sér inn í söguna í byrjun með því að spyrja þá spurninga sem reyndust leiða þá beint inn í söguna. Áttum við vini? Litum við á okkur sem sjálfstætt fólk? Kannski of sjálfstætt? Höfðum við orðið ástfangin? (Allir réttu upp hönd.) Svo kom smám saman að sögunni sjálfri.

Árni réð sig í vinnu á elliheimilinu í Björgvin af því að kærastan hans var þegar komin í vinnu þar. Vinnan hentaði honum ekki sérstaklega vel. Hann var allra þjónn, allir höfðu veiðileyfi á hann og honum var skipað fram og aftur og stöðugt sagt að drífa sig. Áhorfendur fengu á tilfinninguna að Árni hefði heldur viljað taka lífinu með ró og spjalla svolítið við vistmenn á heimilinu – enda hefði það líka hentað gamla fólkinu betur. Það er þó ekki fyrr en hann heyrir ávæning af reynslu eins þeirra sem hann verður verulega spenntur fyrir að fá næði með vistmanni. Þetta er gamall maður á endurhæfingardeild sem varð fyrir þeirri hrikalegu reynslu að detta heima hjá sér (“Gamalt fólk á það til að detta”) og mjaðmarbrotna og liggja meira og minna hjálparvana á gólfinu í heilan mánuð og þrjá daga. Aleinn og of bældur af persónulegum hömlum til að geta kallað á ókunnugt fólk sér til hjálpar.

Þetta er náttúrlega ekki hægt. Svoleiðis lifir engin manneskja af. En það gerði gamli maðurinn samt. Á nokkrum vikum segir hann Árna þessa sögu, fyrst tregur en síðan æ fúsari eftir því sem hann verður háðari Árna sem hlustanda. Árni lokast hins vegar fyrir sitt leyti æ meira inni í einmanaleika síns nýja vinar, kvelst hans kvölum og á æ erfiðara með jafnvel að hafa eðlilegt samband við kærustuna sína. Innilokun og einmanaleiki er smitandi.

Hér var sögð áhrifamikil saga, og Árni náði sterkum tökum á áhorfendum. En eftir á að hyggja má benda honum á að frásögnin er helst til löng. Hann hefði þurft leikstjóra eða dramatúrg til að aga sig. Sterkara hefði verið, að minnsta kosti inn á milli, að fá ómengaða sögu gamla mannsins eins og hann skrifaði hana í bréfi til Árna en sleppa þá Árna sem millilið. Sögumaður verður yfir heildina of plássfrekur í sögunni. Við höfum meiri áhuga á upplifun gamla mannsins en upplifun Árna af líðan hans og reynslu – eða alla vega höfum við líka áhuga á beinni milliliðalausri frásögn hans.

Meginatriðið er þó að samlíðunin með gamla manninum á gólfinu náði rækilega til okkar sem hlustuðum og þá var tilganginum náð. Árni sýnir “Á gólfinu” í Útgerðinni alla daga til og með sunnudegi, alltaf kl. 18, líka þriðjudagskvöld þó að annað standi í prógramminu. Þið verðið ekki svikin af sögunni hans.

 

Silja Aðalsteinsdóttir