Bergur Ebbi. Stofuhiti. Ritgerð um samtímann.
Mál og menning, 2017.
Bergi Ebba brennur á vörum ein spurning og hún sækir svo fast að honum að til að reyna að fá eitthvert svar við henni skrifar hann heila bók, og spurningin er sú hvernig hann eigi að skilgreina sig í þeim nútíma sem nú grúfir sig yfir veröld alla: „Fyrst er á dagskrá að skilgreina sig. Hvað er það? Þú verður að skilgreina þig. Annars ertu ekki til.“ (12)
Þetta er í hans augum lykilatriði, ekki fyrir hann einan heldur alla: „… fólki er ætlað að skilgreina sig sjálft. Að ákveða sjálft hvað það er sem gerir það frábrugðið öðrum.“ (26)
Hver og einn verður semsé að finna sitt eigið principium individuationis eins og heimspekingar fyrri alda hefðu orðað það, en það er meira og ristir dýpra en hvert eitt venjulegt verkefni sem menn geta fengist við í tómstundum sínum: „Ég held að leit einstaklingsins að réttri sjálfsmynd, hinu rétta sérkenni, sé stærsta hreyfiafl nútímans. Ég held að það sé áhrifaríkara en leitin að efnislegri velmegun, þrá eftir ást og umhyggju, öryggi eða festu í umhverfinu. … Þráin eftir fullkominni sjálfsmynd er þráin eftir að vera eitthvað, hafa sérkenni.“ (161)
Þessi spurning hefur aldrei verið eins brýn og í samtímanum, segir Bergur Ebbi, og til að rökstyðja það leitar hann nokkra áratugi aftur í tímann, aftur til áttunda áratugarins, sem er hans fasta en knappa viðmiðun: „Ég er fæddur árið 1981 en mér finnst að þessi saga eigi að hefjast um það bil 1973. Það er einhver kosmísk fagurfræði sem segir að þannig eigi það að vera.“ (14)
Þessum tíma lýsir hann frá sjónarmiði þeirra kynslóða sem þá voru uppi á Íslandi: „Tilvísanir voru fábreytilegri en agaðri. Hugsunin var öðru vísi. Það er ekki langt síðan. Ég er að tala um fólkið sem ól foreldra mína upp. Þau voru bara læs á eina menningu og sú menning var ekki sérlega lagskipt. Þau höfðu enga innsýn í hvað var að gerast utan þeirra heima.“ (16)
Síðar víkkar hann sjónarhornið til muna en heldur sig enn við sama áratuginn:
Mér finnst 1975 hafa einhverja sérstaka merkingu í stærra samhenginu. Það var tímabil efnahagslegrar stöðnunar á Vesturlöndum. Samt var ekki kreppa. Allir áttu nóg en samt var engin bjartsýni. … Tölvur voru ekki komnar. Rafmagnsgítarinn var löngu kominn. Framtíðin var ekki jafn spennandi og áður. Það var orðið hversdagslegt að ganga á tunglinu. 1975 var líka árið sem Bandaríkjamenn gáfust upp í Víetnam. Kalda stríðið var í fullum gangi en kannski var það ekki kalt lengur. Kannski hafði það hitnað upp í þægilegan stofuhita. Allt var með kyrrum kjörum. (124–125)
En þessi tilvísun til fortíðarinnar er varla meira en röskleg botnspyrna, því „núna hefur eitthvað gerst. Það er enginn á sínum stað“, og um það fjallar bókin að öllu öðru leyti, hún gerist í samtímanum, þar sem tölvan og netið og allt sem því fylgir, snjallsímar og annað, hafa haldið innreið sína, eru til staðar í öllum skúmaskotum, og ráða löndum og álfum; enginn getur vitað að fyrra bragði hvar hann stendur. Byltingin er róttæk: „Gagnamagn heimsins hefur margfalldast [þetta er hóflega sagt]. Hið hverdagslega er skráð. … Á 19. öld voru nefnilega allir að rembast við að ná merkingu úr upplýsingunum. Í dag snýst málið frekar um að höndla upplýsingarnar klínískt og koma þeim frá einni vitund til þeirrar næstu með sem minnstri mengun. Og allt safnast upp.“ (35)
Bergur Ebbi vísar til trúarbragða og hugmynda um guð, og heldur áfram:
Ég held að internetið sé dýrkað á svipaðan hátt. Það er bara erfiðara að koma auga á það því það er ekki nægilegur tími liðinn til að við sjáum hversu lotningarfull við erum gagnvart því. Innst inni eru flestir logandi hræddir við upplýsingamagnið sem er hægt og rólega að hlaðast upp allt í kringum okkur. Virðing okkar fyrir því er djúp og innileg. Mörg okkar skanna frétta- og samfélagsmiðla af meira offorsi en nokkra nauðsyn ber til. Við deilum okkar innstu leyndarmálum á netinu og stundum er eins og tilgangurinn sé ekki að koma þeim á framfæri við annað fólk heldur fremur að staðfesta tilveru okkar frammi fyrir einhverju stærra og meira. Líkt og við séum að færa fórn. Líkt og við séum ekki til nema við miðlum okkur. (39)
Kannski er þetta sannara en Bergur Ebbi ímyndar sér sjálfur, því þótt tölvulast sé að vísu ekki refsivert að svo stöddu er það að minnsta kosti afskaplega illa séð, eins og hver einn getur fundið ef hann fer að finna tölvutækninni eitthvað til foráttu í áheyrn nútímavæddra manna, það er að segja víðast hvar annars staðar en á elliheimilum eða í biðsal þeirra. Allir rjúka upp til handa og fóta og fara að syngja hymna og lofsöngva um gósenland netsins þar sem allt er á boðstólum, kláravín, feiti og mergur með. En eins og höfundurinn skýrir vel fer því fjarri að menn geri sér grein fyrir þessum nýju siðaskiptum.
Um þessa nýju og góðu veröld fjallar nú bók Bergs Ebba, hún gerist í heimi þar sem menn eru hver um annan þveran að gúgla, læka og svæpa, þeir streitast við að hashtagga, screenshotta, loltotta og linka, með því geta þeir nefnilega haldið kúli. Allt umhverfið er breytt. „Tónlistin er orðin að hjúpi. Eins konar filter á lífið. Svipuð og að ganga með gul eða brún sólgleraugu“ (43). Þótt bókin sé í eðli sínu ritgerð, afskaplega skýr og vel skrifuð, á hún það til á stundum að breytast í prósaljóð, enda hæfir það óneitanlega efninu.
Þannig hefur tölvu- og netvæðingin gert það sem menn hafa naumast talið gerlegt hingað til, að umturna tilverunni, gera hana óþekkjanlega. Þessum nýja veruleika lýsir Bergur Ebbi mjög svo skilmerkilega: „Ég kíki á símann minn strax og ég vakna. Ég er búinn að skruna yfir fréttirnar áður en ég fæ mér morgunkaffið. … Ef ekkert sérstakt er í gangi þá læt ég nægja að kíkja á símann á hálftíma fresti. Ef mikill viðburður hefur átt sér stað þá rennur þetta saman, stanslausar uppfærslur og samtöl við annað fólk.“ (182)
Um þetta ástand hefur hann orðin „sítenging“ og „nánd“, og um síðara hugtakið fjallar hann á þennan hátt: „Nándin er ekki orðin að veruleika, en við erum að sigla inn í hana. Allir verða eins, það er engin fortíð, bara ævarandi nú og rjómalöguð ringulreið. Sjálfsmynd þín skiptir ekki máli, hún er í mesta lagi lítill gúlpur sem springur í örskotssund ofan í suðupottinum og hverfur jafnóðum.“ (189)
Þetta hljómar kannski nokkuð kaldranalega, einkum þegar litið er til þess hlutverks sem sjálfsmyndin og skilgreiningin leika í hinni nýju veröld. En Bergi Ebba virðist þó vera efst í hug önnur hætta sem fylgir netinu og hann nefnir einu orði „grúsk“. Þangað flýja nefnilega „rómantíkerar“ þegar flótti er hið eðlilega ástand; „grúsk“ verður afdrifaríkasta flóttaleið framtíðarinnar, hættulegri en bæði sýndarveruleiki og fíknilyf. Um það hefur höfundurinn mörg orð:
Grúsk hljómar ekki hættulega. Grúsk er passíft áhugamál. Frímerkjasöfnun er grúsk. En grúsk er líka ástríða og ég get varla ímyndað mér staðráðnari homo sapiens en ástríðufullan frímerkjasafnara. Grúsk er að fikra sig áfram í myrkri, að bora sig inn í heybing sögunnar og gera skipulögð göng þvers og kruss þar sem aldrei sést til sólar og öllu er haldið saman á grundvelli persónuknúins skipulags sem gæti hrunið á hverri stundu. (137)
Þessu fylgja svo nánari skýringar:
Það er stundum sagt að peningar séu afl sem vekur upp græðgi … en ég held að ekkert veki upp jafn mikla græðgi í mannskepnunni og þekking. Ein bók opnar dyrnar að næstu bók og ein vefsíða linkar á þá næstu og áður en maður veit af er heilinn kominn á yfirsnúning í stanslausan þekkingarlosta sem tekur engan enda. (139–140)
Og þrátt fyrir einstaka varnagla – „það eru til agaðir og öfgafullir grúskarar“ – verður niðurstöðunni ekki áfrýjað: „Grúsk er sýking hugans.“ (139)
En þegar öllu er á botninn hvolft er lokatónn bókarinnar ekki svartsýni, Bergur Ebbi er ekki hræddur við að lenda einstöku sinnum í mótsögn við sjálfan sig – það fylgir eiginlega bókmenntagrein prósaljóðsins – og hann sér ljósglætu: „Það er ekki möguleiki að ég leyfi þessu að enda svona“ (202). Eitthvað er kannski að verða til, en „mynstrið hefur ekki enn risið upp úr móðunni.“ (206) Og svo bætir hann við: „Og á endanum er það sjálf niðurstaðan. Að röksemdir geta komið úr mörgum áttum en samt haldið þræði. Og enn fremur að mitt í gagnskráningaráráttunni og hugmyndasíbyljunni, þá sé veröldin þrátt fyrir allt ennþá leyndardómsfull og þversagnakennd. Kannski lifum við rómantískustu tíma sögunnar.“ (206)
Þetta er í rauninni jákvæður tilgangur verksins: „Mig langar til að sannfæra lesendur um að fagurfræði skipti máli. Mig langar að leiða rök fyrir því að samtíminn hafi merkingu sem er víðtækari en persónuleg reynsla.“ (22–23)
Bók Bergs Ebba er að öllu leyti hin gagnmerkasta, bæði fyrir það sem stendur í henni og það sem ekki stendur í henni. Í hana vantar eitt, sem höfundur bendir reyndar sjálfur á í sinni skarpskyggni, reyndar fyrst og fremst sem almennt einkenni nútímans: „það er engin fortíð, bara ævarandi nú.“ Í bókina vantar semsé tímavíddina (þrátt fyrir bollaleggingarnar um áttunda áratuginn).
Þá verður fyrst fyrir spurningin um það fyrirbæri sögunnar sem olli þessum stakkaskiptum. Hvers vegna varð þessi tækni yfirleitt til? Var einhver sem fann sárlega til tölvuskorts? Fóru menn í kröfugöngur um stræti og torg og hrópuðu: „Oss vantar æpadd“? Lögðu rithöfundar niður sitt starf og sögðu: „Við getum ekki haldið áfram nema við fáum makka!“ Heimtuðu unglingar snjáldru? Hlupu börn um á leikvöllum og æptu: „Gef oss í dag vorn daglega tölvuleik!“ Ekkert af þessu gerðist, meistarar hins ritaða máls skrifuðu hinar merkustu bækur, börn ærsluðust, unglingar krunkuðu saman, alveg tölvulaust, og menn gerðu sig fullánægða með að fá þekkingu sína úr bókum.
Að þessari allsherjartölvuvæðingu lágu hins vegar margar rætur sem þarflegt er að grafa upp, ein þeirra var sú að bandaríski herinn var að leita að öruggum samskiptamiðli fyrir sig og sitt bardús, önnur, og ennþá rammgerðari, var sú að þarna sáu sumir menn sér leik á borði til að raka saman peningum og aðrir til að koma á allsherjar njósnum um almenning, eftirliti með daglegu donti hvers og eins. Í leiðinni má á það líta að þetta gerðist á því méli þegar „uppreisn frjálshyggjunnar“ var að hefjast, en hana má miða við valdaránið í Chile í september 1973, og þá fóru ýmsir kólgubakkar að hrannast upp. Svo þegar steinninn var farinn af stað hélt hann áfram að velta, samkvæmt lögmáli sem kennt er við einhvern sem ég man ekki lengur hvað hét og er á þessa leið: Ef tæknin gerir kleift að eitthvað sé gert eða smíðað verður að gera það strax í dag án þess að sólunda nokkrum tíma í að velta því fyrir sér hvort eitthvert gagn sé að því, hvort það geri mannlífið á einhvern hátt betra og fegurra. Og umfram allt án þess að líta nokkuð á það hvort það kunni ekki að valda einhverju tjóni í leiðinni, einhverju „collateral damage“. Þetta er enn eitt dæmi um það sem oft hefur verið sagt: vélamenningin skapar ekki aðeins vélar til að sinna þörfum manna heldur skapar hún líka þarfir fyrir vélarnar, splunkunýjar þarfir. Við það breytist spurningin, hún snýst ekki lengur um vélarnar einar heldur líka þarfirnar: er sjálfgefið að þær séu af hinu góða, allar eins og þær leggja sig?
Með tilkomu netsins hrúgaðist saman meira magn af upplýsingum af öllu hugsanlegu tagi en nokkur dæmi voru til um, og enginn hafði áður áður ímyndað sér að hægt væri að hafa fyrirliggjandi á einum og sama stað, þar sem hver og einn gæti ausið þeim upp. Jafnframt gátu allir verið í sambandi við alla svo til samtímis. Þetta heillaði menn – enda fylgdi þessu áróðurs-tsúnami um ágæti þessarar nýju tækni sem enginn gæti án verið, og enginn mætti í rauninni fara á mis við – og þá kom upp ný manntegund, hinn sípikkandi og sítengdi maður sem hafði ekki einu sinni verið til í villtustu hugarórum manna áður. En hann var með nokkuð sérstökum hætti. Þetta var maðurinn sem tók skyndilega nýja og áður óþekkta sótt, „tölvusýki“, eða svo talað sé á alþýðlegri nótunum „fékk tölvudellu“ (samanber bíladelluna hér áður fyrr), allt hans líf fór að snúast kringum tölvur og net, hann gat varla um annað hugsað eða talað.
Í sinni öfgafyllstu mynd, sem leggst einkum á kornungt fólk, verður hún til þess að menn loka sig af, inni í sínum heimkynnum, hangandi yfir tölvu sýknt og heilagt, ófærir um að lifa annars staðar en í sýndarveruleika tölvuheimsins, búnir að missa öll tengsl við aðra menn og annað mannlíf en það sem birtist á skjánum; þeir vaka gjarnan og sofa eftir öðrum tímabeltum en þeir eru staddir í, ef þeir sofa þá á annað borð. Það var í Japan sem menn veittu þessu fyrirbæri fyrst athygli, og gáfu því nafn, þeir sem þannig var komið fyrir voru kallaðir „hikikomori“; þetta voru menn sem hrundu inn í sjálfa sig eins og svört göt. Fyrir guðs miskunn er sóttin þó oftast vægari og kemur ekki í veg fyrir að menn geti lifað nokkurn veginn eðlilegu lífi, jafnvel þeir sem snúa flestum samræðum yfir í tölvumas. En sá tími sem fer í tölvuna, oft einir sex tímar á dag, er jafnan tekinn frá öðru þarflegra, til dæmis bóklestri eða svefni. Vægasta stigi lýsir Bergur Ebbi sem þarf að kíkja á netið á hálftíma fresti frá því hann opnar augun fyrst á morgnana, en það kemur þó ekki í veg fyrir að hann geti skrifað bók.
Rót vandans er eðli þess upplýsingamagns sem er að finna á netinu, það er brotið niður í smáagnir, allt í belg og biðu án nokkurs minnsta skipulags og með öllu tímalaust og staðlaust, tími netsins er hic et nunc, „hér og nú“. En um það gilda orð heimspekingsins nusquam est qui ubique est – „sá sem er alls staðar er hvergi“. Enginn getur orðið fróður af því að liggja í netinu, sú vitneskja sem hann fær þar er í eðli sínu ekki annað en sparðatínsla, hún er hluti af því sem Bergur Ebbi kallar „grúsk“.
En nú vill reyndar svo til að hann notar þetta sama orð, „grúsk“, einnig um nokkuð ólíkt fyrirbæri, án þess að gera sér fulla grein fyrir andstöðunni: „Það eru til grúskarar sem lifa varla í samtíma sínum, sem lifa eftir lögmálum sem eru löngu horfin, hlusta aðeins á tónlist sem kom út fyrir 1960, horfa bara á kvikmyndir og sjónvarpsþætti sem sýndir voru á árunum 1940–50 … Fyrir þeim er þetta ekki tilviljunarkennd afþreying heldur afmörkun hugsunarinnar, mörk visku og sjálfsmyndar.“ (138)
Það sem hér er á dagskrá á ekkert skylt við sparðatínslu, þessir „grúskarar“ eru ekki flugnapappír sem hirðir allt sem tölvan kann að tína upp á netinu meðan fingurnir flakka, þeir eru í leit sem komin er frá þeim sjálfum, kannske leit að svari við einhverri brýnni tilvistarspurningu eða í þörf fyrir að svala einhverjum tilvistarþorsta. Dæmi um þetta er maður sem vill vita allt um heimspeki Epikúrs eða annar sem hlustar einungis á barokk-tónlist (nema það sé sami maðurinn). En til að vera á slíkum stað í lífinu þarf fyrst einhverja nokkuð trygga uppbyggingu sálarinnar, og slíka uppbyggingu fær enginn í óskapnaði netsins, þvert á móti, sá hrærigrautur stuðlar einungis að því að afbyggja sálina. Eitthvað þessu líkt var það sem franski rithöfundurinn Bernanos sagði þegar árið 1945: „Maður skilur alls ekki neitt í nútímamenningu nema hann viðurkenni fyrst að hún er allsherjar samsæri gegn innra lífi af hvaða tagi sem er.“ Kannski er þetta ofmælt, en það fannst mér þó ekki þegar ég heyrði um nýja aðferð við sögukennslu, hina svokölluðu „tematísku sögu“. Þar var allt tímatal útlægt gert og í staðinn var sögunni skipt í efniskafla, t.d. hét einn kaflinn „maðurinn siglir“ og var þar fjallað um eintrjáninga, kjarnorkukafbáta, karavellur, víkingaskip, tríerur, kajaka, djúnkur, gufuskip og hvaðeina, allt á sömu síðunum. Með því að kenna sögu á þennan hátt var hægt að girða fyrir það með öllu að nokkur nemandi lærði nokkurn skapaðan hlut í sögu, heilinn var kominn í hrærigraut, hann var reiðubúinn í netið.
Nú liggur í augum uppi að téður barokkari getur haft mikið gagn af netinu, hann getur flett upp í því til að leita að beinum upplýsingum um höfunda, verk, útgáfur og slíkt, og nálgast fáheyrðar tónsmíðar, og síst ber að vanmeta það. En hann heyrir tónlist á netinu í vídd tímans og fagurfræðinnar, í eyrum hans er hún aldrei „eitthvað sem ég fann á netinu“ (það er setning sem ég hef heyrt oftar en einu sinni). Upplýsingarnar sem hann fær falla inn í þá byggingu sem þegar var fyrir hendi. En það er jafn ljóst að netið er aðeins hjálpartæki og hefur aldrei síðasta orðið, það er að finna í bókum, prentuðum nótum og upptökum, eða í eigin spilverki hvers og eins og í þeirri hugsun sem við þetta skapast.
En þegar þetta hefur verið gert upp er nauðsynlegt að ganga lengra, líta á netið úr meiri fjarlægð og þá fær það enn aðra mynd, það er eins og japanska brúðuleikhúsið bunraku, þar sem brúðan blasir við fremst á sviðinu í björtum litum, en fyrir aftan hana standa menn í svörtum kuflum og stýra öllum hennar hreyfingum. Áhorfendum finnast þeir stundum óhugnanlegir, þeir eru eins og einhver myrkur kraftur sem ráði lífi hvers einstaklings. Bak við netið eru líka svartklæddir menn og konur, í krafti þess geta þau vitað allt um þann sem er að flakka um þennan miðil, ekki aðeins hvað hann skrifar, les, skoðar og kaupir, heldur líka hvernig hann les, hvort hann hikar, hleypur yfir eða hættir við, og í gegnum „lækin“ hvað hann hugsar.
Allt þetta liggur galopið fyrir, með þessu er hægt að vita meira um hvern og einn en hann getur nokkurn tíma vitað um sjálfan sig, það er hægt að gera af honum nákvæma röntgenmynd hugsunarinnar. Þeir sem ráða yfir netinu beita alls kyns brögðum til að fá sem allra mestar upplýsingar, t.d. með því að búa í sífellu til ný hlutverk þess, svo sem „lækið“ á sínum tíma, á þann hátt fá þeir menn til að liggja lengur í netinu, afhjúpa sig enn meir. Með sínum algóritmum geta þeir einnig séð til þess að netskoðari fái í hendur það efni sem hann er ginnkeyptastur fyrir, til að hafa áhrif á skoðanir hans og gerðir. Og þessar upplýsingar liggja ekki ónotaðar, því fer fjarri, þær ganga kaupum og sölum og fá svartklæddu brúðumeisturunum ótakmarkaðan auð í hendur. Þeir eru nú flestum öðrum óligörkum ríkari. Og þessu heldur stöðugt áfram, nú er kominn af stað áróður um að leggja niður seðla og myntir og láta öll peningaviðskipti fara fram gegnum gemsa. Þannig verður hægt að vita allt um viðskipti hvers og eins, hann getur ekki einu sinni keypt sér ís án þess að það sé skráð, svo og staður og stund.
Vinkonu minni sinnaðist einu sinni við samstarfsmann sinn og sendi honum harðort tölvubréf. Svo leið stuttur tími og þá fékk hún á netinu auglýsingu um vúdú-kukl, það var pakki með brúðum og nálum og leiðarvísi um það hvernig þetta mætti nota til að ná sér niðri á fjandmanni sínum (það var reyndar talað um „svikulan elskhuga“, þeir sem þarna voru að verki höfðu eitthvað misskilið bréfið) og senda honum óþol og ergi. Enginn veit hvað af þessu hefði getað hlotist, en sem betur fer var vinkona mín skynsöm og leiddi boðið hjá sér. Til eru margar sögur af þessu tagi. Þetta er hvimleitt og getur verið skaðlegt, en verra er þó þegar upplýsingarnar komast í hendur spunadoktora og undirferlisgrafara stjórnmálamanna. Spurningin er þá hvort „lýðræði“ verði ekki innantómt orð. Sumir segja að sú sé raunin nú þegar.
Ef mönnum er hætt að lítast á blikuna geta þeir huggað sig með því að enn er leið netsins og tölvanna ekki hálfnuð, við erum enn í nokkuð góðum málum miðað við það sem koma skal. Nú er verið að hanna tölvubúnað sem gerir kleift að bera kennsl á andlit í fjarlægð, kannske í ólgandi umferð eða mitt í áhorfendaskara á fótboltakappleik. Á þessu munu Kínverjar hafa mikinn áhuga. Sennilega eru þeir ekki einir um það. Og svo er það gervigreindin svokallaða sem dalbúar í hugljómun eru í óða önn að klambra saman.