Lokaæfing Svövu Jakobsdóttur, sem Háaloftið sýnir núna í Tjarnarbíó undir stjórn Tinnu Hrafnsdóttur, er hátindurinn á leikritaskrifum höfundar. Glæsilega byggt verk og fantalega vel skrifuð samtöl sem kafa æ dýpra í huga og sálarlíf persónanna um leið og þau afhjúpa þeirra innsta eðli. Og það eðli er ekki einfalt.

Lokaæfing

Verkfræðingurinn Ari (Þorsteinn Bachmann) er hugmyndaríkur og snjall vísindamaður, menntaður í Þýskalandi. Hann fær greinilega ekki útrás fyrir allt sem í honum býr í vinnunni og í frístundum hefur hann dundað sér við að búa til byrgi undir kjallara hússins og búa það vistum þannig að hann og kona hans, píanókennarinn Beta (Elma Lísa Gunnarsdóttir), geti lifað af þegar heimurinn ferst. Upphaflega var það kjarnorkusprengjan sem Svava hafði í huga – enda það sem allir óttuðust mest þegar leikritið var skrifað. Nú fáum við heimsendaspár á hverjum degi í fjölmiðlum, það er hryðjuverkaógn, yfirvofandi vatnsskortur á stórum svæðum, yfirvofandi flóðahætta annars staðar vegna hlýnunar andrúmsloftsins … En í rauninni hefði verið óþarfi að taka sprengjuna úr verkinu eins og Háaloftsfólk gerir; aldrei er að vita hvenær ISIS-liðar koma sér henni upp.

Þegar leikritið hefst eru Ari og Beta að flytja niður í byrgið og Beta verður stórhrifin. Þó að byrgið sé lítið er það býsna fullkomið – eins og dúkkuhús með öllu. Hún hlakkar til að fá að vera þarna niðri ein með manninum sínum eins og einn sumarleyfistíma, en þau hjónin hafa sagt ættingjum að þau séu í fríi á Kýpur. Henni finnst æðislegt að rifja upp fyrstu búskaparárin við þröngan kost í svona pínulitlu rými enda hefur hún alls ekki gert sér grein fyrir því hvað Ara er mikil alvara með þessari „lokaæfingu“, þessari tilraun til að þola við í einangrun þangað til aftur verður óhætt að fara upp á yfirborð jarðar. Það rekur hún sig á þegar rafhlaðan í spilaranum hennar tæmist og Ari neitar henni um að útvega aðra. Þetta átti hún að sjá um eins og aðrar sérþarfir sínar. Samtal þeirra um takmarkanir vistaöflunar og leyndina sem verður að umvefja byrgið er einn magnaðasti og um leið skemmtilegasti hluti verksins. Eftir það samtal verður líðan Betu æ verri í einangruninni og maður minnist annarra hjóna sem einnig voru lokuð inni í litlu byrgi og fundu ástina eyðast. Ætli Svava hafi stúderað lokaþátt Fjalla-Eyvindar Jóhanns Sigurjónssonar þegar hún skrifaði Lokaæfingu? Stígandin er hröð og örugg fram að lokaátökunum sem skilja áhorfandann eftir úrvinda.

Ég hef sjaldan setið í eins hljóðum sal og á þessari sýningu. Það var beinlínis eins og áhorfendur önduðu ekki, slík var dauðaþögnin í kringum mig. Eins og sjálfsagt er ríkir djúp þögn niðri í byrginu. Engin umhverfishljóð heyrast eftir að þau loka að sér í upphafi leiks. Meðan rafhlaðan endist heyrum við óm úr tæki Betu af tónlist Bachs, eftir það örstutt slitur úr útvarpi þegar hún stelst til að kveikja á því. Bara þögnin yrði smám saman þrúgandi þó ekki kæmi fleira til. Viðbrögð persónanna tóku sömu þróun og var sérstaklega athyglisvert að fylgjast með áhrifunum á Betu sem Elma Lísa túlkaði á aðdáunarverðan hátt. Hún nær frábærum tökum á að sýna fullorðna konu sem hefur öll einkenni hamingjusams eftirlætisbarns; hún er dúkka. Dúkkan hans Ara sem vill gera vilja hans í einu og öllu af því hamingja hans er hennar markmið. Afleiðingar þess verða skelfilegar.

Okkur hjón minnir að Ari Sigurðar Karlssonar hafi verið talsvert meira sjarmerandi karlmaður framan af frumuppfærslu verksins 1983 en Ari Þorsteins. Ef til vill þarf Ari þessarar uppsetningar að vera kaldari og vélrænni vegna þess að markmiðið með dvölinni í byrginu er óljósari í þessari útgáfu leikritsins; eiginlega virðist hún vera meiri della í Ara en markviss tilraun. Raunar er engin leið að sjá að hægt sé að mæta nokkrum nefndum yfirvofandi vanda með því að grafa sig í jörð. Sé þetta réttur skilningur vann Þorsteinn hlutverkið vel og samleikur þeirra tveggja var afar áhrifaríkur. Einnig var Kristín Pétursdóttir verulega fín í litlu en afar mikilvægu hlutverki nemandans Lilju.

Þrátt fyrir yfirlýsta pólitíska grunnhugmynd verksins er það fyrst og fremst rannsókn á mannlegu eðli og sem slíkt er það sígilt. Sýning Háaloftsins er vel unnin hjá Tinnu og öll umgjörðin er hugsuð í þaula. Svið Stígs Steinþórssonar er eins fullkomið og litla dúkkuhúsið hennar Betu á að vera, lýsing Arnþórs Þórsteinssonar markviss og búningar Unu Stígsdóttur við hæfi. Ekki missa af þessari Lokaæfingu.

Silja Aðalsteinsdóttir