Kjartan Ólafsson: Draumar og veruleiki. Stjórnmál í endursýn. Um Kommúnistaflokkinn og Sósíalistaflokkinn.
Mál og menning, 2020. 570 bls.
Úr Tímariti Máls og menningar, 1. hefti 2021
Þessi bók er afrek og mikilsverð viðbót við sögu íslenskrar vinstrihreyfingar á 20. öld. Hún er mikilvæg ekki bara vegna þess að hún er umfangsmikil, hátt í sex hundruð blaðsíður í tveimur dálkum í stóru broti, heldur líka vegna þess að hún er skrifuð af manni sem var lengi virkur stjórnmálamaður, stóð á tímabili í hringiðunni miðri og hafði persónuleg kynni af öllum helstu leiðtogum kommúnista- og sósíalistaflokksins. Kjartan Ólafsson er líka sagnfræðimenntaður rithöfundur sem leggur sig fram um að hafa það sem sannara reynist. Öll eigum við okkar sjálfsréttlætingar og þær má líka finna í þessari bók. En einn af kostum hennar er engu að síður að hún er hlífðarlaus, eins og höfundur segir sjálfur í inngangi, og á ekkert skylt við endurlit sjálfumglaðra stjórnmálaforingja sem reyna að móta almennan söguskilning með því að lýsa ferli sínum sem samfelldri sigurgöngu.
Bókin er ekki bara endurlit heldur líka uppgjör, hvort sem höfundur hefur ætlað sér það eða ekki, og á köflum sársaukafullur lestur okkur sem höfum lengi haft samúð og stundum átt samleið með hreyfingunni. Lesandinn skynjar að höfundur er að spyrja lykilspurningar án þess að hún sé beinlínis orðuð svo: Var þessi hreyfing skelfilegt feilspor í baráttunni fyrir jöfnuði og réttlæti? Afvegaleiddu foringjar hennar marga góða liðsmenn með því að styðja gagnrýnislaust aðra af verstu alræðisstefnum aldarinnar? Það er auðvelt fyrir gamalgróna sósíaldemókrata að svara þessari spurningu játandi, en hún er þungbærari þeim sem stóðu vinstra megin við þá, hvað þá manni sem var framkvæmdastjóri Sósíalistaflokksins og síðar Alþýðubandalagsins, ritstjóri Þjóðviljans – og þingmaður – og með þeim hætti arftaki þessara forystumanna. Hver var þá pólitísk arfleifð þeirra, þegar allt kemur til alls? Þessa spurningu tekst Kjartans á við í endursýn á efri árum, og það gefur bókinni á köflum tragíska dýpt. Því hann gengur nærri sjálfum sér og mannlýsingar hans á nánum vinum og samverkamönnum eru persónulegri en að minnsta kosti þessi lesandi hefði búist við. Hann skrifar persónusögu fremur en þjóðfélagsgreiningu, og spyr siðferðilegrar spurningar um getu manna til að horfast í augu við tálsýnir og lífslygi og hún verður einn mælikvarði hans á það fólk sem hann lýsir.
Þess vegna verður afstaða hreyfingarinnar til Sovétríkjanna rauður þráður verksins. Hvernig stóð á því að menn sem áttu sér hugsjón um betra samfélag á Íslandi, og börðust með og í verkalýðshreyfingunni fyrir bættum kjörum og auknum réttindum almenningi til handa, bundu trúss sitt við ógnarstjórn sem kúgaði almenning? Og hvernig stóð á því að sumir þeirra gátu aldrei horfst í augu við það seinna? Kjartan segir réttilega: „Fyrir flest nútímafólk er erfitt að skilja hvílíkt aðdráttarafl Sovétríkin, undir stjórn Stalíns, höfðu á árunum um og upp úr 1930 fyrir ótaldar milljónir af gáfuðu og góðviljuðu fólki um víða veröld“ (131). Réttlætingin er ekki vandfundin á fyrstu árunum eftir rússnesku byltinguna – að lokinni heimsstyrjöld í kjölfar harðsvíraðrar heimsvaldastefnu og nýlendukúgunar hlutu margir að horfa til þess hvort ekki væri verið að skapa betra samfélag einhvers staðar í veröldinni. Sú von hlaut aftur byr undir báða vængi í kjölfar heimskreppunnar sem hófst í árslok 1929 þar sem afleiðingar hins óhefta kapítalisma birtust alþýðu manna í grimmdarlegri mynd og nefnir Kjartan kreppuna sem aðra höfuðástæðu hollustunnar við Sovétríkin. Við það má bæta að það er meira að segja hægt að skilja samúðina með Sovétríkjunum á fyrstu árunum eftir seinna stríð – þau höfðu átt stóran þátt í ósigri Hitlers og nasismans og þar með vakið nýja von hjá þeim sem höfðu orðið að kyngja innrás þeirra í Finnland í upphafi stríðsins – þótt svívirðileg framganga Stalíns og liðsmanna hans hefði þá mátt vera mörgum ljós.
Kjartan telur hina höfuðástæðuna fyrir sovéthollustunni liggja í hugmyndafræði marxismans sem hann líkir við trúarbrögð. Þessi trúarskýring rímar ágætlega við orðræðuna lengi fram eftir öldinni: Guðinn sem brást hét bókin þar sem nokkrir rithöfundar gerðu upp við sína kommúnísku fortíð (íslensk útgáfa 1950), það var talað um að ganga af trúnni og bila í trúnni. Halldór Laxness nefnir líka trúgirni vinstrimanna í bók sinni Skáldatíma (1963) sem skýringu á langvarandi sovéthollustu sinni og félaga sinna. Brynjólfur Bjarnason heimspekingur og einn helsti leiðtogi Kommúnista- og síðar Sósíalistaflokksins fer til Kína 1958 og hyllir eftir það Maó formann í hreint ótrúlegum ritgerðum. Um það segir Kjartan: „Sannleikurinn er sá að frammi fyrir sviðsettri geisladýrð Stalíns var hinn virti íslenski heimspekingur, Brynjólfur Bjarnason, eins og stórt barn. Spurult barn sem trúir þó á margvísleg kraftaverk, einkum þau sem von er á í mestri fjarlægð frá heimahögunum“ (266).
Kosturinn við þessa kenningu, fyrir alla sem hafa samúð með leiðtogum sósíalista, er sá að trú er í huga flestra jákvætt fyrirbæri og samtímis ætlast heldur enginn til þess að einlægir trúmenn varpi trú sinni léttilega fyrir róða. En þar er líka komið að ókostinum; trú vísar til einhvers sem er handan við raunheiminn, trú tekur við þar sem þekkingu sleppir. Og þegar líður á fimmta og sjötta áratuginn eykst almenn þekking á samfélögunum austantjalds, upplýsingastreymið er meira, fleiri fara þar um og kynnast ástandinu af eigin raun. Eftir að Sovétmenn brjóta niður uppreisnina í Ungverjalandi 1956 getur trúin ekki lengur verið réttlæting forystumanna vinstrihreyfingarinnar, umtalsverð þekking er komin í staðinn, nú tala sumir þeirra gegn betri vitund.
Hér má hafa Halldór Laxness til vitnis en Kjartan fjallar talsvert um hann í bókinni og birtir m.a. glögga pólitíska greiningu á Gerplu. Halldór hafði þá um tuttugu ára skeið verið einn helsti – og án vafa áhrifaríkasti – liðsmaður Sovétríkjanna á Íslandi, hafði heimsótt þau tvisvar og var samtímis orðinn virtasti rithöfundur þjóðarinnar. Þegar leið á sjötta áratuginn sóttu æ meiri efasemdir um sovéthollustuna á Halldór, þótt hann væri hikandi við að gagnrýna félaga sína; það er reyndar ekki rétt hjá Kjartani að það hafi verið hik á Halldóri árið 1952 vegna þess að hann átti stóran lesendahóp eystra (326): fyrir dauða Stalíns hafði Halldór ekki fengist útgefinn í Sovétríkjunum svo þar var enginn að lesa hann, en engu að síður gagnrýnir hann ekki stjórnarfarið eystra fram eftir sjötta áratugnum.
En hann snerist eindregið gegn innrásinni í Ungverjaland 1956 í grein í Þjóðviljanum á byltingardeginum 7. nóvember. Og hann mótmælti líka opinberlega þegar austur-þýskur útgefandi hans, Walter Janka, gamall róttæklingur og baráttumaður úr spænsku borgarastyrjöldinni, var handtekinn af leynilögreglunni og dæmdur í fimm ára fangelsi. En nú voru sumir félaga Halldórs, sem áður höfðu hampað Gerska ævintýri skáldsins hvað mest, hættir að hlusta og reyndu að leiða breytta sýn hans sem mest hjá sér. Það hlýtur að hafa verið snúið einmitt af því Halldór gerðist ekki pólitískur umskiptingur (frekar en Kjartan sjálfur, eins og hann segir í formálanum). Halldór fór ekki yfir víglínu kalda stríðsins líkt og kollegar hans sem skrifuðu um guðinn sem brást, hann hélt tengslum við hreyfinguna og vini sína, sat t.d. áfram í stjórn Máls og menningar og MÍR (Menningartengsla Íslands og Ráðstjórnarríkjanna) en sagði skilið við sovétkommúnismann. Brynjólfur Bjarnason fokreiddist grein Halldórs um innrásina í Ungverjaland og Einar Olgeirsson beitti sér af alefli til að koma í veg fyrir að flokksstjórn Sósíalistaflokksins ályktaði gegn innrásinni í Ungverjaland. Ári seinna birtir Brynjólfur grein í Rétti („Gelgjuskeið nýrra þjóðfélagshátta“, sjá bls. 264) þar sem hann ver ógnarstjórn Stalíns gegn afhjúpunum Khrústjovs í svokallaðri leyniræðu á 20. flokksþingi sovéska kommúnistaflokksins 1956 og réttlætir í viðauka innrásina í Ungverjaland vegna stuðnings vestrænna stjórnmálaafla við uppreisnina. Spurult barn?
„Trúarkenningin“ dugir því ekki ein og sér. Pólitík er líka alltaf barátta um völd og heimsveldið eystra var lykilþáttur í hugsun íslensku sósíalistaforingjanna um völd og áhrif, þarna eygðu þeir framtíðina, jafnvel löngu eftir að þeim varð ljóst að Sovétríkin voru fjarri því það samfélag jöfnuðar og réttlætis sem þá hafði eitt sinn dreymt um. Kjartan segir réttilega að Einar Olgeirsson hafi alltaf álitið sig vera hluta af heimshreyfingu (13) og hann hélt áfram að fylgja þeirri hreyfingu þótt hún hefði löngu villst af leið.
En hvenær mátti þeim vera það ljóst? Þegar saga Kommúnistaflokks Íslands er rifjuð upp, eins og Kjartan gerir með ágætum, renna á mann tvær grímur: Jú, vissulega er hún þarna, baráttan fyrir mannsæmandi kjörum og réttindum alþýðufólks. En samtímis fer fram leikrit sem er eins og farsi ef það væri ekki örspeglun eins stærsta harmleiks 20. aldarinnar: Flokkslegar hreinsanir, opinber sjálfsgagnrýni, línan að utan (Stalínsbréfið er merkilegt dæmi), brottrekstrar og kúvendingar eftir fyrirmælum frá Moskvu. Einna merkilegust þar er saga Stefáns Pjeturssonar, náins vinar Einars Olgeirssonar og kannski skólaðasta Íslendingsins í marxískum fræðum. Hann lendir í þessu leikriti í Moskvu, er rekinn úr flokknum, krafinn um sjálfsgagnrýni, tekinn inn og rekinn aftur og úr landi og hugsanlega stóð til að handtaka hann við landamæri Sovétríkjanna og Finnlands 1934, og hver veit hvað þá hefði orðið um hann ef ekki hefðu orðið pólitísk umskipti í Moskvu skömmu áður og svokölluð samfylkingarlína tekin upp (og ógnarstjórnin hert). Kjartan getur ekki fremur en nokkur annar svarað því hvort Stefán hafi verið í lífshættu, en hugsanlega hefði hann orðið þessum vinum sínum úr kommúnistaflokknum það sem Vera Hertzsch varð Halldóri Laxness nokkrum árum síðar, en hann var sem kunnugt er viðstaddur handtöku hennar í Moskvu í mars 1938: persónuleg og óræk sönnun þess að hér var eitthvað skelfilegt á seyði. Sama ár má reyndar litlu muna að Einar Olgeirsson sæti sömu örlögum þegar fulltrúar alþjóðasambands kommúnista (Komintern) ræða opinskátt um að „klófesta“ hann í Bergen fyrir brottför hans til Íslands (193, þar birtir Kjartan líka mynd af þessum merkilegu gögnum).
Trúðu þeir á þetta og kyngdu þess vegna öllum stefnubreytingum, meira að segja griðasáttmála Hitlers og Stalíns, undir lok fjórða áratugarins? Saga flokksins sýnir að þetta var engin barnatrú; hugsun um völd og framtíð, það er að Sovétríkin – hvað sem þar kynni að misfarast – yrðu stórveldi framtíðarinnar sem rétt væri að binda trúss sitt við, hefur að minnsta kosti alltaf verið samofin trúnni sem sett var saman úr frösum og hugmyndabrotum frá marxismanum. Strax á fjórða áratugnum leita Einar og félagar eftir fjárstyrk frá Komintern í Moskvu, þótt eftirtekjan hafi líklega verið rýr eins og Kjartan tekur fram. Hugmyndafræðin skipti þessa menn sannarlega máli og þeir Einar og Brynjólfur verða seint sakaðir um að skara eld að eigin köku, eins og Kjartan bendir á, en þeir voru líka slyngir stjórnmálamenn að sækjast eftir áhrifum og völdum og Sovétríkin voru þeim táknmynd framtíðarinnar, stuðningur við þau lykiltenging við þjóðfélagslegt vald.
Nú er rétt að halda því til haga að með eflingu Alþýðubandalagsins eftir 1956, að ekki sé talað um eftir að Sósíalistaflokkurinn var lagður niður 1968, var önnur kynslóð komin til valda í þessari hreyfingu, einmitt menn eins og Kjartan sem urðu afhuga sovéskum sósíalisma og menn sem höfðu kynnst sæluríkjunum fyrir austan af eigin raun. En lengi vel var ákveðin hálfvelgja í þessu uppgjöri, menn vildu halda góðum tengslum við gömlu leiðtogana, sáu sig sem arftaka sömu hreyfingar og allt fram til þess að Sósíalistaflokkurinn er lagður niður voru ákveðin flokksleg tengsl austur fyrir járntjald. Það er reyndar merkilegt að lesa hjá Kjartani hvað pragmatískir menn eins og Lúðvík Jósepsson og Ingi R. Helgason létu sér annt um þau. Hálfvelgjan lýsti sér ekki bara í tregðu við hugmyndalegt uppgjör, heldur líka í starfsháttum: Ágreiningur mátti helst aldrei sjást á opinberum vettvangi, alvöru umræður fóru fram í bakherbergjum, ekki mátti styggja gömlu leiðtogana, hvað þá ræða um fjárstyrki frá Sovétríkjunum. Meira að segja seint á tíunda áratugnum, þegar Jón Ólafsson var að vinna að rannsóknum í rússneskum skjalasöfnum og undirbúa bók sína Kæru félagar, hafði einn þessara gömlu forystumanna á orði við mig sem útgáfustjóra Máls og menningar hvort það væri satt að ég væri „með einhvern mann að snudda fyrir mig í Moskvu“. Hálfvelgjuna og ólýðræðislegt vinnulagið sem var hreyfingu íslenskra sósíalista til mikils tjóns má glöggt lesa út úr bók Kjartans.
Bókin fjallar þó fyrst og fremst um persónur og leikendur; Kjartan rekur sig eftir allri sögu hreyfingarinnar um leið og hann fylgir lífshlaupi helstu forystumanna hennar. Hann birtir í bókinni mörg æviágrip kommúnista og sósíalista og dregur upp eftirminnilega karaktermynd af mörgum þeirra, oft með hliðsjón af persónulegum kynnum sem eru iðulega mjög forvitnileg.
Ein minnisstæðasta mynd bókarinnar er dregin af Kristni E. Andréssyni. Kjartan rekur stofnun Máls og menningar 1937 og segir frá fyrstu 10–15 árunum í starfi félagsins sem jafnframt var frjóasti tími Kristins sem útgefanda og bókmenntafræðings. Honum tókst að laða fjölda góðra höfunda til samstarfs við sig, hélt sterkum tengslum langt inn í raðir borgaralegra menntamanna, enda gæddur persónutöfrum og mikilli leikni í mannlegum samskiptum eins og Kjartan nefnir. Kristinn skrifaði líka á þessu tímabili gagnmerka bók um íslenskar nútímabókmenntir sem er fjarri sósíalrealískum kenningum og gaf út mörg merkileg bókmenntaverk. En aftur reynist miður sjötti áratugurinn marka tímamót, kalda stríðið skóp pólitískri hugsun allt annan ramma en heimskreppan. Kristinn áttar sig ekki á pælingum rithöfundanna í kringum tímaritið Birting, hann missir tengslin við nýjungagjarnar samtímabókmenntir, útgáfan stendur ekki vel og pólitíska sýnin verður æ einstrengingslegri. Hann fer meira að segja á þing sovéska kommúnistaflokksins 1956 en aðaltíðindi þess fara framhjá honum: leyniræða Khrústjovs um glæpi Stalíns.
Samtímis þessu ræðst Kristinn hins vegar í sitt mesta stórvirki: byggingu hússins á Laugavegi 18 og opnun bókabúðarinnar og lét fjármagna það að stórum hluta með leynilegum styrk frá Sovétríkjunum, eins og áður hefur verið sýnt fram á og Kjartan fer rækilega yfir. Fjöldi einlægra vinstrimanna lagði þessu fyrirtæki til sparnað sinn í gegnum félagið Vegamót án þess að hafa hugmynd um þetta og líklega vissu fæstir í stjórn félagsins af þessu heldur, að minnsta kosti hefur okkur sem síðar tókum við félaginu aldrei tekist að finna snifsi um þetta nokkurs staðar í reikningum eða fundargerðum. Mikilvægt er að halda því til haga að allur sá styrkur sem Mál og menning fékk til byggingarinnar kom til fyrir milligöngu Einars Olgeirssonar sem formanns Sósíalistaflokksins, eins og Kjartan nefnir: „Í Moskvu mun sú regla hafa verið í gildi að enginn „bræðraflokkur“ fengi úthlutun úr sjóðnum […] nema því aðeins að formaður viðkomandi flokks leitaði eftir því og gerðist milligöngumaður“ (342).
En greiðslurnar frá Sovétríkjunum bárust seint og ekki í takt við byggingarhraða hússins og raunalegur er sá kafli í bók Kjartans þar sem segir frá ferð Kristins til Tékkóslóvakíu til að reyna að ná í eitthvert fjármagn þar án árangurs: „Örvænting í Prag 1961“ nefnist hann og geymir áhrifamiklar tilvitnanir í dagbók Kristins, fjárhagsleg og pólitísk vonbrigði lýsa sér í sáru hugarangri (339). Frá Tékkóslóvakíu fer Kristinn meira að segja áfram til Rúmeníu og Búlgaríu að biðja um styrk handa Máli og menningu en sú ferð reynist heldur ekki til fjár. Er líka vandséð hvernig ráðaflokkar í þessum löndum hefðu átt að réttlæta fyrir sjálfum sér að byggja bókabúð á Íslandi.
En rússagullið kom um síðir og Kristinn hélt tryggð við Sovétríkin allt til dauðadags. Sú tryggð stóðst meira að segja þá prófraun sem markaði endalok allrar sovéthollustu bæði flokks og blaðs, þ.e. innrás Sovétríkjanna og bandamanna þeirra í Tékkóslóvakíu í ágúst 1968. Undir lok september sama ár er haldinn stjórnarfundur hjá Máli og menningu heima hjá afa mínum og ömmu, en Halldór Stefánsson og Gunnþórunn Karlsdóttir voru nánir vinir Kristins og Þóru Vigfúsdóttur. Þarna voru þeir Magnús Kjartansson, Jakob Benediktsson, Sigfús Daðason, Halldór og Kristinn og ræddu auðvitað innrásina í Tékkóslóvakíu, þótt það komi ekki fram í fundargerð. Nú var afa mínum, sem hafði verið samferðamaður Kristins hjá MM í þrjátíu ár og vinur miklu lengur, endanlega nóg boðið og Kristinn hefur skynjað að hann var einn viðstaddra um að vilja réttlæta framferði Sovétmanna. Enn er mér, sem var að sniglast um stofuna heima hjá afa og ömmu drengstauli á þrettánda ári, minnisstætt þegar Kristinn leit snöggt á afa minn og sagði sínum lága rómi sem allir hlustuðu þó eftir: Et tu, Brute. Líklega hefur enginn viðstaddra vitað að honum bárust þetta ár 20 þúsund dollarar frá Sovétríkjunum sem eins konar eftirlaun.
Áhrifamikil er líka frásögn Kjartans af því þegar þeir Magnús Kjartansson heimsækja Kristin á sjúkrabeði 1973 og hlusta hljóðir á óbótaskammir hans um Alþýðubandalagið, Þjóðviljann og fornvin hans, Halldór Laxness. Kjartan rekur síðan ár Sigfúsar Daðasonar hjá Máli og menningu eftir fráfall Kristins, en um þau efni skrifaði Þröstur Ólafsson grein í síðasta hefti TMM og skal það ekki rakið frekar hér. Þó er rétt að halda því til haga að mér finnst hæpið að smætta ágreininginn um stefnu og rekstur bókaforlagsins niður í „aðför“ að Sigfúsi Daðasyni, eins og Kjartan hneigist til, og rekja afstöðu Magnúsar Kjartanssonar í þessum deilum til veikinda þess síðarnefnda.
Hér hefur verið staldrað við myndina af Kristni en Kjartan fjallar líka ítarlega um Brynjólf, Einar Olgeirsson og Lúðvík Jósepsson og í styttra máli um miklu fleiri. Hrifning hans af Einari leynir sér ekki og þarf engan að undra því Einar hefur verið karismatískur leiðtogi. Meira að segja undirritaður man eftir heimsókn Einars til okkar róttæklinga í Menntaskólanum við Tjörnina, þar sem hann skyldi aldeilis tekinn í bakaríið (frá vinstri!) en endaði á því að hann sjarmeraði viðstadda upp úr skónum. En sú hrifning getur villt sýn: Einar var harður stalínisti og stóð vörð um Sovétríkin eftir fremsta megni, líka eftir innrásina í Ungverjaland 1956. Franz Kafka segir á einum stað að örlögin vitrist okkur eitt andartak eins og þegar tvinna er kippt í gegnum nálarauga og slíkt leiftur virðist hafa farið í gegnum huga Einars eftir innrásina í Tékkóslóvakíu þegar hann skrifar: „langvarandi glímu í Kommúnistaflokki Sovétríkjanna milli hugsjónastefnu sósíalismans annars vegar og valddýrkunar þeirrar, er allt ríkisvald elur á, hins vegar hefur nú lokið í bráð og lengd með því að hið nakta ofbeldi ríkisvaldsins er látið koma í stað rökræðna […] 21. ágúst 1968 er svartasti dagur sósíalistískrar hreyfingar síðan 4. ágúst 1914“ (468). En þetta ljós slokknaði og í viðauka bókarinnar, „Úr Berlínargögnum“, má lesa heldur dapurlega sögu um stöðuga og eiginlega óskiljanlega viðleitni Einars á áttunda áratugnum til að halda góðu sambandi við austur-þýska kommúnistaflokkinn með mörgum heimsóknum og skýrslugjöf um þróun mála á Íslandi. Minnisstæð er líka frásögnin um misheppnaðar tilraunir til að fá heimspekiverk Brynjólfs útgefin í Austur-Þýskalandi. Í lokin brá þó fyrir öðru slíku leiftri hjá Einari: Hann lifði fall Berlínarmúrsins og hrun Sovétríkjanna og mun hafa haft á orði, þegar hann sá þrútið andlit Jeltsins í sjónvarpinu: „Og á þessi ósköp trúði maður“ (503).
Brynjólfur Bjarnason, Einar Olgeirsson og Kristinn E. Andrésson skrifuðu aldrei sína Gerplu eða sinn Skáldatíma og höfðu ekki heldur hugmyndalegan þrótt til að skilja áskoranir nýrra tíma, eins og Halldór félagi þeirra Laxness gerði þegar hann skrifaði ritgerðina um hernaðinn gegn landinu árið 1970 sem varð eitt grundvallarrit umhverfishreyfingarinnar á Íslandi. Þeir komu úr heimi þar sem orðið endurskoðunarsinni var skammaryrði. Auðvitað voru forystumenn kommúnista og sósíalista mikilsverðir liðsmenn fátæks fólks í sókn fyrir bættum kjörum og réttindum, áttu mikilvæga hlutdeild í að skipuleggja samtök vinnandi fólks, en á síðasta æviskeiði er framtíðarsýn þeirra orðin að fortíðarhyggju; þeir eru fangar kalda stríðsins og láta sig dreyma um stjórnmálabaráttu kreppuáranna. Sovétríkin voru framtíðin sem brást, svo vitnað sé í bókartitil eftir Jóhann Pál Árnason heimspeking.
Hér hafa verið raktar nokkrar hugrenningar sem kvikna við lestur bókar Kjartans Ólafssonar, Draumar og veruleiki. Lesturinn vekur margar fleiri: Til dæmis höfum við vinstrimenn lengi haldið í þá hugsun að baráttan gegn bandaríska hernum og NATO hafi verið jákvæðasti þátturinn í pólitísku starfi sósíalista og átt rætur í menningarlegri þjóðrækni og er ekki að efa að svo var um margan fótgönguliðann á leiðinni frá Keflavík. En þegar horft er til þeirra forystumanna sósíalista sem studdu leiðtoga Sovétríkjanna frá Lenín til Brezhnevs er óhjákvæmilegt að spyrja: var þetta ekki líka pólitísk útsjónarsemi fólks sem var sovétmegin í stórveldaátökunum og vissi að þarna mátti sækja fylgi út fyrir raðir sósíalista? Auðvitað er löngu sannað að Sovétmenn gengu ekki með neinar grillur um að þoka Íslandi út af bandarísku áhrifasvæði, en innanlands var með herstöðvaandstöðunni hægt endurvekja baráttuna milli góðs og ills í stjórnmálunum, endurvekja „sjálfstæðisbaráttuna“, tendra hreinan hugsjónaeld mitt í hrævareldum kalda stríðsins og styrkja um leið aðdráttarafl flokksins. Þarna hóf Kjartan Ólafsson sína stjórnmálabaráttu, sem framkvæmdastjóri hernámsandstæðinga, og þaðan lá leið hans í innsta hring Sósíalistaflokksins.
Bók Kjartans er stútfull af fróðleik sem sóttur er í prentaðar sem og óprentaðar heimildir og minningar höfundarins sjálfs, og í henni er líka fjöldi merkilegra ljósmynda. Einhverjar smávillur eru í henni sem trufluðu mig þó ekki og dálítið er um endurtekningar, eins og óhjákvæmilegt er í bók sem er byggð upp á æviþáttum margra manna með sameiginlega reynslu. En það breytir því ekki að hér er komin mikilvæg samantekt og einstakur vitnisburður um sögu íslenskrar vinstrihreyfingar á 20. öld. Höfundurinn og þau sem lögðu honum lið við vinnslu verksins hafa mikinn sóma af.