Pétur H. Ármannsson: Guðjón Samúelsson húsameistari.

Hið íslenska bókmenntafélag, 2020. 444 bls.

Úr Tímariti Máls og menningar, 3. hefti 2021

 

Guðjón Samúelsson húsameistari

Guðjón Samúelsson húsameistari

Þegar ég var að skríða upp í háskóla fyrir einum sextíu árum voru hreinar línur. Við lifðum þá á tímum hinnar miklu formbyltingar, allar gamlar hefðir voru útafdauðar og upp var risin nútímalistin, rót allrar listsköpunar í nútíð og framtíð, og hana hlutu allir sannir listamenn að iðka. Andspænis henni voru ekki aðrir en nátttröll úr fortíðinni, þeir sem héldu dauðahaldi í stirðnuð form. Fyrir þessu voru sterk rök og sannfærandi.

Tvískiptingin náði yfir allt sviðið. Í myndlist birtist nútíminn í abstrakt-list undir áhrifum af kynslóð málara sem kom fram í París eftir heimsstyrjöldina síðari. Hún reis ekki síst á kenningu um að „fígúratíf“ eða hlutbundinn list fyrri tíma hefði verið nokkurs konar bastarður, klofin milli viðfangsefnisins, þess sem myndin „var af“, og svo myndarinnar sjálfrar, forms og lita. Í abstrakt list væri þessi klofningur horfinn, sjálf listin birtist ómenguð af einhverju veraldlegu sjónarspili. Þess vegna hlyti hún að ríkja framvegis.

Í tónlist hljómaði nútíminn í tólftónakerfi Schönbergs og Weberns. Sú stefna var í rauninni þríþætt. Fyrst var ítarleg forskrift um það hvernig tónlistarsköpun ætti að vera – tólftónakerfið sjálft eða „seríalisminn“ – síðan mikil og voldug kenning sem sannaði að fyrri kerfi væru komin að þrotum, innan þeirra væri ekki lengur hægt að semja, og ekkert gæti tekið við nema þetta nýja kerfi, það væri semsé söguleg nauðsyn, og loks rök gegn þeim sem fúlsuðu við seríunum; þeir voru þá margir. Í Tónlistarskólanum var mér sagt að ung tónskáld um allan heim væru nú á einu máli um að hér eftir gæti tónlistarsköpun ekki byggst á neinu öðru en arfinum frá Schönberg og þó einkum Webern. Reyndar var stundum ýjað að því að í nesjamennsku sinni væru Íslendingar á eftir tímanum, erlendis væri seríalisminn búinn að sigra, „sinfónía Weberns er svo vinsæl í útlöndum að hún er næstum eins og dægurlag“, var mér einu sinni sagt, í sama skóla.

Í húsagerðarlist hljómaði hinn nýi tími fyrst og fremst í einu nafni: Le Corbusier, og það var ekki síst af því að hann lét sér ekki nægja að teikna hús, hann setti fram ýtarlegar kenningar, ekki aðeins um lag húsanna og mannlíf innan þeirra veggja heldur líka um borgir og skipan þeirra. Og mörgu af því tókst honum að hrinda í framkvæmd. Þetta var mun víðtækara en nokkur arkitektúr, þetta var arkitektúrinn orðinn að útópíu, gósenlandi framtíðarinnar sem upp væri að rísa. Og mátti af því draga þá ályktun að í fyllingu tímans myndu menn sitja í búrum Le Corbusier innan um abstrakt-málverk og hlýða á seríur Weberns og lærisveina, eða kannski flauta þær, eins og Webern sjálfur mun hafa vonast til.

Þeir sem fylgdu ekki þessum kenningum voru hafðir að athlægi og á þá litið sem sérvitringa og misheppnaða listamenn, hvort sem þeir héldu sig við fyrri stefnur eða fóru einhverjar leiðir sem brutu í bága við rétttrúnaðinn. Það voru menn eins og Jón Leifs og Einar Jónsson, og jafnvel mætti bæta Guðrúnu frá Lundi í hópinn sem verðugan fulltrúa hins kynsins, enda voru sögur hennar uppspretta hins útbreidda orðs „kerlingabókmenntir“. En fremstur í flokki hinna útskúfuðu var þó Guðjón Samúelsson, og var það ekki að ástæðulausu. Enginn bjóst við því að hin umfangsmiklu verk Jóns Leifs myndu nokkru sinni heyrast, „Jón Leifs gekk svo vel frá sínum handritum að ekki hefði Wagner betur gert“, sagði rithöfundur við mig, „en verk Wagners eru flutt, verk Jóns Leifs eru hins vegar svo fullkomin að það þarf ekkert að flytja þau.“ Í safn Einars Jónssonar myndi varla nokkur maður koma nema flissandi skólakrakkar teymdir áfram af kennurum. Og innan skamms myndi enginn lesa hina miklu doðranta Guðrúnar frá Lundi þar sem stöðugt suðaði á kaffikatlinum. En um Guðjón Samúelsson gegndi allt öðru máli, hvort sem mönnum líkaði betur eða verr urðu þeir stöðugt að hafa verk hans fyrir augum, ef Reykvíkingar litu í vestur blasti Landakotskirkja við þeim, í austri var Hallgrímskirkja að rísa, ef þeir tóku sótt voru þeir kannski lagðir inn í Landspítalann, og þaðan sást beint til Háskólans. Á Akureyri var erfitt að komast á stað þar sem Matthíasarkirkja reis ekki við himin, og svo voru það Þingvellir, Laugarvatn… Menn básúnuðust yfir því að einn maður, sem hefði ekkert fylgst með tímanum, skyldi hafa sett svo stór spor, deilurnar um Hallgrímskirkju bættu gráu ofan á svart, nafn Guðjóns var haft í flimtingum.

En til að gera afskaplega langa sögu stutta, þá komst þessi útópía aldrei í framkvæmd, tímarnir breyttust á annan hátt en þessir forsprakkar nútímalistar spáðu, og létu þeir þó ekki undan síga baráttulaust. Abstraktlist málaranna í París eftir stríð, sem hafði sín miklu áhrif á Íslandi, reyndist vera blindgata, hún leiddi ekki neitt, og nú eru þeir sjálfir hálfgleymdir (það finnst mér þó vera undarlegt óréttlæti). Abstraktlist af allt öðru tagi reis upp, með miklum sveiflum milli tískuhreyfinga, og deilum um þær, og svo kom aftur upp á yfirborðið fígúratíf list af nýju tagi og breiddist út. Myndlistarheimurinn varð ákaflega sundurlaus, menn voru áttavilltir, og ég heyrði ummæli eins og þessi: „Hvort sem okkur líkar betur eða verr eru það myndasögurnar sem eru hin raunverulega myndlist okkar tíma.“

Örlög tólftónakerfisins urðu dapurlegri, það náði aldrei til venjulegra tónlistarunnenda, sinfónía Weberns varð júst ekki „vinsæl eins og dægurlag“ (hvað sem það átti nú að þýða), og þessi musica nova var einungis flutt á sérstökum tónleikum sem voru lítið sóttir. Forsprakkar hennar, Stockhausen og Boulez urðu að vísu frægir, en ekki fyrir verk sín heldur fyrir kænlegan áróður, mikinn bægslagang og útblásin egó. Boulez kvað upp sinn úrskurð: „Tónskáld sem fer ekki eftir tólftónakerfinu er gagnslaust“, og voru orð hans þá lög. Kannski mun eitthvað af verkum þessara tónskálda standast tímans tönn, þótt Kundera hafi einhvers staðar sagt að varla hafi nokkur lífvænleg tónlist verið samin í tólftónakerfinu. Ekki ómerkari tónlistarmaður en Ernest Ansermet snerist öndverður gegn þessari tónsmíð, og færði fram gagnrök gegn kenningunum. Og innan skamms fóru tónskáld að snúa baki við seríalismanum og fara inn á allt aðrar brautir, svosem mínimalismann. Þegar einn af forsprökkum hans, John Adams, leit um öxl talaði hann um þann tíma „þegar seríalisminn lagði dauða hönd á alla tónlistarsköpun“. Nú eru samin tónverk í gerólíkum stíl, ekki síst óperur, sem ná til almennings svo ekki verður um villst. En ég hef líka heyrt sagt: „Hvort sem okkur líkar betur eða verr er það rokkið sem er hin raunverulega tónlist okkar tíma.“ Fyrir svona talsmáta hefðu menn verið brenndir lifandi í mínu ungdæmi.

En í víðara samhengi eru það þó örlög Le Corbusier og hugsmíða hans sem réttast er að hafa í brennidepli, því þau snerta sjálfan þann ramma sem mannfólkið býr í frá degi til dags. Það var úr heilabúi hans sem sjálf útópían spratt. Stundum varð hann fyrir leiftrandi innblæstri. Á siglingu yfir Atlantshaf flaug honum í hug að hentugast væri fyrir menn að búa eins og í risastóru hafskipi, þar sem hver hefur sinn klefa og fyrir öllum þörfum þeirra er séð, mat og drykk, þvottum og öðru sem hugurinn kann að girnast; þeir þurfa ekkert að sækja út fyrir það. Og þessari hugmynd tókst honum síðan að hrinda í framkvæmd; í Marseille og fáeinum öðrum borgum í Frakklandi lét hann byggja risastór fjölbýlishús í sínum anda og kallaði þessa gerð húsa Cité radieuse, semsé „Geislandi borg“. Og þau voru auglýst hástöfum sem upphaf nýrra lífshátta. Þessi hús, sem voru öll í eðli sínu eins, voru löng, í mörgum hæðum og í hverri þeirra óralangur gangur, sem var eins og gata, því beggja vegna hans voru dyr inn í íbúðir. En á tveimur hæðum voru það verslanir sem voru meðfram þessum göngum, þeir voru semsé verslunargötur.

Ég átti þess einu sinni kost á að skoða íbúð í hinni „Geislandi borg“ í Marseille, en hún var dæmi um þær allar, því þær voru gerðar eftir sama mynstri hver og ein. Fyrir innan dyrnar var komið í borðstofu með eldhúskrók, en hún var á svölum og fyrir framan þær og neðan var setustofa með risastórum glugga, enda var þar hátt til lofts, stofan náði yfir tvær hæðir. Frá borðstofunni lá stigi niður í stofuna, en þegar þangað kom reyndist hún ekki ýkja stór þrátt fyrir lofthæðina. Fyrir aftan stofuna, beint á móti glugganum og því á neðri hæð, voru tvö herbergi sem lágu samhliða undir borðstofunni, ganginum mikla og hluta af annarri íbúð. Þau voru afskaplega þröng og öll á lengdina, með vegg á milli sem hægt var að opna á einum stað með rennihurð, annað fyrir húsráðendur, hitt fyrir afkvæmin. Við enda þeirra voru gluggar, þannig að í íbúðinni vissu gluggarnir bæði í austur og vestur. En útsýnið var ekki glæsilegt, autt land með nokkrum risabyggingum, í sama stíl útvortis, reyndar yngri en borgin geislandi. En ekkert var þar sem laðaði menn út á við, en hvað höfðu menn að gera þangað? Meðan ég skoðaði salarkynnin fékk ég ítarlega útlistun á þeirri djúpu speki sem bjó á bak við hönnunina. Íbúðin var nefnilega þannig úr garði gerð að allir hlutir voru staðsettir nákvæmlega á þeim stað þar sem kenning Le Corbusier gerði ráð fyrir að menn hefðu þörf fyrir þá, þyrftu þeir því ekki að spandera orku í að stíga fáein skref til að sækja þá, því síður leita að þeim.

Þakið var flatt, en á því risu lítil hús og undarleg í laginu og voru þar meðal annars vinnustofur málara og annarra listamanna, en engan sá ég þar á ferli.

Meðan þessi „Geislandi borg“ í Marseille var í byggingu, varð hún fyrir harðri gagnrýni, og jafnvel var reynt að stöðva framkvæmdirnar. Menn sögðu að þessi eldhúskrókur væri fáránlegur, menn vildu hafa raunverulegt eldhús í sinni íbúð þar sem þeir gætu haft frjálsar hendur með sína eldamennsku, og svo fundust mönnum þessi löngu herbergi, sem líktust helst eins konar ranghölum, afskaplega óvistleg. Við það mátti bæta að mannskepnan hefur þann leiða galla að hún er óútreiknanleg, það er aldrei hægt að spá fyrir um það með vissu hvar hún kann að vera stödd í tíma og rúmi þegar hún hefur þörf fyrir einhvern hlut. En ljóst var að þeir sem upphófu þessar gagnrýnisraddir skildu ekki hina djúpu speki Le Corbusier, hann ætlaði sér ekki að byggja hús sem væru löguð að mannlífinu heldur átti mannlífið að laga sig í einu og öllu að húsunum sem risin voru upp úr hugarórum hans – menn áttu ekki að matreiða annað en snarl, heldur borða í mötuneyti þessa þurrlendis-hafskips eða fá matinn sendan upp til sín, og þeir áttu ekki að hafa þörf fyrir neinn hlut nema þeir væru innan seilingarfjarlægðar frá honum, svo áttu þeir jafnan að ganga þráðbeint af augum.

En hvernig reyndust þessi Prókrústesar-hús? Þegar fyrstu íbúarnir fluttu inn voru viðtöl við þá í sjónvarpi, þeir voru spurðir að því hvernig þeim væri innan brjósts á þeirri ögurstund þegar þeir væru að ganga inn í líf framtíðarinnar. En svo fóru að berast sögur af því að sumir íbúar væru teknir til við að breyta íbúðunum, Le Corbusier til sárrar gremju, þjónustan gekk öll á afturlöppunum, og innan skamms voru menn farnir að flytja út. Að lokum fór svo að þessar borgirnar geislandi voru komnar í niðurníðslu, notaðar til að hýsa þá sem ekki áttu sér neitt annað skjól, og vandamál fyrir borgarstjórnir. Eina undantekningin er hin fyrsta og frægasta þeirra allra, sú sem ég skoðaði í Marseille, henni er vel við haldið og þar búa einkum læknar og arkitektar, er mér sagt. Spurningin er sú hvort þeir séu þar vegna eiginleika hússins sjálfs út af fyrir sig eða vegna þess að þeim finnist upphefð í að búa í svo frægri byggingu sem nemendur í húsagerðarlist flykkjast að úr öllum heimi til að berja augum.

En þessar „Geislandi borgir“ voru ekki nema hluti af hinni víðfeðmu hugsun Le Corbusier, hugur hans stóð ekki síst til að skipuleggja borgarhverfi eða jafnvel heilar borgir. Hann var mjög andsnúinn þeirri úreltu hugmynd að hús ættu að standa meðfram götum, það vildi hann afnema með öllu. Þess í stað áttu menn að búa í turnum eða löngum fjölbýlishúsum í röðum úti á víðavangi. Í samræmi við þetta gerði hann áætlun á framtíðarskipun hægri bakka Signu í París, hann vildi rífa öll hús sem þar voru fyrir og reisa í staðinn raðir af turnum sem væru allir eins, með krosslaga grunnmynd og löngu bili á milli. Svo vildi hann skipta borgum í sérhæfð hverfi, eitt fyrir svefn, annað fyrir vinnu og hið þriðja fyrir tómstundir. Þessar kenningar eru voru rökrétt framhald af þeirri hugsun sem fólst í borgunum geislandi, menn voru teknir úr öllum lifandi tengslum við umhverfið, allt fjölbreytt og litríkt mannlíf á götum úti var úr sögunni.

Yfirvöld voru treg til að rífa fornar byggingar á hægri bakkanum. En annars staðar komust þessar kenningar í framkvæmd svo um munaði, því það er nú rakið til Le Corbusier og lærisveina hans að farið var að byggja hin víðáttumiklu úthverfi í París og annars staðar með turnum og lengjum upp úr miðri síðustu öld. Þetta voru taldar miklar framfarir, nútíð og framtíð í steinsteypu, sumir arkitektar fengu verðlaun.

En svo fór að komast í hámæli að þarna væru að spretta upp illvígari félagsvandamál en annars staðar þekktust, og ég heyrði einu sinni á þessu méli útvarpsumræður um viðfangsefnið: hvernig gat nokkrum manni dottið í hug að byggja svona? Arkitektar sóru þetta af sér, þeir sögðust hafa verið þvingaðir til að hanna þessi hverfi, af kostnaðarástæðum, og kann það að hafa verið rétt en firrir þá þó ekki ábyrgð, því hugmyndirnar áttu þeir.

Einu sinni á þessum árum vildi svo til að ég var staddur (í hlutverki túlks) á skrifstofu Simone Veil sem þá var „borgarmálaráðherra“ Frakklands. Að sú kona skyldi hafa verið valin til starfans sýnir að verkefnið þótti mikilvægt, hún var hörð í horn að taka og ekki sérlega gefin fyrir að láta undan; ég varð var við að í ráðuneytinu voru sumir hálf smeykir við hana. En öll hennar ræða var á einn veg, hún leit svo á að hlutverk sitt væri að leita allra ráða til að breyta þessum úthverfum þannig að þau gætu verið vettvangur fyrir mannlíf, og taldi upp ýmsar leiðir til þess; ég man að í þeim lék dýnamítið allstórt hlutverk. En ég efast um að jafnvel hún hafi fengið miklu ágert, því að á næstu árum færðist dýnamítlausnin í aukana. Ég heyrði arkitekt væla um það í útvarpi að fjölbýlishús eftir hann sjálfan hefði fengið að fljúga upp í háloftin, og hafði hann þó fengið verðlaun fyrir það. En hvaða máli skiptu verðlaun, ef enginn gat búið í húsinu? Jafnvel hefur eitt fjölbýlishús eftir Le Corbusier sjálfan þegar fengið sinn skammt af dýnamíti, það stóð í Montfermeil í nágrenni Parísar og var sprengt 23. júlí 2012, við mikinn fögnuð viðstaddra. Þar með fékk þessi arkitektúr sín Nóbelsverðlaun.

Þegar upp er staðið reyndist þessi mikla útópía vera fullkomin dystópía, í einni ákveðinni og skýrri merkingu þess orðs: útópíunni hefur verið hrint í framkvæmd eftir bókstafnum og þá kemur í ljós að það sem átti að vera gósenland er eitt helvíti á jörðu. Þetta höfðu ýmsir séð fyrir, þeir sögðu nokkuð snemma að í rauninni væru hugmyndir Le Corbusier „fangabúðaarkitekúr“ og var það orð reyndar hlaðið merkingu því fyrir heimsstyrjöldina reyndi arkitektinn að gera hosur sínar grænar fyrir Mússólíni og á síðar synti hann í gruggugum vötnum hernámsáranna í Frakklandi. En hvorki Mússólíni né Pétain vildu líta við honum.

Áður en skilið er við Le Corbusier má geta þess, svona innan sviga, að sum af hans húsum kunna að standa fyrir sínu, en það eru hús fyrir einhverjar sérþarfir sem eru ekki í borgarhverfi, innan um mannabústaði, heldur standa meira og minna úti á víðavangi. Njóta þau þess að arkitektinn var líka málari og meiri listamaður á sviði forms og lita en hugsuður. Eitt þessara húsa er dóminíkanaklaustrið La Tourette í nágrenni Lyon. Þar gisti ég eina helgi, og gekk um ganga innan um menn í snjóhvítum kuflum, en sá lítið út í guðsgræna náttúruna því gluggarnir voru þannig útbúnir að einhverjar hindranir voru í augnhæð. Þetta var tilvalinn bústaður fyrir menn sem vildu líta inn á við og iðrast synda sinna. En þeir munu seint teljast fulltrúar fyrir mannlífið.

Því fer fjarri, held ég, að menn hafi dregið allar þær ályktanir sem hægt er að draga af þessu útópíuhruni, en ein afleiðingin blasir við og skiptir máli, nú eru komir aftur fram á sjónarsviðið þeir sem áður voru kallaðir sérvitringar og misheppnaðir listamenn, bæði erlendis og á Íslandi. Verk Jóns Leifs hljóma hátt, sagnabálkar Guðrúnar frá Lundi eru gefnir út í kiljum (ungir menningarvitar fyrir sextíu árum hefðu dottið niður dauðir ef einhver hefði þá spáð fyrir um það), og nú er ekki um það að efast að fyrir Guðjón Samúelsson er kominn endurreisnartími. Í tilefni af aldarafmæli hans 1987 var haldin umfangsmikil sýning á verkum hans, og nú er kominn út varanlegur minnisvarði um hann, hin stórglæsilega bók Guðjón Samúelsson húsameistari eftir Pétur H. Ármannsson.

Þetta volduga rit, upp á 444 bls., er skrifað fyrst og fremst út frá sjónarmiði húsagerðarlistar, það gerir rækilega grein fyrir þeim áhrifum sem Guðjón varð fyrir og þeirri stefnu sem hann tók, svo og þeim mönnum sem hann starfaði með – verður að telja Jónas frá Hriflu þar ofarlega á blaði – og segir jafnframt frá öllum þeim byggingum sem hann vann að, auk þeirra húsa sem hann teiknaði en komust þó ekki upp fyrir teikniborðið. Oftlega er byggingaferlið rakið vandlega, einkum þegar það er á einhvern hátt sögulegt. Textanum fylgir aragrúi mynda af húsum og teikningum, og má þá stundum fylgjast með því hvernig hugmyndir Guðjóns breyttust og mótuðust áður en húsið lyftist að lokum upp til hæða. Hlýtur þetta rit að verða eftirleiðis grundvöllur allra rannsókna á hugmyndum og verkum húsameistarans. Ég sakna þess eins að því skuli ekki fylgja orðalisti með skýringum yfir ýmis tækniheiti og jafnvel líka útlistanir á ýmsum heitum yfir stefnur og strauma, fyrir fávísa menn eins og mig.

Vegna þess hve ritið er viðamikið, er þar ekki mikið rúm til að fara út fyrir svið húsasmíðanna sjálfra, þótt sé vikið að víðara samhengi á ýmsum stöðum, enda má segja að það sé ekki viðfangsefni höfundar. En spurningin, hvers vegna Guðjón fór inn á sína ákveðnu braut er reyndar flóknari en hún virðist. Nú voru Le Corbusier og Guðjón fæddir sama árið og því ekki við að búast að Íslendingurinn yrði fyrir áhrifum af Svisslendingnum, þótt þess beri reyndar að gæta að margar af hinum nýju hugmyndum í arkitektúr voru komnar fram strax á árunum eftir fyrri heimsstyrjöldina og vöktu þegar athygli. Og Guðjón fylgdist vissulega með, hann varð fyrir frjóum áhrifum af funkis-stíl, eins og Laugarneskirkja er til vitnis um. Það rekur Pétur H. Ármannsson vendilega. En kannski er best að skoða þessar stefnur í ljósi þeirra aðstæðna sem fyrir hendi voru þegar arkitektarnir hófu sín störf. Fyrir kenningum Le Corbusier var engin þörf á sínum tíma, það var í einu og öllu út í hött, fyrr má nú vera, að rífa til grunna allan hægri bakka Signu og reisa þar raðir af turnum, hafskips-grillur hans komu ekki til móts við neinar kröfur, og þótt vissulega væri nauðsynlegt að byggja hús og hverfi eftir heimsstyrjöldina síðari voru hugmyndir hans sérlega óheppileg lausn. Því það er mikil hybris arkitekta að ætla að laga mannlífið að sínum teikniborðs-hugdettum. Varla myndi nokkur maður hlýða því nema tilneyddur, flestir vilja lifa og hrærast í götulífi borganna og vera í tengslum við umhverfið. Og þeir eru til sem ganga í hring.

En um Guðjón Samúelsson gegndi hins vegar öðru máli. Þegar hann mætti til starfa blasti við Íslendingum brýn þörf: að byggja upp innviði þjóðar sem er nýbúin að öðlast sjálfstæði og vill rísa upp úr fátækt og allsleysi. Þetta var ekki hægt nema fyrir atbeina ríkisvaldsins, með því að setja á stofn embætti húsameistara ríkisins sem gæti haft sem víðasta yfirsýn, og skipti þá meginmáli að eiga völ á manni sem væri hæfur til starfans. Það var mikil heppni að Guðjón var þá nýkominn úr námi, fyrsti menntaði arkitektinn, og fær um að uppfylla þær kröfur sem til hans voru gerðar.

Nú meta menn verk hans að verðleikum. En um hann stóð löngum styr, ekki aðeins á tímum „nútímalistar“ og sakna ég þess í bók Péturs H. Ármannssonar, að þeirri hlið ævisögunnar skuli ekki gerð ítarlegri skil. Ræturnar voru margvíslegar, og er ýjað að því á nokkrum stöðum að Morgunblaðið hafi löngum verið honum andsnúið. Það stafaði vafalaust að nokkru leyti af lágkúrulegri pólitík, þetta var aðferð til að koma höggi á Jónas frá Hriflu. En þarna var líka á ferli ágreiningur, Jónas frá Hriflu hafði ákveðna stefnu, hann áleit að framtíð Íslands myndi verða að miklu leyti í sveitum landsins, þær yrðu hinn raunverulegi miðpunktur þjóðlífsins. Því hafði hann hug á því að upp risi nýr sveitabæjastíll og hann lét byggja héraðsskóla uppi í sveitum, ekki síst af því að þar var líka að finna hverasvæði til upphitunar. Þar fylgdi Guðjón honum, og teiknaði ekki síst marga héraðsskóla. Þar reyndi hann, í anda Jónasar líka, að skapa eitthvað sem kallast gæti þjóðlegur stíll.

En framtíðarsýn Jónasar rættist ekki, miðpunktur þjóðlífsins fluttist á mölina, og orðið „þjóðlegur“ hefur á sér harla neikvæðan blæ, það felur í sér anda afdalamennsku og forpokunar, nú beita allir upp í hnattvæðingu. En ef orðinu sjálfu er sleppt, er á bak við þetta sú hugsun ein að byggingar eigi að taka mið af umhverfi sínu, efnislegu og andlegu, og vera í samræmi við hlutverk sitt. Það er dapurlegt ef svo vel er fylgt alþjóðlegum stíl að opinber bygging með ákveðið menningarhlutverk gæti allt eins verið „hundaspítalinn í Panama“, eins og Árni Bergmann sagði einu sinni í mín eyru af gefnu tilefni. Og Ísland á þessum tíma var tæplega vettvangur fyrir djarfar tilraunir í húsagerð, það hefði verið eins og að flytja seríalíska kantötu á Þingvöllum árið 1930.

Bók Péturs H. Ármannssonar er þung og alvarleg sem vera ber. Því hefði höfundur mátt slá á léttari strengi og rekja hinar spaugilegu deilur um Hallgrímskirkju, sem eins konar „comic relief“. Hann tekur upp víðfrægt kvæði Steins Steinarrs, „húsameistari ríkisins tók handfylli sína af leir“, en margt fleira mætti nefna, ekki síst hina miklu sögu Megasar „Eins og kirkja“, þar sem Hallgrímskirkja tekur á rás niður Skólavörðustíg. Og í orðræðum manna var Hallgrímskirkja nefnd „Sæljónið“ eða „phallus reykjavikensis“ (sem bréfritari í Morgunblaðinu skildi ekki en grunaði þó að væri ekki sérlega kristilegt tákn).

 

Einar Már Jónsson