HjartaspaðarLátbragðsleiknum Hjartaspöðum sem Skýjasmiðjan sýnir í Gaflaraleikhúsinu í Hafnarfirði hefur verið tekið mjög hlýlega. Aðstandendum hefur líklega ekki dottið í hug að orðalaust klukkutímaverk um vistmenn og starfsfólk á elliheimili myndi freista margra, alltént voru einungis áætlaðar fjórar sýningar í byrjun. En viðbrögð gagnrýnenda hafa verið einróma lof, aðrir gestir hafa lagt sitt af mörkum við að bera hróður þess víða og aðsóknin hefur farið langt fram úr björtustu vonum þannig að sýningum verður vonandi fjölgað.

Það sérkennilega við sýninguna er ekki bara að hún er leikin án orða heldur bera leikararnir heilgrímur, það er að segja grímur fyrir öllu andlitinu (en ekki bara efri hluta andlitsins eins og algengast er) og raunar öllu höfðinu því hárkolla er áföst andlitsgrímunni. Grímurnar eru úr hörðu efni, þess vegna kemur á óvart hvað manni finnst þær sýna ólík svipbrigði í hita leiksins. Þær eru óumbreytanlegar en sýna þó kæruleysi, gleði, stríðni, undrun og sorg, allt eftir efni hverju sinni. Maður trúir þessu varla en hlýtur að sannfærast!

Sagan sem þarna er sögð er að vísu í einfaldasta lagi – enda kannski erfitt að segja flókna sögu án þess að segja neitt. Við kynnumst fyrst hressu körlunum Hannesi (Orri Huginn Ágústsson) og Grími (Stefán Benedikt Vilhjálmsson) sem hafa greinilega verið saman um hríð á elliheimilinu því þeir hafa sínar föstu venjur dag hvern við að lesa, hlusta á útvarpið og tefla. En þegar Gréta (Aldís Davíðsdóttir), elegant gömul dama, bætist í hópinn raskast líf þessara gömlu vina og með þeim vakna alls konar þrár eftir annars konar lífi.

Allir eru þessir leikarar ungar manneskjur sem leika langt upp fyrir sig í aldri en grímurnar, frábærlega hannaðar af Aldísi, hjálpuðu þeim til að verða gömul fyrir aldur fram. Þau sköpuðu lifandi persónur með sín sérstöku einkenni, jafnvel ýjað að fortíð, svo yndi var að fylgjast með þeim. Með þeim eru á sviðinu þrjár ágætar týpur, hjúkrunarkona með mikinn rass (Álfrún Gísladóttir), ræstitæknir með tuskuna á lofti (Erna Björk Einarsdóttir) og ísmeygilegur húsvörður (Klæmint H. Isaksen).

Hópurinn allur er skrifaður fyrir verkinu og Ágústa Skúladóttir stýrir því – og á eflaust stóran þátt í því hve vel tekst til. Búningar Dýrleifar Jónsdóttur eru vel hugsaðir og tónlistin sömuleiðis sem Eggert Hilmarsson og fleiri sjá um. Það er full ástæða til að hvetja leikhúsunnendur til að sjá þetta ferska framlag Gaflaraleikhússins.

Silja Aðalsteinsdóttir