Sumarliði Ísleifsson. Í fjarska norðursins. Ísland og Grænland. Viðhorfasaga í þúsund ár.
Sögufélag, 2020. 381 bls.
Úr Tímariti Máls og menningar, 1. hefti 2022.
Fyrir aldarfjórðungi kom út bókin Ísland, framandi land eftir Sumarliða Ísleifsson sem vakti talsverða athygli enda sérlega falleg bók, upplýsandi og vel skrifuð, en þar var rakin sú mynd sem fólk og ferðalangar fyrri tíma drógu upp af Íslandi og meginhugmyndir þeirra reifaðar. Bókin er ekki síst minnisstæð fyrir ljómandi gott samspil texta og mynda, en margar þeirra höfðu ekki birst áður á bók. Frá þeim tíma hefur Sumarliði fengist við sagnfræðileg skrif af ýmsu tagi, þó einkum á sviði félags- og verkalýðssögu, meðal annars skrifað sögu Alþýðusambands Íslands, en annars hefur hann í áratugi fengist við rannsóknir á ímynd Íslands og Íslendinga fyrr og nú og árið 2014 varði hann doktorsritgerðina Tvær eyjar á jaðrinum. Ímyndir Íslands og Grænlands frá miðöldum til miðrar 19. aldar. Sú bók sem hér er til umræðu er afrakstur þeirrar rannsóknar um leið og hún kallast mjög á við þá bók sem fyrst var nefnd í efni og aðferð. Í fjarska norðursins er hins vegar ítarlegri þar sem eyjurnar tvær í norðri eru leiddar saman og skoðaðar hvor í sínu lagi og saman.
Það má strax taka það fram að þessi bók er afskaplega vel hugsuð hvað efni og form snertir, efnið er skipulega fram sett og haganlega raðað niður. Í hverjum bókarhluta er inngangur þar sem gefið er upp hvað sé í vændum og í lokin kemur yfirlitskafli þar sem efnið er dregið saman. Þetta auðveldar mjög og eykur notagildi bókarinnar, sem kemur sér vel því hún er afar efnismikil. Í stuttri umsögn er því einungis hægt að staldra við fáein atriði um leið og þess skal freistað að gefa einhvers konar heildarmynd af verkinu.
Í fjarska norðursins hefst á þætti um útópíur og eyjur, þar sem Sumarliði gerir grein fyrir hugtakanotkun sinni og í framhaldi af því er svo kafli um Ísland og Grænland í miðaldaritum. Þar er m.a. fjallað um hinn alkunna sagnaritara Adam frá Brimum, sem fyrstur skrifar um Ísland erlendra manna og var merkilega jákvæður gagnvart landi og þjóð, um Saxa hins málspaka og svo ýmsa minni spámenn sem minntust á land og þjóð á miðöldum. Þar er vitaskuld mörg firran á ferð, en samt margt athyglisvert, eins og til að mynda sú hugmynd sem hér fer greinilega á flot að Íslendingar séu fræðaþulir. Trúlega skýrist það að hluta til af þeim miklu áhrifum sem skrif Adams frá Brimum höfðu, þau virðast enduróma í öðrum skrifum fram eftir öldum, en það hlýtur að koma meira til sem styrkir þá ímynd. Úr Grænlandsþætti miðalda var gaman að lýsingu Ívars Bárðarsonar frá 14. öld sem lýsir landinu nánast sem sælueyju, svo minnir á landlýsingu ferðaskrifstofa nútímans á fyrirheitnu landi. Fjölnismenn skemmtu sér yfir skrifum Ívars Bárðarsonar á sínum tíma og notaði Jónas Hallgrímsson hana í Skrælingjakvæði sín þar sem hann hirtir hið alþingi hið nýja.
Hinum eiginlega samanburði skiptir Sumarliði í þrjá hluta. Fyrsti hlutinn tekur yfir tímabilið 1500-1750 og þar kemur auðvitað margt afar forvitnilegt og skemmtilegt fram. Mörg ritin eru skrifuð af mönnum sem aldrei komu hvorki til Íslands né Grænlands og fjarstæðurnar eru stundum sprenghlægilegar, marga fásinnuna éta stundum ritin hvert upp eftir öðru, og svo er annað sem virkar raunsærra. Ein bók gnæfir þó yfir aðrar frá þessum tíma; Islandia eftir hinn illræmda Dithmar Blefken sem kom út árið 1607. Það kemur svolítið á óvart hversu óhemju útbreitt þetta rit Blefkens var, sem Íslendingar hötuðust við og kölluðu níðrit. Að minnsta kosti hafði ég ekki gert mér grein fyrir hinum miklu vinsældum og hversu lengi skrif Blefkens endurómuðu í síðari tíma verkum. Eins og margir vita og frægt er fann Blefken Íslandi og Íslendingum flest til foráttu; landið væri illt og ljótt, landsmenn villimannlegir í lífsháttum, hann líkti þeim við dýr og tengdi jafnvel við sjálfan myrkrahöfðingjann. Athyglisvert er samt að Blefken nefnir, og telur landsmönnum til lasts, að örðugt sé að kyngreina Íslendinga, kynin klæði sig og hagi sér jafnvel eins. Hið jákvæða við Ísland væru árnar fullar af fiski og gnægð af smjöri (smjörfjallið strax komið!), og svo væru konurnar fagrar (þegar hann hefur loksins náð að kyngreina þær!). Blefken mun þannig vera með þeim fyrstu sem gera fegurð íslenskra kvenna að sérstöku efni í alþjóðlegu riti. Sumarliði telur hins vegar líklegt að Blefken ljúgi því að hann hafi komið til Íslands, flest mæli að minnsta kosti gegn því. Eitt geta þó landsmenn tvímælalaust talið Blefken til tekna; hann særði Arngrím lærða fram á ritvöllinn.
Hér vöktu líka athygli mína skrif Alberts Krantz sem lýsir Íslendingum sem nægjusömu, kurteisu fólki sem væri sælt í sinni fátækt, nánast eins og þeir séu heilagir jógar, en harmaði að nú væru erlendir kaupahéðnar farnir að spilla þessu hamingjusama kristna fólki með innflutningi öls sem innfæddir væru nú farnir að drekka í stað þess blávatns sem það hefði drukkið eingöngu fram að þessu.
Af Grænlandslýsingum frá þessum tíma var skemmtilegt að lesa um bók hinna Feneysku Zeno-bræðra frá 1558, sem mun hafa sætt miklum tíðindum. Hún virðist hafa verið hreinn tilbúningur, skrifuð til þess eins að leiða rök að því að Feneyingar hefðu orðið fyrstir vestrænna manna til Ameríku. Samkvæmt þeim var vissulega nokkuð kalt á Grænlandi, en að öðru leyti væri landið nánast paradís og stæði vel undir sínu fallega nafni; þar væru sígrænir garðar, heitir hverir, gnægð matar, klaustur og trúarmenning … semsé allt sem hugurinn girnist. Bók Zeno-bræðra er um sumt hliðstæð riti Blefkens að efni og upplagi, en auk þess er líka greinilegur samhljómur með lýsingum bræðranna og því hvernig Blefken lýsir Grænlandi í Islandia.
Í fjarska norðursins er byggð upp á endursögnum og lýsingum á miklum fjölda rita þar sem reynt er að skila kjarna þeirra áfram óbrjáluðum í stuttu og hnitmiðuðu máli. Það gefur auga leið að einn vandi Sumarliða felst í því að forðast endurtekningar, því bæði geta lýsingar sama lands verið keimlíkar og sé hið forna spakmæli, að bók vaxi af bókum enn í gildi, þá átti það svo sannarlega við um ferðalýsingabækur fyrri alda. Endursagnir geta verið miklu snúnari og erfiðari en margir gera sér grein fyrir, en ekki verður annað sagt en Sumarliða takist þetta vel. Þá finnst mér líka að hann forðist að endursegja í of löngu máli efni sem líklegt sé að lesendur þekki fyrir. Hér hjálpar líka að Sumarliði skrifar ákaflega skýran og greinargóðan stíl, útleggingar hans eru varfærnislegar og hann hrapar ekki að ályktunum.
Sjálfum fannst mér mestur fengur að umfjölluninni um tímabilið frá 1750-1900, kannski af því að þar er kyrrstaða rofin á svo margan hátt. Tími upplýsingar og vísindaleiðangra rennur upp og landkönnuðir undir áhrifum þeirra nýju hugmynda voru ákafir í að leiðrétta furðuhugmyndir og bábiljur um framandi slóðir. Lýsingar þeirra verða nákvæmari og sumpart jákvæðari því þeir sem þá skrifa um landið horfa meira á auðlindir óspjallaðrar náttúru og þá miklu möguleika sem fylgja því að nýta hina körgu, hrjóstugu og sumpart fráhrindandi náttúru sem fyrr hafði svo verið lýst.
Áhrifamest bóka frá þessum tíma er Brev om Island (1779) eftir Svíann Uno von Troil, sem var þýdd á fjölmörg mál og vakti ekki síst athygli á náttúru landsins. Það kemur svolítið á óvart hversu von Troil er í raun rómantískur í viðhorfum sínum til Íslands og vísar í þeim efnum fram til þess sem á eftir kemur: „Markmið von Troils er að sýna fram á að íslensk náttúra sé „sublime“, í senn bæði ógnvekjandi og fögur, þó hún sé kannski ekki sérlega viðfelldin. Þannig geti hún vakið upp mikið listfengi og haft áhrif á þá sem fjalla um hana.“ (166)
Þá kemur á þessum tíma til landsins hinn mikli leiðangur Frakka undir forystu Paul Gaimard, svo sem frægt er og margir hafa skrifað um, en þá hefur orðið sú breyting innanlands að landsmenn taka betur hinum erlendu leiðangursmönnum, og sjá upphefð í áhuga útlendinga á landi og þjóð – sem er gömul saga og ný. En lykilrit í breyttum hugsanahætti og vitaskuld í allri íslenskri sögu er Ferðabók Eggerts og Bjarna, sem sjálfsagt verður aldrei nógsamlega lofsungin. Það má kalla nánast hvörf í Íslandssögunni þegar leiðangur þeirra gengur á Heklu, mót öllum ráðleggingum, og öll skrif og framganga Eggerts hafði án efa gríðarleg áhrif á landsmenn þegar til lengra tíma er litið. En það vekur athygli að rétt eins og í íslenskum bókmenntum verður ekki sá skarpi munur í landlýsingum á viðhorfum upplýsingar og þeim rómantísku sem taka við og víða annars staðar. Eitt skemmtilegt dæmi úr bókinni er samanburður Williams Guthrie á gosbrunnum í St. Cloud í nágrenni Parísarborgar, þeim tilkomumestu í Frakklandi, og íslenskum goshverum, þar sem þeir fyrrnefndu blikna gagnvart þeim íslensku. Náttúran hefur þar skýlaust vinninginn á hin manngerðu furðuverk.
En þótt skilin verði ekki skörp milli upplýsingar og rómantíkur, þá hefur rómantíska stefnan í för með sér þá viðhorfsbreytingu sem langmestu skiptir fyrir Ísland. Hið frumstæða og óspjallaða landslag verður eftirsóknarvert, náttúran sem fyrr þótti ógnvænleg verður nú ímynd hins hreina og fullkomna, og þótt landsmenn verði ekki í einu vetfangi samboðnir hinni stórfenglegu náttúru þá mildast viðhorfið til þeirra smám saman. Þar kemur reyndar líka aðeins til sögunnar vaxandi kynþáttahyggja, sem Sumarliði fer vel yfir.
Fáar konur ferðuðust til Íslands á fyrri öldum en sérstaklega var gaman að lesa um Idu Pfeiffer, austurríska menntakonu sem kom hingað 1845, fyrst kvenna upp á eigin spýtur, og gaf út bók um ferð sína. Hún var vel undirbúin en sá líka landið í rómantísku ljósi. Henni þykir náttúran að sönnu mikilfengleg en hún lýsir því líka að sér finnist landið „eyðilegt, dautt og kalt.“ (167) Hún hrífst af Geysi en ferð á Heklu varð henni þungbær kvalraun. Ida Pfeiffer hafði gert sér háar hugmyndir um íbúa Íslands, sjálfsagt af rómantískum lestri, en þeir reyndust ekki standa undir því. Henni fundust Íslendingar sóðar, latir, ókurteisir, ágjarnir, siðlausir og taldi samfélagið agalaust með öllu. Eins og nærri má geta féll þetta ekki í kramið hérlendis og bók Idu Pfeiffer varð illa þokkuð, eins og Sumarliði rekur, og hann leiðir að því líkur að hún hafi goldið þess í nokkru að vera kona. Aðrir ferðabókahöfundar hreyta líka ónotum í Idu Pfeiffer og gera lítið úr henni, „enda eigi kona lítið erindi til þessa mikilfenglega lands.“ (173)
Þegar nánar er að gáð rímar þó gagnrýni Idu Pfeiffer á leti, dugleysi og óhreinlæti Íslendinga vel við gagnrýni samtímamanna hennar, t.d. Fjölnismanna, sem átöldu landsmenn harkalega fyrir sömu hluti á þessum árum – og uppskáru fyrir vikið talsverðar óvinsældir sem bitnuðu á tímariti þeirra. Þau eiga líka sameiginlegt, eins og reyndar flestir ferðabókahöfundar þessa tíma, að þykja lítið til Reykjavíkur koma. Höfuðstaðurinn þykir rislágur og ósjarmerandi, bæði þykir hann í miklu ósamræmi við hina fögru og svipmiklu náttúru og svo stenst hann vitaskuld engan samanburð við höfuðstaði annarra landa.
Það er nefnilega athyglisverð togstreita sem einkennir margar lýsingar á Íslandi þessa tíma og málflutningur ferðalanganna er stundum mótsagnakenndur, eins og Sumarliði bendir á: „Í aðra röndina vildu þau halda öllu óbreyttu og gagnrýndu öll tákn nútímans, sveitin var betri en borgin, fortíðin betri en nútíminn … Á hinn bóginn þráðu þessir gestir nútímann, menningu hans og þægindi.“ (192) Höfundarnir standa fastir í sínum tíma og vilja alls ekki stíga út úr honum, þótt þeir dáist að hinu frumstæða. Þetta mætti túlka og umorða sem svo: Það er í lagi að stuðla að framförum hjá þessu fólki, en ber að gera hægt!
Grænlendingar lenda þó verr í togstreitu af þessu tagi en Íslendingar. Þar verður áberandi á þessum tíma sú skoðun að Grænlendingar væru „sérlega gott dæmi um göfuga villimenn.“ (213) Þeir lifðu trúlega hamingjuríkara lífi heldur en fólk í svokallaðri siðmenningu, og væru einfaldlega betra fólk og gæskuríkara.
Almennt séð þá verður líka miklu minni breyting á þessu tímabili á viðhorfum til Grænlands en til Íslands. Grænlendingar eru hinir göfugu villimenn lengi fram eftir 20. öld. Þó skrifa menn eins og Friðþjófur Nansen og Hans Egede áhrifamiklar bækur um Grænland, en aftur má furða sig á fálæti Íslendinga í garð þessara nágranna sinna þegar líða tekur á 19. öld. Það er umhugsunarvert að frá 18. og 19. öld er það næstum einungis Sigurður Breiðfjörð, af öllum mönnum, sem fjallar um lífið á Grænlandi í sinni skemmtilegu bók sem Sumarliði segir að hafi haft „umtalsverð áhrif á afstöðu fólks hérlendis til Grænlands.“ (239)
Hans Egede, hinn þekkti trúboði, skrifaði mikið rit um dvöl sína og störf á Grænlandi sem út kom á árunum 1734-43 og hafði vitaskuld mikil áhrif á öll skrif og mótaði afstöðu til Grænlands um langa hríð. Og var auðvitað marktækara af því að hann bjó svo lengi í landinu. Eitt markmið hans var að komast að því hvað varð um norrænu íbúana í Eystribyggð, hinn gamla leyndardóm sem svo margir hafa brotið heilann um í aldanna rás. En Hans Egede fann þá ekki frekar en nokkur annar. Vitaskuld mótar menntun og markmið trúboðans Hans Egede skrif hans, hann er að sönnu upptekinn af því að boða fagnaðarerindi kristindómsins, og virðist nokkuð ánægður með viðtökurnar, en miðað við endursögn Sumarliða þá valda skrif Hans Egede straumhvörfum í viðhorfum til Grænlands og Grænlendinga. Þau verða jákvæðari, bæði gagnvart landkostum og miklum möguleikum þar til lands og sjávar, en líka gagnvart fólkinu sem séu ekki grimmir dvergar, eins og stundum hafði verið skrifað, heldur jafnvel siðmenntað fólk og sannkristið, og meira að segja ásjálegt.
Hér má líka sérstaklega nefna skrif hins þekkta landkönnuðar Friðþjófs Nansen sem eru býsna merkileg og ekki síst skilningur hans á Inúítum og aðstöðu þeirra. Hann telur vandann felast í því að Evrópumenn séu að troða sinni siðmenningu upp á Grænlendinga í stað þess að láta þá í friði og leyfa þeim að viðhalda sínum lífsmáta, venjum og siðum, eins og þeir hafi gert öldum saman og þannig komist af í erfiðu landi.
Eitt af því sem breytist svo á 20. öld hvað Ísland snertir er að landsmenn sjálfir fara að móta æ meira ímyndir lands og þjóðar. Inntakið breytist á hinn bóginn lítið í grunndráttum, eins og Sumarliði bendir á: „Orðræðan um hina menntuðu víkinga hefur þó verið áberandi allt til þessa dags þar sem menningarlegir og líkamlegir yfirburðir hafa komið við sögu, fagrar konur, sterkir menn og skáldjöfrar.“ (288) Það er í raun sláandi hversu mýturnar eru lífseigar, því jafnhliða þessu lifa líka áfram ímyndirnar um frumstæði okkar eyjaskeggja; hömluleysi í drykkjuskap, lauslæti og tilfinnanlegur skortur á kurteisi.
Niðurstaða Sumarliða er sú að ímyndir Íslands og Grænlands séu mjög svipaðar fram eftir öldum að breyttu breytanda, þótt afar fjölbreyttar séu, en svo skilur á milli. Grænlendingar eru lengur í hlutverki hinna „göfugu villimanna“ en þegar líður á 20. öld er eins og Ísland þokist nær Evrópu, en samt ekki alla leið. Eða með orðum Sumarliða: „Hér birtast því enn og aftur þau viðhorf að Ísland sé beggja blands, bæði líkt og ólíkt, framandi og skiljanlegt, þekkt og óþekkt, og það var einmitt mikilvægur hluti af aðdráttarafli sem ferðaþjónustan nýtti sér í æ ríkari mæli eftir því sem tímar liðu.“ (290)
Hluti skýringar er vitaskuld að Grænland er miklu lokaðra land fram að síðari heimsstyrjöld. Landið er þess vegna lengur sveipað ævintýraljóma og sögurnar um siðleysi og frumstæði íbúanna lifa áfram. Grænland verður því lengur „annarlegt land og öðruvísi“, með kostum og göllum sem því fylgir fyrir ímyndina.
Í fjarska norðursins er sérlega fróðleg og vel samin bók sem vekur lesanda til bæði meðvitundar og umhugsunar um ímyndir, land og þjóðir. Sérstök ástæða er til hrósa bæði hönnun og myndavali, því myndirnar eru margar bæði fallegar, fróðlegar, fágætar og skipta efnislega miklu máli. Texti og myndir vinna afar vel saman og gaman að sjá að myndatextar eru líka notaðir til þess að koma aukafróðleik á framfæri eða hnykkja á meginatriðum.