Leikfélag Reykjavíkur frumsýndi í gærkvöldi verkið Teprurnar eftir skoska leikskáldið Anthony Neilson á Litla sviðinu. Ingunn Snædal þýddi á þjála og áheyrilega íslensku; Sean Mackaoui sá um leikmynd, stórt hjónarúm, vel tækjum búið, og búninga; Fjölnir Gíslason hannaði flókna lýsinguna sem leikararnir stjórna svo að nokkru leyti sjálfir þegar þeir vilja fara á trúnó við áhorfendur; Ísidór Jökull Bjarnason sá um afskaplega aðlaðandi og tjáningarríka hljóðmyndina en leikstjóri er Hilmir Snær Guðnason.

Aðstæður Andra (Jörundur Ragnarsson) og Evu (Vala Kristín Eiríksdóttir) í leikritinu eru býsna ótrúverðugar. Þau hafa verið par í níu ár en í rúmlega ár (fjórtán mánuði og fjóra daga) hafa þau ekki haft kynmök. Það er þó ekki það sem er ótrúverðugt (þó að vissulega séu þau ungar og sprækar manneskjur og innilega hrifin hvort af öðru), svoleiðis getur áreiðanlega gerst. Nei, það ótrúverðuga er að þau eru komin upp á svið í leikhúsi til að „sofa saman“ fyrir framan áhorfendur, í lokatilraun til að bjarga sambandinu. Þegar við höfum samþykkt þessar aðstæður er bara að njóta þess sem fram fer!

Þó að eilíft tal og blaður sé allt í kringum okkur á öllum rásum alla daga er alveg áreiðanlegt að skortur á tali er vandamál í samböndum fólks. Hjón, sambýlingar, pör af öllu tagi tala og tala en ekki um það sem máli skiptir. Við erum feimin, jafnvel hrædd, við að tala saman um það sem býr innst inni: erfiðar bernskuminningar, vondar ákvarðanir eða óásættanlega hegðun okkar í fortíðinni. Enda vitum við ekki hvaða áhrif það kann að hafa á makann ef við segjum frá. Það kemur í ljós að Andra finnst ástæðan fyrir kynlífsskortinum vera sú að Eva trúði honum fyrir mjög óþægilegum atvikum úr æsku sinni. Andri getur ekki hætt að hugsa um þessi atvik og í huganum verður hann gerandinn og tekur um leið á sig sekt karlkynsins í mannkynssögunni yfirleitt. Þegar Eva kafar nánar í fortíðina þarna á sviðinu kemur upp ennþá erfiðari minning – og raunar stórmerkilegt sálfræðilegt atriði sem mér fannst í svip alls ekki eiga heima í svona fyndnu verki. En manneskjan er margbrotin, því má ekki gleyma, og þegar nánar var pælt reyndist þetta atriði dýpka verkið og gera það að öðru meira en „bara“ gamanleikriti. Einnig er gefið í skyn að þessi játning leysi vanda parsins. Lausnin er þá að kafa nógu andskoti djúpt!

Fyrst og fremst eru Teprurnar þó gamanleikrit og þau eru bæði gamanleikarar af guðs náð, Jörundur og Vala Kristín. Ég ímynda mér að það hafi verið ánægjulegt verk og ekki ofurerfitt fyrir Hilmi Snæ að stýra þeim. Andri er þyngri en Eva, hann tekur vandamálið nokkuð heimspekilega í eintölum sínum við áhorfendur  og vill horfa á það frá víðu sjónarhorni – feðraveldið er að þvælast fyrir honum, hann vill ekki vera þar. Jörundur var algjörlega sannfærandi sem þessi vandræðalegi maður sem þó gat kveikt á sjarmanum ef honum bauð svo við að horfa. Eva Völu Kristínar er hrein og bein og samband hennar, bæði við áhorfendur og Andra er einlægt og opið. Það er afskaplega gaman að horfa á hana í átakasenum – eins og þegar hún kemur fram í búningnum sem Andri hefur valið á hana og hegðar sér eins og sú persóna. Þau eru líka bæði skemmtilegir dansarar eins og njóta má í frábæru atriði þeirra með Dolly Parton og Kenny Rogers. Mikið vildi ég eiga það á YouTube!

Silja Aðalsteinsdóttir