Jólaævintýri Þorra og ÞuruLeikhópurinn Miðnætti sem hefur glatt íslensk börn undanfarin ár (og er nú að teygja sig til barna annarra landa) frumsýndi í gær Jólaævintýri Þorra og Þuru í Tjarnarbíó. Handritið er eftir Agnesi Wild og Sigrúnu Harðardóttur sem einnig semja tónlistina og leika titilhlutverkin, en Sara Marti Guðmundsdóttir leikstýrir.

Álfastúlkan Þura (Sigrún) er í heimsókn hjá Þorra (Agnes), sem er hálfur álfur og hálfur tröll, þegar afi Þorra (Sveinn Óskar Ásbjörnsson) kemur í heimsókn. Hann ætlar að dvelja um skeið hjá dóttur sinni og dóttursyni og er með forvitnilega ferðatösku með sér. Í henni leynist – innan um nærbuxur til skiptanna – ákaflega dýrmætur gripur, sjálfur töfrakristallinn sem geymir jólagleði heimsins. Þó að enginn megi, samkvæmt álfalögum, snerta kristalinn nema hafa tekið sérstakt kristallspróf, fer nú svo að afi skilur kristalinn eftir í vörslu Þorra og Þuru þegar hann þarf aðeins að skreppa … Börnunum þykir þetta að vonum gríðarleg ábyrgð og eins og stundum vill verða þegar stressið vex fara þau að rífast um kristalinn og meðhöndlun hans. En þá ber svo við að bláa skínandi ljósið á kristalnum slokknar og hann verður bara litlaus steinn. Hvað er þá til ráða? Ekki má láta jólagleðina í heiminum slokkna að eilífu.

Þeim Agnesi og Sigrúnu líður vel á sviði, þær eru sannfærandi barnslegar í tali og hreyfingum og ná vel til barnanna í salnum. Félaga mínum ellefu ára fannst að vísu sýningin of barnaleg fyrir sig en þetta er ekta sýning fyrir yngri börn, alveg niður í tveggja ára. Jólalandið á sviðinu er afskaplega hlýlegt, litríkt og fallegt, allir búningar og brúður sömuleiðis. Það er Eva Björg Harðardóttir sem á heiðurinn af því. Einkum verður manni starsýnt á stígvélin hans Þorra sem eru gríðarstór, en það fæst skýring á því: fæturnir á Þorra eru arfurinn frá pabba hans tröllkarlinum!

Boðskapur Jólaævintýrisins er líka bæði fallegur og hollur: Ekki láta rifrildi og fýlu drepa gleðina.

Silja Aðalsteinsdóttir

 

Jólaævintýri Þorra og Þuru

Mynd: Fréttablaðið