Það var gífurleg stemning í Hörpu á laugardagskvöldið: fullt í öllum sölum og þúsundir í húsinu. Þar að auki var verið að frumsýna fyrstu óperuna í Eldborg og mikil ánægja með þann áfanga. Menn óskuðu hver öðrum til hamingju með daginn eða buðu gleðilega hátíð. Óperan var sú gamalkunna Töfraflauta Mozarts, dýrlegt músíkstykki með nokkrum af helstu söngstjörnum landsins. Enginn að láni erlendis frá. „Flott hús,“ sögðu dönsku hjónin við hliðina á mér. „Já, en ansi stórt,“ sagði ég og reyndi að gretta mig svolítið til að sýna að ég gleypti þetta bruðl ekki hrátt. „En hér er svo mikið af ferðamönnum, “ sögðu Danirnir, „þið verðið að hafa pláss fyrir þá líka.“ Þau voru alveg heilluð af óperunni og sannarlega ekki ein um það.

Saga Schikaneders sem Mozart samdi sína dýrlegu tónlist við er óttalegt bull og þar að auki menguð af kvenfyrirlitningu þannig að best er að hafa sem fæst orð um hana! Þó er nauðsynlegt að kynna helstu persónur og söngvarana á frumsýningu. Tamínó prins (glæsilegur Finnur Bjarnason) fær það hlutverk hjá Næturdrottningunni (Sigrún Hjálmtýsdóttir) að bjarga dóttur hennar Pamínu (Þóra Einarsdóttir) úr klóm Sarastrós (Jóhann Smári Sævarsson) sem hefur rænt stúlkunni. Tamínó ræður fuglafangarann Papagenó (Ágúst Ólafsson) til liðs við sig og sendir hann á undan sér til hallar Sarastrós. Þar tekst honum naumlega að koma í veg fyrir að illmennið Mónóstatos (Snorri Wium) komi fram vilja sínum við varnarlausa stúlkuna og þau Papagenó og Pamína syngja saman skemmtilega aríu um ástina og karla og konur. Það var fyrsti hápunktur óperunnar eftir mörg verulega fín atriði.

Í höll Sarastrós kemst Tamínó að því að það er Næturdrottningin sem er hið illa afl, Sarastró er í rauninni góðmennskan uppmáluð og var líklega bara að ræna Pamínu til að bjarga henni frá skaðlegum áhrifum móður hennar. En þó að Pamína og Tamínó verði innilega ástfangin hvort af öðru undir eins fá þau ekki að njótast fyrr en þau eru búin að leysa nokkrar þrautir. Það tekst áður en yfir lýkur og Papagenó fær líka stúlku fyrir sig, Papagenu (Valgerður Guðnadóttir) sem kemur með miklum tilþrifum og fjöri inn í líf hans.

Töfraflautan

Fyrir utan þessi stærstu hlutverk eru hirðmeyjar drottningar áberandi (Hulda Björk Garðarsdóttir, Auður Gunnarsdóttir og Sigríður Ósk Kristjánsdóttir), yfirreglubræður í liði Sarastrós (Viðar Gunnarsson og Kolbeinn Jón Ketilsson) og ungu andarnir þrír sem minntu mest á bústna enga á jólakortum (Pétur Úlfarsson, Jasmín Kristjánsdóttir og Birta Dröfn Valsdóttir). Kórinn var fjölmennur og flottur og hópurinn sem heitir “Mozartar” í leikskrá var líka til prýði.

Eldborg var ekki frá upphafi ætluð undir óperur og Axel Hallkeli Jóhannessyni hefur verið vandi á höndum með sviðið; það er svo grunnt. En nútímatækni á mörg svör við slíku. Í stað viðamikils sviðsbúnaðar var ljósum beitt af hugkvæmni (Páll Ragnarsson) og myndbönd notuð skemmtilega (Henrik Linnet). Búningahönnun var í höndum Filippíu I. Elísdóttur sem lagði áherslu á kómíkina í verkinu. Mér fannst það takast vel yfirleitt en þótti þó búningar Pamínu og hirðmeyjanna þriggja hamla þeim óþarflega á sviðinu. Næturdrottningin glitraði að vonum eins og þúsund stjörnur. Ágústa Skúladóttir er leikstjórinn og leysti margan sviðsetningarvanda snilldarlega. Þó trúi ég að hún hafi átt alveg sérstaklega færan aðstoðarmann í brúðuhönnuðinum Bernd Ogrodnik sem hefur líklega skapað bæði drekann ógurlega sem ógnaði Tamínó í upphafi leiks og bráðfyndna fuglinn sem talaði sínu máli við Papagenó skömmu seinna.

Daníel Bjarnason stjórnaði hljómsveitinni og tónlistin var myndarlega flutt eftir því sem ég get um hana dæmt. Söngurinn var góður yfirleitt og stundum frábær. Hátindar kvöldsins í mínum eyrum voru í fyrsta lagi áðurnefndur samsöngur þeirra Pamínu og Papagenós þegar hann bjargar henni úr klóm Mónóstatos, sá næsti var áhrifamikill sorgarsöngur Pamínu þegar hún heldur að Tamínó sé orðinn henni afhuga (Sarastró trúir á þá aðferð við að temja konur að láta þær þjást), og þriðji tindurinn var heitur og sannfærandi reiðilestur Næturdrottningar yfir dóttur sinni.

Töfraflautan er „Singspiel“ eins og Árni Heimir Ingólfsson útskýrir í leikskrá og er þess vegna sungin á okkar tungu, tungumáli flytjenda og obba hlustenda, en hvorki ítösku né þýsku. Þýðing Böðvars Guðmundssonar og félaga á söngvunum er oft skondin og skemmtileg en leiktextinn sem Þorgeir Tryggvason hefur aðlagað fyrir þessa sýningu var ennþá nútímalegri. Það færir þessa tegund sviðslistar ansi miklu nær okkur að heyra hana á íslensku og ég vona að sem allra flestir njóti þessarar skemmtilegu sýningar á nýju heimili Íslensku óperunnar.

 

Silja Aðalsteinsdóttir