Ég er ekki manneskja til að skrifa af þekkingu um sýninguna á Klúbbnum sem frumsýnd var í Borgarleikhúsinu í gærkvöldi á vegum Listahátíðar. Þetta var orðlaus sýning, einu mannlegu hljóðin voru stunur, más og dæs, túlkun efnisins fór fram gegnum dans og látbragðsleik og þó að ég þættist skynja hver meiningin var hverju sinni – eða því sem næst – getur maður aldrei verið viss þegar orðin vantar.
Það sem ég er viss um er að sýningin var heillandi, hélt manni bergnumdum frá upphafi til enda, í þrunginn klukkutíma. Verkið er eftir Gunnlaug Egilsson dansara og félaga hans í sýningunni og þó að þeir séu leikarar en ekki dansarar eða sirkuslistamenn hikaði hann ekki við að gera kröfur til þeirra sem slíkra. Hann valdi líka vel í klúbbinn sinn, þeir hafa notið þess að fá að spreyta sig á nýrri list Björn Thors, Ingvar E. Sigurðsson og Ólafur Egill Egilsson. Minna var lagt á Hugin Þór Arason og Björn Borko Kristjánsson í dansi en Huginn sá um áhrifaríka sviðsmyndina með klúbbmeðlimum og Borko sá um tónlistina sem var alveg æðisleg. Í fyrsta atriðinu, þegar klúbburinn er að myndast hægt og hægt með launfyndnum vísunum í Frímúrara, var tónlistin eins og maður væri að leita að útvarpsstöð á FM-bylgju, eintóm ósamstillt hljóð, en smám saman varð hljómkviðan sterk og gagntók huga og líkama. Kjartan Þórisson sá um lýsinguna sem lék sitt hlutverk óaðfinnanlega.
Klúbburinn freistar þess að koma á framfæri með áðurnefndum meðulum kenndum af öllu tagi sem taldar eru samviskusamlega upp í leikskrá. Þar er þó ekki eitt orð sem settist að í huga mínum undir áhrifamesta atriðinu, orðið samstaða. Í því atriði leika þeir sér Gunnlaugur, Ingvar og Björn Thors í gríðarmiklum stálþríhyrningi – eða öllu heldur píramída – á sviðinu. Smám saman koma þeir honum á fleygiferð með sameiginlegu átaki og þegar hann er farinn að hringsnúast á ofsahraða standa þeir upp og mynda mannlegan skúlptúr með því að tengja höndum saman. Þá langaði mann bara til að gráta af hrifningu.
Það eru fjórar sýningar enn af Klúbbnum. Ekki missa af honum.
Silja Aðalsteinsdóttir