Vilborg Davíðsdóttir. Undir Yggdrasil og Land næturinnar.
Mál og menning, 2020 og 2023.
Úr Tímariti Máls og menningar, 3. hefti 2024.
Á síðustu tæpu tveimur áratugum hefur komið fram fjöldi nýrra upplýsinga, einkum í gegnum fornleifarannsóknir, og í framhaldi af því með samanburði við textarannsóknir, um ferðir norrænna manna í svokallaðan Austurveg, það er eftir stórfljótum og vötnum Austur-Evrópu, til Hólmgarðs, sem nú heitir Novgorod, Kænugarðs eða Kiev, og allt suður til Miklagarðs eða Istanbul. Þessar ferðir norrænna manna, sem nú á dögum eru oftast kallaðir einu nafni víkingar, voru bæði herferðir til ráns á fólki og fénaði en ekki síður til að stunda ábatasaman kaupskap.
Meðal annars í þennan brunn sækir rithöfundurinn Vilborg Davíðsdóttir í tveimur nýjustu bókum sínum, Undir Yggdrasil og Landi næturinnar sem út komu 2020 og 2023. Þær eru að segja má sjálfstætt framhald þriggja bóka Vilborgar þar á undan, þríleiksins Auðar (2009), Vígroða (2012) og Blóðugrar jarðar (2017). Í þríleiknum er ein frægasta kona íslenskra fornsagna í aðalhlutverki, Auður djúpúðga, sem á miðjum aldri sigldi frá Skotlandi til Íslands og nam land í Hvammi í Dölum og andaðist þar í hárri elli.
Persónur og leikendur
Aðalhlutverki í nýju bókunum tveimur gegnir sonardóttir Auðar, Þorgerður, dóttir Þorsteins rauðs og afkomandi Ólafs hvíta Dyflinnarkonungs. Margar persónur bókanna eru þekktar úr fornbókmenntum, sumar þó varla nema nafnið eitt; aðrar eru skáldaðar eins og vera ber í skáldsögum. Öllu slíku gerir Vilborg skýra grein fyrir í eftirmála hvorrar bókar fyrir sig. Þessar upplýsingar í fornsögunum eru ákaflega knappar, í meginatriðum segir aðeins um Þorgerði að eftir að hún missti mann sinn á Íslandi hafi hún siglt til Noregs, gifst þar aftur og snúið til baka til Íslands að seinni eiginmanninum látnum. Það er því nóg rými fyrir hugmyndaríkan rithöfund að fara með himinskautum á skáldfáknum.
Í upphafi fyrra bindis (Undir Yggdrasil) er Þorgerður gift kona og móðir þriggja barna, fimmtán ára tvíbura og sjö ára dótturinnar Þorkötlu, búsett í Laxárdal í Dölum. Fyrri hluti sögunnar gerist á Íslandi og hverfist um þinghátíð á Þórsnesi hjá Þórólfi Mostrarskegg. Fjöldi fólks er þar saman kominn, bæði börn og fullorðnir, og mikið umleikis; þingstörf og blóthald, veisluhöld og öldrykkja. Að lokinni þessari miklu hátíð stendur Þorgerður á tímamótum, hún hefur orðið fyrir miklum og þungum harmi og tekur þá ákvörðun að sigla með farskipi af landi brott til ættingja sinna í Noregi.
Síðara bindið (Land næturinnar) fjallar um dvöl Þorgerðar í Noregi og síðan siglingu með nýjum eiginmanni suður á bóginn eftir fljótum og vötnum í mikla kaupskaparferð. Sú ferð verður síður en svo viðburðasnauð og fléttar saman marga þræði, ástir og svik, launmorð, þrælahald, heiðinn sið og jafnvel kristnar hugmyndir o.fl. o.fl. Í lok bókar stendur Þorgerður enn á tímamótum, tvöföld ekkja með lítinn son.
Heildarsagan er sögð í línulegri frásögn þar sem hver atburður rekur annan. Inn í söguna er síðan brugðið endurliti, hugsunum og endurminningum í mislöngum innskotum sem eru fleyguð inn í frásögnina, bæði í gegnum sögustundir og samtöl. Oft er þar um að ræða ýmiss konar fræðslu, gjarnan ættfærslur til að tengja saman persónur, en ættartengsl og ítarleg þekking á því sviði var grundvallaratriði á landnámsöld og gegndi ekki síst því hlutverki að staðsetja einstaklinginn í stétt og stöðu. Það er því einnig nauðsynlegt fyrir lesandann að henda reiður á því. Þessi innskot gefa lesandanum líka nokkra tilfinningu fyrir því hvernig lifað var í ritlausu samfélagi þar sem allt þurfti að muna og kunna. Sum þessara innskota fela einnig í sér upplýsingar um hluti sem nútímafólk veit lítið um, svo sem hvernig bjarndýraveiðar fóru fram, hvernig ferðalögum á landi eða sjó var háttað, ull var spunnin eða jurtalyf og smyrsl búin til. Allt er þetta haganlega fléttað saman við ferli framvindunnar þar sem það á við, þannig að ekki verður úr upplýsingaflóð sem engan hefur tilganginn. Endurlit af þessu tagi eru einkum í fyrri bókinni, sem er rökrétt þar sem annars vegar eru upphafsaðstæður og helstu aðalpersónur kynntar til sögunnar (Þorgerður, Kollur, Þorkatla, Herjólfur, Grímkell), hins vegar vegna þess að þar kemur megingrunnur sögunnar fram (kynning á samfélagi þessa tíma og ástæður brotthvarfs Þorgerðar af Íslandi). Þetta er þó alls ekki einhlítt, því í síðari bókinni koma til nýjar persónur, nýjar aðstæður og gjörbreytt líf aðalpersónunnar.
Frásagnarstíll Vilborgar er tiltölulega hreinn og beinn, þægilegur aflestrar en fremur skrautlaus. Þó er vitaskuld víða notað orðfæri sem hæfir sögutímanum, bæði heiti ýmissa hluta og áhalda sem ekki eru lengur í notkun en ekki síður um aðferðir við margs konar athafnir. Ekki er þó reynt að fyrna frásögnina, hún er auðlesin og fleytir vel fram, á þó til að verða ofurlítið langdregin á köflum. Það á helst við í stundum mjög nákvæmum lýsingum. Stílbragð, nokkuð mikið notað, er að sleppa samtengingum en mér finnst það hvorki prýða textann né hraða frásögninni.
Persónusköpun er ágætlega gerð í allflestum tilfellum. Í upphafi fyrri bókar virðist Þorgerður heldur litlaus og líflítil, vansæl og ástlaus eiginkona, en fyrir því eru skýrar ástæður sem smám saman koma í ljós; hún leynir á sér og styrkur hennar og skapfesta eykst með hverjum kaflanum og nær hámarki undir lok síðari bókarinnar.
Þorkatla litla er sannferðugt barn sem skilur ekki hættuna sem að henni steðjar, kann því ekki að varast hana, né heldur að bregðast við, enda var líklega ekki verið að útskýra hlutina fyrir börnum í þann tíð eins og lögð er áhersla á í dag. Átakanlegar eru hugsanir hennar í bátnum við röstina á leiðinni heim af þinghátíðinni.
Grímkell og móðir hans eru áhugaverðar persónur; ekki sérlega geðfelldar en ástæður þess koma vel fram; móðirin gerir hvað hún getur til að bjarga barni sínu og Grímkell er afar vel unnin persóna, hann er fákænn einfeldningur sem skilur ekki flókin samskipti fólksins í kringum sig og segir og gerir alla hluti vitlaust, líka þegar framtíðin virðist blasa við honum, björt og fögur; allt fer í handaskolum og hann geldur fyrir með lífinu.
Mennirnir í lífi Þorgerðar, Kollur, Herjólfur og Hrærekur, eru hver með sínu móti, þeir eru dregnir skýrum dráttum, bæði jákvæðum og öðrum erfiðari, og ýmislegt liggur í þagnargildi í sálum þeirra, hvort heldur það er þungbær missir eða annað sem ekki skal borið á torg.
Járngerður, sem er mikil aðalpersóna í síðari bókinni, nýtur kannski sístrar persónusköpunar. Hún er svo rosaleg. Hún er rosalega vinsamleg, skemmtileg og kurteis þegar þannig stendur á (þegar þær Þorgerður hittast fyrst), en þrátt fyrir harma sína og ýmsan vanda verður hún að hálfgerðu skrímsli á köflum.
Krios og Tuhkuri eru athyglisverðir, annar blíðmáll og tungulipur en hreinræktaður skíthæll með lítið, krúttlegt apakríli á öxlinni sem hann notar til að vinna traust fólks; hvað hinn varðar veit lesandinn eiginlega ekki hvar maður hefur hann fyrr en á lokasíðum síðara bindisins.
Fornir tímar
Á þeim tímum sem sagan gerist eru svo ólík viðhorf ríkjandi í samfélagi sögunnar að við sem lifum í hinum frjálsa og fjölbreytilega nútíma eigum ákaflega erfitt með að skilja og/eða setja okkur í þau spor. Sumt er þó kunnuglegra en annað, svo sem hið algilda feðraveldi, þar sem konur höfðu lítið sem ekkert að segja um líf sitt, hvorki í makavali né öðru, að minnsta kosti ekki fyrr en þær voru orðnar ekkjur; oftast voru þær gefnar í hjónaband strax á unglingsaldri (14–15 ára) með sér miklu eldri körlum og allar slíkar ráðstafanir byggðust á tengslanetum til að styrkja auð og völd karla og ætta þeirra.
Annað er óskiljanlegra, svo sem viðhorf til dauðans og þrælahalds. Hvað það fyrrnefnda varðar skipti það karla öllu máli að hverfa úr þessu lífi með sæmd og helst vopnbitnir, og viðhafnarmiklar bálfarir, oft með blóði drifnum fórnfæringum dýra og ófrjálsra, voru þar snar þáttur. Litlu skipti aftur á móti hvernig konur dóu. Um þetta er ekki mikið fjallað í sögunni en þó tæpt á því.
Hitt atriðið, viðhorfið til þrælahalds, er okkur enn óskiljanlegra. Þar tekst Vilborgu þó afar vel að forðast allt sem gæti kallast vilhallt sjónarmið eða viðhorfsgryfju hins „rétthugsandi“ nútímamanns. Í því samfélagi sem hún lýsir í sögu sinni er þrælahald ófrávíkjanlegur þáttur tilverunnar, efnahagslegt grundvallaratriði sem enginn hefur nokkrar efasemdir um; hernám og síðan verslun með hernumið fólk, geldingar ungra karlþræla, misnotkun og nauðganir ánauðugra kvenna – allt er þetta eðlilegt og sjálfsagt í sögunni, meira að segja í hugarfari þeirra persóna sem lesandanum eru kærar og hann heldur með. Frjálsborin kona sem lendir í því að vera leidd í ánauð hefur engan rétt annan en vonina eina um að öðlast frelsi aftur; aðeins heppni getur bjargað henni og hún er sjaldgæfur gestur.
Hinn heiðni siður
Í þessum bókum, öfugt við þríleikinn um Auði sem tekur kristna trú snemma á ævinni og hefur illan bifur á hinni fornu heiðni, er tekist á við heiðnina af skemmtilegu afli. Í raun og veru er lítið sem ekkert vitað um hvernig mál voru í pottinn búin í því efni, ýmsar heimildir nefna blót og fórnfæringar en akkúrat hvernig slíkt fór fram er lítið þekkt. Miklu blóti með skrúðfylkingu, logandi kyndlum og blóðfórn er lýst í upphafi sögunnar, á þinghátíðinni á Þórsnesi, og snjallt hjá höfundi að lýsa því úr fjarlægð í gegnum augu barna.
Að því er varðar heiðinn átrúnað sem slíkan gegnir Freyja nokkuð stóru hlutverki í sögunni, sem er rökrétt, því aðalpersónan er kona og sagan í heildina séð er kvennasaga. Hér er Freyja ekki dregin niður á hið banala plan einfaldrar ástargyðju eins og yngri ritheimildir og fræðileg umfjöllun gefur í skyn, hér er hún máttugt goð lífs og frjósemi, dauða og annars heims. Og hún er sú sem kenndi ásum seið. Önnur sem gert er nokkuð úr í sagnheimi Vilborgar er Vár, ásynja sem lítið er vitað um en virðist samkvæmt Þrymskviðu hugsanlega hafa verið einhvers konar vígslugyðja og Snorri Sturluson segir hana taka eiða af mönnum. Vár þessa gerir Vilborg að höfuðgyðju væringja og byggir þar nokkuð á orðsifjafræði og tengir eiðum sem væringjar sverji höfðingja sínum.
Fátt er vitað um hvað fólst í hinum svokallaða seiði – heimildir tala lauslega um spásagnir og völvur, seiðberendur, vitka og seiðlæti, en flestar vangaveltur fræðinga um slíkt, jafnvel heilu bækurnar, eru ekki mikið meira en einmitt það: vangaveltur. Hér lætur Vilborg gamminn geisa, oft á mjög skemmtilegan, hugmyndaríkan og athyglisverðan hátt, og vísast að margur goðsagnafræðingurinn gæti sopið nokkrar hveljur yfir því hve frjálslega hún leikur sér með hugmyndir um seiðferðir og mörkin milli heimanna, og hvernig má yfirstíga þau. Þar gegnir seið- eða völvustafurinn mikilsverðu hlutverki. Margir sérkennilegir stafir með snúningum, bólum og hengiskrauti hafa fundist í gröfum kvenna frá víkingaöld í Skandinavíu og ekki er langt síðan það varð almennt viðurkennt meðal fræðimanna að þessir stafir væru seiðstafir en ekki steikarteinar! Til að búa til og magna slíkan staf þarf völvan að búa yfir rúnaþekkingu og kunna galdraþulur og til að lýsa því nýtir Vilborg sér á skapandi hátt ýmislegar vísbendingar í heimildum – oft fremur óljósar því það er eins og menn fari að veigra sér við að snerta um of á slíkri forneskju þegar kom fram á hina kristnu tíð sagnaritunarinnar. Það virðist þó hafið yfir vafa að á forsögulegum tíma, heiðnum, hafi fólk almennt haft sterka trú á því að yfirskilvitlegur heimur væri yfir og undir og allt um kring, og að hægt væri með ákveðinni tækni í bland við ófreskigáfu að komast í tengsl við hann; þetta mun oftar en ekki hafa átt við um konur en þó kemur fyrir að einnig er vísað til karla í heimildum hvað þetta varðar.
Auk lýsinga á nauðsynlegum undirbúningi fyrir seiðferðir yfir í goðheiminn, þar með talið að búa til völvustaf, fáum við frásögur af sjálfum ferðalögunum, umhverfinu í þessum handanheimi, drekanum Níðhöggi, Aski Yggdrasils, ám og fljótum sem skilja milli hinna yfirnáttúrlegu heima, hamskiptum og jafnvel tengslum úlfs og seiðkonu. Einnig fáum við innsýn í hugsanlegan átrúnað mismunandi þjóðflokka og aðferðir til seiðláta. Og hér, svo sem í fyrri bókum sínum, nýtir Vilborg fornkvæðaarfinn, einkum eddukvæðin en einnig ýmislegt fleira frá síðari öldum, og vílar ekki fyrir sér að prjóna við, umorða og yrkja sjálf í þessum anda. Á því geta lesendur haft mismunandi skoðanir en því verður ekki neitað að bæði þarf kjark og dug til.
Allt er þetta ágætlega gert en líður stundum nokkuð fyrir langar lýsingar sem fyrirgefast þó að verulegu leyti því í gegnum frásöguna alla skín brennandi áhugi höfundarins á að kynna þennan forna arf fyrir lesendum sínum, heilla þá með sér inn í fornan og mystískan hugmyndaheim þar sem svo margt fleira gæti hafa verið gerlegt með hugarafli einu saman en í hinum kalda raunheimi vorra daga.
Austurvegur og víðar
Í upphafi þessa pistils var minnst á nýjar rannsóknir sem fram hafa komið á síðustu árum og áratugum, einkum í tengslum við fornleifauppgröft, og sem sýna fram á að fornar frásagnir, svo sem annálar og króníkur, einkum frá austur-evrópskum svæðum, virðast í mjög mörgum tilfellum eiga við góð rök að styðjast, þótt fræðimenn hafi lengi dregið margar þeirra þar um í efa, kallað ýkjur, uppdikt og fáfræði. Nú hafa ýmsir þurft að éta ofan í sig nokkuð stór orð hvað þetta varðar. Tilgangur ferða í Austurveg mun þó ekki einvörðungu hafa verið hernaður og rán fólks og fénaðar, heldur ekki síður kaupsýsla, enda stórir markaðir í boði. Að mörgu var þó að hyggja og ferðir af þessu tagi urðu ekki farnar án vopnaðra og vel vopnfærra manna.
En ferðir víkinga lágu ekki eingöngu um þennan svokallaða Austurveg, þ.e. alla leið til Miklagarðs í suðri og Garðaríkis í norðaustri, heldur jafnframt vestur með allri Evrópu, inn á Miðjarðarhaf um Gíbraltarsund og til Miklagarðs þá leiðina. Einnig munu þeir hafa haft viðkomu hér og þar um Norður- og Vestur-Evrópu; til er meira að segja vitnisburður um ferðir víkinga upp alla Signu og árás á París. Þessi miklu strandhögg eru nú álitin hafa haft mun meiri þjóðfélagsbreytingar í för með sér um alla Evrópu en áður var talið; stjórnarfarslegar, efnahagslegar en ekki síst að því er varðar blöndun og tilflutninga mismunandi þjóðfélagshópa.
Að því er snertir Austurveginn og ferðamáta eftir fljótum og vötnum, fram með flúðum og fossum, hefur Vilborg Davíðsdóttir greinilega kynnt sér allar þær heimildir sem framast er unnt, bæði fornleifar, texta og fræðilega umfjöllun, og gerir skýra grein fyrir heimildum sínum í eftirmála síðari bókarinnar.
Þótt fyrrnefnd ofurnákvæmni í lýsingum og frásögnum verði stundum á kostnað framvindu og spennu í sögunni eru sögur Vilborgar Davíðsdóttur, Undir Yggdrasil og Land næturinnar, bæði áhugaverðar og skemmtilegar aflestrar. Ekki síst veita þær sannferðuga innsýn inn í horfinn tíma, tengingu við fortíð sem er okkur framandi en þó hluti af sögu okkar og tilveru, staðfestur arfur blandinn hugmyndaflugi og skáldskap. Eins og fyrr sagði er vitað að Þorgerður snýr að lokum aftur til Íslands. Nú er bara að bíða eftir þriðju bókinni um ferðalag hennar heim.