Valur Gunnarsson. Bjarmalönd. Rússland, Úkraína og nágrenni í nútíð, fortíð og framtíð.
Mál og menning, 2021. 432 bls.
Úr Tímariti Máls og menningar 4. hefti 2021
„Saga mannlegrar sálar, hversu ómerkileg sem hún kann að vera, er ekki síður forvitnileg og holl lesning en saga heillar þjóðar“.
Mikhail Lermontov, Hetja vorra tíma
Maður þarf alltaf að vera nokkuð varkár þegar maður les dagbækur og ferðasögur. Ferðasögur eru sérstök bókmenntagrein sem varð til seint, þegar rólegheitalíf fólks sem hafði engin sérstök tengsl út fyrir þorpið, borgina eða furstadæmið, breyttist. Þetta var tímabil landfræðilegra uppgötvana og nýrra heimsálfa. Fyrsta sýn á það sem er að gerast á nýuppgötvuðum slóðum var í brennidepli í ferðabókum. Stundum voru þetta stórkostlegar lýsingar. Vegna þeirrar staðreyndar að fólk gat ekki alltaf séð hvað gerðist þegar það fór út úr skipinu bjó það einfaldlega til sínar eigin goðsagnir eða endursagði frægar goðsagnir og flutti þær til nýuppgötvaðra heimsálfa eða sigraðra landa.
Ég held að tortryggni mín gagnvart ferðasögum megi rekja til ofskömmtunar á slíkum bókmenntum í fyrsta meistaranámi mínu við Lomonosov-háskólann. Þar sótti ég ekki aðeins námskeið sem kallaðist „Þvermenningarleg miðlun“, heldur einnig námskeið á ensku, „Ethnoprotocol and Ethnoetiquette“, sem samanstóðu aðallega af því að lesa kenningar um tíma- og rýmisskynjun í mismunandi menningarheimum og einnig stóran skammt af ferðabókum um rússneska keisaradæmið, Sovétríkin og Rússland. Við gagnrýndum harðlega Daniel Calder og bókina hans Lost Cosmonaut. Observations of an Anti-Tourist vegna endalausrar andúðar hans á Rússlandi og lýsingum á landinu sem skítugum, guðsvoluðum stað með furðumiklu af dauðum dýrum og líkum fólks sem hafði framið sjálfsmorð á götunum; hlógum að ljúfum húmor Lewis Carrolls í The Russian Journal og hötuðum Sigismund von Herberstein fyrir langar lýsingar á því sem í raun var ekki til í Rússlandi eða rússneska keisaradæminu, líkt og barometz-plöntu sem var einu sinni talin bera sauðfé sem ávöxt sinn, þó að enginn geti vanmetið framlag hans til þjóðarinnar þegar hann kortlagði landamærin og lýsti fólkinu sem bjó á ólíkum svæðum landsins.
Þar að auki var námskeið sem hét „Rússneski heimurinn“ þar sem við reyndum að skilja hver við (Rússar) erum og hvernig útlendingar sjá okkur. Þetta var nokkuð gagnlegt og skiljanlegt því landið var ennþá (árið var 2010) á barmi nýs lífs, enn á ný var það alfarið að hafna eigin fortíð. Neikvæð stemning ríkti í samfélaginu, knúin áfram af fjölmiðlum. Allt var gagnrýnt: byltingar og sovésk saga, pólitísk uppbygging og þróun efnahagslegra samskipta, lífsstíll Rússa, jafnvel árangur hinnar miklu rússnesku menningar var dreginn í efa, sérstaklega þau atriði sem tengdust pólitískri ranghugsun á þessum tíma – mikilfengleiki landsins, vinátta þjóðanna. Allt þetta varð ósjálfrátt að einni tesu: Aðeins mjög undarlegt og óþekkt fólk gat lent í sögulegri stöðu á borð við þessa.
Á sama tíma, eins og oft gerist á tímum pólitískrar og hugmyndafræðilegrar kreppu í Rússlandi, hafa spurningar vaknað að innan sem og að utan: Hvað eru Rússar, hverjir eru Rússar, hvernig varð líf þeirra eins og það er, er mynstur í örlögum þeirra, hvað einkennir rússneska þjóðernið? Skoðanir höfundanna, innlendra sem erlendra, beindust í flestum tilfellum í tvær áttir, hvorug var ný en þær voru orðaðar hörkulegar en áður. Önnur fól í sér hugmyndina um sérstöðu rússnesku þjóðarinnar, sérstakt verkefni sem gerir Rússa að einstakri þjóð ólíkri öllum öðrum þjóðum. Fullyrt var að Rússar hefðu ákveðna „yfirburði“ og dæmi nefnd úr fornri og nýlegri sögu.
Hin skoðunin var sú að Rússland og Rússar væru langt frá því að vera siðmenntað samfélag. Þeir væru spilltir af aldalangri alræðisstefnu, hefðu enga félagslega meðvitund, hefðu misst sitt frumkvæði, væru fastir í barbarisma, fylleríi og leti.
Báðir aðilar lögðu samt áherslu á, hvor með sínum hætti, sérstöðu rússneskrar menningar og einangrun hennar frá alþjóðlegum straumum. Í ljósi þess var nauðsynlegt að rannsaka þróunar þjóðarinnar án öfga, á grundvelli víðtækra vísindalegra gagna, í samhengi við siðmenningu heimsins en án andstæðuhugsunar: þau eru góð og við erum slæm, eða öfugt“. Einnig var mikilvægt að rýna í heimildir til að finna rætur ástandsins og skoða þróunarmynstur bæði og einstaklinganna sem hana skipa.
Fall járntjaldsins og áreksturinn við heiminn handan þess opinberaði Rússum og fólkinu í sovéskum lýðveldum tvö andstæð sannindi: annars vegar er umheimurinn ekki eins frábrugðinn okkur og hann virtist einu sinni, bæði í góðum og slæmum skilningi; hins vegar erum við ekki eins og aðrir íbúar heimsins þegar horft er til algildra manngilda. Já, og fólkið sem einu sinni bjó í heimi hins dularfulla erlendis reyndist líka vera ólíkt og siðferði þeirra var áberandi mismunandi eftir löndum.
Landið á milli heimanna
„Ef maður skilur Rússland, þá skilur maður allt. En það er ekki hægt að skilja allt og þar af leiðandi er ekki hægt að skilja Rússland.“ (418)
Þegar maður tekur þessa bók Vals Gunnarssonar í hendur dettur manni óhjákvæmilega í hug: Ó, þetta verður líklega eitthvað á borð við George Macartney jarl (1737–1806) sem sagði að Rússar væru hreinasta dæmið um ósamræmi, mótsögn og þversögn, og sameinuðu alls konar öfgar. Rússar hata útlendinga en vilja samt herma eftir þeim og sýna frumleika; smekklega klæddir og ófyrirleitnir, trúlausir en hjátrúarfullir, stoltir af óreiðu og svívirðingum – og þeim er hvorki hægt að breyta með hógværð né leiðrétta þá með refsingu.[1]
Einkenni hinnar fullkomnu ferðasögu eru til dæmis víðtækar upplýsingar og vitsmunaleg umfjöllun, nokkuð þjóðernisbundin fagurfræðileg afstaða höfundarins og ferðahetjunnar, sannleiksgildi eða áreiðanleiki þess sem lýst er, afdráttarlaust mat á atburðum, skilningur á trúarlegum og menningarlegum aðstæðum og virðing fyrir því sem lýst er. Þessi bók uppfyllir fyrrnefndu skilyrðin nánast fullkomlega. Við fylgjum sögumanni sem hefur raunverulega áhuga á efninu. Bókin er ekki pólitísk (að minnsta kosti virðist ekki sem höfundi hafi verið skipað að skrifa í ákveðnum tón), heldur er hún skrifuð af ósvikinni forvitni um það sem sögumaðurinn lendir í. Á næstum þrjátíu árum fer höfundum um næstum öll fimmtán fyrrverandi lýðveldi Sovétríkjanna fimmtán og skoðar lífið þar. Bókin kemur út á fullkomnum tíma því 2021 fagna margar þjóðanna þrjátíu ára sjálfstæðisafmæli.
1991 var mjög merkilegt ár. Evrópukortið hefur verið teiknað upp á nýtt. Annar af tveimur aðalleikurum kalda stríðsins er horfinn og fyrstu merki um framtíðarvandamál nýrrar heimsskipan eru farin að birtast. Árið 2021 markar þrjátíu ára afmæli misheppnaðs valdaráns gegn Gorbatsjov í ágúst, Belovezhskaya-samninganna og hruns Sovétríkjanna í desember.
Í grunnskólanum er flestum Rússum kennt að hrun Sovétríkjanna hafi verið tiltölulega friðsælt. Belovezhskaya-samningar leiðtoga Rússlands, Úkraínu og Hvíta-Rússlands voru samþykktir án mótstöðu og vopnuð átök sem brutust út vegna ágreinings sem kom upp við skiptingu sovéskra lýðvelda fóru aðallega fram á jaðrinum og höfðu því engin áhrif á þorra fyrrverandi íbúa Sovétríkjanna.
Í háskólanum var þetta leiðrétt í hugmyndina um að hrun Sovétríkjanna hefði fært fimmtán ríkjum sjálfstæði. Sum þeirra höfðu þráð það í áratugi, önnur höfðu ekki þráð það svo heitt. Spurningar um sjálfsákvörðunarrétt og sjálfstæði þjóðanna vöktu pólitískrar umbótahreyfar og leiddu á endanum til hruns Sovétríkjanna. Þetta ferli var erfitt – stuðningsmenn pólitískra umbóta studdu ekki alltaf aðskilnað þjóðveldanna frá Sovétríkjunum og stuðningsmenn sjálfstæðis þjóðanna reyndust ekki alltaf lýðræðissinnaðir. Umskipti frá einsflokkskerfinu yfir í fjölflokkakerfi með markaðshagkerfi reyndust vitanlega erfið en komu einnig á óvart:
„Þegar Sovétríkin leystust upp í fimmtán sjálfstæð ríki þurfti í snatri að ákveða hverju þeirra hinir þrjú hundruð milljón þegnar hins horfna veldis tilheyrðu. Var það búseta manna sem mestu skipti, þjóðernisvitund þeirra eða þá eitthvað allt annað? Hending gat ráðið í hvaða landi menn bjuggu nú. Um þrjátíu milljónir Rússa urðu skyndilega útlendingar í hinum nýstofnuðu ríkjum, og annar eins fjöldi af þeim sem nú tilheyrðu Rússneska sambandsríkinu áleit sig ekki Rússa.“ (22–23)
Höfundurinn skoðar þetta viðkvæma efni vandlega, heimsækir staði, fylgist með fólkinu og merkum sögulegum stöðum, og sem sannur blaðamaður spyr hann fólk með mismunandi bakgrunn um tilfinningar þess. Sem sagnfræðingur gleymir hann ekki að veita hnitmiðaða en skemmtilega innsýn í sögu hluta, persóna og borga. Athyglisvert er að þó að sögumaðurinn sé oft í atburðunum miðjum, umkringdur sterkum skoðunum, virðist hann aldrei hallast að einni lausn frekar en annarri, heldur segir einfaldlega að þessar skoðanir séu til. Punktur.
Þannig fáum við að vita hvers vegna Eystrasaltsríkin jöfnuðu sig fljótt eftir hrunið og standa sig ótrúlega vel í efnahagsmálum og hvers vegna staða rússnesks minnihluta þar er frekar ömurleg. Við fáum hnitmiðaða lýsingu á lífinu í fjarlægum lýðveldum Sovétríkjanna, eins og Kasakstan sem margir vita ekki um því „sum lönd viðast svo fjarlæg að þau geta ómögulega verið raunveruleg“ (261); við heyrum um aðstæður í Georgíu, Armeníu og Aserbaídsjan, átök á Kákasus-svæðinu og skoðanir beggja aðila deilunnar. Þar sem höfundur var búsettur í Úkraínu er lesandanum veitt ítarleg, en á engan hátt leiðinleg eða flókin, saga Kænugarðs, móður rússnesku borganna, og Úkraínu eða Litla-Rússlands, eins af þremur Rússlöndum. Höfundurinn lýsir einnig því hversu illa átökin í austurhluta landsins komu við úkraínsku þjóðina: andúð á Rússum er orðin útbreidd í Úkraínu og ástandið setur sitt mark á þjóðarsálina sem er enn í mótun.
Þaðan förum við til Hvíta-Rússlands og upplifum landið rétt fyrir uppþot sem verður þegar fólkið vill fræðast um umheiminn og dreymir um að flytja, enda eygir það litla von um að losna við Lúkasjenko; að lokum víkur sögunni aftur að rauða þræði bókarinnar – Rússlandi sjálfu. Þar er mögnuð og hnitmiðuð greining á byltingunni 1917 og ljómandi útskýring á því hvers vegna jafnvel skynsamasta fólk heims var tilbúið að fylgja blóðuga einræðisherranum Stalín. Í kjölfarið fylgir umfangsmikið innlit í Rússland Pútíns, enda er hann „mikilvægasta persónan í þessum óravíðáttum […] þó að auðvelt sé að ofmeta áhrif hans og er honum ekki endilega á móti skapi“ (23), og hvað gæti komið á eftir honum. Spoilerið: ekkert sérstakt, líklegast, þótt „vald hans virðist nokkuð minna en margir halda“ er hann, sem einu sinni var umbótasinni, orðinn einræðisherra í raun og veru, og „Rússar eru þolinmóðir gagnvart forseta sínum“ (362).
Ferðinni er lýst á lipru og líflegu en samt mjög aðgengilegu málfari í frekar stuttum köflum sem halda lesanda við efnið, samtvinnað hlédrægum en samt heillandi húmor (þessi lesandi þarf að viðurkenna að hann datt niður úr stólnum nokkrum sinnum, hlæjandi). Sögumaðurinn bætir við kímnum lýsingum á nöturleika hversdags síns í Úkraínu, því hlutirnir eru allt öðruvísi austanmegin og jafnvel venjuleg ferð í búðina eða myndataka getur orðið ógleymanlegt ævintýri; og hann leynir því ekki að hann er mannlegur eins og við öll og leitar ástar og vináttu. Sum ástarævintýri með dularfullum slavneskum konum enda frekar hörmulega fyrir sögumanninn en hann lætur það ekki hafa áhrif á sig enda er „Rússland fyrir hina döpru“ (104). Hann segir okkur einnig baráttu íslensks rithöfundar sem er ekki viss um hvort hann og list hans séu einhvers virði:
„Ég hafði ekki getað klárað námið í Bretlandi. Ég hafði aldrei fengið ritlaun. Þrír mættu í síðasta útgáfupartí og ég varð að tæma úr öllum rauðvínsglösunum sjálfur. Vaknaði blóðugur í rúminu með miðaldraþynnku sem dugði í marga daga. Hafði líklega lent í átökum við tröppurnar. Ólíkt Jónasi Hallgrímssyni lifði ég það af. Ég var orðinn fimm árum eldri en hann en gat ekki eini sinni drepist eins og skáld.“ (125)
Og sem stoltur fulltrúi íslensku þjóðarinnar hikar höfundur ekki við að nefna þátt Íslands í öllum málum bókarinnar, enda er fátt „jafnmikið eitur í beinum íslensku þjóðarinnar og tilhugsun um eigin smæð og ómerkilegheit,“[2] eins og viðurkenningu á sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna. Hann er ekki tregur við að spyrja hina ýmsu ferðafélaga sína um álit þeirra á Íslandi og virðist sætta sig við svörin sem hrósa Íslandi fyrir að vera draumland, þótt þau endurspegli ekki raunveruleikann:
„En líklega trúir fólk fyrst og fremst því sem það vill trúa. Ísland er Shangri-La hvert sem litið er. Hvort sem menn þrá land þar sem spilling þrífst ekki og bankabófar eru lokaðir inni, þar sem mengun er ekki til og allir eru náttúruelskandi umhverfisálfar, eða þar sem fullkomið jafnrétti ríkir og peningar skipta ekki máli en allir eru listamenn eins og Björk og Sigurrós, þá hlýtur það land að vera Ísland.“ (261)
Íslenski Shúrík?
Ein ástsælasta persóna sovéskrar kvikmyndagerðar er óneitanlega Shúrík, búinn til af meistara gamanmyndanna, Leonid Gaidai. Í einni af myndunum, Kákasískum fanga, fór Shúrík til Kákasus til að kanna forna siði og hefðir sem heimamenn stunduðu, þar á meðal staðbundnar „goðsagnir, þjóðsögur og skálarræður“. Vegna brennandi áhuga síns lítur Shúrík því miður fram hjá þeirri staðreynd að manneskja sem býður honum að taka þátt í þeim sið að ræna brúði hefur raunverulegan glæp í huga. Eftir að hafa áttað sig á því sem hefur gerst glímir Shúrík við nokkrar hindranir í viðbót en tekst á endanum að laga ástandið. Þó að megintilgangur myndarinnar hafi verið kómískur, þá er ósýnilegur rauður þráður um að sá sem kannar aðra menningarheima beri ákveðna ábyrgð á því hvernig þeim er lýst síðar. Og það er engin furða að þrátt fyrir vinsældir myndarinnar var hún gagnrýnd fyrir lýsinguna á þessari tilteknu menningu. En Shúrík lærði af mistökum sínum og næstum áratug síðar hittu sovéskir áhorfendur hann aftur sem frábæran uppfinningamann tímavélarinnar.
Höfundur Bjarmalanda er drifinn áfram af langvarandi áhuga sínum á Sovétríkjunum og Rússlandi, leggur leið sína til fjölmargra landa og reynir að gefa lesendum víðtæka mynd af landsvæðinu sem alltaf er í fréttunum en er þó flestum óþekkt. Eins og úrval ferðasagna um Rússland skrifað af útlendingum sýnir vel eru bækurnar ekki allar skrifaðar til að gefa raunverulega mynd, heldur til að skreyta eða draga upp neikvæða mynd af landi og þjóð. Það sem aðgreinir Bjarmalönd frá mörgum ferðasögum, og höfundinn frá Shúrík, er að hann (kannski ómeðvitað) áttar sig á ábyrgð sinni á myndinni sem verður sýnd, þar sem minningar hans hverfa en á prenti eru þær ódauðlegar. Hann skoðar sögulega atburði vandlega, djögglar persónulegum og pólitískum hlutum. Niðurstaðan er skemmtileg og skilningsrík frásögn sem tekur mið af öllum hugsanlegum viðhorfum og atburðarás og höfundur forðast að kasta fram afdráttarlausum fullyrðingum:
„Kannski er til einhver sérstök „rússnesk sál“ eða kannski eru Rússar bara eins og allir aðrir, en kunna ekki alveg tökin á því. Kannski urðu Rússar kommúnistar vegna samyrkjuhugsjónarinnar sem lengi hafði ráðið ríkjum á hrjóstrugum landbúnaðarsvæðum norðursins. Eða kannski hneigjast þeir til einræðis vegna arfs sem leiðir aftur til Mongóla, til Ívans grimma, til Stalíns, til Pútíns. Bæði er jafn rétt og jafn fjarstæðukennt. Allt er eins og það er vegna runu atburða sem hefðu allt eins getað farið á annan veg. Og gætu enn.“ (418).
Sennilega er þetta æðsta markmið sagnfræðings, frá heimspekilegu eða vísindalegu sjónarhorni, að telja leit að sögulegum sannleika mikils virði. Hugmyndin um að sagnfræði sem vísindi gegni því borgaralega hlutverki að hjálpa ákveðnu samfélagi – þjóð, trúarhópi, þjóðernishópi – að skilja nútíðina á grundvelli fortíðarinnar til að geta mótað framtíðina. En eins og öll skipulögð vísindastarfsemi verða sögulegar rannsóknir ónýtar þegar þær hafa of augljósan tilgang. Egla, Heimskringla og Örvar Odds saga segja okkur frá því að menn sem lögðu leið sína til Bjarmalanda urðu ríkir og frægir ef þeir náðu að komast heim heilir á húfi. Bjarmalandaför Vals Gunnarssonar var hættuverkefni í vissum skilningi en útkoman er bókmenntaverk sem gerir fróðleiksfúsum lesendum kleift að kanna og auðga þekkingu sína um löndin þar sem það bjarmar af degi.
Victoria Bakshina
Tilvísanir
[1] Russia under Western Eyes, 1517—1825 (1971). Ed. with an Introduction by Anthony Cross. London, Elek Books.
[2] Birkir Blær. (2019). (Þjóðar)sálin hans Jóns míns. Esseyja. 2019. Reykjavík, Partús.