Oddný Eir Ævarsdóttir. Undirferli: yfirheyrsla.

Bjartur, 2017. 174 bls.

Úr Tímariti Máls og menningar 4. hefti 2018

UndirferliUndirferli, skáldsaga um heilindi, ást og æsku-eyjar, byrjar á tilvitnunum í Hávamál og Brísingamen Freyju og seinni hluta bókarinnar lýsir önnur aðalpersónan, Smári, því yfir að nú sé „tími heiðnu frjósemisgyðjunnar Freyju runninn upp“ (140). Nokkru síðar segir hin aðalpersónan, Íris: „Minningin um Freyju er megin eða máttur sem við köllum til okkar“. Nú séum við „tilbúin til að þiggja á nýjan leik hina svokölluðu kvenlegu visku“ en „[v]illt náttúra og ónumin svæði á jörðinni [séu] okkur nauðsynleg til að virkja dularmátt okkar“ (162–163). Hér gengur höfundurinn, Oddný Eir Ævarsdóttir, inn í ákveðna hefð dulspekilegrar umhverfisorðræðu þar sem til dæmis er fléttað saman vísunum í gyðjutrú og umhverfisverndarsjónarmiðum.[1] Markmiðið er oft að skapa heildræna nálgun sem tekur fleiri þætti til greina en vísindalegar staðreyndir og hagnýti.[2] Um leið heldur Oddný Eir áfram, eins og í Ástarmeistaranum (2014), að vinna með tvær raddir, karls og konu, sem skiptast á að setja fram sinn vitnisburð í leit að sannleika, jafnvægi, heilindum og ást.

Gyðjur og engillinn í vistkerfinu

„Sagan um land þar sem konur lifa í friði sín á milli og við náttúruna er endurtekið þema í femínískum útópíum,“ segir fræðikonan Val Plumwood árið 1993 í riti um svokallaðan vistfemínisma (e. eco-feminism). Nú 25 árum seinna geta allir sem horft hafa á kvikmyndina Wonder Woman (2017) séð hvernig leikstjórinn Patty Jenkins nýtir þá hugmynd út í ystu æsar í senum frá paradísareyjunni þar sem Díana, upprennandi Ofurkona, elst upp meðal amasóna í harmónísku sambandi við náttúruna.[3] „Þetta er land án stigveldis,“ segir Plumwood, „þar sem fólk lætur sér annt hvert um annað og um náttúruna, þar sem jörðin og skógurinn halda dulúð sinni, krafti og heilleika, þar sem vald tækninnar og hernaðar- og efnahagsafl stjórnar ekki heiminum, að minnsta kosti ekki þeim hluta sem konur ráða yfir.“ Því yfirleitt vofir ógn hins karllæga heims yfir, með valdaójöfnuði sínum og ofbeldi. „Femínísk draumsýn málar andstæðurnar oft sterkum litum – líf gegn dauða, Gaia gegn Mars, dulúðugur skógur gegn tæknilegri eyðimörk, konur gegn körlum“. [4]

Angela McRobbie er ein þeirra sem telur að sú staðreynd að ákveðnir þættir femínismans hafi verið innlimaðir í pólitík og stofnanir geti dregið kraftinn úr andófi hans. Með orðum eins og „valdefling“ og „val“ hafi þessum afmörkuðu þáttum femínismans verið breytt í mun einstaklingsmiðaðri orðræðu sem sé notuð hvað sérstaklega í fjölmiðlum og afþreyingarmenningu sem eins konar staðgengill raunverulega róttæks femínisma.[5] Nýlegar teiknimyndir á borð við Frozen og Brave gefa vissulega til kynna að femínískar áherslur hafi ekki einungis skilað sér inn í afþreyingarheiminn heldur verið rækilega innlimaðar í hann. Kvikmyndirnar Wonder Woman og teiknimyndin Moana eru einnig dæmi um þetta, en Moana gerist á eyjaklasa þar sem móðureyjan Te Fiti er náttúrugyðja sem rænd hefur verið krafti sínum af fulltrúa karlveldisins. Afleiðingarnar eru dauði og eyðilegging heimsins og aðeins stúlkan Moana getur tryggt að náttúran öðlist líf að nýju.[6]

Plumwood fjallar um augljósa ókosti þess að upphefja einfaldlega kvenlega eiginleika og samband kvenna og náttúru sem andsvar við karllægum yfirgangi gegn náttúrunni. Það endurveki rómantíska hugmynd um að konur hafi sérstaka hæfileika til umönnunar, hluttekningar, samvinnu og „nálægðar við náttúruna“, ólíkt karlmönnum, sem réttlæti sérstaka stöðu þeirra – sem auðvitað reynist alltaf staða hins undirgefna. „Í stað „engilsins í húsinu“ (e. angel in the house) komi „engillinn í vistkerfinu“ (8–9). Slíkur einfaldur viðsnúningur á tvenndarkerfi feðraveldisins getur því auðveldlega haft í för með sér bakslag, til dæmis styrkt hefðbundna eðlishyggju sem auðvelt er þá að nota áfram til að réttlæta ýmsa mismunun á grundvelli kynjamunar. Plumwood telur þó að sjónarhorn vistfemínismans sé mikilvægt til að draga fram í dagsljósið hvernig kúgunarkerfi, svo sem kynþáttahyggja, kynjamismunun og eyðilegging umhverfisins, séu samofin og styðji hvert annað. Vistfemínismi einblíni ekki bara á tengsl kvenna og náttúru heldur sé hann ítarleg gagnrýni á valdakerfi sem ógna náttúru og vistkerfi.

Þótt Undirferli stilli náttúrudulspeki í nafni heiðnu gyðjunnar Freyju upp sem valkosti við eyðandi græðgi og valdasamkeppni kapítalismans, og söguhetjan Íris lýsi Freyju sem magnaðri kvenhetju sem noti Brísingamen sem spegil gegn illskunni í heiminum, forðast Oddný Eir einfaldan viðsnúning á andstæðupari hins kvenlega og karllega. Það er karlmaðurinn Smári sem nær að teikna gyðjuna Freyju inn í myndina með hugarflugi sínu, opnum huga og vilja til að tengja sem flesta fleti saman í óstöðuga heildarmynd. Transkonan Edda verður svo völva hinnar nýju heimsmyndar, undir fána regnbogans. Freyja verður því boðberi nýrrar heildarhugsunar fremur en kvenlegra áherslna og hefðbundin eðlishyggja víkur fyrir nútímalegum „hinsegin“ áherslum.

Náttúra sem dulvitund

Eins og titill bókarinnar gefur til kynna fjallar Undirferli um það sem dylst undir niðri. Formið ítrekar þetta. Fyrstu tveir hlutar bókarinnar eru settir upp sem yfirheyrslur í glæpamáli, við lesum til skiptis vitnisburð Írisar og Smára, og seinni hlutinn sýnir svör þeirra í áfallameðferð hjá sálfræðingi. Hvort tveggja miðar að því að afhjúpa eitthvað sem ekki liggur á yfirborðinu og Íris og Smári virðast manna óvissust um það í hverju hugsanleg sekt þeirra felst. Sara, samstarfskona þeirra á Rannsóknarstofunni í Surtsey í Vestmannaeyjum, liggur í dái og grunur leikur á að það hafi eitthvað að gera með áður óþekkta veiru sem fannst í Surtsey og tilraunir Smára með mælitæki sem hann er að þróa til að mæla heilindi og manngildi.

Yfirmaður tilraunastofunnar, Aron, sem er einnig fyrrverandi eiginmaður Írisar og núverandi eiginmaður Söru, er hins vegar hinn raunverulegi skúrkur að mati Írisar og Smára því hann er ekki aðeins yfirgangssamur og sífellt með órætt valdatafl í gangi heldur tilbúinn að selja bæði náttúru og vísindaniðurstöður kapítalískum stórfyrirtækjum. Andlegt ofbeldi hans gegn fólkinu í kringum sig og yfirgangur hans gagnvart náttúrunni eru greinar af sama meiði, sama kúgandi valdakerfi, enda er náttúran sterklega tengd undirvitundinni í þessari bók: „Ef við lærum að þekkja náttúruna kynnumst við okkar eigin dularveru. Þessari veru sem er innra með okkur frá því við fæðumst en á oft erfitt uppdráttar,“ segir Íris (89). Hún telur algjöra hliðstæðu á „milli þeirrar óafturkræfu eyðileggingar“ sem orðið getur á landi og á geðinu og milli orku mannssálarinnar og náttúrunnar, sem ekki alltaf er endurnýjanleg:

Við náum okkur á strik eftir ótrúlegustu áföll. Við förum í gegnum sorgarferli og alls konar ferli og vinnum okkur út úr vandanum. En stundum er skaðinn svo mikill að menn ná ekki að endurnýja sig. Þá verður einhvers konar rof og þá er ég nú ekki bara að tala um hið eiginlega geðrof heldur líka þegar innri hringrás tilfinningalífs okkar rofnar. Sumir ná sér aldrei. Þeir ná aldrei að tengja saman. Og þeir ná ekki að tengjast öðrum. En svo virðist vera að með því að þiggja hjálp í algerri auðmýkt þá sé möguleiki að tengja aftur það sem rofnaði. Og þá náum við á nýjan leik að fara frá sorginni yfir í æðruleysið, frá óttanum yfir í hugrekkið, frá kvíðanum yfir í gleðina. (89–90)

Vangaveltur bókarinnar um sekt, vald og heilindi snúa því ekki síður að sálarlífi aðalsöguhetjanna en vistkerfinu, eins og sálfræðiviðtölin í seinni hlutanum afhjúpa. Íris og Smári þurfa að rjúfa vítahring, hafna ofbeldi, læra að treysta hvort öðru og vera hreinskilin í sambandinu sem er að þróast á milli þeirra.

„Ertu ekki sammála því að náttúran sé núllpunkturinn sem stillir áttavitann okkar við guðdóminn á nýjan leik?“ (157). Þannig spyr Smári sálfræðinginn undir lok bókar. Þá hefur hugmynd hans um gylltan áttavita, „gullnál í vogarskálinni [hans], dómgreindinni“, verið leiðarstef allt frá upphafi bókar þegar hann ákveður að áttavitinn hans sé „stilltur á réttlætið, ástina og guðdóminn í öllu sem er“ (13). Áttaviti sem tengir menn við guðdóminn er myndmál með langa sögu eins og sést þegar Smári fer með brot úr ljóðinu Gyllta áttavitanum eftir hinn persneska Hafiz frá fjórtándu öld (109). Hugmyndir um slíkan innri áttavita voru einnig algengar á seinni hluta 19. aldar og má merkja þær hjá einum áhrifamesta forsprakka umhverfisverndarskrifa með andlegri áherslu, hinum bandaríska Henry David Thoreau.

Thoreau skrifaði doðrantinn Walden (1854) eftir að hafa dvalið í kofa við Walden vatn nálægt Concord í Massachussets í tvö ár og lifað þar nægjusömu lífi í takt við náttúruna í kringum sig. Þetta var eins konar tilraun í að sleppa undan neyslusamfélagi og stanslausu áreiti nútímans og Thoreau stundaði m.a. hugleiðslu og núvitundaræfingar. Hann og vinur hans Ralph Waldo Emerson voru svokallaðir transcendentalistar, þ.e. trúðu á „lög guðs í samvisku hvers manns“ sem væru æðri landslögum.[7] „Enginn maður hefur nokkru sinni fylgt eðlisávísun sinni þar til hún afvegaleiddi hann,“ fullyrðir Thoreau í þessu riti (249). Áttum má helst ná úti í náttúrunni, að hans mati: „Vísindin vekja helst áhuga okkar þegar þau upplýsa um það sem [þeir sem eyða ævinni úti á víðavangi og í skógunum] vissu fyrir vegna vinnu sinnar eða innsæis því að það eru hin sönnu hugvísindi eða lýsing á reynsluheimi manna“ (244).

Íris og Smári reyna einnig að ná áttum með hugleiðslu og návígi við náttúruna. Eftir því sem þeim tilraunum vindur áfram verður frásögnin súrrealískari og endar loks í gegnheilli fantasíu í Surtsey þar sem völvan Edda fer til dæmis að tala mál vísdómsins við fugla og Írisi og Smára vex fjaðrahamur. Susan Power Bratton telur að það sem hún kallar trúarlega siðfræðilega umhverfisverndarumræðu sé oft kraftmest og vistvænust þegar hún nýtir sér dulúð, myndhvörf og hið yfirskilvitlega – allt það sem vísindin tortryggja.[8] Sögupersónan Smári virðist vera sama sinnis þegar hann fléttar saman táknsögur og goðsögur úr ýmsum áttum: „Ég hugsa að allegórían sé ekki besta leiðin til að komast sem fyrst út úr fangelsi,“ segir hann, „en ég segi eins og gríski stóuspekingurinn Epiktet: Ég er að reyna að verða andlega frjáls“ (109). En við lestur lokakaflanna í Undirferli er auðvelt að taka undir orð Steinunnar Ingu Óttarsdóttur í ritdómi um bókina í Víðsjá, þar sem hún segir „táknin ryðjast hvert um annað þvert“ og að „mystíkin, andríkið og boðskapurinn ber[i] söguna ofurliði“.[9] Íris og Smári eru mjög virkir innbyggðir túlkendur, fara um víðan völl í leit að táknum og túlkunarleiðum og koma jafnvel með túlkanir á sjálfum sér sem persónum: „Ég sagði Írisi að nú væri tími til kominn fyrir hana að klæða sig í ránfuglsham. Nú væri komið að því að endurheimta Surtsey. Og hún væri bæði Íris [grísk gyðja regnbogans] og Freyja. Hvað ert þú þá? sagði hún og hló að mér“ (140).

Líkt og Ástarmeistarinn fjallar Undirferli ekki aðeins um misvel heppnaðar tilraunir sögupersóna til að þróa sálar og ástarlíf sitt, heldur er hún jafn tilraunakennd sem bókarform. Yfirheyrsluform Undirferlis og bréfaform Ástarmeistarans takmarkar bæði sjónarhornið og vinnur gegn heillegri frásögn. Stundum minna einræður aðalsöguhetjanna á heimspekilegar vangaveltur Thoreaus í Walden en eru þá alltaf rofnar fljótlega af hröðum takti yfirheyrslunnar. Sögupersónur virðast jafn litlu nær og lesendur um það sem er í raun að gerast en varpa fram alls konar teoríum og tilgátum í von um að heildarsumma tilrauna þeirra hafi næg áhrif.

Og það virðist í raun vera hið opna markmið bókarinnar; að berjast gegn undirferli valdsins „á öllum vígstöðvum, lóðrétt og lárétt!“ (164).

Auður Aðalsteinsdóttir

Tilvísanir

  1. Eitt helsta íslenska fordæmið er auðvitað Gunnlaðar saga eftir Svövu Jakobsdóttur sem kom út árið 1987.
  2. Shahid Naeem, „Ecosystem Services: Is a Planet Servicing One Species Likely to Function?“, Linking Ecology and Ethics for a Changing World. Values, Philosophy, and Action, Springer, 2013, bls. 303. Sótt 7. janúar 2018 af https://link.springer.com/content/pdf/10.1007%2F978-94-007-7470-4.pdf.
  3. Upprunasaga Ofurkonunnar, sem birtist fyrst í teiknimyndaseríu árið 1941, er byggð á grískri goðafræði. Sjá Bára Huld Beck: „Ofurkonan enn sterk fyrirmynd 76 árum síðar“, viðtal við Melkorku Huldudóttur, Kjarninn, 26. ágúst 2017, sótt 7. október 2018 af https://kjarninn.is/skyring/2017-08-18-ofurkonan-enn-sterk-fyrirmynd-76-arumsidar/.
  4. Val Plumwood, Feminism and the Mastery of Nature, Routledge, London og New York, 1993, bls. 7.
  5. Angela MacRobbie, The Aftermath of Feminism. Gender, Culture and Social Change, Sage, Los Angeles, New Delhi, Singapore, Washington DC, bls. 2.
  6. Margir hafa bent á vistfemínískan boðskap Moana í greinum og færslum á netinu. Eitt dæmi er grein þar sem m.a. er bent á að þótt boðskapur myndarinnar sé vistvænn þá græði framleiðandinn, Disney, á endanum á framleiðslu plastleikfanga og öðrum mengandi varningi tengdum myndinni. Taylor Ramage: „I’ve Been Staring at the Edge of the Divine. Feminist Theology in Moana“, 14. október 2017, sótt 7. október 2018 af https://taylorramage.wordpress.com/2017/10/14/ive-been-staring-at-the-edge-of-the-divinefeminist-theology-in-moana/.
  7. Henry David Thoreau: Walden, eða Lífið í skóginum, þýð. Elísabet Gunnarsdóttir og Hildur Hákonardóttir, Dimma, 2017, bls. 243, neðanmáls.
  8. Susan Power Bratton, „Tradition as Benefit or Barrier? The Case of Christian Religion in the Formation of Environmental Ethics in the United States”, Linking Ecology and Ethics for a Changing World, bls. 82.
  9. Steinunn Inga Óttarsdóttir, „Undirferli ógnar forminu á lúmskan hátt“, Víðsjá, 15. janúar 2018, sótt 7. október 2018 af https://www.ruv.is/frett/undirferli-ograr-forminua-lumskan-hatt.