Ég hef beðið spennt eftir því að fá að sjá verk Ragnars Kjartanssonar og Kjartans Sveinssonar, Kraftbirtingarhljóm guðdómsins (Der Klang der Offenbarung des Göttlichen) alveg síðan ég las upphafna lýsingu Einars Fals Ingólfssonar á því í Morgunblaðinu í febrúar þegar verkið var frumsýnt í Berlín. Biðinni lauk í gærkvöldi í Borgarleikhúsinu. Þó að ég hefði bæði lesið mér til og hlustað á viðtöl við aðstandendur kom verkið mér á óvart.

Kraftbirtingarhljómur guðdómsinsÞað er erfitt að lýsa þessum kraftbirtingarhljómi í stuttu máli, ekki síst af því að það er í honum galdur sem maður á ekki að reyna að skýra heldur leyfa fólki að njóta og verða hissa á. Fátt jafnast á við að verða fyrir opinberun í leikhúsi. En í einföldustu mynd sinni eru þetta fjórar miklar sviðsmyndir, málverk í natúralískum stíl, sem við horfum á í 10-15 mínútur hverja um sig meðan hljómsveit leikur og kór syngur undurfagra tónlist. Hljómsveitin sem lék í gær undir stjórn Davíðs Þórs Jónssonar var Deutsches Filmorchester Babelsberg en kórinn var innlendur, sjálfur Schola cantorum. Textinn sem hann söng mun vera unninn upp úr þýskri þýðingu á Heimsljósi Halldórs Laxness en leikskrá gefur ekkert upp um hann nákvæmlega og ekki var auðvelt að skilja hann sunginn á þýsku.

Þetta er sem sagt málverkasýning með tónlist – eða tónleikar með viðamikilli sviðsmynd. Málverkin eru á geysistórum flekum sem þekja sviðið í allar áttir og fyrir utan tónlistina eru áhrifin framkölluð með ljósum – við fylgjumst með dagskomu, óveðri nálgast, heiftarlegu þrumuveðri,  sólaruppkomu og sólsetri – og lifandi þáttum á borð við snjókomu, öldugang, logandi eld. Þarna fá elementin að njóta sín, vatn, loft, jörð og eldur og andstæðurnar ljós og myrkur, eldur og ís. Lokamyndin var snjöllust. Við í salnum erum djúpt inni í íshelli en horfum út úr honum á daginn koma yfir snævi þakin firnindi – þar sem fegurðin ríkir ein. Tíminn sem hver mynd fær fannst mér hæfileg til nautnar en samt var eins og ekki væri komið nóg, þegar sýningu var lokið hefði ég vel verið til í að fá allt aftur frá byrjun.

Ég hef fylgst með Ragnari Kjartanssyni síðan ég var grúppía hjá Kósý, elskulegu unglingahljómsveitinni hans og félaga hans, snillinganna Magnúsar Ragnarssonar, Markúsar Þórs og Úlfs Eldjárn, og hann heldur áfram að koma mér óvart með hverju verkinu af öðru, Gestunum næst á undan þessu, The Visitors, í Kling og Bang. Þvílík gæfa fyrir eina smáþjóð að eiga svona dreng.

Silja Aðalsteinsdóttir