Þeir eru sammála um það Sjón og breski hagfræðiprófessorinn Robert Wade, sem hélt fyrirlestur í Reykjavík fyrir helgi, að kreppan núna, þótt kröpp sé, hafi ekki drepið nýfrjálshyggjuna. Hún lifi og muni fara aftur á kreik þótt hún hafi kannski hægt um sig akkúrat núna. Þetta er auðvitað svartsýni, enda er leikrit Sjóns, Ufsagrýlur, sem Lab Loki og Hafnarfjarðarleikhúsið frumsýndu á föstudagskvöldið undir stjórn Rúnars Guðbrandssonar, skilgreint sem biksvört kómedía. Kómedía af því að vissulega endar hún vel, biksvört af því hún endar vel fyrir hin illu öfl.

UfsagrýlurÍ upphafi leiks erum við stödd á stað sem virðist vera sambland af geðveikrahæli og tilraunastofu. Síðar kemur fram að tilraunastofan er á skipi úti á rúmsjó og farmur þess er í meira lagi undarlegur. Í búrum innst á sviðinu eru torkennilegar verur, eins konar mannlíki sem ganga undir heitinu ufsagrýlur. Meðan þær engjast í þröngum búrunum raðar kona (Aðalbjörg Þóra Árnadóttir) myndum á vegg á hæðinni fyrir ofan og reynir að ná vitsmunalegu sambandi við mann í klósettstól sem gæti verið illa farinn eftir slys (Orri Huginn Ágústsson). Hún er greinilega að reyna að láta hann muna fortíð sína sem umsvifamikill bankastjóri en það gengur afar illa – enda trufla undarlegar “minningaverur” konuna sí og æ. Niðri á neðragólfi sýna verðir (Erling Jóhannesson og Hjálmar Hjálmarsson) ufsagrýlunum ofstopafulla tilburði og valdsmannsleg kona, yfirlæknirinn Móra (Birna Hafstein), gengur um og fylgist grannt með öllu. Svo verður uppi fótur og fit þegar eitt mannlíkið, Ufsagrýla A (Árni Pétur Guðjónsson), notar hamar sem það hefur náð í og brýst út úr búri sínu með óhugnanlegum afleiðingum.

Þetta fyrsta atriði er magnþrungið. Skipssviðið er geysistórt og afar vel hannað af Móeiði Helgadóttur, búningar Myrru Leifsdóttur vel heppnaðir og leikgervi Ástu Hafþórsdóttur einstaklega vel hugsuð og útfærð. Seinni hlutanum gekk ekki alltaf vel að jafnast á við þetta sterka upphaf.

Smám saman komumst við að því að ufsagrýlurnar eru leifar útrásarvíkinganna sem voru teknir höndum í mikilli gullveislu í Þjóðmenningarhúsinu daginn fyrir hrun. Við fáum að kíkja inn í þá veislu þar sem auðmennirnir bera skrautlegar grímur og svarta kufla svo minnti helst á viðhafnarmiklu leyniveisluna í Eyes Wide Shut eftir Stanley Kubrick. Fyrirliði þeirra, Veigar Mar, er sá sem situr í klósettstólnum og doktor Móra er að bíða eftir að hann skíti gullinu sem hann hefur nærst á undanfarin ár. Sú bið verður löng enda er ekki allt sem sýnist í því dæmi. Smám saman kemur sem sagt í ljós að leikritið Ufsagrýlur er allegóría um atburði undanfarinna tveggja ára á Íslandi. Skipið sem ufsagrýlurnar og vörslumenn þeirra  hafa velkst um höfin á í 16 mánuði, „MS Nóbels Insel“, er eylandið okkar í hafsjó hrunsins; verðirnir sem rannsaka saurinn úr ufsagrýlunum til að leita að gulli eru fulltrúar skilanefndarmanna, og kannski er dokor Móra sjálf Eva Joly þó að hreimurinn hafi verið frekar þýskur en norskur. Birna Hafstein var reffilegur doktor og aðrir leikarar fóru einstaklega vel með hlutverk sín. Þau eru erfið ekki síst vegna þess að textinn vill detta í eintöl sem ýmist eru löng eða flókin eða jafnvel hvort tveggja eins og snúnar ræður Veigars Mars í klósettstól sínum. Sérstaklega minnisstæð er lýsing Jónínu Katrínar, þeirrar sem reynir að minna Veigar Mar á fortíð sína, á hjónabandi þeirra Veigars. Þar nær írónísk snilld Sjóns hæstum hæðum – og á sú ræða þó fáeina keppinauta, til dæmis ræðu yfirþjónsins (Erling Jóhannesson) í veislunni miklu eða Ufsagrýlu A á sama stað.

Sjón og Rúnari liggur mikið á hjarta; verkið er viðamikið og flókið í uppbyggingu, textinn er orðmargur og skemmtilegur og sýningin geysilega metnaðarmikil. Kemur þar til, auk hins áðurnefnda, vönduð lýsing Garðars Borgþórssonar og frumlegur hljóðheimur Stilluppsteypu. Fyrir kom að umbúðirnar urðu svo frekar að manni gat dottið í hug að boðskapurinn týndist í öllum látunum, en það gerir hann ekki ef eitthvað er að marka upphafsorð þessa pistils. Þó held ég að maður þurfi að sjá sýninguna tvisvar ef allt á að skila sér.

Silja Aðalsteinsdóttir