drottin blessi blokkina

Sá líkamslausi og stúlkan hans (Haraldur og Unnur Birna).

Spunaverkið Drottinn blessi blokkina sem Stúdentaleikhúsið sýnir núna í gamla Sjómannaskólanum (Fjöltækniskólanum við Háteigsveg) er þvottekta skólasýning: mannmörg, fjörug og passlega galin. Það er samið af þátttakendum undir stjórn Jóhönnu Friðriku Sæmundsdóttur og Sveins Ólafs Gunnarssonar leikstjóra, sundurlaust og svo fullt af hugmyndum að út af flóir en bráðskemmtilegt.

Við erum stödd í blokk eins og heitið gefur til kynna, og sjáum í byrjun inn í þrjár vistarverur. Í hverri eru tvær manneskjur og er önnur jafnan eins og skuggamynd af hinni. Í miðju sviðsins eru karl og kona, og gerir karlinn allt nákvæmlega eins og konan – uns konan skýtur sig. Þá losnar skugginn – eða sálin – frá líkama sínum, konan er flutt á sjúkrahús en skuggaveran verður eftir ein. Eftir það þvælist hún um blokkina, smýgur inn fyrir allar gardínur eins og draugur; aðeins ein manneskja sér hana, einstaka manneskja finnur fyrir henni og þá óþægilega, flestir verða hennar alls ekki varir. En við sjáum með henni alls konar einkennilegar uppákomur sem við sæjum sjálfsagt ekki ella.

Því í blokkinni gerast undarlegustu hlutir og ekki allir vænir. Þar reynist búa í einni íbúðinni stúlka sem býr til kæfu úr gestum sínum (Halla Ólafsdóttir), hana þráir piltur allur silfurlitaður (Bjarni Guðmundsson) og hefur verra af, þar býr líka mjög trúaður maður (Hjörtur Jóhann Jónsson) og kona ákaflega sýklahrædd (Gígja Hólmgeirsdóttir), þar er par sem þykist eiga barn og þykist eiga von á öðru barni (Hildur Helga Kristjánsdóttir og Kjartan Yngvi Björnsson), og þar býr mállaus stúlka (Unnur Birna Björnsdóttir) við ofríki bróður síns (Ólafur Daði Eggertsson). Vesalings líkamslausa sálin (Haraldur Ágústsson) sveimar í kringum þetta fólk og nær ekki raunverulegu sambandi við neinn nema mállausu stúlkuna sem fær málið við fyrstu kynni þeirra. En er þeim skapað nema skilja?

Þetta er gróteska og táknsæi á háu stigi og ekki auðvelt að lesa rétt í táknin sem hellast yfir mann eða vísanirnar í bíómyndir og önnur listaverk sem ungt fólk er hrifið af. Hitt er ljóst að þátttakendur hafa geysilega gaman af því sem þeir eru að gera og þarna eru margir álitlegir leikarar, einkum þó Haraldur sem var furðu sannfærandi sem hinn líkamslausi. Enn eru nokkrar sýningar eftir á verkinu, sjá www.studentaleikhusid.is.

Silja Aðalsteinsdóttir