Þú ert hér://Ekki er allt gull sem glóir

Ekki er allt gull sem glóir

Í gærkvöldi var nýtt leikverk eftir Berg Ebba Benediktsson, Jóreykur, leiklesið í Tjarnarbíó undir stjórn Þorsteins Bachmann. Leikritið Klæði sem var sýnt í Norðurpólnum fyrir rúmum þrem árum var líka eftir Berg Ebba; það fjallaði um ungt fólk og stefnumót; Jóreykur er mun viðameira verk og metnaðarfyllra.

JóreykurVið erum í upphafi leiks stödd á skrifstofu forseta Íslands. Aðstoðarmaðurinn Ómar (Dóri DNA) er að reyna að sannfæra Ingibjörgu forseta (Svandís Dóra Einarsdóttir) um að hún verði að nýta einstakt tækifæri sem upp er komið sjálfri sér til framdráttar. Íslendingurinn Hallgrímur Björn (Steindi Jr.) hefur orðið fyrstur landa sinna til að vinna gull á Ólympíuleikum – fyrir hestaíþróttir – og Ómari finnst að forsetinn eigi að kalla hann á sinn fund, sæma hann orðu og finna verðugt verkefni til að vinna með honum. Ingibjörg er treg, sér ekki alveg tækifærið í þessu – enda er Hallgrímur alinn upp erlendis og eiginlega tilviljun að því er virðist að hann skyldi keppa fyrir Íslands hönd en ekki Lúxemburgar þar sem hann býr. En Ómar er þrjóskur, drífur verkefnið áfram og fær í lið með sér sjónvarpsfréttakonuna Soffíu (Þorbjörg Helga Dýrfjörð) til að taka fund Hallgríms og forsetans upp og búa til kynningarefni.

Málið lítur sem sagt firna vel út – þangað til orðrómur fer af stað um persónu og hegðun Hallgríms. Hann er ekki allur þar sem hann er séður eins og kemur smám saman í ljós í fyndnum, hnitmiðuðum og afhjúpandi texta verksins.

Efni Jóreyks er fjandi lúmskt og margslungið og tekur frumlega á djúpum vanda þessarar þjóðar. Samtölin eru vel skrifuð og innihaldsrík og hlutverkin  verulega bitastæð, það fann maður vel í gær þótt verkið væri bara lesið, enda gerðu leikendur sitt til að láta persónurnar lifna. Forsetinn tvístígandi og vandræðalegur, ráðgjafinn ofurduglegur en illilega fljótfær og sjónvarpsfréttakonan gagnrýnin og út undir sig. Gulldrengurinn Hallgrímur er óþekkta x-ið í verkinu enda er tákngildi hans hugsanlega meira en rúmist í venjulegri persónu.

Það er alltaf gaman að hlusta á leiklestur – minnir á þær óteljandi unaðsstundir sem maður hefur átt með Útvarpsleikhúsinu. En sannarlega væri bæði fróðlegt og skemmtilegt að sjá þetta verk á sviði í fullburða uppsetningu.

Silja Aðalsteinsdóttir

2019-06-12T12:07:21+00:0021. nóvember 2013|