Kannski á leikritið Með fulla vasa af grjóti eftir Marie Jones brýnna erindi við Íslendinga núna en þegar það var sýnt hér fyrir tíu árum. Það snýst um samskipti heimamanna við amerískt kvikmyndalið sem er að taka upp mynd í fátæku írsku sveitaþorpi í Kerry-héraði á Írlandi og ræður sér statistahóp á staðnum. Það var lítt þekkt hér þá, en nú hafa ýmis byggðarlög reynslu af því að taka á móti stórum hópum erlendra kvikmyndagerðarmanna sem snúa öllu á hvolf í stuttan tíma og hverfa svo jafnskyndilega og þeir komu. Altént er boðskapur verksins góður: ekki láta hina útlendu gesti ræna þig virðingunni fyrir fólkinu þínu.

Með fulla vasa af grjótiJake (Stefán Karl Stefánsson) og Charlie (Hilmir Snær Guðnason) fá statistahlutverk í myndinni. Þetta eru óttalega ólánlegir gaurar sem lítið hefur orðið úr í lífinu og þeim (einkum Charlie) finnst æðislegt að fá fjörutíu pund á dag og ókeypis mat í mötuneytinu fyrir að fylla upp í myndrammann í útisenum. Efni myndarinnar er hjartnæmt: Dóttir ríka landeigandans verður ástfangin af einum leiguliða föður síns og saman verða þau bjargvættir fátæklinganna í sveitinni. Stjarna myndarinnar er Caroline Giovanni (Hilmir Snær) sem leikur ríku stúlkuna, en vandi Caroline er að hún á ansi erfitt með að ná réttum framburði á írsku enskunni sem hún á að tala. John framburðarkennari (Stefán Karl) ræður ekki við verkefnið og hún fær augastað á Jake til að kenna sér réttan framburð. Við fylgjumst með samskiptum þeirra undir grimmu eftirliti hins einkennilega vaxna öryggisvarðar ungfrúarinnar (Hilmir Snær) milli þess sem við fáum svipmyndir af vinnunni við myndina þar sem Simon fyrsti aðstoðarleikstjóri (Hilmir Snær) æðir um og skipar fyrir og Aisling þriðji aðstoðarleikstjóri (Stefán Karl) bergmálar allt sem hann segir. Statistarnir stilla sér upp, strákarnir fara á krána og hitta aðra heppna staðarbúa sem hafa fengið statistahlutverk, meðal annars Mickey gamla (Stefán Karl) sem einn lifir alla statistana í frægri mynd sem tekin var í héraðinu fyrir löngu. En einn þorpsbúinn, Sean (Stefán Karl), fær ekki hlutverk af því hann er svo dópaður. Honum er meira að segja hent út af kránni þegar ungfrú Giovanni finnst hann koma of nálægt sér. Það verður örlagaríkt fyrir þorpið allt og liggur við að það trufli hina merkilegu gesti og þeirra merkilega starf.

Það er auðvitað engu líkt að horfa á þessa snillinga skipa um fas og málróm á broti úr sekúndu ótal sinnum, ávarpa jafnvel aðra persónu og svara svo fyrir hana og verða eftir í hlutverki hennar eins og þegar Charlie (Hilmir Snær) vottar Fin (Hilmir Snær) samúð sína í líkvöku Seans. Við fáum meira að segja að sjá atriði þar sem þeir félagar leika Sean og Fin svona um það bil sjö ára gamla, bora í nefið og spjalla. Þeir fá eiginlega að gera allt sem leikara getur langað til að gera á ferlinum, svona í míníatúr, og það er yndi að horfa á þá, ekki síst í kvenhlutverkunum. Hilmi Snæ finnst nú ekki leiðinlegt að fá að draga Stefán Karl á tálar í atriðunum milli Caroline og Jake!

Leikritið er skrifað í hring. Það sem við sjáum og heyrum er sagan sem Jake og Charlie skrifuðu svo leikritið um. Þetta er skemmtileg hugmynd hjá Marie Jones og eykur dýpt verksins með því að gefa Jake og Charlie framhaldslíf. En óþarflega löng voru samtölin um áform þeirra félaga um að gera kvikmynd um reynslu sína. Ian McElhinney stýrir nú eins og á Smíðaverkstæði Þjóðleikhússins fyrir tíu árum en nú fer það beint upp á stóra sviðið. Þýðingin er líka sú sama og áður og eftir Guðna Kolbeinsson.

Kannski eigum við eftir að fá að sjá leikrit eftir mývetnskar konur um kynni þeirra af Tom Cruise og samstarfsmönnum hans í sumar, hver veit?

Silja Aðalsteinsdóttir