Kópavogskrónika – til dóttur minnar með ást og steiktum eftir Kamillu Einarsdóttur er sennilega sérkennilegasta ástarjátning sem ég hef á ævi minni lesið. Og nú bætir Þjóðleikhúsið um betur og leyfir mér að horfa og hlusta á Krónikuna í Kassanum, í uppsetningu Silju Hauksdóttur. Leikgerðin er eftir Silju og aðalleikkonuna, Ilmi Kristjánsdóttur, og tónskáldið Auður (sem ekki má rugla saman við raftónskáldið í leikritinu) gerir kraftmikla stuðtónlist við verkið.

Bókin Kópavogskrónika er uppistand á pappír og að því leyti einfalt að flytja hana upp á svið. Hér segir hin nafnlausa sögukona (Ilmur Kristjánsdóttir) frá lífi sínu, einkum að því leyti sem það snertir karlmenn, en byrjar á því að lýsa Kópavogi. Margir í salnum virtust kannast við sig þar því mikið var flissað. Undir lýsingunni laukst upp fyrir áhorfanda merking leikmyndarinnar sem er sköpunarverk Sigríðar Sunnu Reynisdóttur. Á miðju sviði er eins konar náttúra, grösugur hóll með blómum skrýddum stöllum, en utan um hann rís „hamraborgin“, kaldir, gráir, háir veggir. Þarna fer síðan ævi sögukonu fram í eilífri niðurlægingu af hendi karlmannanna sem hún hænir að sér. Þeir eru fúsir til að nýta sér þjónustu hennar á allan hátt, en þeir geta ekki elskað hana og tala jafnvel opinskátt um tilfinningaleysi sitt til hennar – eins og henni hljóti að finnast merkilegt að hlusta á þær heimskulegu og dónalegu játningar. Þetta þolir hún þótt hún þoli það misvel og hún segir okkur hreinskilnislega frá öllum sínum ósigrum. Segir okkur m.a. frá raftónskáldinu (Arnmundur Ernst Backman) og verðbréfasalanum (Arnmundur Backman), mönnum sem hún dáist að en sem launa henni með fyrirlitningu sinni.

Er þetta ekki nöturlegt? Jú, kaldranalegt í hæsta máta, en líka fyndið því sögukonan er orðheppin og hittin í myndrænum lýsingum sínum á samskiptum kynjanna. Svo eigum við æ bágara með að átta okkur á smekk þessara karlhrossa því sögukonan á sviðinu er ekta draumadís: Gasalega sæt með sitt mikla, hrokkna, óstýriláta hár, nett og létt á fæti. En jafnvel gullfallega konu er hægt að brjóta niður með hroka og lítilsvirðingu. Shit happens, það er löngu sannað.

En nú er hún risin upp til að segja sögu sína, og ástæðan fyrir hreinskilninni opinberast okkur smám saman. Hún á dóttur sem hún vonar að fylgi ekki í fótspor sín. Hreinskilnin á að koma í veg fyrir að dóttirin verði eins og móðirin. Og þá er alveg eins gott að skafa ekkert utan af hlutunum, ýkja þá heldur ef það mætti verða til góðs.

Ilmur var eins og fiskur í vatni í hlutverkinu, rann alveg saman við persónu sína á sviðinu og naut þess. Arnmundur Backman var líka alveg frábær í hlutverkum karlanna, skipti um persónu um leið og búning og fór létt með. Hann var svo óþolandi sem raftónskáldið að mig langaði mest til að sparka í hann og ekta sleiktur og háll verðbréfasali. En bestur var hann sem fæðingarlæknirinn sem spretthljóp um ganga og talaði eins og hríðskotabyssa. Þórey Birgisdóttir lék vinkonuna sem Ilmur hélt ræðuna yfir í brúðkaupinu og ýmis önnur kvenhlutverk og gerði það með prýði.

Sigríður Sunna sá líka um búningana og klæddi aukapersónurnar í hvern einkennisbúninginn af öðrum. Ilmur var í sérlega heppilegum búningi, þröngum, svörtum buxum og toppi sem hún gat smeygt leðurjakka yfir til útivistar. Jóhann Bjarni Pálmason lét lýsinguna sýna hvernig dagar og nætur sögukonunnar runnu saman í sturluðu djamminu og hljóðmynd Kristjáns Sigmundar Einarssonar hjálpaði til.

Uppistand hefur verið geysivinsæl listgrein á undanförnum árum. Hér er henni lyft fagurlega af hópi hæfileikafólks og þó að verkið sé nokkuð eintóna eins og uppistand vill verða erum við þó í lokin frelsuð úr fjötrum kaldhæðninnar, það gladdi mig.

 

Silja Aðalsteinsdóttir