Ást FedruFyrsta frumsýning leikársins í Þjóðleikhúsinu var í gærkvöldi í Kassanum á Ást Fedru, vægðarlausu leikriti eftir breska leikskáldið Söruh Kane í prýðilegri þýðingu Kristínar Eiríksdóttur. Kolfinna Nikulásdóttir leikstýrir, Filippía I. Elísdóttir sér um leikmynd og búninga, Tumi Árnason um tónlist og Ásta Jónína Arnardóttir um ljós og myndbönd.

Goðsagan forna um drottninguna sem girntist stjúpson sinn hefur heillað skáld á öllum tímum. Skemmst er að minnast þess að Tyrfingur Tyrfingsson gerði sína útgáfu af sögunni í Kartöfluætunum sem voru sýndar í Borgarleikhúsinu fyrir sex árum. En leikrit Söruh Kane er tæplega þrítugt, fyrst sýnt á sviði 1996, og á okkar me-too–tímum er flókið að taka fyrir leikrit sem snýst um nauðgun eða ekki nauðgun. Það er alltaf ljóst, held ég, í öllum útgáfum af sögunni, að Hippolítos fremur ekki glæpinn sem hann er dæmdur til dauða fyrir, og hjá Söruh Kane er það raunar fremur drottningin sem „nauðgar“ stjúpsyninum. Hippolítos er samt ekki „saklaus“ í augum Söruh Kane, þvert á móti er hann óþverri sem níðist á fólki, bæði konum og körlum, út úr eintómum leiðindum. En á hann skilið að deyja sínum hryllilega dauðdaga? Það er spurningin sem túlkun Kolfinnu skilur okkur eftir með og setur í óvænt samhengi við íslenskan samtíma með því að láta Þeseif kóng (Þröstur Leó Gunnarsson) og Hippolítos (Sigurbjartur Sturla Atlason) syngja saman lagið „Tárin falla hægt“ eftir Bubba Morthens og Auðun Lúthersson.

Sagan er einföld og stutt. Í höllinni bíður Fedra drottning (Margrét Vilhjálmsdóttir) eftir að Þeseifur bóndi hennar komi heim úr stríðinu. Þau hjónin eru dáð af fjöldanum utan hallarinnar sem líka dýrkar unga prinsinn sem er svo fyndinn og flottur. Í höllinni býr líka dóttir drottningar, Strófa (Þuríður Blær Jóhannsdóttir), prúð ung stúlka. En þótt ytri myndin sé lýtalaus er óhamingjan allsráðandi innan dyra því drottningin er svo heltekin af þráhyggjukenndri ást til Hippolítosar að hún getur ekki á sér setið; hún segir dóttur sinni frá. Dóttirin segir henni að hemja sig, annað sé ósæmandi, en Fedra getur ekki hamið sig og játar tilfinningar sínar fyrir prinsinum sem sýnir henni fullkomna fyrirlitningu. Fedra getur ekki lifað með því. Hún hengir sig og skilur eftir bréf þar sem hún sakar Hippolítos um nauðgun. Þá heimtar múgurinn að Hippolítos verði dæmdur til dauða og í verki Söruh Kane tekur Hippolítos því fagnandi. Líf hans er svo innantómt að fyrir honum er ásökun Fedru fögur fórnargjöf.

Texti verksins er stuttur og Kolfinna drýgir hann með þöglum innskotum, dansi og tónlist. Í hápunkti sýningarinnar sameinast leikur og tónlist í trylltri einingu þegar drottningin missir vitið; það var verulega áhrifaríkt og túlkun Margrétar vakti bæði sterka samúð og andúð. Annars mæddi mest á Sigurbjarti Sturlu í hlutverki Hippolítosar, hann er á sviðinu allan tímann og þarf að aðhafast ýmislegt sem ekki er víst að leikaranámið hafi endilega búið hann undir, en hann stóðst raunina svo eftir verður tekið. Skúrkurinn og skíthællinn en líka góði bróðirinn þegar Strófa kennir sér um dauða móðurinnar og brotnar saman. Þar kom einlægur innileiki í verkið, alls óvænt, svo manni hitnaði skyndilega. Þuríður Blær fór fallega með sitt hlutverk, bæði leik og söng. Hallgrímur Ólafsson var tvíeinn læknir og prestur, svalur og hæðinn. Þröstur Leó fékk mikið út úr sínu örlitla hlutverki enda fær Þeseifur að lifa af í þetta sinn. Feðraveldið lifir allt af.

Enn er ónefndur danshópurinn Seiðr, stúlknahópur sem bætist við á ögurstundu undir lokin og tengir við samtímann. Dansatriðin í sýningunni sem Ernesto Camilo Aldazábal Valdés sá um voru mjög smart. Það var sviðið líka, sjúskað og sóðalegt svefnherbergi prinsins þar sem hann liggur í bæli sínu daga og nætur, étandi skyndibita. Á móti stillir Filippía glæsilegum fatnaði drottningar, síðum silkikjólum eða síðbuxum og peysu. Allt er í dempuðum, elegant litatónum – við erum stödd hér í boði yfirstéttarinnar og þar sker ekkert í augun. Eftirminnileg verður myndin af Hippolítosi í fangelsinu, ungum manni, bjarthærðum og fríðum, hvítklæddum. Sakleysið uppmálað. Og frammi fyrir honum presturinn, svartklæddur, með helgislepju á vörunum en allt annað í huganum.

Það er ekki laust við að manni verði hugsað til ástandsins í Buckinghamhöll um það leyti þegar Sarah Kane skrifaði þetta leikrit – framhjáhald, þráhyggja, sturlun, gubb. Þar var glansinn líka að fara af fagurri fjölskyldumynd. Það er raunar gríðarlega margt sem fer um huga manns undir og á eftir þessari merkilegu sýningu og hún lokar ekki á neitt.

Silja Aðalsteinsdóttir