Eyður

Eyður / Mynd: Owen Fiene

Samkvæmt verki Marmarabarna, Eyðum, sem ég sá á stóra sviði Þjóðleikhússins í gærkvöldi, byrjar maðurinn aftur sem safnari eftir Flóðið. Á sviðinu eru fimm mannleg reköld á eyðilegri strönd þegar tjaldið er dregið frá, ekkert er að sjá í umhverfi þeirra nema misjafnlega stórir plastbútar í ýmsum litum. Fólkið er blautt en ekki alvarlega hrakið og verður fyrst fyrir að reyna að vinda úr fötunum sínum. Smám saman fara þau svo að tína þetta plast og prófa til hvers það er nýtilegt, og þau eru afar hugmyndarík og sniðug í sköpun sinni á alls konar áhöldum og fatnaði úr plastinu. Þessi hluti sýningarinnar var ó-trú-lega hægur og reyndi áreiðanlega á þolinmæði ýmissa leikhúsgesta – enda mánudagskvöld og langur vinnudagur að baki. En þetta var á einhvern skrítinn máta algerlega heillandi.

Þegar hópurinn er búinn að laga til, tína allt rusl og gera svæðið sæmilega aðlaðandi er komið rúm fyrir siðmenningu og hópurinn sest í hring og fer að ræða málin. Það verða þó ekki „samræður“ heldur sundurslitnar einræður sem þó voru ansi fyndnar. Fyndnust var Saga Sigurðardóttir sem lýsti því í sinni einræðu hvers vegna hún gæti ekki sofið í faðmlögum; slæm áhrif þess að sofa fast upp við aðra manneskju reynast furðu margslungin og lúmsk! Aðrir þátttakendur (og höfundar) eru Katrín Gunnarsdóttir, Kristinn Guðmundsson, Sigurður Arent Jónsson og Védís Kjartansdóttir og fékk hvert þeirra sitt „umræðuefni“, því saman tala þau aldrei!

Enda varir samlyndið ekki lengi. Það kemur upp samkeppni, erjur og átök uns ströndin er aftur orðin eins og í upphafi. Þá bregður hópurinn á leik með síðustu auðlindirnar og í lokin er tortímingin alger. Ekki fögur framtíðarsýn en þó afar fögur og fyndin á sviðinu. Myndastyttuleikurinn þar sem þau búa til gosbrunna úr líkömum sínum var engu líkur!

Eyður

Eyður / Mynd: Owen Fiene

Guðný Hrund Sigurðardóttir sá um sviðsmynd og búninga, hið síðarnefnda með aðstoð Tönju Huldar Levý. Hvort tveggja eru listaverk sem lengi munu sitja í minninu, einkum búningarnir í fyrsta atriði eftir hlé þar sem plastið náði listrænum hæðum í spennandi mekkanóleik hópsins. Gunnar Karel Másson sá um tónlistina sem var líka mjög áhrifarík. Samanlagt var þetta sérstæð sýning sem gladdi augu og eyru og hugsun á frumlegan hátt. Væri óskandi að hún fengi að lifa ofurlítið lengur.

Silja Aðalsteinsdóttir