Þær eru ekki líkar Shakespeare-sýningarnar sem voru frumsýndar í stóru leikhúsunum milli jóla og nýjárs. Eiginlega eru þær algerar andstæður. Sú ástralska í Þjóðleikhúsinu er dökk og dimm með „ekta” ofsaveðri og stórrigningu, sú litháíska í Borgarleikhúsinu litrík og björt með gamaldags rokvélum á sviðinu til að framkalla ofviðrið sem hún heitir eftir. Í Þjóðleikhúsinu er svið Barkar Jónssonar bert fyrir utan einfalda svarta gáma sem eru færðir til og frá á sviðinu þegar þörf er á innisenum. Í Borgarleikhúsinu hefur Vytautas Narbutas búið til ævintýralega fallegt gamaldags leikhús með gólfi, sviði, fagurlega skreyttum stúkum og ótal skotum og kimum. Í Þjóðleikhúsinu eru strípalingarnir minnisstæðastir þó að Helga I. Stefánsdóttir hafi vissulega fengið að klæða dætur Lés í glæsilega búninga. Í Borgarleikhúsinu missir Filippía Elísdóttir sig gersamlega í dásamlegri búningaorgíu sem lengi verður í minnum höfð.

Ofviðrið

Þessi munur er vel við hæfi því annars vegar er harmleikur um dramb og fall, þar er það boðskapurinn sem mestu máli skiptir og myrkur og dauði látinn undirstrika alvöru hans. Hins vegar er gamanleikur þar sem hlýjan og fegurðin ítreka boðskap um fyrirgefningu og sátt, og eins og vera ber er tákn hans ástir tveggja ungmenna og loforð um giftingu um leið og komið er til byggða.

Ofviðrið gerist á lítilli eyju sem byggð er landflótta hertoga frá Mílanó, Prosperó (Ingvar E. Sigurðsson), dóttur hans Míröndu (Lára Jóhanna Jónsdóttir), villimanninum Kalíban (Hilmir Snær Guðnason) og öndum, álfum og dísum af ýmsu tagi. Öflugastur vættanna er loftandinn Aríel (Kristín Þóra Haraldsdóttir) sem hlýðir Prosperó í einu og öllu, þykist tregur en er ekki eins leitt og hann lætur. Aðrar vættir voru leiknar af meðlimum Íslenska dansflokksins sem bjuggu til ótal dýrlegar myndir á sviðinu með hreyfingum og uppstillingum undir hugmyndaríkri stjórn Katrínar Hall.

Á eyjunni hefur Prosperó búið í tólf ár eftir að bróðir hans Antóníó (Sigrún Edda Björnsdóttir) rændi hann völdum og hrakti hann í útlegð. Þau ár hefur hann notað til að fullnuma sig í galdrakúnst og nú er stund hefndarinnar að renna upp. Bróðir hans og frítt föruneyti eru á leið heim frá Túnis þar sem Alonsó Napólíkóngur (Jóhann Sigurðarson) var að gifta dóttur sína. Prosperó magnar upp ofviðri, brýtur skip þeirra og nær áhöfn og farþegum öllum á sitt vald. Þessu fólki stríðir hann á ýmsa lund, leikur sér að því og lætur það leika fyrir sig í leikhúsi sínu, algerlega að vild. Allt er það klætt eftir tign sinni, húsbændur og hjú, en sjálfur er hann í látlausum svörtum buxum og bol – nema þegar hann bregður galdraskikkju sinni yfir sig. Það var gaman að sjá í framkallinu á eftir að Oskaras Koršunovas leikstjóri var í sama stíl!

Sýning Leikfélags Reykjavíkur á Ofviðrinu á stóra sviði Borgarleikhússins er dásamleg leikhúsupplifun. Þar helst allt í hendur, óviðjafnanlegt útlit, traust heildarhugsun leikstjórans, frábær leikur allra aðalleikenda með Ingvar í broddi fylkingar, áheyrileg tónlist Högna Egilssonar og síðast en ekki síst virkilega skemmtileg og vel unnin þýðing Sölva Björns Sigurðssonar. Það hlýjar manni um hjartarætur að fá að hlusta á, með þriggja daga millibili, tvær nýjar þýðingar á makalausum texta Shakespeares sem færa þennan meistara orða, hugsana og hugmynda beint upp í fangið á okkur hér og nú.

 

Silja Aðalsteinsdóttir