Sviðslistahópurinn Óþekkt frumsýndi í gærkvöldi tón- og leikverkið Iður eftir Gunnar Karel Másson í Tjarnarbíó. Höfundur leikstýrði sjálfur en tónlistarstjóri var Helgi Rafn Ingvarsson.

IðurGunnar Karel vill segja sögu óvenjulegs manns og til þess þarf hann óvenjulegar aðferðir. Maðurinn er Mark Kennedy, breskur lögregluþjónn sem gekk í mótmælahópa í dulargervi, þóttist vera róttækur aðgerðasinni, notaði fölsk skilríki og tók þátt í aðgerðum hópanna – um leið og hann hélt lögreglunni upplýstri um allt sem hóparnir ráðgerðu þannig að flestar ráðagerðirnar fóru út um þúfur. Hann vann við þetta í heimalandinu og víðsvegar um Evrópu, meðal annars hér á landi, í sjö ár, frá 2003 til 2010. Hann þóttist vera óbundinn og stofnaði stundum til tilfinningasambanda við stúlkur í hópunum en átti í raun og veru konu og börn á Írlandi. Þetta kemur allt fram í leikskrá.

Þegar Iður gerist hefur komist upp um Mark og hann er í yfirheyrslu hjá aðgerðasinnunum sem hann hafði unnið með. Leikverkið er eintal hans sem Hlynur Þorsteinsson flytur. Textinn er þrunginn örvæntingu og mikið um klifanir enda er Mark þjáður af samviskubiti. Ekki síst þjakar hann að hafa blekkt kærustuna Lísu sem trúði því að hann væri sá sem hann þóttist vera. „Við áttum svo margt sameiginlegt, við Lísa,“ segir hann, „hún skildi mig svo vel.“ En hvaða „mig“ skildi Lísa svona vel? Mark er klofinn maður, framan af aðeins í atvinnuskyni en eftir áralangar blekkingar nær klofningurinn inn úr. Hann veit ekki lengur hver hann er.

Þetta er áhugavert efni sem vert væri að vinna áfram og leyfa þá fleiri röddum að heyrast. Reyndar heyrast fleiri raddir því verkið hefst á kórsöng sem heyrist oftar, og við og við brestur Hlynur í söng. Allur söngtexti var á ensku. Að vísu var engin leið að heyra orðaskil eða skilja söngtextana, hvorki hjá kór né leikara, en í leikskrá eru þeir prentaðir og reynast vera trúar- og heimspekilegar sonnettur eftir breska skáldið og prestinn John Donne (1572–1631). Sonnettan sem kórinn syngur fyrst hefst á orðunum What if this present were the world’s last night … Ef þetta er síðasta nótt veraldarinnar … og undir vakir spurningin: hvað verður þá um mína ódauðlegu sál? Tónlist Gunnars Karels er í samræmi við þennan háfleyga skáldskap og mér fannst hún áhrifamikil þegar kórinn flutti hana. Það hefði þó í öllum tilvikum verið sterkara ef textinn hefði skilað sér.

Iður

Iður. Mynd: Árni Már Erlingsson.

Leikmynd Tinnu Ottesen er smart og vel heppnuð þótt ekki sé hún flókin: röð af köðlum sem festir eru á stöng og ná frá lofti niður á gólf. Þessa kaðla notar leikarinn á ýmsan hátt til að túlka örvæntingu sína og skapa hlé á einleikinn. Stundum gat leikur hans að köðlunum haft sína eigin margræðu merkingu. Ljósahönnun Jóhanns Friðriks Ágústssonar lék sér líka að köðlunum svo að stundum greip maður andann á lofti. Einu sinni gekk hún þó af göflunum í alllöngum strobljósakafla sem var og átti eflaust að vera óþægilegur. Maður skynjaði djúpa vanlíðan persónunnar í þessum hluta en ef texti leikarans átti að skiljast þá mistókst það.

Veikleiki sýningarinnar er einkum sá að sjálf saga uppljóstrarans verður ekki skýr í sýningunni, og texti persónunnar hlýtur að orka ólíkt á leikhúsgesti eftir því hvort þeir hafa lesið hana í kynningu eða leikskrá eða ekki. Þetta á líka við um þátt Johns Donne. Persónuleg angist hans sem hann túlkar í sonnettunum skilar sér ekki nema textinn skiljist. Þetta er efni til að hugsa og vinna áfram og betur.

Silja Aðalsteinsdóttir