Gunnar Helgason: Bannað að eyðileggja, Bannað að ljúga og Bannað að drepa.

Mál og menning, 2021, 2022 og 2023.

Úr Tímariti Máls og menningar, 3. hefti 2024.

 

 

 

Hinar svonefndu ADHD-bækur Gunnars Helgasonar hafa notið mikilla vinsælda undanfarin ár en þær komu út 2021, 2022 og 2023. Allar bækurnar þrjár, Bannað að eyðileggja, Bannað að ljúga og Bannað að drepa, voru tilnefndar til Bókaverðlauna barnanna, sú fyrsta hlaut enn fremur tilnefningu til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs og Bannað að drepa hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki barna- og unglingabóka.

Í bókunum segir frá Alexander Hermanni Daniel Dawidssyni sem er að mörgu leyti ósköp venjulegur hress strákur, býr í Breiðholtinu og æfir fótbolta. Hann upplifir þó oft að hann skeri sig úr hópi jafnaldra sinna á neikvæðan hátt og hann er heldur ekki alltaf hress. Hann er til dæmis með ADHD og einkenni þess eiga til að þvælast fyrir honum, og svo á hann heldur ekki mömmu sem hann getur hitt. Þrátt fyrir ýmsar flækjur og hindranir, bæði í skólanum og einkalífinu, verður tilveran þó smám saman bjartari. Fjölskyldan stækkar og Alexander kemst að því að hann á meira sameiginlegt með bekkjarfélögum sínum en hann hafði haldið – til dæmis fjarverandi foreldri og ADHD innan fjölskyldunnar.

Höfund bókanna, Gunnar Helgason, þarf vart að kynna en hann hefur sent frá sér fjölda barnabóka á rúmlega 30 ára ritferli auk þess að starfa sem leikari, leikstjóri og handritshöfundur. Auk ýmissa verðlauna fyrir bækur sínar hlaut hann Vorvindaviðurkenningu IBBY á Íslandi árið 2013, sem er veitt fyrir framúrskarandi framlag til barnamenningar á Íslandi. Undirrituð hefur verið aðdáandi síðan Goggi og Grjóni, fyrsta bók Gunnars, kom út árið 1992; fyrir stelpu sem las allt sem hún komst í var eitthvað áberandi ferskt, skemmtilegt og ekki síst eftirminnilegt við þá bók . Fyrsta ADHD-bókin kom út tæpum þremur áratugum síðar og sá bókaflokkur hefur síður en svo valdið gömlum aðdáanda vonbrigðum.

Rán Flygenring, margverðlaunaður myndhöfundur, hefur myndlýst ADHD-bækurnar og teiknað kápumyndirnar. Þau Gunnar hafa áður sameinað krafta sína, meðal annars í bókaflokknum um Jón Jónsson, en hann hófst með Víti í Vestmannaeyjum sem hefur einnig verið kvikmynduð. Rán hefur auðþekkjanlegan og lifandi stíl, myndir hennar hæfa efninu vel og dýpka tilfinningu lesandans fyrir persónu Alexanders og tilveru.

 

Reglur og (ó)sveigjanleiki

ADHD-bækurnar þrjár eru allar nokkuð svipaðar að forminu til og segja frá daglegu lífi aðalpersónunnar Alexanders, sem getur orðið býsna skrautlegt og á köflum beinlínis rosalegt. Titlar bókanna vísa allir til einhvers sem er bannað; til reglna sem Alexander veit að ekki má brjóta enda gerir ADHD-ið það að verkum að sumt er honum auðveldara ef hann getur stuðst við reglur sem veita skýran ramma. Þegar frasinn „bannað að eyðileggja“ skýtur upp kollinum í hugsanaflæði Alexanders er hann í raun að rifja upp orð sem mamma hans var vön að segja við hann og þó að mamman sé ekki á staðnum hefur hún sterka nærveru í textanum, einkum í fyrstu bókinni, sem eðli málsins samkvæmt er sú bók þar sem lesandinn kynnist Alexander og aðstæðum hans. Þar er í fyrstu aðeins talað um að hann geti ekki hitt mömmu sína, en smám saman kemur í ljós að hún er dáin og má segja að lesandinn fylgi þar sorgarúrvinnslu Alexanders eftir því sem hann byrjar að geta orðað missinn með sjálfum sér, meðtekið hann til fulls og sæst að lokum við hann – eða fundið eins mikla sátt og hægt er að finna.

Alexander finnst oft gott að styðjast við reglur, en það verða þá að vera reglur sem virka fyrir hann. Sumar reglur henta honum alls ekki og það kemur skýrt fram strax í fyrsta kafla fyrstu bókarinnar. Þar er Alexander staddur í stærðfræðitíma hjá kennara sem hefur engan skilning á því að það henti ekki öllum nemendum að sitja í sætinu sínu allan tímann og reikna eftir hefðbundnum aðferðum. Þó að færst hafi í vöxt á undanförnum árum að krakkar (og fullorðnir) séu greindir með ADHD getur það tekið tímann sinn að breyta viðhorfum og enn er iðulega gert ráð fyrir því að öllum veitist jafn auðvelt að fylgja reglum, skrifuðum jafnt sem óskrifuðum, passa upp á síma og annað dót og mæta á fótboltaæfingar á réttum tíma. Þegar kerfi samfélagsins eru stíf og sein til breytinga eru sem betur fer oft einstaklingar innan þessara kerfa sem geta sýnt sveigjanleika og komið til móts við þau börn sem þurfa á því að halda. Reynir stærðfræðikennari, sem endar á því að ráðast á Alexander í skólastofunni, er þó dæmi um algeran skort á slíkum sveigjanleika innan skólakerfisins og eins og fram kemur í þakkalistanum aftast í Bannað að eyðileggja eru kaflarnir um hann því miður byggðir á raunverulegum atburðum.

 

Veikleikar og styrkleikar

Sem fyrr segir fjalla allar bækurnar um þrjár um eitthvað sem ekki er í lagi og í raun hverfast þær allar um ofbeldi í einhverri mynd. Í Bannað að eyðileggja er vandamálið Reynir stærðfræðikennari og framkoma hans við Alexander og í Bannað að ljúga er það einelti sem Sóley, vinkona og nýja stjúpsystir Alexanders, verður fyrir í skólanum, sem tengist veru pabba hennar í fangelsi og manninum sem hann tók á sig sök fyrir. Þar er líka vísað til reglu sem Alexander hefur aldrei átt erfitt með að fylgja, en ein af birtingarmyndum ADHD hjá honum er að eiga mjög erfitt með að segja ósatt. Umfjöllunin um ofbeldi nær svo hámarki í Bannað að drepa, þar sem Alexander kynnist úkraínskum strák, Volodomyr eða Vola, sem þekkir stríð og dráp frá fyrstu hendi.

Þó að ADHD-ið flækist stundum fyrir Alexander, þá geta einkenni þess líka birst sem styrkleikar í ákveðnu samhengi. Margir tengja ADHD einkum við athyglisbrest en því fylgir einnig viss hæfileiki til ofureinbeitingar og Alexander er til dæmis frábær í stærðfræði – ef hann fær að reikna á þann hátt sem hentar honum best. Hann er líka frábær í fótbolta – ef hann fær aðstoð við að koma sér upp kerfi sem virkar til að minna hann á að mæta á fótboltaæfingar og -leiki. Starfsemi ADHD-heilans verður nánast áþreifanleg í textanum fyrir tilstilli stöðugs streymis af hugsunum sem fer gegnum huga Alexanders, hugsunum sem fara um víðan völl og finna sér oft frumlegar leiðir, en geta líka einkennst af erfiðleikum við að skilja hvað aðrir eiga við og því að vera seinn að fatta hvað er á seyði hverju sinni.

Alexander er ekki eina persóna bókaflokksins með ADHD; Máney stjúpsystir hans, systir Sóleyjar, á það sameiginlegt með honum. Einkenni þeirra eru þó ekki eins að öllu leyti enda getur slíkt verið afar persónubundið. Þriðja ADHD-týpan í bókunum er svo hin taílenska amma Sóleyjar og Máneyjar, sem hefur þó aldrei fengið greiningu og vill helst ekki heyra á þetta minnst. Það kemur líka á daginn að amman er samkynhneigð og krakkarnir ákveða að hjálpa henni að umfaðma þann hluta af sjálfri sér. Þó að börn og þeirra reynsluheimur sé í forgrunni í bókunum er þannig einnig fjallað um fulltrúa eldri kynslóða sem þurfa að fóta sig í heimi sem hefur tekið talsverðum breytingum frá því á ungdómsárum þeirra, og þar geta þau fundið óvæntan stuðning í krökkunum.

 

Fjölbreytileikinn og vináttan

ADHD og hinseginleiki eru ekki einu atriðin sem greina sumar af persónum bókarinnar frá fjöldanum og jaðarsetja þær á einhvern hátt, en ýmsar persónanna eru af erlendum uppruna. Sóley, vinkona og síðar stjúpsystir Alexanders, er hálftaílensk og hún og taílenska móðurfjölskyldan setja mikinn svip á frásögnina. Sjálfur er Alexander pólskur í föðurættina, Osman bekkjar- og liðsfélagi hans í fótboltanum er frá Síerra Leóne og í Bannað að drepa kynnist Alexander hinum fyrrnefnda Vola, sem flúði stríðið í Úkraínu ásamt mömmu sinni. Sú aðferð höfundar að leyfa „hinum“ tungumálum þessara krakka að sjást og njóta sín í íslenska textanum, með því að hafa erlendar setningar með íslenskum þýðingum strax á eftir, kemur skemmtilega út og gefur lesandanum ögn betri tilfinningu fyrir þessum málum og menningarheimum.

Fjöltyngið í textanum kveikti líka hugrenningatengsl við fyrrnefndar bækur um Gogga og Grjóna. Þó að ég gæti ekki rakið söguþráð þeirra í smáatriðum í dag er það mér mjög minnisstætt að mamma Gogga var frá Færeyjum og talaði dálítið bjagaða íslensku. Á þessum tíma átti ég fleiri en einn bekkjarfélaga sem átti erlent foreldri og því voru slíkar aðstæður ekki beinlínis framandi, en hins vegar var þetta líklega í fyrsta sinn sem ég las íslenskar barnabækur sem lýstu slíkum veruleika á einhvern hátt. Í dag, þrjátíu árum síðar, er íslenskt samfélag orðið mun fjölbreyttara og ADHD-bækurnar endurspegla það svo sannarlega. Æ fleiri börn hér á landi tala fleiri en eitt tungumál í daglegu lífi og nota tvö eða jafnvel fleiri mál inni á eigin heimili. Til þess að fanga veruleika íslenskra barna í dag þarf einmitt barna- og unglingabækur sem segja frá börnum með fjölbreytilegan uppruna, og ekki bara í aukahlutverkum, heldur í miðju frásagnarinnar eins og hér er gert. Það að börn hafi aðgang að bókum sem spegla reynsluheim þeirra getur svo skilað sér í auknum lestraráhuga.

Í Bannað að eyðileggja kom það mér dálítið skemmtilega á óvart að Sóley skyldi ekki hafa orðið kærasta eða ástarviðfang Alexanders, eins og virtist stefna í í fyrstu, heldur vinkona hans. Bækurnar lýsa því af næmni hversu erfitt getur reynst að viðhalda tengslum við gamla vini þegar tilveran er þrungin sorg og missi, og hversu gott getur verið að finna vináttu á ný. Vinátta er enda oft endingarbetri en skot og bækur fyrir þennan aldurshóp, á mörkum bernsku- og unglingsára, þurfa ekki alltaf að fjalla um rómantík og ástamál enda svo margar aðrar leiðir í boði til að fjalla um samskipti og tengsl á frjóan og áhugaverðan hátt. Börn sem eru skynsegin, t.d. með ADHD eða einhverfu, eiga oft erfiðara með það en jafnaldrarnir að mynda vinatengsl og viðhalda þeim og í því sambandi getur þekking á slíku ástandi hjá nærsamfélaginu, bæði börnum og fullorðnum, skipt sköpum til þess að auka skilning á því að sumir virki einfaldlega dálítið öðruvísi en fjöldinn. Það sama mætti í raun segja um börn sem flúið hafa stríð – Vola virðist í fyrstu fúll, leiðinlegur og árásargjarn, en eftir því sem krakkarnir kynnast honum og sögu hans öðlast þau smám saman skilning á þessari hegðun. Þannig er það að mæta skilningi og samkennd í nærumhverfinu mikilvæg forsenda þess að geta virkað í daglegu lífi, bæði hjá Alexander og Vola, þó að aðstæður þeirra séu ólíkar.

Samband Alexanders við Snæfríði mömmu Sóleyjar, sem verður stjúpmamma hans, lýsir líklega reynslu margra barna í samsettum fjölskyldum – togstreita og flóknar tilfinningar í fyrstu, en á endanum tekur við sátt og ást sem þó er blandin samviskubiti gagnvart foreldrinu sem viðkomandi „kemur í staðinn“ fyrir. Eina persónu fannst mér að höfundur hefði að ósekju mátt kafa ögn betur í. Það er Kamilla, stelpan sem leggur Sóleyju í einelti og sem er jafnframt dóttir mannsins sem kom pabba Sóleyjar í fangelsi, en þó að lesandinn kynnist henni ekki náið, og fái þannig ekki tækifæri til að finna til samkenndar með aðstæðum hennar, þá kemur það engu að síður skýrt fram að líklega er Kamilla ekki svona erfið í samskiptum að ástæðulausu. Krakkarnir komast að því að líf hennar er ekki eins slétt og fellt og virðist í fyrstu og að ýmislegt kunni að valda henni vanlíðan sem hún taki svo út á öðrum.

Af reglunum sem koma fyrir í bókartitlunum þremur er Bannað að drepa langsamlega afdráttarlausust – eins og Alexander kemst að geta stundum komið upp kringumstæður þar sem það getur verið réttlætanlegt eða að minnsta kosti skiljanlegt að fólk eyðileggi eitthvað eða ljúgi dálítið, en það er aldrei í lagi að drepa. Meðvitundin um stríð og hörmungar úti í heimi og erfitt hlutskipti flóttafólks gerir það jafnframt að verkum að þriðja bókin er drungalegust, þó að í öllum þremur sé vissulega fengist við erfiðar spurningar og aðstæður. Þrátt fyrir alvarleg umfjöllunarefni er textinn líka fullur af fjöri og fyndni og þar er skemmtun og spennu fléttað saman svo að úr verða bækur sem erfitt er að leggja frá sér. Það skiptir máli að börn geti lesið bækur með aðalpersónum og aðstæðum sem þau geta speglað sig í, bækur sem auk þess eru skemmtilegar og spennandi, og viðfangsefni og efnistök ADHD-bókanna gera það að verkum að þær eiga ríkt erindi við börn í dag – og fullorðna ekki síður.

 

 

Erla Elíasdóttir Völudóttir